Steiktur fiskur í pulsubrauði

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Er ekki fiskur málið á mánudögum? Hann er það oftast hér á bæ. Steiktur fiskur í pulsubrauði kann að hljóma furðulega en kemur skemmtilega á óvart og krakkarnir eeeelska þetta.

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Það þarf enga uppskrift fyrir þennan rétt.  Þorskur (eða sá fiskur sem þér líst best á) er skorinn í passlega stóra bita til að rúmast í pulsubrauðunum, kryddaður með salti og pipar, velt upp úr hrærðu eggi, síðan raspi og að lokum steiktur á pönnu í vel af bragðdaufri olíu. Pulsubrauðin eru hituð í ofni (ég hita þau alltaf í pokanum við 90° í nokkrar mínútur, þá verða þau svo mjúk og góð). Setjið tómatsósu, remúlaði, súrar gúrkur, kál, hrásalat eða það sem hugurinn girnist í pulsubrauðið og síðan steikta fiskinn. Berið fram með ofnbökuðum kartöflubátum eða frönskum. Súpergott!

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ítalskur lax með fetaostasósu

Ítalskur lax með fetaostasósuÍtalskur lax með fetaostasósu

Eins og eflaust á mörgum heimilum landsins þá eru mánudagar oftar en ekki fiskidagar hér heima. Eftir matarveislu helgarinnar er svo gott að fá fiskinn. Við gerðum vel við okkur þessa helgina, borðuðum gott og keyrðum bæinn þveran eftir ís bæði á laugardag og sunnudag. Það var því sérlega gott að fá mánudagsfiskinn í dag.

Þessi laxréttur er dásamlegur í alla staði og fellur vel í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Ég blanda oftast laxi og þorski þar sem krökkunum þykir gott að hafa valið en hér má leika sér með þær fisktegundir sem lokka að hverju sinni. Sósan setur síðan punktinn yfir i-ið á þessum stórgóða rétti.

Ítalskur lax með fetaostasósu

Ítalskur lax með fetaostasósu

 • 600 g lax (eða blanda af laxi og þorski)
 • sólþurrkaðir tómatar í olíu, magn eftir smekk
 • 1 hvítlauksrif
 • gróft salt
 • 10 kartöflur
 • klettasalat

Hitið ofninn í 225°.  Afhýðið kartöflurnar, skerið þær í bita og dreifið úr þeim á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið hálfan dl af olíunni frá sólþurrkuðu tómötunum í skál og pressið hvítlauksrifið í olíuna. Hellið olíunni yfir kartöflurnar og setjið í ofninn í um 20 mínútur.

Skerið laxinn (og þorskinn sé hann notaður) í bita sem eru um 2×2 cm að stærð. Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 20 mínútur er laxinum bætt á ofnplötuna, nokkrar matskeiðar af olíunni frá sólþurrkuðu tómötunum sáldrað yfir ásamt grófu salti og sett aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar. Þegar laxinn og kartöflurnar koma úr ofninum er hökkuðum sólþurrkuðum tómötum stráð yfir ásamt klettasalati. Setjið réttinn á fallegt fat og berið fram með fetaostasósu.

Fetaostasósa

 • 1 dl sýrður rjómi
 • 100 g fetakubbur
 • 1/2 hvítlauksrif, pressað
 • salt
 • ítalskt salatkrydd

Myljið fetaostinn og hrærið saman við sýrða rjómann. Pressið hvítlaukinn saman við og smakkið til með salti og ítölsku salatkryddi. Geymið í ísskáp þar til sósan er borin fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Fiskur í okkar sósu

Fiskur í okkar sósu

Fyrir mörgum árum reif ég blaðsíðu úr Morgunblaðinu, setti í plastvasa og hef passað eins og gull síðan. Ástæðan er einfaldlega sú að blaðsíðan hefur að geyma eina af mínum uppáhalds fiskiuppskriftum. Uppskriftina gaf kona sem hafði átt fiskbúð á Lækjargötu í Hafnarfirði en selt hana. Hún var svo indæl að gefa lesendum blaðsins nokkrar uppskriftir og sú sem er í mestu uppáhaldi hjá mér segir hún að hafi selst eins og heitar lummur í fiskbúðinni. Ég er ekki hissa því rétturin er æðislegur. Sósuna má búa til fyrirfram og hafa tiltæka í ísskápnum en ég sé enga ástæðu til þess því það tekur enga stund að útbúa hana.

Rétturinn hét Fiskur í okkar sósu í blaðinu og hét það eflaust í fiskbúðinni líka. Ég vona að nafnið valdi ekki misskilningi því þó ég vildi glöð hafa fundið sósuna upp sjálf þá gerði ég það ekki. Ég hef ekkert átt við uppskriftina enda þykir mér hún stórgóð eins og hún er.

Fiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósu

Fiskur í okkar sósu (uppskrift fyrir 4-5)

 • 1/2 líter súrmjólk
 • 1 bolli majónes
 • 1 tsk karrý
 • 1/2 tsk túrmerik
 • 1 tsk aromat
 • 1 tsk season all
 • 1 niðurskorið epli
 • 1/4 dós brytjaður ananas
 • 800 g beinlaus ýsa eða þorskur
 • rifinn ostur

Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn í stóra bita og setjið í eldfast mót. Setjið epli og ananas yfir fiskinn. Hrærið súrmjólk, majónesi, karrý, túrmerik, aromat og season all saman og hellið yfir fiskinn, eplið og ananasinn. Stráið rifnum osti yfir og setjið í ofninn í 20 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum og salati.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Fiskbakan frábæra

Fiskbakan frábæra

Sumarið 2001 voru matreiðsluþættir með Jamie Oliver sýndir í sænska sjónvarpinu. Ég missti helst ekki af þætti og þegar mér leist vel á uppskriftirnar reyndi ég að skrifa þær niður. Það var oft hægara sagt en gert og á endanum gafst ég upp og keypti mér matreiðslubókina. Síðan þá hef ég eignast margar bækur eftir hann og hef enn ekki verið svikin af uppskriftunum.

Fiskbakan frábæra

Það var þetta sumar sem ég eldaði í fyrsta sinn fiskbökuna hans Jamie Oliver. Okkur þótti hún stórgóð og um daginn fékk ég æðislega löngun í að elda hana aftur. Ég dró því gömlu bókina fram og mánudagsfiskinum var reddað.

Fiskbakan frábæra

Jamie Oliver segir að rétturinn eigi að vera heimilislegur og tilgerðarlaus og ber hann fram með bökuðum baunum og tómatsósu, sem sé ósmekklegt en gott eins og hann vill hafa það. Samsetningin kann að hljóma furðulega en hún kemur á óvart og allt fer þetta mjög vel saman.

Fiskbakan frábæra (uppskrift frá Jamie Oliver)

 • 6 stórar kartöflur, afhýddar og skornar í bita
 • ólífuolía (eða smjör)
 • salt og nýmalaður svartur pipar
 • múskat (má sleppa)
 • 2 egg
 • 2 stórir hnefar af spínati
 • 1 laukur, saxaður smátt
 • 1 gulrót, skorin í tvennt og söxuð smátt
 • 2,5 dl rjómi
 • 2 vænir hnefar af rifnum cheddar- eða parmesanosti
 • safi úr 1 sítrónu
 • 1 kúfuð teskeið enskt sinnep
 • stór hnefi af steinselju, söxuð smátt (má sleppa)
 • 450 g ýsu- eða þorskflök, roðflett, beinhreinsuð og skorið í ræmur

Hitið ofninn í 230°.

Setjið kartöflurnar í sjóðandi saltað vatn og látið þær sjóða í 2 mínútur. Setjið eggin varlega út í og sjóðið þau í 8 mínútur. Eggin eiga þá að vera orðin harðsoðin og kartöflurnar líka soðnar. Gufusjóðið spínatið um leið í sigti ofan á pottinum (það tekur bara um 1 mínútu). Takið spínatið úr sigtinu, kreistið varlega úr því umframvætu og leggið til hliðar.

Takið eggin úr pottinum, kælið undir köldu vatni, takið utan af þeim og skerið í fernt. Leggið til hliðar.

Stappið kartöflurnar og setjið ólívuolíu eða brætt smjör saman við þær (ég nota alltaf smjör). Kryddið með salti, pipar og jafnvel smá múskati. Leggið til hliðar.

Steikið lauk og gulrót í ólífuolíu við vægan hita í um 5 mínútur. Hellið þá rjóma yfir og hitið að suðu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið osti, sítrónusafa, sinnepi og steinselju saman við.

Setjið fiskinn, spínatið og eggin í eldfast mót. Hellið rjómasósunni með grænmetinu yfir og endið á að setja kartöflumúsina ofan á. Setjið í ofn í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar á lit. Berið fram með bökuðum baunum og tómatsósu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Mamma hefur alltaf verið mikill eldhúsdundari og hefur safnað uppskriftum svo lengi sem ég man eftir mér. Uppskriftabækurnar hennar eru æðislegar, með handskrifuðum uppskriftum í bland við blaðaúrklippur sem hafa verið límdar inn. Persónulegar og fallegar, alveg eins og mamma er.

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Um daginn þegar ég var hjá henni lá ein af uppskriftarbókunum á eldhúsborðinu. Þegar ég fór að blaða í hana sá ég að bókin var stútfull af skemmtilegum uppskriftum. Ég nældi mér í nokkrar hversdagsuppskriftir úr henni og við höfum notið góðs af þeim upp á síðkastið. Ég var búin að gefa eina fiskuppskrift úr bókinni (þú finnur hana hér) og hér kemur önnur sem er skemmtileg útfærsla á steiktum fiski. Einfaldari gerist hann varla og allir voru á einu máli um að maturinn væri stórgóður.

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Steiktur fiskur í kókoskarrý

 • ýsu- eða þorskflök (ca 600-800 g)
 • 2 dl hveiti
 • 1 dl mjólk
 • 1 tsk karrý
 • ½ tsk timjan
 • 1 egg
 • 2 msk kókosmjöl
 • salt
 • pipar

Öllum hráefnum, fyrir utan fiskinn, er hrært saman í skál. Fiskurinn er skorinn í bita og látinn liggja í blöndunni í 1-1½ klst. Steikið fiskinn á pönnu og berið hann fram með hrísgrjónum og karrýsósu.

Vikan sem leið og stórgóður fiskréttur

Ég má til með að þakka fyrir allar kveðjurnar sem þið hafið sent mér í tilefni af ársafmæli bloggsins. Þær hafa yljað mér inn að hjartarótum og fegrað lífið síðustu daga.

Eitt af því sem er skemmtilegt við það að blogga er að við tökum fullt af myndum. Þegar ég skoða í gegnum myndasafnið slær það mig hins vegar að meiri hluti þeirra er af mat. Það er eins og lífið snúist um mat hjá okkur. Við gerum þó ýmislegt fleira en að elda, mynda og borða mat. Í síðustu viku tókum við til dæmis upp á því, ásamt fjölmörgum öðrum Kópavogsbúum, að skella okkur á 17. júní hátíðarhöldin á Rútstúni.

17. júní

Það var napurt en félagsskapurinn var góður og við skemmtum okkur konunglega. Þegar við komum heim eldaði ég kjúklingasúpu sem við borðuðum undir sæng í sjónvarpssófanum. Notalegra gerist það varla.

17. júní

Á fimmtudaginn gengum við Öggi á Móskarðshnjúka ásamt gömlum og nýjum göngufélögum. Ég var staðráðin í að ganga á Móskarðshnjúka í sumar og þegar vinnufélagi minn stakk upp á göngunni vorum við Öggi því fljót að slá til.

Móskarðshnjúkar

Það var hvasst en fallegt veður, bratt á köflum og þreytan var farin að segja til sín þegar við nálguðumst toppinn.

Móskarðshnjúkar

Fallegust og duglegust í hópnum var Katla.

Móskarðshnjúkar

Útsýnið var stórbrotið og þreytan hvarf sem dögg fyrir sólu þegar upp á topp var komið. Þegar við komum heim fór ég í heita sturtu, náttslopp og fékk mér pulsu og súkkulaðirúsínur.  Öggi segir oft að ég kunni að gera vel við mig og þar hefur hann rétt fyrir sér. Það hefði fátt getað toppað þessa máltíð og náttsloppurinn gerði stundina örlítið notalegri.

Móskarðshnjúkar

Um helgina nutum við veðurblíðunnar og fórum á flakk um bæinn. Strákarnir skemmtu sér konunglega, eins og þeim er von og vísa.

Strákarnir

Við fórum líka á hjólabrettasvæðið en þeir eru að æfa sig á hjólabretti, mér til mikillar mæðu og taugaveiklunar.

Strákarnir

Eftir daginn þótti okkur gott að koma heim. Ég bjó til hamborgara sem að Öggi grillaði og úr varð dýrindis máltíð. Uppskriftin er væntanleg!

Grillaðir hamborgarar

Eftir þetta höfum við nánast bara myndað mat. Ég er því að hugsa um að bregða á það ráð að birta hér á blogginu svipmyndir frá hversdagslífinu oftar, jafnvel í lok hverrar viku, og vonast til að það verði til þess að við myndum það oftar. Að lokum gef ég uppskrift af stórgóðum fiski sem var á boðstólnum í vikunni. Uppskriftin kemur frá mömmu og er góð eftir því.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum (uppskrift frá mömmu)

 • 6-800 g ýsa eða þorskur
 • 1 góður blaðlaukur
 • 250 g sveppir (1 box)
 • 1 bolli rifinn ostur
 • 2,5 dl rjómi  eða matreiðslurjómi
 • 2 msk sveppasmurostur (má sleppa en ég bætti við og notaði 4-5 msk)
 • ½ – 1 sítróna
 • 1-1½ tsk aromat

Kreistið sítrónu yfir fiskflökin og kryddið með aromatkryddinu. Látið standa um stund.

Skerið fiskinn í bita og raðið í eldfast mót. Sneiðið blaðlaukinn og mýkið í olíu á pönnu, takið af og steikið sveppina í smá stund. Hellið þá rjómanum yfir, setjið rifna ostinn út í ásamt sveppasmurostinum og látið sjóða þar til hann er bráðinn. Bætið loks blaðlauknum á pönnuna og kryddið með aromatkryddi eftir smekk. Hellið þessu síðan yfir fiskinn og bakið við 190° í 15-20 mínútur.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Þreytan ætlar að sitja í okkur þessa vikuna og eftir að ég kem heim á daginn vil ég helst bara slappa af hér heima og dunda mér í eldhúsinu.

Eins og svo oft eftir utanlandferðir þá stóð fiskur ofarlega á óskalistanum um kvöldmat hjá okkur. Þó að ég hefði helst viljað kaupa plokkfisk þá eru krakkarnir búin að fá nóg af honum í bili (sem mér þykir með öllu óskiljanlegt) og því keypti ég ýsuflök. Ég átti sveppi og púrrlauk í ískápnum og á sveimi mínum um búðina datt mér í hug að kaupa paprikusmurost og nota í sósu. Allt fór þetta ákaflega vel saman og úr varð frábær fiskréttur sem kláraðist upp til agna.

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

 • ýsa eða þorskur, magn eftir fjölda matargesta (ég var með rúm 800 g)
 • 1 box paprikusmurostur (250 g)
 • 1 box sveppir (250 g)
 • 1 púrrulaukur
 • 2,5 dl rjómi + 0.5 dl mjólk (eða 3 dl matreiðslurjómi)
 • 1 grænmetisteningur
 • smá cayenne pipar (farið varlega því hann er sterkur! Ég nota um 1/8 úr teskeið)
 • krydd lífsins frá Pottagöldrum (eða önnur krydd eftir smekk)
 • rifinn ostur

Hitið ofninn í 175°.

Sneiðið sveppi og púrrlauk. Hitið olíu á pönnu og steikið sveppina og púrrlaukinn. Kryddið með kryddi lífsins (eða öðrum kryddum) og hellið rjóma yfir. Hrærið smurostinum saman við í skömmtum og bætið svo grænmetisteningi út í. Leyfið sósunni að sjóða við vægan hita á meðan fiskurinn er undirbúinn.

Skolið og þerrið fiskinn og leggið í eldfast mót. Kryddið með pipar og salti og hellið síðan sósunni yfir. Setjið rifinn ost yfir og eldið í 20 mínútur, eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Fiskur með beikoni og eggjasósu

Fiskur með beikoni og eggjasósu

Ég er alltaf á höttunum eftir einföldum og góðum fiskréttum og í gær hitti ég í mark þegar ég bauð upp á fisk með eggjasósu og beikoni. Þessi réttur var svo mikið betri en ég þorði að vona og féll vel í kramið hjá fjölskyldunni. Þau satt að segja kolféllu fyrir honum og það var í alvöru barist um síðustu bitana. Svo góður var hann.

Fiskur með beikoni og eggjasósu

Ef þú ætlar að elda réttinn þá skaltu alls ekki sleppa beikoninu. Passaðu frekar að hafa nóg beikon því það fer æðislega vel með fiskinum og sósunni. Beikonið kláraðist á undan fiskinum hjá okkur svo næst mun ég hafa meira af því. Svo æðislega gott.

Fiskur:

 • þorsk- eða ýsubitar
 • fiskikraftur (teningur)
 • salt
 • pipar

Eggjasósa:

 • 2 harðsoðin egg
 • 3 msk smjör
 • 1½ msk hveiti
 • 3 dl mjólk
 • 1 dl rjómi
 • salt
 • pipar
 • steinselja eða dill (má sleppa)
 • beikon

Skolið og þurrkið fiskbitana og leggið þá á fat. Saltið og piprið vel og leyfið að standa um stund.

Harðsjóðið eggin og hakkið þau fínt (mér þykir gott að skera þau bæði langsum og þversum í eggjaskera). Bræðið smjör í potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið mjólk saman við í smáum skömmtum og þar á eftir rjóma. Látið sósuna sjóða við vægan hita um stund og smakkið til með salti og pipar. Setjið hökkuðu eggin út í sósuna.

Setjið vatn og fisktening í pott og hitið þar til fer að sjóða. Setjið fiskbitana út í sjóðandi vatnið og setjið lokið strax á pottinn. Takið pottinn af hitanum og látið fiskinn liggja í heitu vatninu í ca 10 mínútur.

Steikið beikon og berið það fram með fiskinum, sósunni og kartöflum.

Plokkfiskur

Plokkfiskur

Við byrjum vikuna á hversdagsmat sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, plokkfiski. Ég elska plokkfisk og eldaði hann svo oft á tímabili að krakkarnir fengu nóg og settu hnefann í borðið. Núna hafa þau tekið hann aftur í sátt og enginn er ánægðari en ég.

Plokkfiskur

Ég verð að viðurkenna að ég kaupi plokkfiskinn allt of oft tilbúinn. Oftast kaupi ég hann frá Grími (sem fæst í matvöruverslunum) en annars í fiskbúðum. Ég set vel af osti yfir áður en hann fer í ofninn og ber hann svo fram með rúgbrauði frá HP og smjöri.

Í þetta sinn gerði ég þó plokkfiskinn eftir uppskrift sem hefur lengi verið í fórum mínum og mig minnir að ég hafi tekið upp úr Gestgjafanum á sínum tíma. Ögga þótti hann svo mikið betri en plokkfiskurinn sem ég er vön að kaupa og mér fannst hann góð tilbreyting. Ég er ekki viss um að börnin hafi fundið mikinn mun en öll borðuðu þau af bestu lyst.

Plokkfiskur

Plokkfiskur

 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 2-3 msk smjör
 • ½-1 tsk karrí
 • 4-5 msk hveiti
 • 3½ – 4 dl mjólk
 • ½ tsk svartur pipar
 • ½ tsk salt
 • ½ tsk fiskikraftur
 • 600 g soðin ýsa eða þorskur
 • 300 g soðnar kartöflur í bitum
 • 1-2 tsk dijon sinnep
 • 120 g rifinn ostur

Plokkfiskur

Hitið ofninn í 200°. Saxið lauk og hvítlauk og steikið upp úr smjöri við miðlungsháan hita þar til laukurinn verður glær. Setjið karrý saman við og steikið í ½ mínútu til viðbótar. Stráið hveiti yfir og hrærið vel saman. Bætið mjólkinni saman við í smáum skömmtum og hrærið stöðugt á meðan. Setjið fiskikraft út í ásamt pipar og salti. Látið sjóða við vægan hita um stund og hrærið í á meðan.  Skerið fiskinn og kartöflurnar í bita og bætið þeim út í með sleif.

Setjið blönduna í eldfast mót. Hrærið sinnepi saman við rifinn ost og stráið yfir plokkfiskinn. Bakið í 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram með rúgbrauði.

Einfalt fiskgratín með sveppum

Fiskgratín með sveppum

Þó að mig langi allra mest að setja inn uppskriftina að sörunum sem ég baka alltaf fyrir aðventuna eða góðu kókostoppunum sem ég bakaði um helgina þá sé ég hag minn vænstan í því að gefa frekar uppskrift að þessum fiskirétti. Ástæðan er sú að ég er farin að hræðast að lesendur haldi að við borðum fátt annað en smákökur og sætindi þessa dagana og kippist orðið við í hvert skipti sem síminn hringir af hræðslu við að Lýðheilsustöð sé að hringja til að lesa yfir mér.

Svo ég eldaði fisk. Einfalt og mjög gott fiskgratín sem öllum líkaði vel. Mér brá þó heldur í brún þegar ég sá myndirnar sem ég tók því þær voru svo hræðilega ljótar. Sveppirnir líta út eins og nautahakksklessur og nánast ómöglegt að átta sig á að þarna sé fiskgratín á ferð. Þið takið vonandi viljann fyrir verkið og trúið mér þegar ég segi að rétturinn var svo mikið betri en myndirnar gefa til kynna.  Okkur þótti hann stórgóður og ég ætla að elda hann fljótlega aftur.

Fiskgratín með sveppum

Einfalt fiskgratín með sveppum

 • 700 g þorskur eða ýsa
 • 1 tsk + ½ tsk salt
 • 250 g sveppir
 • 2 msk bragðdauf olía
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 dl rjómi
 • ½ – 1 msk maizena
 • ½ – 1 grænmetisteningur
 • 1 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Saltið fiskinn með 1 tsk af salti og leggið hann i eldfast mót. Skerið sveppina í sneiðar og steikið í olíu í um 5 mínútur. Skalið og fínhakkið hvítlaukinn og steikið hann með sveppunum síðustu 2 mínúturnar. Kryddið með ½ tsk af salti og hellið rjóma saman við. Látið sjóða í 2 mínútur og bætið þá maizenasterkju í sósuna. Setjið grænmetiskraft út í og látið sjóða um stund. Hellið sveppasósunni yfir fiskinn, stráið rifnum osti yfir og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.