Brasilískur fiskréttur

Brasilískur fiskréttur

Ég er svolítið hrædd um að færslan mín í gær hafi misskilist. Ég hef nefnilega fengið skilaboð frá hugulsömum lesendum sem hafa boðist til að taka þátt í að greiða af blogginu og jafnvel hvatt mig til að gera bloggið að áskriftarsíðu. Á sama tíma og það hlýjar mér inn að hjartarótum hvað þið hugsið fallega og að ykkur er annt um bloggið þá fæ ég samviskubit ef færslan hefur skilist á þann hátt að ég væri í vandræðum með að greiða kostnaðinn sem fylgir því að halda blogginu úti. Ég vil því útskýra málið betur. Ég er ekki í neinum vandræðum með að fjármagna bloggið, heldur snérist vandamálið um það að WordPress (sem hýsir bloggið mitt) virtist synja kortinu mínu þrátt fyrir að kortafyrirtækið sagði að greiðslan hafi verið tekin út af því. Ég var því hrædd um að bloggið myndi hverfa þar sem WordPress vildi ekki kannast við að hafa móttekið greiðsluna. Þetta virtust þó óþarfa áhyggjur því bloggið er hér enn! Ég sendi fyrirspurn á WordPress varðandi þetta bíó og þeir eru að reyna að finna út úr þessu. Bloggið er því ekki að fara neitt enda veit ég fátt skemmtilegra en að halda því úti.

Brasilískur fiskréttur

Eins og flesta mánudaga var hér fiskur á borðum í kvöld. Ég þarf að fara að breyta því fyrirkomulagi því strákarnir fá fisk í skólanum á mánudögum og myndu því eflaust þiggja eitthvað annað hér heima. Þessi réttur var þó vinsæll og ég gat ekki betur séð en að allir voru mjög ánægðir með hann.

Brasilískur fiskréttur

Brasilískur fiskréttur – uppskrift frá Recipetineats.com

Fiskurinn

 • 500 g þorskur
 • 1 msk sítrónusafi
 • ¼ tsk salt
 • svartur pipar
 • 1 msk ólífuolía

Sósan

 • 1½ msk ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð eða pressuð
 • 1 lítill laukur, fínhakkaður
 • 1 stór rauðpaprika, sneidd
 • 1½ tsk sykur
 • 1 msk kúmin (ath. ekki það sama og kúmen)
 • 1 msk paprikukrydd
 • ½ – 1 tsk cayenne pipar
 • ½ tsk salt
 • 1 dós (400 ml) kókosmjólk
 • 1 dós (400 ml) hakkaðar tómatar
 • 1 teningur fiskikraftur
Yfir réttinn
 • 1 msk lime safi
 • 3 msk grófhakkað ferskt kóriander

Fiskurinn:

Skerið fiskinn í 2,5 cm bita og blandið saman við lime safa, salt og pipar. Setjið plast yfir skálina og látið standa í ísskáp í um 20 mínútur.

Hitið 1 msk af ólífuolíu í stórum potti eða djúpri pönnu yfir háum hita. Setjið fiskinn í pottinn og steikið þar til fiskurinn er næstum fulleldaður og farinn að brúnast aðeins. Takið fiskinn úr pottinum og leggið hann til hliðar.

Sósan:

Lækkið hitan undir pottinum í miðlungsháann og bætið 1½ af ólífuolíu í hann. Setjið hvítlauk og lauk í pottinn og steikið í um 1½ mínútu eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið paprikunni í pottinn og steikið í 2 mínútur til viðbótar. Setjið það sem eftir er af hráefnunum í sósuna í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið sjóða í 15-20 mínútur eða þar til sósan er farin að þykkna. Smakkið til með salti og pipar. Bætið fiskinum í pottinn og látið sjóða í um 2 mínútur, svo fiskurinn nái að hitna aftur. Hrærið lime safa saman við og skreytið með fersku kóriander áður en rétturinn er borinn fram. Berið fram með hrísgrjónum

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Smjörsteiktur þorskur

Smjörsteiktur þorskur

Eftir að hafa vakað yfir kappræðunum í nótt og eftir þær farið í tölvuna til að lesa viðbrögðin við þeim, og þar með ekki farið að sofa fyrr en að ganga fjögur í nótt, var ekkert spes að vakna í vinnuna kl. 6.45 í morgun. Það var hins vegar brjálæðislega gott að sofna í sófanum þegar ég kom heim seinni partinn. Það sem maður leggur á sig!

Smjörsteiktur þorskur

Mánudagar eru fiskidagar, það er eldgömul saga. Í gær vakti fiskurinn þó óvenju mikla lukku þrátt fyrir að vera eldaður á eins einfaldan máta og mögulegt er. Það sem gerði hann svo æðislega góðan var að þorskurinn var kryddaður með ljúffengri kryddblöndu áður en hann var bæði steiktur upp úr smjöri og eftir að hafa verið snúið á pönnunni var smjör látið bráðna yfir hann. Útkoman var svo góð að það var barist um síðasta bitann á pönnunni.

Smjörsteiktur þorskur

 • 600-700 g þorskur
 • 6 msk smjör
 • ¼ tsk hvítlauksduft
 • ½ tsk salt
 • ¼ tsk mulinn pipar
 • ¾ tsk paprikukrydd
 • sítróna, skorin í sneiðar
 • fersk steinselja

Hrærið saman hvítlauksdufti, salti, pipar og paprikukryddi. Skerið þorskinn í passlega stóra bita (eftir smekk). Kryddið þorskinn á öllum hliðum með kryddblöndunni.

Hitið 2 msk af smjöri á pönnu yfir miðlungsháum hita (ég var með stillingu 7 af 9). Þegar smjörið hefur bráðnað er þorskinum bætt á pönnuna og steiktur í 2 mínútur. Lækkið hitan örlítið (ég lækkaði hann niður í stillingu 5), snúið þorskinum og setjið það sem eftir var af smjörinu yfir hann. Steikið þorskinn í 3-4 mínútur. Þá hefur smjörið á fiskinum bráðnað og hann orðinn fulleldaður. Passið að steikja þorskinn ekki of lengi! Kreystið sítrónusafa yfir þorskinn og berið hann strax fram.

Smjörsteiktur þorskur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

 

Portúgalskur saltfiskréttur og ávextir með hrákremi

Portúgalskur saltfiskréttur

Um daginn bauð mamma okkur í mat. Mamma gerir svo góðan mat að það er alltaf tilhlökkunarefni að fara í mat til hennar. Hún eldar rétti sem mér myndi aldrei detta í hug að elda, eins og þennan saltfiskrétt, og opnar augu mín fyrir nýjungum. Ég minnist þess ekki að hafa eldað saltfisk en mun gera það eftir að hafa fengið þennan rétt. Hann var svo góður! Krakkarnir fengu sér öll ábót og ég borðaði svo yfir mig að ég lá í sófanum hjá mömmu í þrjá tíma að jafna mig.

Portúgalskur saltfiskréttur

Ég var ekki með myndavélina með mér heldur smellti af myndum á símann og gæðin eru eftir því. Ég vona að það fyrirgefist, mig langaði bara svo til að deila uppskriftinni með ykkur. Eftir matinn bauð mamma upp á eftirrétt sem er í miklu uppáhaldi hjá strákunum, ávexti með hrákremi. Svo gott!

Portúgalskur saltfiskréttur og ávextir með hrákremi

Portúgalskur saltfiskréttur

 • 600 g saltfiskur, soðinn og skorinn í bita (passið að hafa fiskinn ekki of saltan)
 • 600 g kartöflur, soðnar og skornar í bita
 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 rauð paprika
 • 100 g smjör
 • 3 msk olía
 • 1 stk Gull ostur, skorinn í bita
 • 1 poki gratín ostur
 • 1 askja kokteil tómatar

Byrjið á að sjóða fiskinn í einum potti og kartöflurnar í öðrum. Skerið fiskinn og kartöflurnar í bita og leggið til hliðar.

Hakkið lauk, papriku og hvítlauk. Bræðið smjör og olíu á pönnu og mýkjið laukinn, paprikuna og hvítlaukinn. Bætið fiskinum, kartöflunum og Gull ostinum saman við. Setjið blönduna í eldfast mót, stráið gratín ostinum yfir og að lokum kokteiltómötum sem hafa verið skornir til helminga. Bakið í 15 mínútur við 180°.

Hrákrem

 • 3 eggjarauður
 • 3 msk flórsykur
 • 5 dl rjómi

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman í skál. Þeytið rjómann í annari skál. Blandið eggjablöndunni varlega saman við rjómann. Berið fram með ferskum ávöxtum.

Allt hráefni í þessar uppskriftir fæst í

HAGKAUP

 

Ofnbakaður lax með fetaosti

Ofnbakaður lax með fetaosti

Í letikastinu um helgina, þegar við Malín vorum bara tvær í kvöldmat bæði laugardags- og sunnudagskvöld, rifjaðist upp fyrir mér að ég átti vænan bita af laxi í frystinum. Malín elskar lax og því þótti mér tilvalið að elda laxauppskrift sem ég hef verið á leiðinni að prófa.

Ofnbakaður lax með fetaosti

Þessi réttur er með þeim einfaldari sem hægt er að elda og hann var alveg dásamlega ljúffengur. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og einföldu tómatsalati sem passaði mjög vel með. Við mæðgurnar vorum alsælar með þetta og það kom ekki annað til greina en að geyma þann litla bita sem varð eftir af laxinum. Kvöldið eftir, þegar vorum ný búin að borða þorsk, rifjaðist upp fyrir Malínu að það hefði verið afgangur af laxinum. Hún rauk upp, hitaði laxbitann og fékk sér hann í eftirrétt! Það hljóta að vera góð meðmæli, ekki satt?

Ofnbakaður lax með fetaosti (uppskrift fyrir 2)

 • 400 g lax
 • 1/2 dós sýrður rjómi (um 90 g)
 • 100 g fetaostur (t.d. fetakubbur)
 • 1/2 fiskiteningur
 • sítrónupipar

Hitið ofn í 220°. Leggið laxinn í eldfast mót. Hrærið saman sýrðum rjóma, fetaosti, fiskiteningi og sítrónupipar og setjið blönduna yfir laxinn. Setjið í ofninn, eftir 15-20 mínútur er slökkt á honum en laxinn tekinn út þegar 30 mínútur eru liðnar.

Tómatsalat

 • tómatar
 • rauðlaukur
 • ólífuolía
 • balsamikedik
 • salt og pipar

Skerið tómatana og rauðlaukinn í sneiðar og setjið í skál. Hrærið saman ólífuolíu og balsamikediki í jöfnum hlutföllum (1-2 msk af hvoru) og kryddið með salti og pipar. Hellið yfir tómatana og rauðlaukinn og berið fram.

Öll hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Lobsterroll og heimagert majónes

Lobsterroll

Síðasta föstudagskvöld var ég með svooo góðan rétt að ég má til með að setja hann inn sem tillögu fyrir helgina – lobsterroll og djúpsteiktar franskar!

Lobsterroll

Helgarmaturinn verður ekki mikið einfaldari.  Humarinn er skorinn í grófa bita og léttsteiktur á pönnu (passa að steikja hann alls ekki of lengi!). Smakkið majónes til með salti, pipar og sítrónusafa eða smá chilisósu, t.d. Sriranka eða Sambal oelek. Hrærið bragðbætta majónesinu síðan saman við humarinn. Hitið pulsubrauð í ofni og fyllið með humarblöndunni. Berið fram með djúpsteiktum frönskum og auka majónesi.

Lobsterroll

Með matnum drukkum við portúgalskt rósavín vinnufélagi minn mælti með, frá Vila Real. Létt, ferskt og smásætt vín á góðu verði (flaskan kostar undir 2.000 krónum í Vínbúðinni). Frábær sumardrykkur!

Majónes (uppskriftin gefur um 4 dl)

 • 2 eggjarauður
 • ½ msk hvítvínsedik
 • smá salt
 • smá hvítur pipar
 • 1½ msk dijonsinnep
 • 4 dl rapsolía

Passið að hafa öll hráefnin við stofuhita þegar majónesið er gert, annars er hætta á að það skilji sig.

Notið handþeytara og skál. Hrærið fyrst eggjarauðum, hvítvínsediki, salti, pipar og sinnepi saman. Setjið oíuna hægt saman við, fyrst í dropatali þar til blandan byrjar að þykkna og svo í mjórri bunu. Hrærið stöðugt í á meðan. Ef þið ætlið að bragðbæta majónesið þá er það gert í lokin.

Lobsterroll

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Mexíkófiskur

Mexíkófiskur

Fyrir nokkrum árum gaf Arla út matreiðslubók sem hét Fredag, eða föstudagur. Ég las góða dóma um bókina og varð ekki róleg fyrr en ég eignaðist hana, sem reyndist þrautinni þyngri þar sem það var ekki hægt að panta hana til Íslands. Þegar bókin loks varð mín las ég hana í þaula og setti hana svo upp í hillu, þar sem hún hefur fengið að dúsa alla daga síðan. Það var því tími til kominn að draga bókina fram og prófa einhverja af öllum þeim girnilegu uppskriftum sem hún hefur upp á að bjóða.

Mexíkófiskur

Fyrir valinu varð einaldur mexíkófiskur, einfaldlega af því að ég átti öll hráefnin í hann. Rétturinn hreif mannskapinn og krakkarnir hrósuðu honum óspart. Þessi verður klárlega eldaður oftar hér heima. Einfalt og stórgott!

Mexíkófiskur

Mexíkófiskur – uppskrift fyrir 4

 • 600 g þorskur eða ýsa
 • 1 tsk salt
 • 1 peli rjómi eða matreiðslurjómi (2,5 dl)
 • 1 krukka tacosósa (230 g eða um 2 dl)
 • 2 dl rifinn ostur
 • um 20 nachos flögur, muldar

Hitið ofninn í 200°. Smyrjið eldfast mót með smjöri, leggið fiskstykkin í og saltið þau. Hrærið saman rjóma, tacosósu og rifnum osti og hellið yfir fiskinn. Setjið í ofninn í 15 mínútur, stráið þá muldum nachosflögum yfir og setjið aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar (samtals 25 mínútur í ofninum).

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Ég er búin að eiga æðislegar tígrisrækjur í frystinum um nokkurt skeið og ákvað á fimmtudaginn að láta verða af því að elda þær. Það var jú frídagur, sumardagurinn fyrsti, og því upplagt að vera með góðan kvöldmat. Ég endaði á að gera rétt sem er í svo bragðgóðri sósu að ég var farin að hræðast að hún yrði kláruð áður en ég næði að bera réttinn á borð. Það var stöðugt verið að smakka á henni!

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Þessi réttur er svo stórkostlega góður að það nær engri átt. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og köldu hvítvíni (fyrir okkur fullorðna fólkið) og það ætlaði enginn að geta hætt að borða. Í eftirrétt var ég með æðislega böku sem ég bar fram heita með ís. Ég hef aldrei séð eftirrétt klárast jafn hratt! Ég mun setja inn uppskriftina af henni fljótlega.

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Tígrisrækjur með tælensku ívafi (uppskrift fyrir 4)

 • um 1 kg tígrisrækjur
 • 2 paprikur (ein gul og ein rauð)
 • 100 g sykurbaunir
 • lítill púrrulaukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 msk rautt karrýpaste
 • 1 – 1½ teningur af kjúklingakrafti
 • skvetta af sojasósu (smakkið til, mér finnst gott að setja góða skvettu)
 • 1-2 tsk mango chutney
 • ½ hakkað ferskt rautt chilli
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml.)
 • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
 • 1 tsk Sambal oelek (chillimauk)
 • 1 msk limesafi

Strimlið paprikurnar og púrrulaukinn. Steikið grænmetið á pönnu og bætið síðan öllum hráefnum, fyrir utan rækjurnar, saman við. Látið sjóða saman þar til sósan þykknar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er rækjunum bætt á pönnuna og látið sjóða með í ca 1-2 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP