Indverskur korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Um helgina leit mamma við hjá okkur með súkkulaðimús og færði mér það sem hún kallaði kærleiksgjöf. Í pakkanum leyndist silkiklútur sem mér þykir svo fallegur að ég fell í stafi. Ég átti einn Plomo o Plata klút fyrir sem ég hef varla tekið af mér en gerði óvart smá gat á hann um daginn þegar ég flækti hann í rennilás. Mamma hafði þó ekki hugmynd um það og því kom gjöfin skemmitlega á óvart. Takk enn og aftur elsku mamma ♥

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Við enduðum þessa fyrstu aðventuhelgi á dásamlegri máltíð, korma kjúklingi með hrísgrjónum og nan-brauði. Mér þykir indverskur matur svo góður og þó að ég geri hann stundum frá grunni þá þakka ég fyrir að hægt sé að kaupa sósurnar tilbúnar þegar tíminn er knappur. Ég kynntist þeim fyrst þegar vinafólk bauð okkur í mat sem okkur þótti sérlega góður. Þegar ég bað um uppskriftina sögðust þau einfaldlega hafa steikt kjúkling og hellt tilbúinni korma sósu yfir. Síðan þá hef ég notað sósuna óspart en hef gaman af að breyta til með ólíku meðlæti. Mér þykir mjög gott að bera réttinn fram með mangó chutney og sýrðum rjóma en um helgina bætti ég lauki, hvítlauki og engifer í sósuna og bar réttinn síðan fram með ristuðum kasjúhnetum til að strá yfir kjúklinginn, hrísgrjónum og nan-brauði sem er gott að dýfa í bragðgóða sósuna. Það var ekki svo mikið sem sósudropi eftir af matnum og diskana hefði verið hægt að setja beint upp í skáp, svo vel var sleikt af þeim.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Að lokum vil ég minna á gjafaleikinn í samvinnu við Heru Björk. Leikurinn er í gangi út morgundaginn og á fimmtudaginn dreg ég vinningshafa.

Indverskur korma kjúklingur

  • 500 g kjúklingalundir
  • 1 lítill laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1 tsk rifið engifer
  • 1 tsk hvítlauksmauk (eða 1-2 hökkuð hvítlauksrif)
  • 1 krukka korma sósa (ég nota sósuna frá Patak´s, það eru 450 g. í krukkunni)
  • Ristaðar kasjúhnetur

Hitið olíu á pönnu við miðlungshita og mýkið laukinn. Bætið hvítlauk, engifer og kjúklingalundum á pönnuna og steikið í um 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er kominn með steikingarhúð en er ekki full eldaður. Bætið sósunni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita undir loki í 10 mínútur. Hrærið af og til í pönnunni á meðan.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Nan-brauð

  • 1,5 dl fingurheitt vatn
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk þurrger
  • 4 dl hveiti
  • 0,5 tsk salt
  • 2 msk brætt smjör
  • 2 msk hreint jógúrt
  • Garam Masala (má sleppa)
  • gróft salt, t.d. Maldon (má sleppa)

Hrærið saman geri, vatni og sykri. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í 10 mínútur.

Bætið hveiti, salti, smjöri og jógúrt saman við og hnoðið saman í deig. Leggið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 mínútur.

Skiptið deiginu í 4-6 hluta (eftir hversu stór þú vilt að brauðin verði) og sléttið út í aflöng brauð (það þarf ekkert kökukefli, hendurnar duga vel). Mér þykir gott að krydda brauðin með garam masala og grófu salti áður en ég steiki þau. Bræðið smjör á pönnu við miðlungshita og steikið brauðið í 3-4 mínútur áður en því er snúið við og steikt áfram í 2-3 mínútur.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Í gær áttum við notalegan dag hér heima og ég nýtti hann í að elda stóran skammt af nautahakkschili. Mér þykir eitthvað notalegt við að elda mat sem dugar í nokkrar máltíðir og mér þótti sérlega gott að vita til þess að kvöldmaturinn væri nánast tilbúinn þegar ég keyrði heim úr vinnunni í dag.

Þegar ég eldaði réttinn í gær bar ég hann fram með cheddarskonsum sem reyndist ómótstæðileg samsetning. Kljúfið skonsurnar, setjið chiliréttinn yfir, smá sýrðan rjóma ofan á og hamingjan verður taumlaus. Það þarf ekkert meðlæti en gott salat má alltaf hafa til hliðar, þó ekki sé nema samviskunar vegna.

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Það má annars bera þennan rétt fram á ótal marga vegu og í kvöld skar ég snittubrauð eftir því endilöngu, stakk því í örskamma stund í ofninn til að fá það stökkt, setti svo nautahakkschili yfir og að lokum rifinn cheddar ost. Brauðinu var þar á eftir skellt aftur í ofninn þar til osturinn hafði bráðnað. Meðlætið var franskar kartöflur, koktelsósa og hrásalat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna á heimilinu. Afgangurinn fær eflaust að prýða pizzabotn eða endar með salati í tortillavefjum þegar líður á vikuna. Svo dásamlega gott.

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Ég veit að hráefnalistinn er langur en mikið gæti þó leynst í skápnum hjá þér. Ef ekki þá myndi ég samt skoða það að kaupa í réttinn því hann er dásamlegur í alla staði. Ekki vera hrædd við chilimagnið því rétturinn er ekki eins sterkur og maður skyldi halda. Krakkarnir elskuðu hann og við glöddumst öll yfir tilhugsuninni um fá að borða matinn aftur í dag.

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Deb, sem heldur úti blogginu Smitten Kitchen, vill meina að uppskriftin sé fyrir 6. GLÆTAN! Við vorum fimm, borðuðum öll yfir okkur og samt var rúmlega helmingur eftir af matnum. Eftir þessar tvær máltíðir okkar er enn örugglega þriðjungur eftir. Ég myndi því segja að uppskriftin væri fyrir 12-15 manns.

Nautahakkschili með cheddarskonsum (lítillega breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 2 stórir laukar, hakkaðir
  • ¼ bolli bragðlítil olía
  • 1 msk hakkaður hvítlaukur
  • 2 gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
  • 1,3 kg. nautahakk (2 góðir bakkar)
  • 3 msk chili duft (dagsatt!)
  • 1 msk cumin
  • 2 msk paprikuduft
  • 1 msk oregano
  • 1 msk þurrkaðar chili piparflögur (red pepper flakes)
  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 1 ¼ bolli vatn
  • 1 ½ teningur nautakraftur
  • 3 msk hvítvínsedik
  • 1 dós nýrnabaunir
  • 2 grænar paprikur, hakkaðar

Hitið olíu við vægan hita í stórri pönnu og steikið laukinn í 5-10 mínútur, eða þar til hann er mjúkur. Bætið hvítlauk og gulrótum á pönnuna og steikið áfram í 1 mínútu. Hækkið hitann upp í miðlungshita og bætið nautahakkinu á pönnuna. Brjótið hakkið í sundur og hrærið reglulega í á meðan það steikist, um 10 mínútur. Bætið chilidufti, cumin, paprikudufti, oregano og þurrkuðum chili piparflögum saman við og steikið áfram í aðra mínútu. Bætið niðursoðnum tómötum, vatni, teningi og hvítvínsediki á pönnuna og látið sjóða undir loki við vægan hita í 35-40 mínútur. Skolið nýrnabaunirnar vel og látið renna af þeim. Bætið nýrnabaununum á pönnuna ásamt papriku. Saltið og piprið eftir smekk og látið sjóða í 15 mínútur til viðbótar, eða þar til paprikan er orðin mjúk.

Cheddarskonsur

  • 1 ½ bolli hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • 2 msk kalt smjör, skorið í litla bita
  • 1 ½ bolli rifinn cheddar ostur
  • 1 bolli sýrður rjómi

Hitið ofninn í 215°. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti í stórri skál. Blandið smjörinu vel saman við með höndunum. Hrærið cheddarostinum og sýrða rjómanum saman við þar til blandan myndar klístrað deig. Fletjið deigið út á vel hveitistráðu borði svo það verði rúmur sentimeter á þykkt. Notið glas eða annað hringlaga form til að skera 6-8 hringi úr deginu, miðið við að hringirnir séu um 8 sentimetrar í þvermál. Setjið deighringina á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og bakið í 15-17 mínútur, eða þar til skonsurnar eru gylltar á lit.

Ath. að ef þið viljið vinna á undan ykkur, t.d. fyrir matarboð, þá er hægt að útbúa skonsurnar og frysta þær óbakaðar. Það má síðan setja þær frosnar í ofninn en bætið þá 1-2 mínútum við bökunartímann.

Hvítlauksbrauðbollur

Hvítlauksbrauð

Í gærkvöldi horfðum við Öggi á síðasta Fraiserþáttinn og þar með lauk Fraser-maraþoni okkar. Við höfum verið að horfa á alla Fraiserþættina frá upphafi og það hefur tekið okkur heilt ár. Okkur hefur þótt svo notalegt að setjast niður á kvöldin eftir að krakkarnir eru sofnaðir og horfa á nokkra þætti og því fylgdu blendnar tilfinningar að klára síðasta þáttinn. Núna er því næsta verkefni að finna okkur nýja seríu til að horfa á. Við höfum heyrt að Breaking bad séu góðir þættir, kannski að við tékkum á þeim í kvöld.

Hvítlauksbrauð

Ég var búin að lofa uppskrift að hvítlauksbrauði sem ég baka alltaf með grænmetislagsagna. Það er nú ekki svo að ég sé alltaf að elda grænmetislasagna, síður en svo, en þegar það gerist þá er þetta hvítlauksbrauð nauðsynlegt með. Það er bæði hægt að gera þrjú snittubrauð úr deiginu eða bollur. Ég geri alltaf bollur og set rifinn ost yfir þær. Ef það er afgangur af brauðinu set ég hann í frystinn og hita svo upp næst þegar við erum með hakk og spaghetti. Gott!

Hvítlauksbrauð

Hvítlauksbrauðbollur

  • 1 pakki þurrger
  • 1½ bolli vatn
  • 1 msk sykur
  • 80 g rifinn ostur
  • 1 ½ tsk hvítlauksduft
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk basilíka
  • 1 tsk óreganó
  • 3 msk olía
  • 4-5 bollar hveiti

Leysið þurrgerið upp í volgu vatni. Bætið sykri, hvítlauksdufti, salti, basilíku, óreganó, olíu og hveiti saman við og hnoðið vel saman (ég nota hnoðarann á KitchenAid vélinni). Látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Mótið þrjú snittubrauð eða bollur úr deiginu og látið hefast aftur í 30 mínútur.  Penslið deigið með þeyttu eggi og stráið rifnum osti yfir. Bakið við 180° í 20-25 mínútur.

Gróft sírópsbrauð

Gróft sírópsbrauð

Þegar börnin voru sofnuð í gærkvöldi kom yfir mig skyndileg löngun til að baka brauð. Öggi var búinn að koma sér fyrir í sjónvarpsófanum, tilbúinn í Fraiserkvöld með mér (við erum búin að vera að horfa á Fraiser-þættina frá upphafi og erum loksins komin á lokaseríuna) þegar ég sagði honum frá brauðbaksturslöngun minni. Hann varð að vonum himinlifandi við tilhugsunina um nýtt brauð í morgunmat og hvatti mig til verka.

Það er óhætt að segja að brauðbaksturinn hafi ekki tekið kvöldið frá okkur því 10 mínútum síðar var brauðið komið í ofninn. Það tekur nefnilega ekki meira en nokkrar mínútur að hræra í það og áður en maður veit af stendur nýbakað brauð á eldhúsborðinu.

Gróft sírópsbrauð

Gróft sírópsbrauð

  • 4 dl hveiti
  • 2 dl heilhveiti
  • ½ dl rúgmjöl
  • ½ tsk salt
  • ½ dl sólblómafræ
  • ½ dl hörfræ
  • ½ dl rúsínur
  • ½ dl hakkaðar heslihnetur
  • 5 dl súrmjólk (eða ab-mjólk)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 dl síróp

Hrærið súrmjólk, sírópi og matarsóda saman í skál og leggið til hliðar. Blandið öllum öðrum hráefnum saman og hrærið súrmjólkurblöndunni vel saman við. Setjið deigið í smurt brauðform (ég velti fimmkornablöndu um það eftir að ég smurði formið) og stráið ef fræjum eða höfrum yfir (má sleppa). Bakið neðarlega í ofninum við 175° í 60 mínútur.

Bananabrauð með Nutella

Bananabrauð með Nutella

Þetta mjúka, bragðgóða og dásamlega bananabrauð hefur verið á borðum hjá okkur þessa helgina. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar ég horfði á þrenna banana á síðasta snúningi í gærmorgun og þegar ég mundi eftir Nutella krukkunni í skápnum þá vissi ég strax hvað byði okkar.

Bananabrauð með Nutella

Í þessu brauði fara bananar og nutella ævintýralega vel saman og ég get ekki lýst því hvað það var gott að koma heim eftir göngutúr í snjónum í dag og fá heitt súkkulaði með rjóma og góða sneið af brauðinu.

Bananabrauð með Nutella

Uppskriftin miðast við tvenn brauð og ekki veitir af. Annað brauðið kláraðist strax í gær en hitt höfum við gert okkur að góðu í dag. Ég get fullyrt að það var ekki síðra daginn eftir, enn svo lungamjúkt og gott.

Bananabrauð með Nutella (uppskrift í tvenn brauð)

  • ½ bolli smjör
  • 1 ½ bolli sykur
  • 2 egg
  • 3 þroskaðir bananar
  • 1 bolli sýrður rjómi
  • 1 tsk vanillusykur (eða dropar)
  • 1 tsk kanil
  • 1/4 tsk salt
  • 3 tsk matarsódi
  • 2 1/4 bolli hveiti
  • 4 msk nutella

Hitið ofninn í 175°. Hrærið saman smjör og sykur þar til hefur blandast vel. Bætið eggjum, stöppuðum banönum, sýrðum rjóma, vanillusykri og kanil saman við og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Bætið salti, matarsóda og hveiti út í og hrærið áfram þar til allt hefur blandast vel. Bætið að lokum nutella út í og hrærið svo það blandist vel í deigið.

Smyrjið tvenn formkökuform vel og skiptið deiginu jafnt í þau. Bakið í 35-45 mínútur eða þar til prjóni stungið í brauðið kemur hreinn upp.

Bananabrauð með Nutella

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Eftir allan hátíðarmatinn var okkur farið að dreyma um létta máltíð og súpa og brauð var efst á óskalistanum. Það vildi mér til happs að ég rakst á uppskrift að papriku- og kartöflusúpu með fetaostmulningi þegar ég var að skoða myndir í símanum mínum. Ég tek oft myndir á símann þegar ég rekst á spennandi uppskriftir og þessa uppskrift hafði ég séð í dönsku blaði (sem ég þori eiginlega að veðja á að hafi verið Spis Bedre). Ég ákvað að prófa að elda súpuna og hún vakti stormandi lukku. Með súpunni bar ég fram New York Times-brauðið sem er alltaf jafn gott og svo ótrúlega einfalt að baka.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Þeir sem fylgjast með mér á Instagram eru þegar búnir að sjá mynd af herlegheitunum en hér kemur uppskriftin fyrir þá sem vilja prófa.

Papriku- og kartöflusúpa

  • 1 laukur
  • 4 miðlungsstórar kartöflur
  • 4 rauðar paprikur
  • 2 kjúklingateningar (ég notaði 1 kjúklinga- og 1 grænmetistening)
  • ólífuolía
  • 1 tsk salt
  • nýmalaður pipar

Til skrauts

  • 150 g fetaostur (fetakubbur sem er mulinn niður)
  • 1 msk ólífuolía
  • fersk steinselja eða mynta (eða 2 tsk þurrkuð mynta)

Hitið 1 líter að vatni að suðu. Hakkið laukinn, skrælið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar. Hreinsið paprikuna og skerið þær í strimla.

Stekið laukinn í 2 msk af ólívuolíu í stórum potti í 3 mínútur. Bætið kartöflum í pottinn og steikið áfram í 3 mínútur. Bætið papriku í pottinn og steikið áfram í aðrar 3 mínútur. Myljið teninga yfir og hellið helmingnum af soðna vatninu yfir. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur.

Takið pottinn af hitanum og maukið súpuna með töfrasprota. Þynnið súpuna með því sem eftir var af soðna vatninu þar til óskaðri þykkt er náð. Kryddið með salti og pipar.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

New York Times-brauð

Það er orðið langt síðan ég setti inn uppskrift að brauði. Upp á síðkastið hefur brauðbakstur minn verið nokkuð einhæfur því ég, eflaust síðust af öllum, uppgötvaði hið margrómaða New York Times-brauð sem einnig gengur undir nafninu „No-knead bread“.

Þetta brauð er meiriháttar gott og þó það þurfi að hefast í amk 12 klst þá er vinnuframlagið í algjöru lágmarki. Ég set hráefnið í skál að kvöldi og rétt hræri því saman með sleif, set plastfilmu yfir skálina og læt hana standa á borðinu þar til daginn eftir. Oftast helli ég deginu þá, sem minnir helst á graut eftir alla þessa hefun, á hveitistráð borð og rétt set það saman í kúlu sem ég læt hefast undir viskastykki í tvo tíma til viðbótar. Ég hef sleppt þessari seinni hefun og verð að viðurkenna að ég fann engan sérstakan mun. Mikilvægast er síðan að baka brauðið í funheitum ofni í lokuðum potti sem er hitaður í ofninum áður en brauðið fer í hann.

Ég smakkaði þetta brauð fyrst á makkarónu-námskeiðinu hjá Salt Eldhúsi og varð mjög spennt að prófa að baka það. Á morgun fer ég á jólagaldra-námskeiðið og ég get ekki beðið. Ég hlakka svo til að eyða kvöldinu í jólaundirbúning og það verður frábært að eiga góðgæti til að njóta yfir aðventuna. Ég ætla að reyna að muna eftir myndavélinni og get þá sýnt ykkur myndir frá kvöldinu.

New York Times-brauð

  • 3 bollar hveiti
  • ¼ tsk þurrger
  • 1 ¼ tsk salt
  • 1 ½ bolli + 2 msk vatn (ég hef það alltaf við stofuhita)

Blandið hveiti, þurrgeri og salti saman í skál og hrærið vatni saman við. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið hana standa við stofuhita í amk 12 klst. en helst í 18 klst.

Hellið deginu á hveitistráð borð og stráið hveiti líka yfir degið. Brjótið degið saman þannig að það myndi nokkurs konar kúlu og látið hefast undir viskastykki í 2 klst.

Setjið lokaðan ofnpott í ofn og hitið í 230°. Takið ofnpottinn út, setjið brauðið ofan í hann, lokið pottinum og setjið hann aftur í ofninn í 30 mínútur. Takið lokið af og bakið áfram í 5-10 mínútur.

Sírópsbrauð með rúsínum og fræjum

 

Ég bakaði þetta brauð á laugardagsmorgninum og var ánægð með árangurinn. Það tók enga stund að hræra í brauðið og ilmurinn úr eldhúsinu var dásamlegur á meðan það bakaðist.  Deigið er heldur blautt í sér en brauðið þeim mun mýkra fyrir vikið.

Sírópsbrauð með rúsínum og fræjum

  • 5 dl hveiti
  • 1 dl heilhveiti
  • 1,5 tsk matarsódi
  • 0,5 tsk salt
  • 1/2 dl sólkjarnafræ
  • 1/2 dl graskersfræ
  • 1/2 dl hörfræ
  • 1/2 dl rúsínur
  • 0,75 dl síróp
  • 1/2 l súrmjólk

Blandið þurrefnunum saman. Bætið sírópi og súrmjólk saman við og blandið öllu vel saman. Setjið deigið í smurt brauðform og bakið við 175° í ca 1 klst.

 

Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði

Ég sá þessa uppskrift í morgunverðarblaðinu frá Fine Cooking um daginn og hugsaði með mér að hún væri kjörin til að vígja nýju matvinnsluvélina mína með. Hún hefur staðið glansandi ný og fín á eldhúsborðinu síðustu vikurnar og ég verð hamingjusöm við það eitt að hugsa til hennar en það var þó kominn tími til að byrja að nota vélina.

Ef ég á að vera hreinskilin þá var það þrennt sem heillaði mig við þessa uppskrift: súkkulaðið, hneturnar og tækifærið til að nota matvinnsluvélina. Það er þó í raun engin þörf á matvinnsluvél til að baka þetta brauð því það er vel hægt að nota bara venjulegt rifjárn. Kúrbíturinn heillaði mig ekkert og ef uppskriftin hefði ekki verið úr Fine Cooking blaði hefði ég eflaust látið hann fæla mig frá. Mikið var ég fegin að ég gerði það ekki því brauðið var algjört æði. Það hélst mjúkt lengi og ég held að það sé kúrbítnum að þakka.

Þetta brauð myndi slá í gegn á brönsborði og þá er tilvalið að baka það deginum áður.

Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði

  • 110 gr smjör
  • 2 bollar og 2 msk hveiti
  • 1 stór kúrbítur (ca 330 gr)
  • 3/4 bolli + 2 msk sykur
  • 1/3 bolli sterkt uppáhelt kaffi, kalt eða við stofuhita
  • 1/3 bolli jógúrt
  • 2 stór egg
  • 1/3 bolli fínhakkað suðusúkkulaði
  • 1/2 bolli hakkaðar valhnétur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk kanil

Hitið ofninn í 190°. Smyrjið brauðform og dustið með hveiti.

Skerið endana af kúrbítnum frá og rífið kúrbítinn með grófa rifjárninu á matvinnsluvél (eða venjulegu rifjárni). Hendið frá því sem verður eftir á rifjárninu. Setjið rifinn kúrbítinn í sigti og stráið 1 msk af sykri yfir og hristið vel. Stráið annari msk af sykri yfir og hristið aftur. Látið standa í sigtinu í 20 mínútur.

Bræðið smjörið í potti við miðlungs hita. Hellið smjörinu í skál og látið kólna aðeins. Hrærið 3/4 bolla af sykri, kaffi, jógúrt og eggjum saman við smjörið.

Setjið hveiti, súkkulaði, valhnetur, lyftiduft, matarsóda, salt og kanil í skál og blandið saman.

Kreistið safann úr kúrbítnum og blandið kúrbítnum saman við smjörblönduna. Hellið blöndunni yfir þurrefnin og hrærið öllu saman með trésleif. Setjið deigið í brauðform og bakið í ca klukkustund, eða þar til bökunarprjóni stungið í mitt brauðið kemur hreinn upp.

Múslíbrauð með fræjum, kornum og öðru góðgæti

Það er óhætt að segja að þessi sunnudagur hafi verið notalegur. Fyrir utan að Öggi og Gunnar rifu sig upp eldsnemma í morgun til að taka þátt í Hjartadagshlaupinu þá hefur þessum degi verið eytt hér heima í mestu makindum. Ég elska svona daga, þar sem ekkert stendur til og allir eru heima.

Á meðan Öggi og Gunnar hlupu í morgun bakaði ég nýtt brauð. Ég notaði það hráefni sem ég átti í skápunum og úr varð stórgott gróft brauð. Það er svo gaman að baka brauð og hægt að leika sér endalaust með uppskriftirnar. Ég ákvað að hafa bæði hvítt hveiti og heilhveiti en auðvitað er hægt að skipta því út fyrir hvaða mjöl sem er. Sama er með kornin og fræin, ég átti 5 korna blöndu sem ég ákvað að nota og bætti síðan sólkjarna- og graskersfræjum við. Rúsínurnar gáfu sætu og hunangið gerði allt gott. Það var ósköp notalegt að fá þá heim og setjast saman niður yfir nýbökuðu brauði.

Múslíbrauð með fræjum, kornum og öðru góðgæti

  • 4 dl hveiti
  • 3 1/2 dl heilhveiti
  • 3 1/2 dl múslí (ég var með Organic basic muesli frá Crispy Food)
  • 1 dl graskersfræ
  • 1 1/2 dl fimmkornablanda
  • 2 1/2 dl solkjarnafræ
  • 1 1/2 dl rúsínur
  • 1 tsk maldon salt
  • 3 msk fljótandi hunang
  • 1 msk vínsteinslyftiduft (má líka nota venjulegt lyftiduft)
  • 2 dl vatn
  • 7 dl ab-mjólk

Hitið ofninn í 200°. Blandið þurrefnum saman í skál. Setjið hunang, vatn og ab-mjólk saman við og hrærið öllu varlega saman. Látið deigið í smurt brauðform eða formkökuform og bakið í ca 55-60 mínútur.