Cava Sangria

Um síðustu helgi hittumst við SSSskutlurnar hjá mér, en eins og ég hef áður sagt frá þá kynntist ég þeim í gegnum fótboltann hjá Gunnari. Synir okkar æfa saman hjá Breiðablik og við búum hér í sama hverfi í Kópavoginum. Eftir að við byrjuðum að skiptast á að skutla strákunum á æfingar festist þetta SSSskutlunafn við okkur (öll S-in koma til vegna þess að við heitum Sigrún, Sunna og Svava).

Það er aldrei dauð stund þegar við hittumst og kvöld með þeim er ávísun á hlátursköst og stuð. Ég bauð upp á kjúklingasalat og var síðan búin að gera tvo eftirrétti en í öllu fjörinu gleymdi ég að bera annan þeirra fram!

Fyrir matinn var ég með fordrykk sem ég má til með að gefa uppskrift af fyrir helgina. Hann ætti að koma öllum í helgargírinn!

Cava Sangria

  • 1 flaska freyðivín
  • 1 dl af líkjörnum 43
  • 2 dl appelsínusafi
  • klaki
  • appelsínusneiðar

Blandið öllu saman í könnu og njótið!

 

Ferskur drykkur með freyðivíni, gini og sítrónu

Ég var búin að lofa að setja inn uppskriftina af fordrykknum sem við vorum með í matarboði um daginn og rétt næ því í tæka tíð fyrir HM annað kvöld. Þegar ég fæ mér sterkan drykk verður G&T oftast fyrir valinu og því kannski ekki skrítið að gindrykkir verði einnig fyrir valinu þegar ég býð upp á drykk hér heima (hér er önnur góð uppskrift af gindrykk). Þessi fannst mér æðislegur! Ferskur og sumarlegur… þrátt fyrir að sumarið láti bíða eftir sér!

Ferskur drykkur með freyðivíni, gini og sítrónu

  • 2-3 cl gin (ég nota Tanqueray)
  • 2 cl sykursýróp (sjóðið vatn og sykur í jöfnum hlutföllum saman þar til sykurinn hefur bráðnað – tekur enga stund!)
  • 3 cl sítrónusafi
  • freyðivín (það fór 1 flaska í 4 glös)
  • klaki
  • sítróna

Hellið gini, sykursírópi og sítrónusafa í stórt vínglas. Fyllið glasið með klaka og hellið síðan freyðivíni í það. Hrærið varlega í glasinu. Setjið sítrónusneið í glasið og berið strax fram.

Pink Gin Fizz

Um síðustu helgi ákváðum við að hætta við að fara út að borða eins og við höfðum ákveðið og í staðin að elda góðan mat heima. Ég gerði pizzuna sem ég setti inn uppskrift af í gær en fyrir matinn fengum við okkur fordrykk og snarl. Ég vel mér oftast gindrykki þegar kemur að sterkum drykkjum en fæ mér yfirleitt bara gin og tonic. Þetta var því skemmtileg tilbreyting. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir bleikum greipsafa en ég skipti honum út fyrir Sparkling Ice Pink Grapefruit flavoured sparkling water sem ég fann í goskælinum í Hagkaup. Það kom mjög vel út!

Pink Gin Fizz

  • 30 ml gott gin
  • 100 ml bleikur greipsafi (pink grapefruit juice)
  • 150 ml tonic
  • vel af klaka (ég nota mulinn klaka)
  • safi úr 1/2 lime

Blandið öllu saman og hellið í glas.

Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaðiÉg elska heitt súkkulaði með rjóma og sérstaklega yfir vetrartímann. Það hlýtur að vera notalegasti drykkur sem til er! Eftir útiveru eða með vöfflukaffinu, heitt súkkulaði með rjóma er alltaf jafn dásamlega gott.

Heitt súkkulaði

Það hefur tekið mig rúmt ár að setja þessa uppskrift hingað inn og ég er ekki að grínast með það. Ég hef enga skýringu á hvers vegna það tók þennan fráleita tíma en get í fullri hreinskilni sagt að þetta er besta heita súkkulaði sem ég veit um. Ég skrifaði uppskriftina í glósubók á sínum tíma og hef passað bókina eins og gull síðan þá, eingögnu út af þessari uppskrift. Það er því löngu tímabært að birta uppskriftina hér og leyfa fleirum að njóta dásemdinnar, áður en veturinn líður undir lok.

Uppskriftin miðast við fyrir einn og ber að margfalda eftir fjölda gesta. Hún er þó drjúg og fyrir 4 dugar að gera þrefalda uppskrift.

Heitt súkkulaði (uppskrift fyrir 1)

  • 3 dl nýmjólk
  • 1 msk kakómalt (t.d. Nesquick)
  • 1 ½ msk flórsykur
  • smá salt
  • 4 bitar suðusúkkulaði (4 molar af suðusúkkulaðiplötu)

Setjið allt í pott og hitið að suðu. Hellið í bolla og setjið vel af þeyttum rjóma og súkkulaðispæni yfir.

 

Frosinn hindberjadrykkur

Frosinn hindberjadrykkurMikið er æðislegt að fá svona góða daga með sól og blíðu. Það lifnar allt við. Við kældum okkur niður í dag með æðislegum drykk sem ég hef gert nokkrum sinnum í sumar og alltaf hlotið mikið lof fyrir. Það er því tími til kominn að setja uppskriftina inn til að fleiri geti notið hennar.

Þessi frosni hindberjadrykkur er ferskur, svalandi og dásamlega góður. Krakkarnir hreinlega elska hann. Djúsinn sem ég nota, Sunquick Pink Guava & Strawberry, er í algjöru uppáhaldi hjá strákunum og þegar þeir fá að gera vel við sig verður hann fyrir valinu. Hér fer djúsinn svo vel með hindberjunum og sítrónan setur punktinn yfir i-ið. Þetta verður ekki einfaldara, öllu er hrúgað í blandarann og hann látinn ganga í smá stund. Útkoman verður hálfgert ískrap sem er fallegt í glasi og dásamlegt á bragðið.

Frosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkur Frosinn hindberjadrykkur (fyrir 3-4)

  • 200 g ís (ekki mjúkís)
  • 2,5-3 dl mjólk
  • 200 g frosin hindber
  • 2 tsk ferskur sítrónusafi
  • 4 msk Sunquick Pink Guava & Strawberry

Setjið öll hráefnin í blandara og látið ganga þar til blandan er slétt og mjúk.

Bláberjasmoothie

 

BláberjasmoothieEins og ég hef gaman af því að prófa nýjungar í matargerð þá er ég fáránlega einhæf í morgunmatnum á virkum dögum. Um helgar nýt ég þess að byrja dagana á nýbökuðum pönnukökur með öllu tilheyrandi en á virkum dögum borða ég það sama dag eftir dag. Ég veit ekki hversu lengi ég byrjaði dagana á hrökkbrauði með osti og heilsusafa, enn lengur á hafragraut með allt of miklum kanil og mig grunar að nýjasta æðið muni slá öll vinsældarmet hjá mér, bláberjasmoothie. Mér þykir það sjúklega gott!

Bláberjasmoothie

Það líða nákvæmlega 5 mínútur frá því að ég stíg inn í eldhúsið á morgnana þar til ég er búin að gera drykkinn, setja hann í töskuna mína og ganga frá í eldhúsinu eftir mig. Ég tek hann alltaf með mér og drekk ýmist í bílnum á leiðinni í vinnuna eða þegar ég er komin þangað. Þá er klukkan 8 og drykkurinn stendur með mér til hádegis. Ég elska hann fyrir það! Á hrökkbrauðstímabilinu var ég alltaf orðin svöng aftur um klukkan 10 og fannst það glatað.

BláberjasmoothieHér áður fyrr forðaðist ég að nota blandarann minn því mér þótti svo leiðinlegt að þvo hann. Ég lærði síðan aðferð við þvo hann á svipstundu og síðan þá hefur hann verið í stöðugri notkun. Trixið er að um leið og ég er búin að nota blandarann þá skola ég hann snögglega upp úr heitu vatni, set síðan vatn í hann svo rétt nái yfir hnífinn í botninum, nokkra dropa af uppþvottalaugi og skelli síðan blandaranum aftur í gang í nokkrar sekúndur. Síðan skola ég sápuna bara úr og læt skálina þorna.

Bláberjasmoothie

Þar sem ég tek drykkinn alltaf með mér á morgnana þá fór ég á stúfana eftir góðu íláti sem ég gæti áhyggjulaust haft í töskunni án þess eiga hættu á að það myndi leka. Vinkona mín benti mér á að bestu ílátin undir svona drykki væru frá Lock & Lock. Þau fást í Hagkaup og kosta undir 700 krónum. Uppskriftin passar akkúrat í ílátið og ég hendi því óhrædd í töskuna mína eins og vinkona mín segist gera með sitt. Það hefur aldrei lekið dropi úr því!

Bláberjasmoothie

  • 3 dl létt AB-mjólk
  • 1 ½ dl frosin bláber
  • 1/2 banani
  • 1½ msk chia fræ

Allt sett í matvinnsluvél og unnið vel saman.

 

Nutellasjeik

Nutellasjeik

Við létum alþjóðlega Nutella-daginn ekki framhjá okkur fara, enda verð ég seint þekkt fyrir að grípa ekki tækifæri til að gera vel við mig!

Nutellasjeik

Ég gerði Nutellasjeik sem við fengum okkur eftir kvöldmatinn. Hann er svo hressandi og dásamlega góður. Einfaldara gerist það ekki og krakkarnir elska hann.

NutellasjeikNutellasjeik

Nutellasjeik (2 stór glös)

  • 2 bollar vanilluís
  • 1/2 bolli mjólk
  • 4 msk Nutella

Mixið allt saman í blandara eða með töfrasprota. Hellið í glös og skreytið með t.d. með þeyttum rjóma, súkkulaðispæni og  súkkulaðisósu.

Súkkulaðisjeik

Súkkulaðisjeik

Ískaldur og svalandi súkkulaðisjeik er alltaf viðeigandi og stórgóð leið til að lífga upp á hversdagsleikann. Við fengum okkur þennan í eftirrétt í vikunni og glösin voru ekki lengi að tæmast. Krakkarnir gáfu þumalinn upp og mig grunar að blandarinn okkar fái litla hvíld á næstunni.

Súkkulaðisjeik

Súkkulaðisjeik (2 glös) – Uppskrift frá Mitt Kök

  • 4 dl mjólk
  • 2 dl vanilluís
  • 3 msk Nesquik
  • 1 tsk vanillusykur

Mixið allt saman í blandara eða með töfrasprota. Hellið í glös og skreytið með þeyttum rjóma, súkkulaðispæni og súkkulaðisósu.

Súkkulaðisjeik

Heitur Nutella-súkkulaðidrykkur

Haustflensan hefur gengið yfir heimilið í vikunni. Öggi var heima með Gunnar veikan á þriðjudaginn og í morgun vaknaði Jakob veikur. Ég er búin að vera heima með honum í dag og við erum búin að hafa það mjög huggulegt þrátt fyrir slappleika. Við Jakob erum alveg sammála um að heitt súkkulaði sé allra meina bót og ákváðum að gera heitan Nutella-súkkulaðidrykk. Við þeyttum líka rjóma og hökkuðum súkkulaði sem við settum yfir. Þetta höfðum við tilbúið þegar Malín og Gunnar komu heim úr skólanum við slógum rækilega í gegn með uppátækinu.

Ég má til með að gefa uppskriftina, þó einföld sé, að Nutella-súkkulaðidrykknum því hann er algjört æði og krakkarnir eru sammála um að hann sé mun betri en venjulegt heitt súkkulaði. Uppskriftin kemur frá The Sisters Café.

Heitur Nutella-súkkulaðidrykkur (fyrir 1)

  • 2 msk Nutella
  • 1 bolli mjólk

Hitið Nutella og mjólk saman í potti. Hellið heitri súkkulaðimjólkinni í könnu, setjið væna rjómaslettu og hakkað súkkulaði yfir og njótið.