Sænsk súkkulaðikaka deluxe

Hryðjuverkaárásin í Stokkhólmi á föstudaginn hefur verið ofarlega í huga mínum yfir helgina. Mér þykir hún svo hræðilega nálægt mér. Ég bjó í Stokkhólmi, á vini þar og fer reglulega þangað. Ég hef svo margoft staðið þar sem árásin átti sér stað, síðast núna í ársbyrjun.

Ég get ekki hætt að hugsa um 11 ára stelpuna sem var að koma úr skólanum og ætlaði að hitta mömmu sína við neðanjarðarlestina, en komst aldrei til hennar. Hvernig mamma hennar leitaði af henni á spítölum borgarinnar í örvæntingu áður en lögreglan bankaði upp á hjá henni. Vörubílsstjórann sem skildi lyklana eftir í bílnum á meðan hann skaust frá og mun eflaust seint jafna sig á því. Myndir af lögreglumönnum sem hikuðu aldrei, heldur hlupu beint að hættunni.

Þegar Viktoría prinsessa var spurð af blaðamanni „hvernig höldum við áfram eftir þetta?“ svaraði hún „í sameiningu“. Það er svo fallegt að sjá samheildina sem myndast við svona aðstæður. Þegar fólk staldrar við og sér hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu.

Ég hef verið á leiðinni að setja hingað inn uppskrift af svo góðri klessuköku sem ég bakaði um daginn og það er kannski sérlega viðeigandi að setja hana inn núna. Að baka köku og setjast niður með ástvinum gerir maður aldrei of oft. Njótum stundarinnar og veljum vandlega hvernig við eyðum tímanum.

Sænsk súkkulaðikaka deluxe

  • 3 egg
  • 3,5 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 4-5 msk kakó
  • 2 dl hveiti
  • 150 g brætt smjör

Krem:

  • 50 g smjör við stofuhita
  • 2 msk kalt kaffi
  • 2,5 dl flórsykur
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanillusykur

Yfir kökuna:

  • kókosmjöl

Hitið ofninn í 175°.

Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman egg og sykur. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim saman við eggjablönduna. Hrærið að lokum smjörinu í deigið. Athugið að þeyta aldrei deigið heldur bara að hræra það saman því ef það myndast of mikið loft í deiginu er hætta á að það verði þurrt. Smyrjið lausbotna form og setjið deigið í það. Bakið kökuna í miðjum ofni í 20-30 mínútur. Kakan á að vera blaut í miðjunni þegar hún er tekin úr ofninum. Látið kökuna standa í ísskáp í nokkra tíma áður en kremið er sett á hana.

Hrærið öllum hráefnunum í kremið saman og setjið yfir kökuna. Stráið kókosmjöli yfir. Geymið kökuna í ísskáp.

Karamellubrúnkur með botni úr saltstöngum

Karamellubrúnkur með saltstöngum

Mér þykir vikan hafa flogið frá mér og nú er helgin handan við hornið. Ég var í matarboði í gær, fer í saumaklúbb í kvöld og annað kvöld ætlum við út að borða þannig að það fer lítið fyrir eldamennskunni hjá mér þessa dagana. Þegar ég var með saumaklúbbinn hjá mér fyrir jól var ég með eftirrétt sem var hálf misheppnaður en þó á sama tíma mjög lofandi. Það sem klikkaði var að karamellan sauð of lengi og varð því of hörð. Nú hef ég hins vegar gert kökuna aftur og í þetta sinn varð karamellan svo passlega mjúk og kakan svo æðislega góð að ég verð að koma uppskriftinni hingað inn. Þunnur og stökkur botn úr saltstöngum, mjúk brúnka sem er örlítið blaut í sér og mjúk karamella með sjávarsalti yfir. Svo ólýsanlega gott. Það er þess virði að bruna út í búð og kaupa hitamæli til að karamellan verði fullkominn. Annars þarf að passa vel að sjóða hana ekki of lengi!

Karamellubrúnkur með saltstöngum

Karamellubrúnkur með botni úr saltstöngum – uppskrift úr Buffé

Botn:

  • 125 g saltstangir
  • 75 g smjör, brætt
  • 2 tsk sykur

kaka:

  • 400 g suðusúkkulaði (eða 70% súkkulaði)
  • 175 g smjör
  • 5 egg
  • 4 ½ dl púðursykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 tsk salt
  • 1 ½ dl hveiti (90 g)

Karamella

  • 50 g smjör
  • 1 ½ dl sykur
  • 1 ½ dl rjómi
  • 3/4 dl sýróp
  • 2 tsk maldonsalt

Hitið ofn í 175°. Byrjið á botninum. Vinnið saltstangirnar, smjör og sykur saman í matvinnsluvél í grófa mylsnu. Þrýstið mylsnunni í botninn á eldföstu formi í stærðinni 25 x 30 cm, sem hefur verið klætt bökunarpappír. Bakið í miðjum ofni í 6 mínútur. Takið út og látið kólna.

Karamellubrúnkur með saltstöngumKaramellubrúnkur með saltstöngum

Kakan: Grófhakkið súkkulaðið og bræðið ásamt smjöri í skál yfir vatnsbaði. Leggið til hliðar og látið kólna aðeins. Hrærið egg, púðursykur, vanillusykur og salt saman þar til blandan er orðin létt í sér. Bætið súkkulaðismjörinu saman við á meðan hrært er í blöndunni. Siktið hveitið í deigið og hrærið saman í slétt deig. Hellið deiginu yfir botninn og bakið í miðjum ofni í 30-35 mínútur. Kakan á að vera aðeins blaut í sér. Látið kökuna kólna áður en karamellan er sett yfir.

Karamella: Setjið smjör, sykur, rjóma og sýróp í pott. Látið suðuna koma upp og sjóðið á miðlungshita þar til 120° er náð. Hrærið annað slagið í pottinum.

Hellið karamellunni yfir kökuna og dreifið úr henni þar til hún myndar jafn lag yfir kökunni. Stráið maldonsalti yfir. Látið kólna í ísskáp og skerið síðan í smáa bita.

Karamellubrúnkur með saltstöngum

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

 

Súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremiUm síðustu helgi bakaði ég köku til að hafa með kaffinu hér heima. Ég bakaði súkkulaðiköku sem við gæddum okkur á alla helgina. Kakan var dásamlega mjúk, með smá kaffikeim og örlítið blaut í sér. Kremið var hvergi sparað og úr varð súkkulaðibomba sem var erfitt að láta í friði.

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

Núna um helgina, þegar jólaundirbúningurinn fer af stað, þykir mér ósköp huggulegt að vera með köku á eldhúsbekknum til að geta nælt mér í sneið og sneið á milli þess sem aðventuljósunum er stungið í samband og kerti verða sett í aðventukransinn. Það er bara svo notalegt, rétt eins og desembermánuður á að vera. Með jólatónlist í hátölurum, jólaljós í gluggunum og bökunarlykt í húsinu.

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

Botnar:

  • 2 bollar sykur (450 g)
  • 1 ¾ bollar hveiti (200 g)
  • ¾ bolli kakó (75 g)
  • 1 ½ tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 egg
  • 1 bolli mjólk
  • ½ bolli bragðdauf olía
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 bolli sjóðandi heitt kaffi

Krem:

  • 115 g smjör
  • 2/3 bolli kakó (70 g)
  • 3 bollar flórsykur (450 g)
  • 1/3 bolli mjólk
  • 1 tsk vanilludropar

Hitið ofninn í 175° og smyrjið tvö 22 cm bökunarform með lausum botni.

Setjið öll þurrefnin í skál. Bætið mjólk, olíu og vanilludropum saman við og hrærið þar til hráefnin hafa blandast vel. Bætið heitu kaffi saman við og hrærið þar til deigið er orðið slétt. Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í 30-35 mínútur. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á.

Krem:

Bræðið smjör í potti og hrærið kakó saman við þar til blandan er slétt. Hellið súkkulaði- og smjörblöndunni yfir í skál og bætið vanilludropum og flórsykri saman við. Hrærið að lokum mjólkinni saman við í smáum skömmtum þar til réttri áferð er náð.

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Ég er með óteljandi myndir af uppskriftum í símanum mínum, sem ég hef tekið hér og þar. Þegar ég fæ gott að borða hjá vinkonum mínum eða sé girnilega uppskrift í gömlu tímariti sem er ekki lengur hægt að kaupa þá tek ég einfaldlega mynd af uppskriftinni. Ég er hins vegar ekki nógu dugleg við að muna hvaðan þessar uppskriftir koma sem er pínu synd.

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Þessi súkkulaðikaka er ein af þessum uppskriftum sem koma úr myndaalbúminu í símanum. Hún var á ensku sem gerir málið dálítið dularfullt en ég get þó ómöglega munað hvaðan uppskriftin kom. Ég bakaði kökuna aðeins of lengi og því var hún of þurr fyrir minn smekk en bragðgóð var hún fyrir því. Hún fer auðvitað stórvel með helgarkaffinu og ef einhver ætlar að baka hana þá mæli ég með að fylgjast vel með kökunni undir lokin á bökunartímanum.

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

  • ¾ bolli kakó
  • 1/3 bolli heitt kaffi
  • 1 ¾ bolli hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 1 bolli smjör við stofuhita
  • 1 bolli sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • ¼ bolli súrmjólk
  • ¾ bolli grófhakkað suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform. Setjið kakó og kaffi í litla skál og hrærið þar til blandan er slétt. Hrærið saman, í annarri skál, hveiti, lyftiduft og salt. Hrærið saman í hrærivél eða með handþeytara smjör og sykur þar til blandan er orðin ljós og létt í sér. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og hrærið í um mínútu á milli. Hrærið vanilludropum saman við. Hrærið nú hveitiblöndunni saman við og þar á eftir er kaffiblöndunni hrært varlega saman við. Hrærið súrmjólkinni saman við og að lokum súkkulaðibitunum. Setjið deigið í smurt formkökuformið og bakið í um 50-60 mínútur. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett yfir.

Súkkulaðikrem

  • 1 ½ bolli flórsykur
  • 3 msk kakó
  • smá salt
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2-4 msk mjólk eða vatn

Sigtið saman flórsykur og kakó í skál. Bætið salti saman við. Hrærið vanilludropum og 2 msk af mjólk saman við og bætið 1-2 msk af mjólk við eftir þörfum.

Gamaldags vínarbrauð með sultu og glassúr

vinarbraud155

Um síðustu helgi var rigning og rok og ég lá í flensu. Hápunktur helgarinnar var að kjósa og fylgjast með kosningasjónvarpinu. Í dúnúlpu, gúmmístígvélum, með rautt nef og hárið út í loftið brunaði ég á kjörstað og var útgangurinn slíkur að halda mætti að ég hefði verið á leið í fjós. Eins og mér þykja kosningar vera hátíðlegar og fullt tilefni til að klæða sig upp áður en haldið er á kjörstað þá fór nú lítið fyrir glamúrnum hjá mér.

Vínarbrauð með sultu og glassúr

Á heimleiðinni kom ég við í búð og keypti alls konar góðgæti til að mumsa á yfir helgina. Ég var svo staðráðin í að fara ekki meira út í þessu flensuástandi að ég birgði okkur vel upp. Ég virðist þó ekki hætta að furðað mig á því hvað heimilið mitt, sem er fullt af unglingum, fer með mikinn mat. Hér er aldrei opnaður kexpakki án þess að hann sé kláraður samstundis og það mætti halda að ég ræki mötuneyti þegar ég verlsa inn. Það hefði því ekki átt að koma mér á óvart að góðgætið sem átti að duga helgina kláraðist að mestu samdægurs.

Vínarbrauð með sultu og glassúr

Ég ákvað því að baka vínarbrauð með kaffinu á sunnudeginum, einfaldlega vegna þess að ég nennti ekki aftur út í búð og ég átti öll hráefnin í þau. Það tók enga stund að baka vínarbrauðin og enn styttri tíma að borða þau upp til agna. Krakkarnir elskuðu þau! Þau fara því beinustu leið á bloggið, bæði svo ég finni uppskriftina aftur og ef þið viljið prófa að baka þau.

Vínarbrauð með sultu og glassúr

Vínarbrauð með sultu og glassúr 

  • 125 g smjör við stofuhita
  • ¾ dl sykur
  • 1 egg
  • 3 ½ dl hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • um ¾ dl hindberjasulta frá St. Dalfour

Glassúr

  • 1 dl flórsykur
  • ¾ msk vatn

Hitið ofninn í 175°. Hrærið saman smjör og sykur. Bætið eggi og lyftidufti saman við og hrærið saman í slétt deig. Bætið að lokum hveiti saman við og hrærið þar til deigið er orðið slétt. Skiptið deiginu í þrjá hluta og rúllið hverjum hluta út í lengju. Mótið holu eftir miðri lengjunni og setjið sultuna þar í. Bakið í miðjum ofni í um 15 mínútur.

Látið lengjurnar kólna í nokkrar mínútur áður en glassúrinn er settur á. Hrærið saman flórsykri og vatni og setjið yfir lengjurnar. Skáskerið lengjurnar í bita áður en þær kólna alveg.

Vínarbrauð með sultu og glassúrVínarbrauð með sultu og glassúrVínarbrauð með sultu og glassúrVínarbrauð með sultu og glassúrVínarbrauð með sultu og glassúrVínarbrauð með sultu og glassúr

Hafarstykki með jarðaberjasultu

Hafarstykki með jarðaberjasultu

Ef þetta veður er ekki kjörið til þess að dunda sér í eldhúsinu þá veit ég ekki hvað. Síðan er jú líka svo brjálæðislega notalegt að setjast niður með nýbakað kvöldkaffi þegar rigningin ber rúðurnar. Ég bakaði um daginn hafrastykki sem strákarnir mínir elskuðu og mig grunar að þeir hafi borðað þau í öll mál daginn eftir því þau voru búin þegar ég kom heim úr vinnunni.

Hafarstykki með jarðaberjasultu

Uppskriftin kemur frá Ree Drummond sem er kannski betur þekkt sem The Pioneer Woman. Ég á nokkrar af matreiðslubókunum hennar og get lofað að uppskriftirnar klikka aldrei! Þessi uppskrift var engin undantekning. Hafrastykkin minna óneytanlega á hjónabandssælu og kannski helsti munurinn sá að það er jarðaberjasulta í þeim. Skemmtileg tilbreyting sem vert er að prófa!

Hafarstykki með jarðaberjasultu

Hafrastykki með jarðaberjasultu – uppskrift frá The pioneer woman

  • 200 g smjör
  • 250 g hveiti
  • 140 g haframjöl
  • 200 g púðursykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • ¼ salt
  • 1 krukka St. Dalfour jarðaberjasulta (284 g)

Hitið ofninn í 175° og smyrjið (eða klæðið með smjörpappír) form sem er um 22 x 33 cm að stærð.

Blandið saman hveiti, haframjöli, púðursykri, lyftidufti og salti. Skerið smjörið í bita og blandið saman við þurrefnin þannig að úr verði gróf mylsna. Setjið helminginn af mylsnunni í formið og þrýstið henni í botninn á því. Setjið sultuna yfir. Setjið seinni helminginn af mylsnunni yfir og þrýstið aðeins yfir hana.

Bakið í 35-40 mínútur. Látið kólna í forminu og skerið síðan í bita.

Hafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultu

Mjúk appelsínukaka

Mjúk appelsínukaka

Eftir annasömustu viku í langann tíma og alveg svakalega byrjun á helginni þá langar mig að gera alveg ofboðslega lítið í dag. Nýta þetta fallega veður í góðann göngutúr, baka köku með kaffinu og eyða kvöldinu í náttfötum í sjónvarpssófanum horfandi á The Good Wife.

Mjúk appelsínukaka

Ef það eru fleiri en ég í bökunarhugleiðingum þá er ég með uppskrift af æðislegri appelssínuköku sem allir kunnu að meta hér á bæ. Yfir kökuna bræddi ég einfaldlega suðusúkkulaði sem fór vel með appelsínubragðinu en það má líka bara sigta flórsykur yfir hana eða gera glassúr úr flórsykri og ferskum appelsínusafa.

Mjúk appelsínukaka

Mjúk appelsínukaka

  • 1 ½ bolli hveiti
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  • ½ bolli sykur
  • 2 egg
  • 3 msk mjólk
  • ¾ bolli nýkreistur appelsínusafi (u.þ.b. 3 appelsínur)
  • ½ bolli olía (ekki ólífuolía)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 5-6 msk fínrifið appelsínuhýði (u.þ.b. 3 appelsínur)
  • Smá salt

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel.

Sigtið saman þurrefnin í skál og blandið þeim saman.

Hrærið egg, mjólk, appelsínusafa, olíu, appelsínuhýði og vanilludropa saman í annari skál. Blandið þurrefnunum varlega saman við í skömmtum og hrærið þar til allt hefur blandast vel. Passið að hræra ekki deigið of lengi. Setjið deigið í smurt kökuformið og bakið í 30-40 mínútur, eða þar til prjóni sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp.

McDonalds möffins með Dumle

Mc´Donalds möffins með Dumle
Ég hef í fleiri mánuði ætlað mér að fara yfir myndinar á flakkaranum mínum. Þær eru svo margar og nánast bara af mat, hálf glatað eitthvað. Ég verð að verða duglegri að taka myndir af daglega lífinu og krökkunum. Í gærkvöldi voru strákarnir að læra undir próf svo ég ákvað að nýta tækifærið og hefjast handa við að hreinsa út af diskinum. Það gekk nú ekki betur en svo að ég eyddi ekki einni einustu mynd út því ég rak strax augun í þessar möffins sem mig langaði að baka. Ég hélt að uppskriftin hefði farið á bloggið á sínum tíma en eftir að hafa leitað að færslunni í dágóða stund varð ég að játa mig sigraða. Annað hvort er færslan gjörsamlega týnd og tröllum gefin, eða að hún fór hreinlega aldrei inn.
Mc´Donalds möffins með Dumle
Ég ákvað því að koma færslunni inn því möffinsin voru svakalega góð en þá tók næsta vandamál við. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvar ég hefði fengið uppskriftina. Ég fór í gegnum Pinterest, bookmarks í tölvunni hjá mér og byrjaði að fletta í gegnum uppskriftamöppur þegar þetta loksins rifjaðist upp fyrir mér. Þetta kennir mér að setja uppskriftirnar strax inn á bloggið, því annars er hætta á að ég finni þær ekki aftur.
Mc´Donalds möffins með Dumle
Þar sem kvöldið fór að mestu leiti í að leita að uppskriftinni varð ekkert úr bakstrinum hjá mér en uppskriftinni ætla ég að koma örugglega fyrir hér á blogginu svo ég geti gengið að henni vísri næst þegar löngunin grípur mig. Þessi möffins eru nefnilega fullkomin! Á Svíþjóðarárum mínum var ég fastakúnni á McDonalds og ég hefði nú getað sparað mér ansi margar ferðir þangað hefði ég átt þessa uppskrift þá. Vinkonur mínar eru enn að hlægja af því þegar afgreiðslukonan í bílalúgunni á McDonalds staðnum mínum benti mér vingjarnlega á að þeir seldu líka jógúrt. Þetta er að eflaust ekki uppskriftin frá McDonalds en með tveimur tegundum af súkkulaði OG Dumle karamellum (sem er ekki í möffinsinu þar) gefa þær þeim ekkert eftir!
McDonalds möffins með Dumle (uppskriftin gefur 12 stór möffins) – uppskrift úr Veckorevyn
  • 130 g brætt smjör
  • 2 dl sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 5 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • smá salt
  • 1 ½ dl kakó
  • 1 ¾ dl súrmjólk
  • 75 g grófhakkað dökkt súkkulaði
  • 75 g grófhakkað rjómasúkkulaði
  • 20 Dumle karamellur, grófhakkaðar

Hitið ofninn í 200° og raðið 12 möffinsformum á ofnplötu (best er þó að setja þau í möffinskökuform sé það til).

Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, vanillusykri, kakói og salti í skál.

Hrærið brædda smjörið, súrmjólk, sykur og egg saman í annari skál. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman í slétt deig. Hrærið ¾ af hakkaða súkkulaðinu og helmingnum af Dumle karamellunum í deigið. Setjið deigið í möffinsformin og stráið því sem eftir var af súkkulaðinu og Dumle karamellunum yfir. Bakið í miðjum ofni í 15-18 mínútur.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Það fór eflaust ekki framhjá neinum að Justin Bieber hélt tónleika í Kórnum hér í Kópavogi fyrir helgi (ja, nema kannski honum sjálfum sem hélt að hann væri staddur í Reykjavík þegar hann heilsaði tónleikagestum). Þar sem við búum í Kórahverfinu og strákarnir ganga í unglingadeild Hörðuvallaskóla, sem er staðsett í sjálfum Kórnum, er óhætt að segja að við vorum með í stuðinu. Krakkarnir skelltu sér á tónleikana en ég hélt mér heima við og bakaði köku sem ég bauð upp á eftir tónleikana.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Og það var engin smá kaka! Mýksta súkkulaðikaka sem hægt er að hugsa sér með mjúku smjörkremi á milli botna. Krakkarnir voru að vonum alsælir þegar þeir komu heim og á móti þeim tók bökunarlykt og nýbökuð súkkulaðikaka stóð á borðinu. Þau voru fljót að skipta yfir í þægilegri föt og koma sér vel fyrir, enda nóg að ræða eftir að hafa loksins barið Bieberinn augum. Ljúfur endir á frábæru kvöldi hjá þeim.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Hershey´s súkkulaðikaka (jább, uppskriftin er aftan á kakóboxinu)

  • 2 bollar sykur
  • 1  3/4 bolli hveiti
  • 3/4 bolli kakó
  • 1 ½ tsk. lyftiduft
  • 1 ½ tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 egg
  • 1 bolli mjólk
  • ½ bolli olía (ekki ólívuolía)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 bolli sjóðandi vatn

Hitið ofninn í 175°. Blandið sykri, hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti saman. Bætið eggjum, mjólk, olíu og vanillu saman við og hrærið vel. Hrærið sjóðandi vatni varlega saman við. Setjið deigið í 2 smurð bökunarform með lausum botni (ég var með þrjú minni form) og bakið í 25-30 mínútur. Látið botnana kólna í 15 mínútur í formunum, takið þá síðan úr formunum og látið þá kólna alveg áður en kremið er sett á.

Smjörkrem

  • 12 msk mjúkt smjör
  • 5 ½ bolli flórsykur
  • 1 bolli kakó
  • 2/3 bolli mjólk
  • 2 tsk vanilludropar
Setjið smjör í skál. Setjið um 1/3 af flórsykrinum saman við og hrærið vel. Setjið þá um 1/3 af mjólkinni og vanilludropana saman við og blandið vel. Þar á eftir er um 1/3 af kakóinu sett út í og blandað vel. Endurtakið þar til allt er komið í skálina. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir kökuna.

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Mikið tekur september vel á móti okkur, með fallegasta haustveðri sem hugsast getur. Haustið hefur alltaf heillað mig, með sínum fallegu litum í náttúrunni og haustloftinu sem er svo brakandi ferskt. Síðan er það rútínan sem á svo vel við mig, þegar skólarnir byrja hjá krökkunum og allt fer í gang. Grillkvöldum er skipt út fyrir súpur og hægeldaða pottrétti og ég tek þessu öllu fagnandi.

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Um helgina mun ég ekki bjóða upp á hægeldaðan haustmat heldur hafa strákarnir óskað eftir mexíkóskri kjúklingasúpu annað kvöld á laugardagskvöldinu er ég að fara á árshátíð. Þá munu krakkarnir eflaust borða lasagna sem ég á í frystinum. Ég bauð þó upp á dásamlega hindberjaköku í eftirrétt um daginn sem ég ætla að baka aftur núna um helgina. Kakan er súpereinföld, með bara 5 hráefnum og tekur enga stund að gera. Stundum er það einfalda bara best. Kakan á að vera aðeins blaut í sér og kanturinn seigur, passið því að ofbaka hana ekki. Ég bar kökuna fram heita með vanilluís sem var svakalega gott, en léttþeyttur rjómi fer eflaust líka stórvel með.

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Hindberjakaka (uppskrift frá Hembakat)

  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 100 g smjör, brætt
  • 2-3 dl hindber, fersk eða frosin

Hitið ofninn í 180°. Hrærið egg og sykur ljóst og létt. Bætið hveiti og bræddu smjöri saman við og hrærið blöndunni varlega saman í deig. Setjið deigið í smelluform (23-24 cm) sem hefur verið smurt eða klætt með bökunarpappír. Setjið hindberin yfir deigið og stráið smá sykri yfir. Bakið í miðjum ofni í 45 mínútur.

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!