Pylsupasta með piparostasósu – Gunnar Berg eldar

Pylsupasta með piparostasósu

Ég sá að læknirinn í eldhúsinu leyfir dóttir sinni að sjá um kvöldmatinn einu sinni í viku. Mér þykir það stórsniðugt og ákvað að stela hugmyndinni eins og hún leggur sig. Við ákváðum að byrja með að prófa þetta í október, Malín sá um kvöldmatinn þriðjudagskvöldið í síðustu viku og Gunnar í þessari viku.

Pylsupasta með piparostasósu

Það er áhugavert að sjá hvað krakkarnir velja að hafa í matinn og gaman að sjá hvað þau eru áhugasöm. Malín ætlaði að steikja fisk en breytti yfir í soðinn fisk á síðustu stundu. Gunnar valdi að elda pylsupasta. Ég er þeim því innan handar í eldhúsinu en þau fá að spreyta sig á matseldinni sjálf. Þetta er sérlega skemmtilegt. Þessi kvöld eru orðin að tilhlökkunarefni því ég fæ gæðastund með einu barni í einu og svo er gaman að sjá þau stolt bera kvöldmatinn á borð. Læknirinn á hrós skilið, bæði fyrir skemmtilegt blogg og góða hugmynd!

Pylsupasta með piparostasósu

Pylsupasta með piparostasósu

  • 10 pylsur (ég nota SS-pylsur)
  • smjör
  • 1 piparostur
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • ½ grænmetisteningur
  • smá cayanne pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.

Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu upp úr smjörinu. Þegar pylsurnar eru komnar með fallega húð er matreiðslurjómanum hellt yfir og smátt skornum piparostinum og grænmetisteningnum bætt í. Látið sjóða þar til osturinn hefur bráðnað og smakkið til með cayanne pipar.

Pasta carbonara

Pasta carbonara

Ég ætla að eyða kvöldinu í saumaklúbbi með vinkonum mínum en áður en ég ríf mig af stað ætla ég að gefa ykkur æðislega uppskrift að pasta carbonara. Ég hef ekki tölu á hversu margar uppskriftir af pasta carbonara ég hef prófað og í síðustu viku prófaði ég enn eina uppskriftina. Í þetta sinn held ég að ég hafi hitti á þá réttu og að leit mín að hinni fullkomnu carbonara uppskrift sé þar með lokið.

Pasta carbonara

Það er ekki hægt annað en að elska þennan rétt. Hann er svo æðislega góður og það tekur enga stund að útbúa hann sem getur hentað vel í amstri dagsins. Þar sem við erum svo sannarlega ekki á kolvetnasnauðu fæði þá fengum við okkur hvítlauksbrauð með. Svo ólýsanlega gott.

Pasta carbonara

Pasta Carbonara (uppskrift frá The pioneer woman)

  • 350 g pasta (hvaða tegund sem er, ég var með spaghetti)
  • 300 g beikon, skorið smátt
  • 1/2 laukur, hakkaður
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð
  • 3 egg
  • 3/4 bolli fínrifinn Parmesan
  • 3/4 bolli rjómi
  • Salt og vel af svörtum pipar

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Á meðan pastað sýður er beikonið steikt þar til það byrjar að verða stökkt. Takið beikonið af pönnunni og setjið það á eldhúspappír. Hellið fitunni af pönnunni en skolið hana ekki. Setjið pönnuna aftur á helluna, lækkið hitann í miðlungslágann (ég nota stillingu 3 af 9) og steikið lauk og hvítlauk þar til mjúkt og komið með gylltan lit. Leggið til hliðar.

Hrærið saman eggjum, fínrifnum parmesan, rjóma, salti og pipar í skál og leggið til hliðar.

Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af (geymið þó 1-2 dl af pastavatninu) og pastað sett aftur í pottinn. Hellið parmesaneggjablöndunni hægt út í og hrærið stöðugt í pastanu á meðan. Sósan á að hjúpa pastað. Hrærið smá af pastavatninu saman við.  Bætið beikoninu og lauknum saman við og hrærið öllu saman. Berið fram með ferskum parmesan og meira af pipar.

Pasta carbonara

Hvítlauksbrauðið var einfalt; Heimilisbrauð steikt upp úr miklu smjöri og kryddað með hvítlaukssalti.

Sveppapasta

Sveppapasta

Mér stóð fullur vilji til að blogga í gær en þegar til kastanna kom þá neitaði tölvan allri samvinnu. Nú er hún komin í viðgerð hjá Apple og ég vonast til að fá hana sem fyrst aftur því hennar er sárlega saknað.

Það varð því hálfgerður vandræðagangur á mér í gær og ég vissi ekki hvernig ég ætti að snúa mér í tölvuleysinu. Vissulega gæti ég bloggað úr símanum eða ipadnum en ég veit ekki hvernig ég set myndirnar þá inn. Ég ákvað því að leggjast undir feld og sofa á vandamálinu. Í morgun þegar ég vaknaði var lausnin svo augljós að ég skil ekki af hverju ég sá hana ekki strax.  Til að gera langa sögu stutta þá hef ég núna komið mér fyrir í meyjarskemmunni í borðtölvunni sem Malín fékk að taka yfir um árið. Ég gæti vel vanist því að blogga héðan, umvafin bleikum veggjum með myndum eftir Lovisu Burfitt, ilmvatnsglösum og  pjattrófubókum, og það er ekkert víst að ég fari þegar ég fæ tölvuna mína aftur.

Sveppapasta

Við vorum með einfaldan og fljótgerðan pastarétt í gær sem var mjög góður. Jakob hjálpaði til en hann er sá sem sýnir eldamennskunni mestan áhuga af börnunum og skottast iðulega í kringum mig í eldhúsinu. Í gær skar hann sveppina og laukinn, hrærði í pönnunni og smakkaði sósuna til. Við vorum sammála um að það hefði vel til tekist og borðuðum af bestu lyst. Með pastanu bárum við fram nýbakað New York-Times brauð sem ég hef svo oft talað um á hér á blogginu. Í gær bragðbættum við það með parmesan- og basilikusaltinu frá Nicolas Vahé sem fór vel með pastaréttinum.

Sveppapasta (uppskrift úr Sweet Paul magazine)

  • 250 g sveppir
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk ólívuolía
  • ½ bolli vatn
  • 1 ½ bolli rjómi
  • 1 kjúklingateningur
  • gott salt og nýmalaður pipar

Sjóðið spaghetti fyrir 4-5 samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið sveppina í tvennt, saxið laukinn og hvítlaukinn. Hitið 2 msk ólívuolíu á pönnu og látið sveppina og laukana steikjast við miðlungsháan hita (ég notaði stilligu 7 af 9) þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Hellið vatni og rjóma yfir og setjið kjúklingatening út í. Látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipari.

Hellið vatninu af spaghettíinu (geymið ca ½ bolla af vatninu) og blandið spaghettíinu saman við sveppasósuna. Setjið smá af spaghettívatninu saman við og hrærið vel saman.

Berið fram með ferskrifnum parmesan osti og brauði.

Sveppapasta

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Við erum ósköp löt eftir þessa stuttu vinnuviku. Það er alltaf jafn erfitt að þurfa að vakna aftur og gera eitthvað af viti eftir svona góð frí. Í kvöld nennti ég ómöglega að standa í eldhúsinu en eins og svo oft áður langaði okkur samt í eitthvað gott.

Ég leitaði í smiðju Nigellu og fann þessa einföldu uppskrift sem reyndist bjargvættur okkar í kvöld. Og þvílík dásemd sem þessi réttur var. Með svona fáum hráefnum og lítilli fyrirhöfn voru væntingarnar ekki miklar og því kom skemmtilega á óvart hvað rétturinn reyndist góður. Strákarnir voru yfir sig hrifnir og eftir matinn báðu þeir mig um að elda réttinn fljótlega aftur. Það þarf ekki að vera flókið til að vera gott.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

  • 2 msk hvítlauksólívuolía
  • 250 g beikon
  • 250 g spaghetti
  • steinselja (má sleppa)
  • ferskur parmesanostur (má sleppa)

Hitið ofninn í 240°.  Fyllið stóran pott af vatni og látið suðuna koma upp.

Setjið hvítlauksólívuolíu í botn á ofnskúffu eða eldföstu móti. Skerið beikon í bita og blandið saman við olíuna, reynið að láta hana þekja allt beikonið.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Þegar vatnið byrjar að sjóða er spaghettíið sett í pottinn og beikonið sett í ofninn. Spaghettíið og beikonið þurfa svipaðan eldunartíma, ca 10 mínútur.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Þegar spaghettíið er fullsoðið er 1 bolli af spaghettívatninu lagður til hliðar og restinni hellt af. Takið beikonið úr ofninum og bætið spaghettíinu í ofnskúffuna. Blandið vel saman og bætið spaghettívatninu sem var lagt til hliðar varlega saman við. Byrjið smeð smá og bætið við eftir þörfum.

Það er gott að bera réttinn fram með ferskri steinselju og ferskrifnum parmesan og mér þykir nauðsynlegt að mylja svartan pipar yfir hann.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Í dag er engin venjulegur dagur því hér fögnum við stórafmæli. Það er ótrúlegt að liðin séu 10 ár síðan við Öggi keyrðum snemma morguns á fæðingadeildina í Uppsölum. Ég man að við stoppuðum á ljósum á leiðinni og mér var litið á bílana í kringum okkur og sagði við Ögga; „Hugsa sér, hér er allt þetta fólk á leið til vinnu en við erum að fara að eignast tvö börn“. Lítið vissum við hvað biði okkar og hversu óendanlega mikla gleði þessir bræður ættu eftir að færa okkur.

Við fögnuðum deginum að ósk afmælisbarnanna á Hamborgarafabrikunni. Um helgina verður afmælisboð og þeir hafa beðið um að hafa mexíkóska kjúklingasúpu og kökur í eftirrétt.

Desembermánður hefur verið sá annasamasti sem ég man eftir og mér finnst ég varla hafa gert neitt af viti í eldhúsinu. Ég eldaði þó æðislegan kjúklingarétt um daginn sem ég átti eftir að setja inn. Þessi réttur sló í gegn á heimilinu og við mælum heilshugar með honum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

  • 600 g kjúklingabringur (eða úrbeinað kjúklingalæri)
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 75 g marineraðir sólþurrkaðir tómatar + 1 tsk olía
  • 1 tsk salt + 3/4 tsk salt
  • ferskmalaður pipar
  • 1 lítill púrrulaukur
  • 1 msk + 1 msk olía
  • 1 dl vatn

Hitið ofninn í 200°. Mixið sýrðum rjóma, sólþurrkuðum tómötum og 1 tsk af olíunni af tómötunum saman með töfrasprota. Kryddið með 1 tsk salti og nokkrum snúningum úr piparkvörninni. Fletjið bringurnar út (ef þær eru mjög þykkar getur verið gott að kljúfa þær) og setjið 1/3 af tómatamaukinu á þær. Rúllið bringunum upp og festið með tannstöngli. Kryddið með 3/4 tsk salti og smá pipar og brúnið á pönnu í 1 msk af olíu  þannig að bringurnar fái fallegan lit. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í ofninn í ca 10 mínútur.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er sósan útbúin. Hreinsið púrrulaukinn, kljúfið hann og skerið í þunnar sneiðar. Steikið púrrulaukinn í 1 msk af olíu í ca 3 mínútur. Bætið því sem eftir var af tómatmaukinu á pönnuna ásamt vatni og látið sjóða saman í ca 1 mínútu.  Takið kjúklinginn úr ofninum og hellið sósunni yfir hann. Setjið aftur í ofninn þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, eða ca 10 mínútur.

Berið kjúklinginn fram með pasta og ruccola eða spínati.

Ofnbakaður kjúklingur með sólþurrkuðum tómötum

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Ég hef lítið stússast í eldhúsinu þessa vikuna þar sem það hefur verið ótrúlegt útstáelsi á mér á kvöldin. Á meðan ég hef setið með vinkonum mínum yfir dýrindis kræsingum hef ég lítið skipt mér af því sem fjölskyldan hefur borðað hér heima. Í gær tók ég þó aftur yfir eldhúsinu og eldaði mjög einfaldan en góðan pastarétt sem tók ekki nokkra stund að gera.

Þessi réttur uppfyllti allar mínar kröfur í gær, það tók enga stund að útbúa hann og öllum þótti hann góður. Krakkarnir fengu sér aftur á diskinn og sumir meira að segja fjórum sinnum. Þau voru öll á einu máli um að rétturinn yrði að fara á bloggið og ég tók undir með þeim. Svona uppskriftir getur verið svo gott að eiga í handraðanum, sérstaklega þegar jólastressið er handan við hornið og enginn tími til að standa við eldavélina.

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

  • 2 msk ólívuolía
  • 6 stórir plómutómatar
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 grænmetisteningur (mér þykja þeir bestir frá Knorr)
  • 2 tsk hunang
  • 1 tsk balsamik edik
  • svartur pipar úr kvörn
  • 1½ dl rjómi
  • 2-3 dl vatn sem spaghettíið var soðið í
  • salt

Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið tómatana í litla bita og fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið ólívuolíu á pönnu og steikið tómata, lauk og hvítlauk. Bætið grænmetisteningi, hunangi og balsamik ediki á pönnuna og kryddið með pipar. Látið sjóða saman þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Lækkið hitann, bætið rjóma saman við og látið sjóða saman um stund. Þegar spaghettíið er tilbúið er 2-3 dl af spaghettivatninu bætt á pönnuna og rétt látið sjóða saman. Að lokum er spaghettíinu bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman.

Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

Í kvöld nutum við góðs af því að eiga afgang af kvöldmatnum síðan í gær. Við byrjuðum vikuna á pasta með kjúklingi, sveppum, hvítlauk og spínati ásamt heimabökuðu brauði með pestó og hummus. Þetta var hrein dásemd sem strákarnir voru ekki síður ánægðir með en við Öggi.

Ég eldaði hins vegar allt of mikinn mat og komst síðan að því að Malín myndi borða kvöldmat á stelpukvöldi í félagsmiðstöðinni.  Við sem eftir sátum borðuðum á okkur gat en samt sá varla högg á vatni. Ég pakkaði afgangnum inn í ískáp og var ósköp fegin að geta nýtt hann í kvöld. Þá setti ég réttinn í eldfast mót, pipraði og saltaði, og stráði rifnum osti yfir áður en ég setti hann í ofninn. Rétturinn vakti ekki minni lukku í kvöld og kláraðist upp til agna, kannski til að tryggja að hann verði ekki á borðum þriðja daginn í röð 🙂

Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

  • 2 bakkar kjúklingalæri
  • ólífuolía
  • 3 hvítlauksrif
  • pipar og gott salt (ég nota salt frá Jamie Oliver með sítrónu og timjan)

Hrærið saman ólífuolíu, pressuðum hvítlauskrifjum, pipar og salti og penslið á kjúklinginn. Eldið kjúklinginn í 180° heitum ofni þar til hann er eldaður í gegn.

  • 1 bakki sveppir
  • ½ laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1-2 dl rjómi
  • 1 grænmetisteningur

Sneiðið sveppi , fínhakkið lauk og hvítlauk og steikið við miðlungsháan hita upp úr smjöri.  Bætið sýrðum rjóma, rjóma og grænmetisteningi á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er kjötið hreinsað af beinunum og bætt út í sósuna á pönnunni ásamt soðnu pasta og fersku spínati. Kryddið með pipari og salti og berið fram með ferskum parmesan.

Franskt makkarónunámskeið hjá Salt eldhúsi og einfalt pylsupasta

Þessi vika hefur verið ein sú annasamasta í langan tíma en jafnframt æðislega skemmtileg. Ég fór á þriðjudaginn á frábært makkarónunámskeið hjá Salt eldhúsi. Ég var búin að heyra góðar sögur af því og fór full af tilhlökkun og spennu. Námskeiðið er haldið í fallegu bakhúsi á Laugarveginum og um leið og ég gekk inn vissi ég að kvöldið ætti eftir að vera gott. Okkur var strax boðið upp á kaffi og heimabakaðar sörur og allir fengu uppskriftarmöppu. Síðan var byrjað að baka makkarónurnar og það sem ég naut mín. Ég vildi ekki að kvöldið tæki enda og það hreinlega flaug frá mér. Þegar ég kom heim var ég svo uppnumin og langaði svo til að segja Ögga frá því hversu dásamlegt kvöldið hafði verið en ég gat það ekki. Það er svo erfitt að lýsa svona upplifun, andrúmsloftið var svo notalegt og umhverfið svo fallegt. Ég er enn að hugsa um hvað súpan og heimabakaða brauðið sem boðið var upp á í matarpásunni var gott og bíð spennt eftir að borða makkarónurnar sem eru svo fallegar að ég er alltaf að opna ískápinn bara til að kíkja á þær. Ég er að spara þær til kvöldsins því þá ætlum við Öggi að fá okkur kampavínsglas og makkarónur og ímynda okkur að við séum í París.

Ég sá að nú var að byrja nýtt námskeið fyrir jólin, Jóla-Galdrar. Þar á að búa til konfekt, baka sörur, gera chutney, paté, rauðkál og margt fleira spennandi og ég er þegar búin að skrá mig.  

Þar sem vikan var svona þéttbókuð þá hef ég ekki náð að sinna blogginu eins og ég vil. Núna er ég hins vegar búin að svara þeim spurningum  sem ég hef fengið, bæði í kommentum og á tölvupóstum, og ég vona að ekkert hafi farið framhjá mér. Enn og aftur vil ég þakka allar fallegu kveðjurnar og kommentin, mér þykir svo gaman að heyra frá ykkur og þið gerir bloggið svo skemmtilegt. Þúsund þakkir og takk fyrir mig.

Á öllum þessum handahlaupum hefur lítill tími gefist til dundurs í eldhúsinu. Þessi einfaldi pastaréttur varð til í einum hvelli og öllum þótti mjög góður. Notið þau krydd sem ykkur þykja góð og smakkið til.

Einfalt pylsupasta

  • 10 pylsur
  • 1 laukur
  • 1-2 grænar paprikur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • krydd lífsins frá Pottagöldrum
  • basil
  • oregano
  • timjan
  • cayenne pipar
  • salt
  • smjör

Skerið pylsur í bita og laukinn smátt. Steikið upp úr smjöri á pönnu. Bætið rjóma og sýrðum rjóma á pönnuna ásamt kryddum. Að lokum er fínhökkaðri papriku bætt út í og látið sjóða þar til hún verður mjúk. Berið fram með pasta.

Pasta með púrrulauk og beikoni

Það er búið að vera prógram á hverju kvöld þessa vikuna og við erum farin að þrá afslappað heimakvöld með góðum mat og félagsskap hvors annars. Í kvöld var Öggi á námskeiði yfir matartímann og ég var farinn á fund í fimleikunum hans Gunnars áður en hann kom heim. Mér þykir alltaf leiðinlegt þegar það vantar einhvern við matarborðið á kvöldin og sem betur fer þá gerist það sárasjaldan.

Í kvöld eldaði ég enn og aftur upp úr ársblaðinu hans Jamie Oliver. Það virðist vera hægt að elda hvaða rétt sem er úr þessu blaði, það er allt alveg æðislega gott. Þar sem lítill tími gafst fyrir matargerð í kvöld þá var ég búin að ákveða að elda pastarétt. Þegar ég var að byrja á matnum sá ég hins vegar að ég átti ekki nógu mikið af sýrðum rjóma í réttinn. Ég elska sýrðan rjóma og á hann alltaf til í ískápnum en núna var hann nánast búinn. Ég notaði það litla sem ég átti og setti svo rjóma í staðinn. Rétturinn varð svo góður að ég held að ég muni halda mig við hann þannig. Öggi borðaði þegar hann kom heim og það fyrsta sem hann sagði þegar ég kom heim var hversu rosalega góður pastaréttur þetta væri.

Pasta með púrrulauk og beikoni (ath uppskriftin er fyrir 2)

  • ólívuolía
  • smjör
  • 2 hvítlauksrif, skorin í fínar sneiðar
  • 400 g púrrulaukur, skorinn í 1 cm hringi
  • laufin af nokkrum timjanstöglum (ég notað þurrkað timjan)
  • 4-5 beikonsneiðar, hakkað
  • 1 msk gróft sinnep (ég notaði dijon sinnep og smá af chili sinnepi frá Niclas Vahé sem er í algjöru uppáhaldi)
  • 4 msk sýrður rjómi (ég var með ca 2 msk af sýrðum rjóma og ca 1 dl af rjóma)
  • 200 g gnocchi eða annað pasta
  • rifinn parmesan

Hitið olíu og smjör á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið hvítlaukinn á pönnuna og steikið í 1 mínútu, þar til hann er orðinn gylltur. Bætið púrrulauk og timjan á pönnuna og látið malla við vægan hita í 15 mínútur. Hrærið oft í pönnunni, laukurinn á að verða mjúkur og klístraður án þess að brúnast. Takið laukinn af pönnunni, setjið meiri olíu á hana og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Bætið sinnepi, smá vatni og lauknum á pönnuna og eldið í um mínútu. Setjið sýrða rjómann (og rjómann ef þið notið hann) á pönnuna og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita um stund.

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakningu. Hellið vökvanum af og bætið soðnu pastanu á pönnuna . Blandið pasta og lauk vel saman. Berið fram með ferskrifnum parmesan osti og pipar.

Ragù með pasta

Eftir góðan endasprett í Berlín komum við heim klukkan þrjú í nótt. Við ætluðum ekki að trúa því þegar vekjaraklukkan hringdi í morgun og það var mikið þrekvirki að komast á fætur eftir allt of lítinn svefn. Dagurinn leið þó hratt og áður en ég vissi af var vinnudeginum lokið og ég farin að huga að kvöldmat.

Við Öggi vorum farin að þrá heimaeldaðan mat og ég ákvað að hafa hann einfaldan í kvöld. Það voru skiptar skoðanir um ágæti þessa rétts, við Malín voru ekkert yfir okkur hrifnar á meðan Ögga og strákunum þótti maturinn stórgóður og borðuðu á sig gat.

Kvöldinu ætlum við að eyða fyrir framan sjónvarpið í langþráðri afslöppun. Við keyptum okkur uppáhalds súkkulaðið okkar í Berlín og ætlum að gæða okkur á því. Ég get ekki hugsað mér neitt betra þessa stundina en sjónvarpssófann og súkkulaðið.

Ragù með pasta

  • 500 gr pasta (ég var með lífrænt heilhveiti penne)
  • 400 gr nautahakk
  • 2 msk ólivuolía
  • 1 laukur
  • 4 dl grænmetiskraftur
  • 120 gr Philadelphia vitlök & örter
  • rifinn parmesan
  • salt og pipar

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkningu. Fínhakkið lauk og steikið í olíu þar til hann hefur fengið fallegan lit. Bætið nautahakkinu á pönnuna og steikið það vel. Hellið grænmetiskraftinum yfir og látið sjóða í 30 mínútur. Hrærið reglulega í pönnunni.

Blandið Philadelphia ostinum á pönnuna og smakkið til með pipar og salti.  Blandið saman við pastað og hrærið vel saman. Berið fram með ferskrifnum parmesan osti.