Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

 

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Páskafríið í ár hefur verið óvenju ljúft og við höfum lítið annað gert en að slappa af og borða. Við byrjuðum fríið á að bjóða mömmu og bróður mínum hingað í kjúklingaborgara sem voru bornir fram í smjörsteiktu brioche brauði, með æðislegri hvítlaukschilisósu, pækluðum rauðlauk og gúrku, avokadó og helling af kóriander. Súpergott!! Sem meðlæti djúpsteikti ég bæði venjulegar franskar og sætkartöflufranskar. Mamma sagðist aldrei hafa fengið jafn góða borgara og bróðir minn borðaði svo yfir sig að hann var enn saddur daginn eftir.

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Kjúklingaborgarar (uppskrift frá Matplatsen)

  • 4 brioche hamborgarabrauð
  • 4 kjúklingabringur (150 g hver)
  • 1 dl hveiti
  • 2 tsk chilikrydd
  • 2 tsk kúmín (ath. ekki kúmen)
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 tsk salt
  • 1-2 egg
  • 2-4 dl panko (japanskt rasp)
  • kóriander og avókadó til að bera kjúklingaborgarann fram með

Ef kjúklingabringurnar eru þykkar þá er byrjað á að skera þær í tvennt til að fá þær þynnri. Kjúklingabringurnar eru síðan barðar út t.d. með buffhamri.

Blandið hveiti og kryddum saman í grunna skál. Hrærið eggið aðeins upp og setjið í aðra skál. Setjið panko í þriðju skálina. Veltið kjúklingabringunum fyrst upp úr hveitiblöndunni, síðan egginu og að lokum panko. Djúpsteikið kjúklinginn við 160° þar til hann er gylltur og stökkur. Látið renna af honum á eldhúspappír.

Takið brioche hamborgarabrauðin í sundur og steikið í smjöri á pönnu við miðlungshita þar til þau hafa fengið fallegan lit.

Hvítlaukschilisósa:

  • 4 hvítlauksrif
  • hálft lime
  • 1 dl mæjónes
  • 1 dl sýrður rjómi
  • chilisósa eftir smekk (byrjið með 2 msk og smakkið ykkur áfram)

Pressið hvítlaukinn og safann úr lime og blandið með mæjónesi og sýrðum rjóma. Bætið chilisósunni saman við að lokum eftir smekk.

Hraðpækluð gúrka:

  • 1 agúrka
  • 1 msk borðsedik
  • 1 dl vatn
  • 2 msk sykur
  • salt og svartur pipar

Skerið gúrkuna í þunnar sneiðar með ostaskera. Blandið borðsediki, vatni og sykur saman og smakkið til með salti og pipar. Hellið yfir gúrkuna.

Pæklaður rauðlaukur:

  • 2 rauðlaukar
  • safinn úr 2 lime
  • 1/2 dl eplaedik
  • salt

Skerið rauðlaukinn í þunnar sneiðar og blandið saman við hin hráefnin. Látið standa í amk 15 mínútur áður en borið fram.

Setjið hamborgarana saman með sósu, djúpsteiktum kjúklingnum, avókadó, pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og helling af kóriander.

Tælenskur kjúklingur með kókos

Tælenskur kjúklingur með kókos

Við Malín ætlum að eyða kvöldinu saman yfir Jane the virgin en ég sagði henni að ég yrði fyrst að fá að blogga örstutt því ég luma á svo æðislegri uppskrift. Þessi réttur getur ekki annað en vakið lukku, sósan er svo brjálæðislega bragðgóð,  bæði bragðmikil og með smá sætu. Þið verðið að prófa!

Tælenskur kjúklingur með kókos

Tælenskur kjúklingur með kókos

  • 3-4 kjúklingabringur
  • 4 dl rjómi
  • ½ dós sýrður rjómi (má sleppa)
  • 1 dl chilisósa
  • ½ – 1 dl ostrusósa
  • 1 rauð paprika
  • 1 gul paprika
  • 1 lítill púrrulaukur
  • lítill brokkólíhaus
  • 2 tsk rifið engifer
  • 1 tsk sambal oelek
  • 2-3 pressuð hvítlauksrif
  • 2 msk sojasósa
  • 1 msk mango chutney
  • 2 msk kókosmjöl
  • salt og pipar

Skerið kjúklingabringurnar í bita, saltið og piprið og steikið upp úr olíu. Takið af pönnunni.

Skerið grænmetið í strimla og snöggsteikið, kryddið með salti og pipar og setjið hvítlaukinn með á pönnuna. Bætið kjúklingnum á pönnuna ásamt öllum öðrum hráefnum fyrir utan kókos, látið hann með undir lokin. Látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, eða þar til sósan fer að þykkna. Leyfið réttinum gjarnan að standa í smá stund og hitið hann jafnvel aftur áður en hann er borin fram.

Tælenskur kjúklingur með kókos

 

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi og jólagjafahugmynd

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Ég eignaðist um daginn svo æðisleg eldföst mót sem mér datt í hug að benda á, því mér þykja þau vera sniðug jólagjafahugmynd. Kosturinn við þessi eldföstu mót eru að það er lok á þeim og þau mega fara bæði í ofn og í frysti. Það er því svakalega þægilegt að geyma það sem eftir verður af matnum í þeim, lokinu er bara skellt yfir mótið og sett í kæli eða frysti. Eins er hægt að undirbúa rétti og geyma tilbúna í mótunum í frysti.

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesiKlúbbsamloka með sweet chilli majónesi

En að uppskriftinni sem ég ætlaði að setja hingað inn fyrir helgina en náði því ekki. Ég var nefnilega í jólasaumaklúbbi á fimmtudagskvöldinu og á jólahlaðborði í gærkvöldi. Í kvöld væri ég til í þessar samlokur en ég gerði þær um daginn og þær voru svoooo góðar! Frábær helgarmatur og ekki skemmir fyrir að djúpsteikja franskar með (kannski önnur gjafahugmynd, djúpsteikingarpottur? Frábært t.d. að djúpsteikja camembert í þeim). Uppskriftin virðist kannski flókin og hráefnalistinn langur en þegar betur er að gáð þá er þetta nokkuð einfalt og mikið af hráefnunum geta leynst í eldhússkápunum. Uppskriftin gefur fjórar samlokur.

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Klúbbsamloka með sweet chilli (uppskrift úr Buffé)

3/4 dl sweet chillisósa
1 msk ferskpressaður sítrónusafi
2 msk rapsolía
4 kjúklingabringur
salt
svartur pipar
rapsolja til að steikja í
140 g beikon
2 tómatar
1 rauðlaukur
1/4 agúrka
6 sneiðar af franskbrauði
Lambhagasalat

Sweet chilli-majónes
2 eggjarauður
1/2 msk hvítvínsedik
3/4 dl sweet chillisósa
salt
svartur pipar
2 dl rapsolía
1 msk fínhökkuð steinselja (ég sleppti því)
1 msk fínhakkað rautt chilli

Hrærið saman sweet chilli, sítrónusafa og rapsolíu. Hellið marineringunni í plastpoka, leggið kjúklinginn í og lokið fyrir. Látið standa í ísskáp í 2 klst.

Sweet chilli majónes:

Hrærið saman eggjarauður, edik, sweet chillisósu, salt og pipar. Bætið olíunni saman við, fyrst ein og einn dropa í einu og síðan í mjórri bunu, og hrærið stöðugt í á meðan (gott að nota handþeytara). Hrærið steinselju og chilli saman við.

Hitið ofninn í 175°. Kryddið kjúklingabringurnar með salti og pipar. Steikið upp úr olíu í um 3 mínútur á hvorri hlið, þar til þær hafa fengið fallegan lit. Setjið kjúklingabringurnar síðan í ofninn í 15-20 mínútur, þar til þær eru full eldaðar. Á meðan er beikonið steikt þar til stökkt og látið renna af því á eldhúspappír.

Skerið tómat, rauðlauk og agúrku í þunnar sneiðar. Hækkið hitastigið á ofninum upp í 225°. Kanntskerið brauðið og skerið hverja brauðsneið í tvennt horna á milli, þannig að úr verði þríhyrningar. Ristið brauðið í ofninum í um 3 mínútur á hvorri hlið. Setjið samlokurnar saman á eftirfarandi máta: Leggið brauðsneið (þríhyrning) á disk og smyrjið með majónesi. Leggið salatblað, lauk, tómat, agúrku, beikon og kjúklingasneiðar yfir. Setjið aðra brauðsneið yfir og endurtakið leikin. Endið á að setja þriðju brauðsneiðina yfir og stingið grillspjóti í gegnum samlokuna til að halda henni saman. Berið fram með chillimajónesinu.

Mexíkóskt kjúklingalasagna

Mexíókskt kújklingalasagna

Síðasta sunnudag dustaði ég rykið af uppskrift sem var í miklu uppáhaldi hjá mér hér áður fyrr. Ég komst að því að hún hefu elst vel og er enn jafn góð og mig minnti. Alveg æðislega góð.

Mexíókskt kújklingalasagna

Hér áður fyrr notaði ég uppskriftina við hvert tækifæri sem gafst og bauð upp á réttinn í afmælisveislum, saumaklúbbum og matarboðum. Hann vakti nefnilega alltaf lukku og gerir það greinilega enn. Við vorum sjö manns í mat, allir borðuðu vel og það varð samt smá afgangur þannig að rétturinn er drjúgur. Ég bar lasagnað fram með salati, nachos (svart Doritos, uppáhald!), sýrðum rjóma og guacamole. Súpergott og frábær helgarmatur!

Mexíókskt kújklingalasagna

Mexíkóskt kjúklingalasagna (uppskrift fyrir 6-8)

  • 5-6 kjúklingabringur (þetta er ekki svo nákvæmt, einn poki af frosnum bringum er gott)
  • ½ laukur
  • 1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur
  • 1 bréf burritos kryddmix
  • 2 krukkur af salsa sósu (medium eða sterkar, jafnvel ein af hvoru)
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • smá klípa af rjómaosti (má sleppa)
  • tortillur (1 pakki af minni gerðinni)
  • Mozzarella ostur

Skerið laukinn og paprikuna fínt og kjúklingabringurnar í litla bita. Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita (ég nota stillingu 7 af 9). Steikið laukinn og paprikuna þar til byrjar að mýkjast, bætið þá kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram. Hellið kryddinu yfir og steikið í smá stund til viðbótar. Hellið salsasósum og matreiðslurjóma yfir og látið suðuna koma upp. Hrærið rjómaosti saman við sé hann notaður. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Setjið tortillaköku í botn á eldföstu formi (það gæti þurft að klippa þær til þannig að þær passi betur). Setjið kjúklingasósuna yfir og síðan á víxl tortillakökur og kjúklingasósu. Endið á kjúklingasósunni. Stráið mozzarella osti yfir (mjög gott að nota ferskan) og inn í 180° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Mexíókskt kújklingalasagn

Kjúklingur í ostrusósu

Kjúklingur í ostrusósu

Fyrir helgi prófaði ég uppskrift af kjúklingi í ostrusósu sem vakti heldur betur lukku hér heima. Betra en á veitingastöðum segjum við sem vorum í mat (allir nema Malín). Klárlega nýtt uppáhald og algjör bjargvættur þegar ekki gefst tími til að standa í eldhúsinu. Það tekur styttri tíma að elda réttinn en að sækja take away.

Kjúklingur í ostrusósu

Ég notaði saltaðar kajúhnetur og sleppti því að salta réttinn (kemur mjög vel út). Hneturnar bar ég fram sér þannig að hver og einn setti yfir réttinn sjálfur. Það má þó vel setja þær á pönnuna og láta þær hitna í réttinum. Ég mæli með að nota úrbeinuð kjúklingalæri, þau passa svo vel í þennan rétt. Það er t.d. hægt að kaupa þau frosin frá Rose Poultry.

Kjúklingur í ostrusósu

Kjúklingur í ostrusósu (uppskriftin passar fyrir 4-6)

  • 800 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • 1 brokkólíhaus
  • 2 gulrætur
  • 1/2 stór púrrulaukur
  • 1 rauð paprika
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 lítil flaska af ostrusósu (ég notaði frá Blue Dragon, í henni eru 150 ml)
  • 1 ½ dl vatn
  • 3 msk púðursykur
  • salt og pipar (ef þið teljið þörf á, smakkið fyrst)
  • um 200 g kasjúhnetur (saltaðar)

Skerið kjúklinginn í bita og steikið upp úr olíu á pönnu. Skerið brokkólí, gulrætur, papriku, púrrlauk í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Bætið þessu á pönnuna og steikið áfram. Hrærið saman ostrusósu, vatni og púðursykri og hellið yfir. Látið sjóða í 7-8 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað aðeins og kjúklingurinn er fulleldaður. Smakkið til með salti og pipar. Stráið kasjúhnetum yfir og berið fram (eða berið hneturnar fram í sér skál).

Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumaukiÁ morgun byrja ég að vinna eftir sumarfrí sem leið óvenju hratt. Við ferðuðumst hringinn í kringum landið og enduðum á þjóðhátíð í eyjum. Við fórum í göngur, í silfurbergsnámu, skoðuðum Austfirðina og borðuðum helling af góðum mat. Alveg eins og sumarfrí eiga að vera! Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Þetta hefur verið mikið grillsumar og ég hef enn ekki fengið nóg. Þennan kjúklingarétt grilluðum við okkur áður en við héldum í hringferðina og hann vakti lukku bæði hjá fullorðnum og börnum. Ég bar kjúklinginn fram með grilluðum paprikum og rauðlauk, nýjum kartöflum (setti þær líka á grillið í álpappír með smjöri og salti) og kaldri pestósósu sem fór stórvel með.Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Mér þykir sú aðferð að grilla í álpappírspökkum vera frábær, það er hægt að undirbúa matinn áður og þarf ekkert að hugsa um hann á meðan maturinn stendur á grillinu. Einfaldast í heimi og frábært fyrir matarboðið!

Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Toppurinn

  • 1 fetakubbur (250 g)
  • 1 dl hakkaðir sólþurrkaðir tómatar
  • 1 dl grænar ólífur
  • 1 dl svartar ólífur

Allt sett í matvinnsluvél og unnið saman í grófan massa. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá er hægt að nota töfrasprota eða hreinlega hakka allt vel saman með góðum hníf.Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumaukikjúkl.m.ólífum20Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Fyrir kjúklinginn

  • 1 poki kjúklingabringur frá Rose Poultry (900 g)
  • PAM sprey
  • salt og pipar
  • Filippo Berio sun dried tomato pesto
  • hvítmygluostur, t.d. Auður, Ljúflingur, Kastali…

Skolið kjúklingabringurnar og þerrið. Rífið álpappír í um það bil stærðinni 30 x 45 cm og spreyið með PAM. Athugið að í einn álpappírspakka fer ein kjúklingabringa, þannig að það er 1 pakki á mann. Leggið kjúklingabringuna í miðjan álpappírinn og saltið og piprið. Setjið 2 msk af pestói yfir bringuna og síðan 3 msk af ólífuhrærunni.  Lokið nú álpappírnum með því að lyfta langhliðunum upp og brjóta tvöfalt brot niður (passið að hafa loft fyrir ofan matinn fyrir gufuna sem myndast). Lokið hliðunum eins, þ.e. með tvöföldu broti, og grillið á lokuðu grilli, við miðlungsháan hita, í 25 mínútur. Takið af grillinu, opnið pakkann að ofan og leggið nokkrar sneiðar af hvítmygluosti yfir. Lokið pakkanum aftur og látið standa í nokkrar mínútur á meðan osturinn bráðnar.Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumaukiGrillaður kjúklingur með pestó og ólífumaukiGrillaður kjúklingur með pestó og ólífumaukiGrillaður kjúklingur með pestó og ólífumaukiGrillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Köld sósa

  • 100 g Philadelphia rjómaostur
  • 3 tsk Filippo Berio Classic Pesto (grænt)
  • 2 msk vatn
  • salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél (eða notið töfrasprota) og vinnið saman.Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Ristaðar furuhnetur með tamarin sósu

  • 1 poki furuhnetur (ca 70 g)
  • 1 msk Tamarin sósa

Ristið furuhneturnar á þurri pönnu þar til þær eru gylltar á lit. Hellið þá tamarin sósunni yfir og ristið áfram þar til sósan hefur þornað á hnetunum (tekur enga stund, kannski 30 sek.).Grillaður kjúklingur með pestó og ólífumauki

Teriyaki kjúklingur með steiktum hrísgrjónum

Teriyaki kjúklingurUndanfarnir dagar hafa verið brjálæðislega annasamir. Það er svo furðulegt hvernig þetta getur verið, það koma tímabil sem eru róleg og svo fer allt á fullt. Nú er allt á fullu og þá skiptir öllu að skipuleggja dagana vel.Teriyaki kjúklingur

Í gær voru átta manns hér í mat og ég gerði mér auðvelt fyrir og grillaði teriyaki kjúkling sem ég bar fram með steiktum hrísgrjónum. Svo brjálæðislega gott! Þetta er fullkominn réttur til að bjóða upp á, hvort sem tíminn er knappur eða ekki. Kjúklingurinn er settur í marineringu kvöldið áður og þar sem ég notaði kjúklingalundir þurftu þær bara örskamma stund á grillinu. Steiktu hrísgrjónin er hægt að undirbúa með því að sjóða hrísgrjónin kvöldið áður og þá tekur enga stund að klára réttinn.Teriyaki kjúklingur

Kjúklingurinn verður dásamlegur í þessari marineringu, svo bragðgóður og mjúkur. Ég studdist við þessa uppskrift af steiktu hrísgrjónunum (ég sleppti kjúklingnum sem er gefinn upp í uppskriftinni). Teriyaki kjúklingur

Teriyaki kjúklingur

  • 1 poki kjúklingalundir frá Rose Poultry (700 g)
  • 1 flaska Teriyaki marinade frá Blue Dragon (150 ml)
  • safi úr 1 sítrónu
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 1 tsk sesam olía
  • 1 tsk hunang

Blandið saman teriyaki marinade, sítrónusafa, hvítlauksrifum, sesam olíu og hunangi í skál. Skolið og þerrið kjúklingalundirnar og setjið í hreinan plastpoka (t.d. stóran nestispoka af rúllu). Hellið marineringunni yfir og blandið vel saman við kjúklinginn. Lofttæmið pokann og geymið í ísskáp í 20-24 klst.Teriyaki kjúklingur

Takið kjúklinginn úr pokanum og grillið.Teriyaki kjúklingur

Dásamlegur BBQ kjúklingur – með öllu í einum pakka!

Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!Á morgun er síðasti vinnudagur minn fyrir sumarfrí og ég get varla beðið. Það verður svo notalegt að fara í frí og gott að fá tíma til að sinna því sem hefur setið á hakanum. Það sem stendur efst á to-do listanum er að fara með krakkana á franska kartöflustaðinn sem var að opna í miðbænum. Það er búið að bíða eftir þeirri ferð síðan við lásum í blöðunum að það stæði til að opna hann. Hvað ég get sagt, sonur minn elskar franskar (og ég líka). Vonandi stendur staðurinn undir væntingum.

Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!

Annað sem hefur verið ákveðið að gera í fríinu er að fara Austfirðina með vinafólki okkar. Þar ætlum við að bjóða þeim upp á grillaðan kjúkling sem við gerðum hér heima um daginn og erum enn að dásama. Þetta er besti grillréttur sem við vitum um. Hann er algjör draumur fyrir matarboð því það er hægt að gera réttinn alveg kláran áður en gestirnir koma og það eru engar skálar eða áhöld sem þarf að vaska upp eftir matinn. Það fer allt saman í álpappír á grillið og þaðan fer maturinn beint á diskana. Hentugt og hreint út sagt súpergott!

Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!

BBQ-kjúklingur með öllu í einum pakka – gerið ráð fyrir 1 pakka fyrir börn og 2 pökkum fyrir fullorðna

  • álpappír, rifinn í ca 30 x 45 cm fyrir hvern pakka.
  • PAM sprey
  • Hunt´s Honey Hickory BBQ Sauce
  • kartöflur, skornar í sneiðar
  • sætar kartöflur, skornar í sneiðar
  • Philadelphia rjómaostur
  • úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • græn paprika, hökkuð
  • rauð paprika, hökkuð
  • rauðlaukur, hakkaður
  • sveppir, sneiddir
  • salt og pipar
  • cheddar ostur, rifinn

Fyrir hvern pakka: Rífið álpappír í stærðinni 30 x 45 cm. Spreyið yfir álpappírinn með PAM og setjið rúmlega teskeið af BBQ sósu í miðjuna á álpappírnum. Skerið kartöflur í sneiðar og leggið yfir (miðið við 1 – 1 ½ kartöflu í hvern pakka). Setjið smá Philadelphia rjómaost yfir (u.þ.b. 1- 1½ msk), og þar á eftir sætar kartöflusneiðar yfir í svipuðu magni og kartöflurnar. Setjið rúmlega teskeið af BBQ sósu yfir og leggið þar á eftir úrbeinað kjúklingalæri yfir. Saltið og piprið og setjið rúmlega teskeið af BBQ sósu yfir. Hakkið papriku og rauðlauk, sneiðið sveppi og leggið efst. Lokið nú álpappírnum með því að lyfta langhliðunum upp og brjóta tvöfalt brot niður (passið að hafa loft fyrir ofan matinn fyrir gufuna sem myndast). Lokið hliðunum eins, þ.e. með tvöföldu broti, og grillið á lokuðu grilli, við miðlungsháan hita, í 25 mínútur.

Takið af grillinu, opnið pakkana að ofan og stráið rifnum cheddar yfir. Lokið aftur og látið standa í nokkrar mínútur á meðan osturinn bráðnar.

Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!

 

Kjúklinganaggar

KjúklinganaggarMér hefur alltaf þótt kjúklinganaggar vera hálfgerður krakkamatur. Þeir eru á barnamatseðlum, bornir fram með tómatsósu og frönskum kartöflum og krakkarnir elska þá. Mér þykja þeir mjög góðir en þeir eru þó sjaldan mitt fyrsta val þegar kemur að kvöldmat. Um daginn rakst ég síðan á uppskrift af kjúklinganöggum á Pinterest sem ég ákvað að gera fyrir krakkana. Maður er jú alltaf að reyna að slá í gegn hjá þeim. Uppskriftinni breytti ég lítillega og skrifaði hana hjá mér, sem betur ferð því þeir heppnuðust frábærlega. Krakkarnir elskuðu naggana og við fullorðna fólkið líka. Frábær föstudagsmatur sem hægt er að bera fram með frönskum, salati, í tortillavefjum… möguleikarnir eru endalausir!

Kjúklinganaggar

Kjúklinganaggar

  • 1/2 bolli bragðdauf olía
  • 900 g kjúklingabringur, skornar í bita
  • salt og pipar
  • 5 dl panko (japanskur brauðraspur, ýmist í sömu hillu og venjulegur raspur eða í asísku deildinni)
  • 1 ½ dl ferskrifinn parmesan
  • 2 tsk hvítlaukskrydd
  • 1 tsk reykt paprikukrydd
  • 3 dl hveiti
  • 3 egg, hrærð

Hitið olíuna við miðlungsháan hita í djúpri pönnu. Kryddið kjúklingabitana með salti og pipar. Blandið saman panko, parmesan, hvítlaukskryddi, reyktu paprikukryddi, salti og pipar. Leggið til hliðar. Setjið hveiti í skál og leggið til hliðar. Hrærið egg í skál og leggið til hliðar. Veltið nú kjúklingabitunum fyrst upp úr hveiti, dýfið þeim síðan í eggjahræruna og veltið svo upp úr pankoblöndunni. Setjið kjúklingabitana þar eftir á pönnuna, 5-6 bita í einu, og djúpsteikið þar til gylltir og stökkir (tekur um 3-4 mínútur). Þegar kjúklingabitarnir eru teknir upp úr olíunni eru þeir lagðir á eldhúspappír. Berið strax fram.

KjúklinganaggarKjúklinganaggarKjúklinganaggarKjúklinganaggar

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Eins og mér þykir gaman að taka fram jólaskrautið fyrir aðventuna þá finnst mér líka alltaf jafn gott að pakka því niður aftur. Og á hverju einasta ári skipti ég jólaskrautinu út fyrir ferska túlípana. Mér þykir það hreinlega tilheyra því að pakka niður jólunum.

Ég hef undanfarin ár birt hér lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins og ætla að halda í þá hefð. Mér þykir alltaf áhugavert að sjá hvaða uppskriftir það eru sem hafa vakið mestu lukku og það gleður mig að sjá tvo fiskrétti á listanum í ár. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá sumar uppskriftir á listanum ár eftir ár. Ég bendi á að listann má vel nýta sem vikumatseðill, enda bæði fjölbreyttur og ljúffengur.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti er nú vinsælasta uppskrift ársins annað árið í röð. Uppskriftinni hefur verið deilt yfir 10.000 sinnum og skildi engan undra. Dásamlega góður réttur sem er í senn hollur, fljótgerður og einfaldur að útbúa.

Hakkbuff með fetaosti

Í öðru sæti er hakkabuff með fetaosti. Heimilismatur eins og hann gerist bestur!

Fiskur í okkar sósu

Í þriðja sæti er fiskur í okkar sósu. Þessi fiskréttur er einn af mínum uppáhalds og það gleður mig að sjá hann svona ofarlega á lista.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mexíkóskur mangókjúklingur var fjórða vinsælasta uppskrift ársins. Æðislegur réttur sem mér þykir passa sérlega vel á föstudagskvöldum.

Einföld og góð skúffukaka

Fimmta vinsælasta uppskrift ársins var í öðru sæti á listanum í fyrra. Einföld og góð skúffukaka sem svíkur engan og er ómótstæðileg með ískaldri mjólk.

Bananabrauð

Uppáhalds bananabrauðið heldur sjötta sæti listans frá því í fyrra. Ég vil ekki vita hversu oft ég hef bakað þetta brauð en við fáum ekki leið á því.

Mexíkósúpa

Í sjöunda sæti er mexíkósk kjúklingasúpa. Hér er á ferðinni uppskrift sem ég gríp oft til og hún vekur alltaf lukku. Dásamleg súpa í alla staði.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei er áttunda vinsælasta uppskriftin. Hún stendur alltaf fyrir sínu og er öruggt kort á föstudagskvöldum.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Í níunda sæti er ofnbakaður fiskur í paprikusósu. Namm!

Milljón dollara spaghetti

Tíunda vinsælasta uppskriftin var sú vinsælasta fyrir tveimur árum, milljón dollara spaghetti. Barnvænn réttur sem slær alltaf í gegn.