Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósuEnn ein helgin framundan og ég ætla aftur að koma með hugmynd að föstudagsmat. Það hafa eflaust fáir gaman af því að ráfa hugmyndasnauðir um matvörubúðina eftir vinnu á föstudögum, þegar hugurinn er kominn heim í helgarfrí. Það þarf fá hráefni í þennan dásamlega kjúklingarétt sem tekur enga stund að reiða fram þegar heim er komið. Ferskur parmesan þykir mér nauðsynlegur með og ekki skemmir fyrir að hita gott hvítlauksbrauð og bera fram með réttinum. Súpergott!

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

  • 2 kjúklingabringur
  • 1 rauð paprika
  • 6 stórir sveppir
  • smjör til að steikja í
  • 4 dl rjómi
  • 5 msk gott grænt pestó
  • salt
  • 1/2 kjúklinga- eða grænmetisteningur (má sleppa)
  • pasta

Skerið kjúklingabringur í litla bita og steikið þá í smjör þar til þeir hafa fengið fallega steikingarhúð. Hakkið sveppi og papriku og steikið með kjúklingnum í smá stund. Hellið rjóma yfir og látið sjóða saman við vægan hita til að hann taki bragð af paprikunni og sveppunum. Hrærið pestó út í og smakkið til með salti. Þið gætuð þurft að bæta smá pestó til viðbótar í og jafnvel 1/2 teningi, smakkið til!

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Berið fram með ferskum parmesan og njótið.

Litla gula hænan

Litla gula hænanÉg var svo lánsöm að fá að gjöf kjúklinga frá Litlu gulu hænunni um daginn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er um velferðarkjúklinga að ræða, sem fá óerfðabreytt fóður, gott rými til að athafna sig og fara út að leika sér þegar veður leyfir. Hversu dásamlegt! Kjúklingarnir eru sælir og dafna eftir því. Mér þykir framtakið til fyrirmyndar og vert að skoða þegar kemur að kjúklingakaupum.

Litla gula hænan

Kjúklingurinn var pattaralegur og flottur. Ég nuddaði hann með sítrónu og kryddaði með kryddi lífsins, rósmarín og salti. Eftir það skar ég hálfa sítrónu í fernt og 1 sólóhvítlauk í báta og setti inn í kjúklinginn. Kjúklingurinn fór eftir það í ofnpott, lokið á og inn í 190° heitan ofn (án blásturs) í 2 klst. Það stóð nú ekki til að hafa hann svo lengi í ofninum og ég var hrædd um að hann væri orðinn þurr en þær áhyggjur voru óþarfar, kjúklingurinn datt af beinunum og var dásamlega meyr og góður.

Litla gula hænan

Þessi kjúklingur er góður fyrir líkama og sál. Ég bar hann fram með kartöflumús, maísbaunum sem ég hitaði í bræddu smjöri og saltaði með góðu salti, rifsberjahlaupi og sósu sem hefur lengi verið í uppáhaldi. Uppskriftin af henni hefur áður komið á bloggið en þolir vel að vera birt aftur.

Ljúffeng rjómasósa:

  • 2,5 dl rjómi (1 peli)
  • 1 dós sýrður rjómi (34%)
  • 1-2 kjúklingateningar
  • 1-2 msk rifsberjahlaup
  • 1-2 msk sojasósa
  • salt og hvítur pipar
  • maizena til að þykkja (má sleppa)

Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur. Byrjið á 1 kjúklingateningi, 1 msk af rifsberjahlaupi og 1 msk af sojasósu, smakkið til og bætið við eftir þörfum. Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuÞessi vika hefur að mestu snúist um samræmdu prófin hjá strákunum og við erum því sérlega glöð yfir því að helgin sé framundan. Það er greinilega aðeins of langt síðan ég var í 7. bekk og ég stend í mikilli þakkarskuld við alnetið og þær upplýsingar sem þar má finna þegar ég stend á gati. Ætli ég sé ein um að vera svona ryðguð? Æ, hvað ég eiginlega vona það þó það væri vissulega huggun í að vita af fleirum sem klóra sér í kollinum yfir kenniföllum og rómverskum tölum. Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Þar sem það styttist í helgina ætla ég að koma með hugmynd að æðislegum helgarmat. Okkur þykir þessi réttur svo dásamlega góður að við borðuðum hann tvisvar í síðustu viku (alveg dagsatt!). Í annað skiptið buðum við mömmu í mat og hún dásamaði hann í bak og fyrir. Við höfum bæði borið réttinn fram með taglatelle og með ofnbökuðum kartöflubátum og salati. Bæði er mjög gott en mér þykir pastað þó standa upp úr. Það er bara eitthvað ómótstæðilegt við kjúklinginn með beikon/steinselju/parmesan hjúpnum og bragðmikilli soðsósunni sem pastað tekur í sig. Svoooo brjálæðislega gott og mín besta tillaga fyrir helgina.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

  • 4 kjúklingabringur (um 700 g)
  • pipar og salt
  • um 160 g beikonstrimlar
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1/2 sóló hvítlaukur
  • 1 msk Hunt´s Yellow Mustard
  • 2 msk sojasósa
  • 1-2 kjúklinga- eða grænmetisteningar (mér þykir best að blanda þeim)
  • smá cayenne pipar
  • handfylli af hakkaðri steinselju
  • handfylli af rifnum parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í sneiðar og leggið í eldfast mót. Saltið lítillega og piprið. Setjið sýrðan rjóma, teninga, pressaðan hvítlauk, sinnep og sojasósu í pott og látið sjóða saman við vægan hita í nokkrar mínútur. Hellið sósunni yfir kjúklinginn. Steikið beikonstrimla á pönnu og stráið yfir. Stráið að lokum hakkaðri steinselju og rifnum parmesan yfir. Bakið við 175° í 40 mínútur.

Berið fram með tagliatelle, pipar og vel af ferskrifnum parmesan.Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

 

Butter chicken

Butter chickenMér þykir alltaf verða ákveðin kaflaskil þegar verslunarmannahelgin er að baki. Þá er haustið handan við hornið og allt að fara í gang aftur. Krakkarnir fara að huga að skólasetningu og tómstundum vetrarins á meðan ég bíð með eftirvæntingu eftir að lífið falli í sína hversdagslegu rútínu.

Butter chickenButter chicken

Það er búið að vera svolítið um skyndilausnir í eldhúsinu hjá mér upp á síðkastið. Matur sem okkur þykir góður en tekur lítinn tíma að útbúa. Uppskriftir sem er sniðugt að grípa til þegar boðið er í mat án þess að hafa tíma til að undirbúa matarboðið. Þannig var það einmitt með þennan rétt. Ég var enga stund að reiða hann fram þegar ég hafði boðið í mat hér eitt kvöldið og allir voru ánægðir með matinn.  Jakob var svo ánægður að hann borðaði afganginn í morgunmat daginn eftir og hefðu glaður viljað fleiri diska.

Butter chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5)

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (eða kjúklingabringur)
  • 1 laukur
  • 1/2 spergilkálhaus
  • 1 krukka Butter chicken sósa frá Patak´s
  • 1-2 tsk karrý
  • 1 grænmetisteningur
  • 2-3 msk mangó chutney

Skerið kjúklinginn í bita, laukinn í báta og spergilkálið í bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er steiktur á öllum hliðum, bætið þá lauknum á pönnuna og steikið áfram þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið sósu, spergilkáli, karrý, grænmetisteningi og mangó chuthey á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og spergilkálið orðið mjúkt.

Butter chicken

Berið fram með hrísgrjónum og nan-brauði.

Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

Kjúklingasalat með BBQ- dressinguVeðurblíðan virðist leika við landsbyggðina á meðan við gleðjumst yfir einum og einum þurrum degi hér í höfuðborginni. Ég eldaði kjötsúpu og fór í Ikea til að fylla á kertabyrgðirnar í síðustu viku. Ég meina, hversu lítið sumarlegt er það? Nú fer þetta vonandi að lagast, spáin lítur ágætlega út fyrir helgina og fínasta grillveður í kortunum!

Kjúklingasalat með BBQ- dressinguÞetta kjúklingasalat er einn af mínum uppáhalds grillréttum þetta sumarið. Helst grilla ég kjúklinginn en það má vel steikja hann á pönnu ef því er að skipta. Það skemmir ekki fyrir hvað salatið er fallegt á borði og gaman að bera það fram, en best af öllu er þó hvað það er gott. Svo einfalt, ferskt og dásamlega gott!

Kannski eitthvað til að prófa um helgina?

Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

  • 500 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • 1 dl Hunt´s Hickory & Brown Sugar BBQ Sauce
  • 70 g furuhnetur
  • 1 msk tamarisósa
  • spínat
  • 1 rauð paprika, skorin í strimla
  • 1 gul paprika, skorin í strimla
  • ½ rauðlaukur, skorin í fína strimla
  • kokteiltómatar, skornir í tvennt
  • avokadó, skorið í sneiðar
  • jarðaber, skorin í tvennt
  • gráðostur (má sleppa)

BBQ-dressing:

  • 1 dl Hunt´s Hickory & Brown Sugar BBQ Sauce
  • 1 dl matreiðslurjómi

Kjúklingalundum og BBQ-sósu er blandað saman í skál og kjúklingurinn látinn marinerast í 30 mínútur. Að því loknu er hann grillaður þar til eldaður í gegn.

Furuhnetur eru þurrristaðar á pönnu við miðlungsháan hita þar til þær eru komnar með gylltan lit. Þá er tamarisósu hellt yfir og steikt áfram í 30 sekúndur (eftir að tamarisósan er komin á pönnuna er hrært stöðugt í hnetunum). Hneturnar eru þá teknar af pönnunni og lagðar til hliðar.

BBQ-dressing: BBQ-sósu og matreiðslurjóma er blandað saman í potti og hitað að suðu. Látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur.

Samsetning: Spínat, paprikur, rauðlaukur, kokteiltómatar og avokadó er blandað saman og sett í stóra skál eða á fat. Grillaðar kjúklingalundir eru lagðar yfir, þar næst er gráðostur mulinn yfir og að lokum er ristuðum furuhnetum stráð yfir salatið. Salatið er skreytt með jarðaberjum og borið fram með BBQ-dressingunni.

Tortillakaka með kjúklingi

Tortillakaka með kjúklingi Það er óhætt að segja að við fengum vætusaman þjóðhátíðardag. Við fórum bæði í miðbæ Reykjavíkur og á Rútstún og eftir því sem leið á daginn ókst rigningin. Við vorum sem betur fer vopnuð regnhlífum sem björguðu okkur. Það var jú svo hlýtt og því varla hægt að kvarta. Ég viðurkenni þó fúslega að það var dásamlegt að koma heim, fara úr blautu fötunum, kveikja á kertum og eyða kvöldinu í sjónvarpssófanum. Tortillakaka með kjúklingiÞjóðhátíðarmaturinn var nú ekki  þjóðlegur en ljúffengur engu að síður. Ég gerði tortillaköku sem var svo góð að ég má til með að gefa ykkur uppskriftina fyrir helgina. Þetta er jú ekta föstudagsmatur! Ég notaði stórar tortillakökur en litlar eru eflaust ekki síðri. Súpergott! Tortillakaka með kjúklingiTortillakaka með kjúklingiTortillakaka með kjúklingi Tortillakaka með kjúklingi (fyrir 4-5)

  • 4 tortillakökur
  • 2 kjúklingabringur
  • 1 laukur
  • 1/2 púrrulaukur
  • 100 g sveppir
  • smjör til að steikja í
  • 1,5 msk jalapenos
  • 175 g chunky salsa (1/2 krukka)
  • 100 g philadelphiaostur
  • 15 svartar ólívur
  • 1-2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Skerið kjúklingabringurnar í litla bita, hakkið laukinn, skerið púrrulaukinn í strimla og sveppina í sneiðar. Steikið kjúklinginn í smjöri. Bætið lauk, púrrulauk og sveppum saman við og steikið áfram. Bætið jalapenos, salsa og philadelphiaosti saman við og smakkið til með salti og pipar. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Raðið tortillakökunum með fyllingunni á milli á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið líka fyllinguna yfir efstu kökuna, setjið síðan ólívur yfir og stráið að lokum osti yfir. Bakið í 15 mínútur eða þar til kakan er heit í gegn og osturinn hefur fengið fallegan lit. Berið fram með salati, salsa, sýrðum rjóma og guacamole.

 

Brauðterta með kjúklingi og beikoni

 

Brauðterta með kjúklingi og beikoniGleðilegan þjóðhátíðardag! Það eru eflaust fáir sem sitja við tölvuna í dag en þó eru alltaf einhverjir sem velja að nýta frídaginn í afslöppun heima við. Sjálf hefði ég ekkert á móti því.  Það virðist þó ætla að rætast úr veðrinu og því kannski ráð að vera í fyrra fallinu á ferðinni til að nýta veðurblíðuna. Mér skildist á veðurfréttunum í gær að það ætti að rigna seinnipartinn. Þá er nú líka notalegt að koma heim og eiga góðgæti með kaffinu.

Brauðterta með kjúklingi og beikoniÞað fer enginn svangur út í daginn hér því ég bjó til brauðtertu í gærkvöldi sem við ætlum að gæða okkur á í dag. Brauðtertan dugar vel sem kvöldmatur enda bæði með kjúklingi og beikoni, og minnir því einna helst á klúbbsamloku! Hún er matarmikil og dugar eflaust fyrir 10 manns.

Brauðterta með kjúklingi og beikoni

Brauðterta með kjúklingi og beikoni (uppskrift úr Buffé)

  • 200 g beikonstrimlar
  • 1 grillaður kjúklingur
  • 10 sólþurrkaðir tómatar í olíu
  • 1 dl majónes
  • 3 dl hreint jógúrt
  • 1 dl graslaukur, skorinn fínt
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1/2 tsk salt
  • smá svartur pipar
  • 18 franskbrauðsneiðar
  • 400 g philadelphia ostur, við stofuhita
  • kirsuberjatómatar
  • ruccola

Steikið beikonið á pönnu. Látið fituna renna af og leggið beikonið til hliðar. Hreinsið kjúklingakjötið frá beinunum og skerið í smáa bita. Hakkið sólþurrkuðu tómatana. Blandið sólþurrkuðum tómötum, majónesi, jógúrti, graslauk, sinnepi, salti, pipar, kjúklingi og beikoni saman í skál.

Skerið kanntinn af brauðsneiðunum. Leggið 6 brauðsneiðar á fat og setjið helminginn af fyllingunni yfir. Leggið aðrar 6 brauðsneiðar yfir fyllinguna og setjið það sem eftir er af fyllingunni yfir. Leggið síðustu 6 brauðsneiðarnar yfir. Setjið plastfilmu yfir og látið standa í ísskáp í 3-4 klst. Smyrjið philadelphia ostinum meðfram hliðunum og yfir brauðtertuna. Skreytið með ruccola og kirsuberjatómötum.

Brauðterta með kjúklingi og beikoniBrauðterta með kjúklingi og beikoniBrauðterta með kjúklingi og beikoni

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Þær eru ljúfar vikurnar núna og mér þykja allir þessir auka frídagar gera það að verkum að það er alltaf föstudagur. Ég vil alltaf hafa góðan mat á föstudagskvöldum og oftar en ekki langar mig að enda vinnuvikuna á góðum heimagerðum skyndibita. Við kaupum sárasjaldan tilbúinn skyndibita og erum satt að segja ekkert sérlega hrifin af honum. Það þýðir þó ekki að við séum bara í hollustunni heldur er bara hægt að gera svo mikið betri mat heima á stuttum tíma og fyrir minni pening.

Steiktar quesadillas með kjúklingiSteiktar quesadillas með kjúklingiSteiktar quesadillas með kjúklingiSteiktar quesadillas með kjúklingi

Um daginn prófaði ég að hálfpartinn djúpsteikja quesadillas og útkoman varð brjálæðislega góð. Aðeins óhollara en hefðbundin quesadilla, en svo gott að okkur hefði ekki getað verið meira sama. Einfalt, fjótlegt og svo ólýsanlega gott. Það er hægt að leika sér með fyllinguna eftir því hvað er til í ísskápnum og það er um að gera að nota afgang af kjúklingi sé hann til staðar. Þetta er að mínu mati fullkominn föstudagsmatur!

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Steiktar quesadillas með kjúklingi

  • 3 kjúklingabringur, skornar í bita
  • 3 msk fajita krydd
  • 1/2 dl vatn
  • 1/2 rauðlaukur, skorinn í fína strimla
  • 3 msk maisbaunir
  • 8 tortillur (minni gerðin)
  • rjómaostur
  • rifinn cheddarostur

Meðlæti: sýrður rjómi, guacamole, salsasósa, salat, tómatar, gúrka, avokadó, nachos… gefið hugmyndafluginu lausan tauminn!

Kjúklingabringur eru skornar í fremur smáa bita og steiktir á pönnu þar til þeir eru næstum eldaðir í gegn. Þá eru þeir kryddaðir með fajita kryddi, 1/2 dl af vatni hellt yfir og látið sjóða þar til vatnið er gufað upp. Bætið rauðlauk og maísbaunum á pönnuna og steikið áfram þar til laukurinn er mjúkur.

Smyrjið tortillakökurnar með rjómaosti, setjið um 3-4 msk af kjúklingablöndunni á annan helminginn og stráið cheddarosti yfir. Brjótið hinn helminginn yfir þannig að myndist hálfmáni. Þrýstið brúnunum saman. Hitið 2,5 dl af bragðlausri olíu á pönnu. Setjið tortillakökurnar varlega í olíuna og steikið á hvorri hlið þar til fallega gylltar.

Berið fram með sýrðum rjóma, guacamole, salsa, salati, tómötum, avokadó eða hverju því sem hugurinn girnist. Ég mæli þó með að enda á að mylja svart Doritos yfir.

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum

Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Gleðilegt sumar! Ég hef ekkert á móti því að kveðja veturinn í bili og tek fagnandi á móti björtum morgnum og lengri dögum. Þvílíkur munur! Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumVið höfum að mestu eytt þessum fyrsta sumardegi hér heima í algjörri afslöppun og varla hreyft okkur lengra en út á pall. Það virðist vera það sem við gerum þessa dagana. Um leið og við fáum frídag þá dundum við okkur hér heima fram eftir degi, borðum gott og tökum lífinu með ró. Það er notalegt en öllu má nú ofgera. Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumTælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumTælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumTælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Mig langar til að gefa ykkur uppskrift að sumarlegu enchiladas sem ég eldaði um daginn og eru jafn dásamlega góðar og þær eru fallegar. Ég veit að langir hráefnalistar lokka sjaldan en mikið gæti þó leynst í skápunum. Granateplasafann fæst í litlum fernum sem dugar í þessa uppskrift. Þegar það er búið að hafa hráefnin til þá er sáraeinfalt að setja réttinn saman og það tekur stutta stund. Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum

Sósa:

  • 1 ½  bolli sæt tælensk chili sósa
  •  ½  bolli sojasósa
  • 1/3 bolli púðursykur
  • 1 msk hnetusmjör
  • 1 msk tómatpaste
  • 3/4 bolli granateplasafi (úr fernu)
  • 1/4 boll rice vinegar
  • safi úr 1 lime
  • 1 tsk fiskisósa
  • 2 hvítlauskrif, pressuð eða rifið
  • 2 msk engifer, rifið
  •  ½ tsk rauðar piparflögur
  •  ½  tsk pipar

Vefjur:

  • 2 kjúklingabringur, eldaðar og tættar
  • 1 rauð paprika, sneidd í þunnar sneiðar
  • 1 appelsínugul paprika, sneitt í þunnar sneiðar
  • 1 ½ bolli rifinn mozzarella ostur
  • 8-10 tortillur

Meðlæti: avokadó, granatepli, ferskt kóriander og sýrður rjómi

Hitið ofn í 175°.

Byrjið á að gera sósuna. Setjið öll hráefnin í sósuna í pott, látið suðuna koma upp og lækkið þá hitan. Látið sósuna sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur eða þar ti lhún hefur þykknað örlítið. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Setjið tættan kjúkling, sneiddar paprikur, kóriander og 3-4 dl af rifnum mozzarella osti í skál. Þegar sósan er tilbúin eru 2 dl af sósunni bætt í skálina og öllu blandað vel saman.

Setjið smá af kjúklingablöndunni í miðjuna á hverri tortilla og rúllið upp. Raðið upprúlluðum tortillum í eldfast mót og látið samskeytin snúa niður. Hellið því sem eftir var af sósunni yfir tortillurnar og endið á að setja gott handfylli af rifnum mozzarella yfir. Bakið í 30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður. Áður en rétturinn er borinn fram er niðurskorið avokadó, kóriander og granateplafræ sett yfir. Mér þykir síðan mjög gott að bera réttinn fram með sýrðum rjóma.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Pulled chicken

Pulled Chicken

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag var Malín búin að baka bollakökur með súkkulaðikremi. Þær voru svo mjúkar og góðar að ég hefði getað borðað þær allar. Ég elska að koma heim þegar krakkarnir hafa bakað og finnst það vera dásamlegur hversdagslúxus að fá kökubita eftir vinnudaginn.

Pulled ChickenPulled ChickenPulled Chicken

„Pulled pork“ eða rifið svínakjöt hefur verið vinsæll réttur undanfarin ár (þú getur séð uppskriftina sem ég nota hér). Kjötið setjum við ýmist í hamborgarabrauð, tortillavefjur eða tacoskeljar ásamt grænmeti og oftast smá sýrðum rjóma. Það má svo bera herlegheitin fram með góðu salati, kartöfubátum (þessir eru í algjöru uppáhaldi), nachos eða hverju sem er.

Ég prófaði um daginn að skipta svínakjötinu út fyrir kjúkling og var mjög ánægð með útkomuna. Eldunartíminn var mun styttri og eldamennskan gerist varla einfaldari. Við settum kjúklinginn í tortillakökur ásamt káli, rauðri papriku, tómötum, avokadó, kóriander og sýrðum rjóma. Brjálæðislega gott!

Pulled ChickenPulled Chicken

Rifinn kjúklingur

  • 900 g kjúklingabringur
  • 2½ – 3 dl barbeque sósa
  • 1 laukur, skorin í þunna báta
  • paprikuduft
  • olía

Hitið ofninn í 130-140°. Steikið kjúklingabringurnar á pönnu þar til þær eru komnar með smá steikingarhúð. Kryddið með paprikudufti og leggið yfir í eldfast mót eða ofnpott. Sáldrið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið laukbátana og barbequesósuna yfir. Setjið lok á ofpottinn eða álpappír yfir eldfasta mótið (þó ekki nauðsynlegt). Eldið í miðjum ofni í um 2½ klst, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Kjúklingurinn á að detta hæglega í sundur þegar gaffli er stungið í hann. Tætið kjúklinginn í sundur (t.d. með tveimur göfflum) og berið fram.