Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Þá erum við komin heim eftir frábæra eurovision-ferð. Öll plön um að blogga síðustu dagana fuku út í veður og vind þegar krakkarnir komu út til okkar og í staðin nýttum við hverja stund í að gera eitthvað skemmtilegt. Veðrið var svo gott að ég gat ómöglega slitið mig frá þeim til að fara inn að blogga. Ég var þó mikið á Instagram og setti margar myndir á dag þangað inn.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Ég fékk fallega tölvupósta frá mörgum ykkar sem hittu mig beint í hjartastað. Ég er svo þakklát fyrir að þið gefið ykkur tíma og sendið mér línu. Ég fékk bæði ábendingar um skemmtilegar verslanir í Malmö (Alma, ég fann ekki búðina þína! Langaði svo til að kíkja á hana og dró krakkana með mér í tóma vitleysu í von um að finna hana) og skemmtilega veitingastaði. Í kvöld ætla ég að setjast niður og svara bæði tölvupóstum og kommentum. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki gefið mér tíma til þess fyrr.

Þó að ferðin hafi verið æðisleg þá jafnast ekkert á við að koma aftur heim. Ég var farin að þrá að dunda mér í eldhúsinu og að borða heimalagaðan mat. Ég keypti matreiðslublöð á Kastrup sem ég las í þaula á leiðinni heim og eftir flugið var ég með fullt af nýjum hugmyndum til að prófa.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Við eyddum gærdeginum í rólegheitum hér heima, tókum upp úr töskunum, fengum gesti og versluðum inn. Öggi fór með strákana í sund seinnipartinn og á meðan eldaði ég kvöldmat. Fyrir valinu varð kjúklingalasagna sem kom skemmtilega á óvart og féll vel í kramið hjá okkur öllum, sérstaklega svöngum sundgörpum sem ætluðu ekki að hætta að borða.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

  • 3 kjúklingabringur (ca 600 g)
  • ólívuolía
  • 1 laukur, hakkaður
  • 4 hvítlauksrif
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • 150 g spínat
  • 200 g parmesan (1 pakkning), skorinn með ostaskera eða kartöfluflysjara í þunnar sneiðar
  • 160 g rifinn mozzarellaostur (1 poki)
  • 400 g pastasósa eða góð tómatsósa
  • lasagnaplötur

Setjið kjúklingabringurnar í pott með vatni og sjóðið þar til þær eru soðnar í gegn (um 10-15 mínútur). Takið kjúklinginn úr pottinum og sneiðið hann niður í þunna bita.

Hitið ólívuolíu á pönnu við miðlungshita. Setjið hakkaðan lauk á pönnuna og steikið við miðlungshita þar til hann er mjúkur, um 5-6 mínútur. Bætið sneiddum sveppum á pönnuna og steikið í aðrar 3-4 mínútur. Bætið pressuðum hvítlauksrifum og spínati á pönnuna og steikið þar til spínatið er orðið mjúkt. Bætið sneiddum kjúklingabringum á pönnuna og takið hana af hitanum. Hrærið um 50 g af parmesan og 50 g af mozzarella saman við.

Smyrjið eldfast mót og leggið eitt lag af lasagnaplötum í botninn, síðan eitt lag af kjúklingablöndunni, pasta/tómatsósunni og af báðum ostunum. Endurtakið eins oft og hráefnið leyfir (ég náði 4 lögum). Endið á ostinum.

Bakið við 175° í 35 mínútur. Látið standa í nokkrar mínútur og berið síðan fram með góðu salati og jafnvel hvítlauksbrauði.

Japanskt kjúklingasalat

Japanskt kjúklingasalat

Bloggið er í blómstrandi nostalgíukasti þessa dagana. Ég hef verið að garfa í gömlum uppskriftabókum og þá rifjast oft upp góðar uppskriftir sem hafa legið í dvala. Þetta kjúklingasalat var allt of oft í matinn hjá okkur á tímabili og ég held að hvíldin hafi verið kærkomin hjá flestum. Öllu má nú ofgera.

Japanskt kjúklingasalat

Í gær dró ég uppskriftina aftur fram og eldaði salatið góða. Gott ef okkur þótti það ekki bara betra núna en síðast. Hér áður fyrr bakaði ég oftast nanbrauð og bar fram með salatinu en í gær fékk ofnbakað snittubrauð með smjöri, hvítlaukssalti og parmesanosti að duga.

Japanskt kjúklingasalat

Einfalt, fljótlegt og ótrúlega gott!

Japanskt kjúklingasalat

Japanskt kjúklingasalat

  • 1/2 bolli olía
  • 1/4 bolli balsamic edik
  • 2 msk sykur
  • 2 msk sojasósa

Setjið allt í pott og sjóðið saman í u.þ.b. 1 mínútu. Takið af hitanum og hrærið annað slagið í á meðan blandan kólnar (til að sósan skilji sig ekki).

  • 1 poki núðlur (instant súpunúðlur) – ekki kryddið
  • 3-4 msk möndluflögur
  • 1-2 msk sesamfræ

Brjótið núðlurnar smátt niður. Ristið á þurri pönnu, byrjið á núðlunum (því þær taka lengri tíma) og bætið svo möndlum og semsamfræjum á pönna. Ath. að núðlurnar eiga að vera stökkar. Leggið til hliðar.

  • kjúklingabringur 
  • sweet hot chillisósa

Skerið kjúklingabringurnar í strimla og snöggsteikið í olíu. Hellið sweet chillisósu yfir og látið sjóða við vægan hita um stund.

  • salatpoki eða iceberg salat
  • kirsuberjatómatar
  • mangó
  • rauðlaukur

Skerið niður og setjið í botninn á fati. Stráið ristuðu núðlublöndunni yfir, hellið svo balsamicsósunni yfir og að lokum er kjúklingaræmunum dreift yfir.

Bangkok-kjúklingur

Bangkok-kjúklingur Önnur stutt vinnuvika með frídegi í miðri viku framundan. Þetta verður skemmtileg vika því Malín verður 15 ára á föstudaginn. Hún fagnar hverju afmæli líkt og um stórafmæli sé að ræða og mér sýnist stefna í æðisleg veisluhöld. En hvað með ykkur? Eru þið farin að huga að kvöldverði fyrir annað kvöld? Ef svo er þá luma ég á stórgóðri tillögu! Bangkok-kjúklingur Mér þykir merkilegt hvað ég get stundum horft lengi á uppskriftir áður en ég ákveð að prófa þær og þannig var það einmitt með þessa uppskrift. Það eru margar vikur síðan ég sá hana fyrst og hún hefur varla vikið úr huga mínum síðan. Í gærkvöldi lét ég loks verða að því að prófa uppskriftina sem reyndist svo æðislega góð að það var rifist um að fá að taka afganginn með í nesti í dag.

Bangkok-kjúklingur

Ég breytti uppskriftinni svo lítillega að það er varla til að tala um. Í upphaflegu uppskriftinni var grillaður kjúklingur sem ég skipti út fyrir kjúklingabringur og svo bætti ég sætri kartöflu og smá hvítlauk í. Hamingjan hjálpi mér hvað þetta var gott. Ég mæli með að þið prófið.

Bangkok-kjúklingur (uppskrift frá Kokaihop)

  • 1 kg kjúklingabringur
  • 1 rauðlaukur
  • 1 græn paprika
  • 3 hvítlauksrif
  • 1/2 sæt kartafla
  • 1 tsk sambal oelek
  • 0,75 dl mango chutney
  • 1,5 msk sweet chillisósa
  • 1 grænmetisteningur
  • 0,5 l. matreiðslurjómi

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Leggið til hliðar.

Skerið rauðlauk, papriku og sætu kartöfluna í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Steikið rauðlauk, papriku og hvítlauk í olíu við miðlungsháan hita. Setjið sambal oelek á pönnuna og hrærið saman við grænmetið. Setjið rjóma, mango chutney, sweet chillisósu, grænmetistening, sæta kartöflubita og kjúklinginn á pönnuna og látið sjóða þar til kartöflurnar eru mjúkar.

Berið fram með hrísgrjónum.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ó, hvað það er alltaf notalegt að fá frídag í miðri viku. Að geta vakað lengur, sofið út og fengið langan helgarmorgunverð án þess að það sé helgi. Frábær hversdagslúxus.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Í dag er síðasti vetrardagur og því ákváðum við að vera með góðan kvöldverð. Eftir miklar vangaveltur féll valið á tælenskan. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þar sem ég átti kjúklingabringur lá beinast við að gera kjúklingarétt. Svo var jú mikilvæg að rétturinn yrði stórgóður. Það er jú síðasti vetrardagur og allt.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ég fékk þennan kvöldverð á heilann. Það var eins og við værum að fá kóngafólk í heimsókn og ég yrði að standa mig. Ég hugsaði um hann í allan dag og um leið og ég kom heim úr vinnunni tók ég fram það sem mig langaði að setja í réttinn og byrjaði að undirbúa. Sumt var ég ekki viss um en ákvað þó að láta vaða og á pönnuna fóru meðal annars hvítlaukur og lemon grass sem reyndust fara stórvel með græna karrýinu.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Úr varð besti tælenski réttur sem ég hef nokkurn tímann borið á borð. Mér þótti hann dásamlegur. Okkur þótti það öllum. Rétturinn var svo bragðgóður og yfir hann settum við hakkaðar salthnetur, vorlauk og ferskt kóriander sem fullkomnaði allt.  Okkur tókst að kveðja veturinn með stæl og á morgun ætlum við að bjóða sumarið velkomið með grillveislu. Vertu ávalt velkomið sumar, ég vona að þú dveljir sem lengst hjá okkur.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

  • 900 g kjúklingabringur
  • 2 msk rapsolía
  • 2 -2,5 msk green curry paste frá Thai Choice
  • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 tsk lemon grass frá Thai Choice
  • 1 tsk hrásykur
  • 2 msk fish sauce
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml.) frá Thai Choice
  • 1 sæt kartafla, skorin í teninga
  • salthnetur, grófsaxaðar
  • vorlaukur, skorin í sneiðar
  • ferskt kóriander
  • hrísgrjón
  • lime

Hitið olíu á pönnu og setjið hvítlauk og karrýmauk saman við. Steikið við miðlungsháan hita í 1 mínútu. Bætið kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram í aðra mínútu. Setjið fiskisósu, lemon grass og hrásykur á pönnuna og látið malla í 3-4 mínútur. Bætið sætum kartöflum á pönnuna og hellið kókosmjólk yfir. Látið sjóða þar til kartöflurnar eru soðnar.

Berið fram með hrísgrjónum, limebátum, salthnetum, vorlauk og fersku kóriander.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Ég er ekki með neinn móral yfir að hafa boðið upp á sítrónukökuna á mánudaginn en ef einhverjum hefur blöskrað óhollustan þá bæti  ég upp fyrir það núna með þessum súperhollu en jafnframt stórkostlega góðu enchiladas.

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Það er gerist ekki oft að ég fæ æði fyrir heilsuréttum (sem þessi er svo sannarlega á minn mælikvarða) en þessar kjúklingavefjur hafa átt hug minn allan síðan ég eldaði þær. Mér þóttu þær stórkostlega góðar og ég var í skýjunum yfir að ná að lauma einni vefju frá til þess að eiga í nesti daginn eftir. Og þar var ég sniðug því það var barist um síðustu bitana.

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Þessar vefjur eru klárlega nýtt uppáhald hjá okkur og verða eldaðar aftur við fyrsta tækifæri. Ég mæli með að þið prófið þær strax um helgina. Þið eigið ekki eftir að sjá eftir því!

Tælensk kjúklingaenchiladas (uppskrift frá How Sweet It Is)

  • 8 mjúkar tortillukökur
  • 2 kjúklingabringur, soðnar og tættar
  • 1 msk olía
  • 1/2 laukur, hakkaður
  • 1/3 bolli rifnar gulrætur
  • 1/2 bolli rifið hvítkál
  • 4 pressuð hvítlauksrif
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk pipar
  • 4 vorlaukar
  • 1/3 bolli hakkaðar salthnetur + meira sem skraut
  • 1/4 bolli hakkað ferskt kóriander + meira sem skraut
  • 2  ½ bolli létt kókosmjólk
  • 1/3 bolli + 1/2 bolli sweet chili sauce

Hitið ofninn í 175°.

Hitið olíu á pönnu yfir miðlungshita og setjið lauk, hvítkál, gulrætur, hvítlauk og 1/4 tsk salt á pönnuna. Hrærið annað slagið í pönnunni og látið malla þar til grænmetið er orðið mjúkt, 6-8 mínútur. Passið að hafa ekki of háan hita.

Bætið kjúklingnum (það er gott að tæta hann með því að skera soðnar bringurnar í grófa bita, setja þær í skál og hræra þær með handþeytara), vorlaukum, salthnetum, kóriander, salti og pipar á pönnuna. Blandið öllu vel sama og látið malla saman í 1-2 mínútur. Bætið 3/4 bolla af kókosmjólk og 1/3 bolla af sweet chili sósu á pönnuna og látið allt blandast vel saman. Takið pönnuna af hitanum og leggið til hliðar.

Smyrjið eldfast mót sem er 22 x 33 cm. Hrærið saman það sem eftir var af kókosmjólkinni og sweet chili sósunni. Hellið um 1/2 bolla af sósublöndunni í botninn á eldfasta mótinu. Skiptið fyllingunni (sem er á pönnunni) jafnt á tortillukökurnar, rúllið þeim þétt upp og leggið í eldfasta mótið. Hellið afgangnum af sósublöndunni yfir og passið að láta blönduna fara yfir allar tortilluvefjurnar.

Bakið í 20 mínútur. Takið úr ofninum og stráið fersku kóriander og hökkuðum salthnetum yfir. Sósan í botninum á mótinu er of góð til að láta fara til spillis, setjið skeið í mótið og ausið sósunni yfir vefjurnar. Namm!

Satay kjúklingasalat

Það er svo margt sem mig dreymir um að eignast fyrir heimilið. Listinn breytist með tíð og tíma en sumir hlutir eru fastir á honum. Það eru hlutirnir sem ég ætti að kaupa. Ég veit samt innst inni að ég á ekki eftir að gera það því mér þykja þeir eru flestir svo asnalega dýrir. En að dreyma kostar ekkert og ef ég safna þeim hér saman þá fegra þeir síðuna mína og þá á ég þá svolítið.

dagg

Vasinn Dagg frá Svenskt tenn þykir mér fallegasti vasi sem ég hef á ævi minni séð. Hann kostar formúgu og ég veit ekki til þess að hann fáist annars staðar en í Svíþjóð. Ég veit að ég á aldrei eftir að eignast hann því ég myndi seint kaupa mér blómavasa á 50 þúsund og hvað þá nenna að ferja hann hingað heim. En ó, hvað hann er samt fallegur.

musselmaletcollage

Musselmalet matarstellið frá Royal Copenhagen. Svo dásamlega fallegt og klassískt og dýrt.

Satay kjúklingasalat

Kubus kertastjakinn hefur staðið lengi á óskalistanum en valkvíðinn stoppar mig. Svartur eða hvítur? Ég get ekki ákveðið það.

vipp

Vipp baðvörurnar færu vel á baðherberginu hjá mér. Stundum ákveð ég að láta vaða og kaupa þær en átta mig síðan á því að það er kannski hálf galið að kaupa klósettbursta á 29 þúsund. Svo ég hætti við.

Day lampi

Curves lampinn frá DAY home. Ómæ hvað ég elska hann. Ég vona að hann eigi eftir að standa á stofuskenknum hjá mér einhvern daginn.

Bestlite-BL3-Black-300x300

Bestlite gólflampinn má líka flytja inn. Ég ætla þá alltaf að sitja við hann og prjóna eða lesa. Lífið verður örlítið fallegra við það.

louse poulsen

Og á meðan ég er að láta mig dreyma um ljós þá má Collage ljósið frá Louise Poulsen alveg hanga yfir borðstofuborðinu mínu. Ég heyrði einhvern tímann að það að horfa á það eigi að vera eins og að liggja á skógarbotni og horfa í gegnum tréin upp í himininn. Mér fannst það rómantískt og ljósið verða enn fallegra fyrir vikið.

GlobalKnives

Það sem hefur staðið lengi til að eignast og ég skil ekki af hverju ég hef ekki látið verða af eru fleiri Global-hnífar. Ég á einn og nota hann í allt sem ég geri í eldhúsinu. Á innkaupalistanum standa brauðhnífurinn og grænmetishnífurinn.

Satay kjúklingasalat

Nú finn ég að ég er að komast á flug og ætla því að láta staðar numið áður en þetta endar í vitleysu. Það sem er hins vegar laust við alla vitleysu er kjúklingasalatið sem ég gerði um síðustu helgi. Það er í algjöru uppáhaldi hjá krökkunum og fyrir ári síðan boðuðu þau til fjölskyldufundar þar sem þau óskuðu eftir að við værum alltaf með það á laugardagskvöldum. Ég lét það eftir þeim í margar vikur því það virðist sama hvað við borðum þetta oft, við fáum ekki leið á því. Mig grunar að margir eigi uppskriftina en ég ætla samt að birta hana sem hugmynd að góðri byrjun á helginni. Þetta er alltaf jafn gott og svo dásamlega einfalt.

Satay kjúklingasalat

Satay kjúklingasalat með kúskús

  • kjúklingabringur
  • Satay sósa ( mér þykir frá Thai choice langbest)
  • kúskús (án bragðefna eða með sólþurrkuðm tómötum)
  • spínat (eða annað gott salat)
  • rauðlaukur
  • rauð paprika
  • kirsuberjatómatar
  • avokadó
  • salthnetur
  • fetaostur

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Hellið satay sósunni yfir og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum á pakka. Mér þykir gott að setja hálfan grænmetis- eða kjúklingatening í vatnið.

Skerið papriku og rauðlauk í strimla, kirsuberjatómata í tvennt og avokadó í sneiðar.

Setjið spínat í botninn á fati. Dreifið úr kúskúsinu yfir og setjið kjúklinginn yfir kúskúsið ásamt hluta af sósunni (geymið restina af sósunni). Stráið papriku, rauðlauk, kirsuberjatómötum, avokadó og fetaosti ásamt smá af olíunni yfir. Dreifið að lokum salthnetum yfir. Setjið það sem var eftir af satay sósunni í skál og berið fram með.

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Ég hef verið hrifin af tælenskum mat frá því að ég smakkaði hann fyrst og þessi einfalda uppskrift vakti því strax áhuga minn. Mér finnst vera eitthvað notalegt við svona mat. Mat sem er bragðgóður og hollur en tekur ekki nokkra stund að reiða fram. Slíkar uppskriftir geta reynst mikill fjársjóður þegar lítill tími gefst í eldhúsinu og allir eru svangir.

Það er kannski ekkert sérlega framandi við þessa uppskrift en hún er svo einföld og bragðgóð að mér finnst ekki annað hægt en að birta hana hér. Hún er algjör draumur eftir langan dag, þegar góður matur lokkar meira en að standa yfir pottunum.

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Einfaldur og fljótlegur tælenskur kjúklingaréttur

  • 3 kjúklingabringur
  • 1 spergilkálshaus
  • 1 rauð paprika
  • 2 rauðlaukar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 2 tsk fiskisósa
  • 3 msk tamari
  • 0,5 dl rauður chili, fræhreinsaður og hakkaður smátt
  • 2 msk engifer, fínhakkað
  • ferskt kóriander

Skerið kjúklingabringurnar og grænmetið í bita. Sjóðið í kókosmjólkinni þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til með fiskisósu og tamari. Stráið hökkuðu chili, engifer og kóriander yfir. Berið fram með hrísgrjónum eða núðlum.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Á morgun er Valentínusardagurinn. Ég elska alla svona daga og skil ekki þegar verið er að bölva því að Íslendingar séu að elta amerískar hefðir, að við eigum bóndadag og konudag sem dugi vel. Hvernig er hægt að vera á móti auka degi sem snýst um að gera vel við ástina sína, sérstaklega í þessum annars litlausa mánuði.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Við Öggi ætlum út að borða annað kvöld og ég er búin að hlakka til alla vikuna. Ef við hefðum ekki ákveðið að fara út að borða hefði ég lagst yfir uppskriftabækurnar og fundið eitthvað gott til að elda fyrir okkur. Öggi hefði komið með blóm heim og ég hefði lagt fallega á borð og kveikt á kertum.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Í síðustu viku voru systir mín og fjölskylda sem búa í Danmörku stödd á landinu. Þau komu í mat til okkar og ég eldaði kjúklingabringur með fyllingu sem er svo góð að það er engu líkt. Með kjúklingabringunum bar ég fram sæta kartöflumús og gott salat. Uppskriftina fékk ég hjá vinkonu minni um árið og hef oft dregið fram þegar ég vil slá í gegn. Þessi réttur klikkar aldrei og því þykir mér upplagt að elda þessa dásemd fyrir ástina sína annað kvöld, á sjálfan Valentínusardaginn.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Fylling:

  • 200 g döðlur
  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
  • 1 poki furuhnetur
  • smá ólívuolía
  • vel af fersku rósmarín
  • Gullostur (eða annar góður hvítmygluostur)
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • svartur pipar

Ristið furuhnetur á pönnu. Skerið  döðlur, sólþurrkaða tómata og rósmarín smátt og steikið í ólívuolíu á pönnu. Pressið eða saxið hvítlaukinn smátt og steikið með í lokin. Setjið ostinn í bitum á pönnuna og látið bráðna. Bætið furuhnetum saman við og piprið.

Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og skerið rauf ofan á þær. Setjið fyllinguna í raufarnar og yfir bringurnar. Setjið álpappír yfir formið (lokið því vel) og setið það í 200° heitan ofn í 40 mínútur. Undir lokin er hægt að taka álpappírinn af til að fá fallegan lit á kjúklingabringurnar.

Sæt kartöflustappa:

Afhýðið sætar kartöflur, skerið þær í bita og sjóðið þar til þær eru orðnar mjúkar. Hellið vatninu frá og stappið með vel af smjöri og púðursykri. Piprið með svörtum pipar. Smakkið til og stappan verður æði.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Þar sem heimilislífið snýst um júróvisjón þessa dagana þá þykir mér við hæfi að koma aftur með tillögu að kvöldmat fyrir júróvisjónkvöldið. Fyrir síðustu helgi birti ég uppskrift að frábærum mexíkóskum rétti sem ég má til með að stinga aftur upp á fyrir annað kvöld ef þið hafið ekki þegar prófað hann. Nú kem ég þó með nýja tillögu sem mér þykir ekki síður góð.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Ég eldaði þessa kjúklingabita og sætu kartöflufranskar um síðustu helgi. Uppskriftirnar sá ég hjá Ambitious Kitchen og vissi strax að ættu eftir að falla vel í kramið hjá mannskapnum. Kjúklingurinn er marineraður í grískri jógúrt, hunangi og dijon sinnepi sem gerir hann mjúkan og bragðgóðan. Þar á eftir er honum velt upp úr Kornflakes sem gefur honum stökka húð. Þetta getur ekki klikkað. Sætu kartöflufranskarnar eru hreinlega of góðar og við gátum ekki hætt að borða þær. Öggi sá síðan til þess að hunangssinnepssósan kláraðist upp til agna. Namm!

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði kjúklingalundir)
  • 2 bollar grísk jógúrt
  • 2 msk hunang
  • 2 msk dijon sinnep
  • 1/4 tsk sjávarsalt
  • 2 ½ bolli kornflakes

Hitið ofninn í 175°. Skerið kjúklingabringurnar í strimla (eða notið kjúklingalundir). Hrærið saman grískri jógúrt, hunangi, salti og dijon sinnepi í stórri skál. Bætið kjúklingnum í skálina og blandið saman þannig að marineringin hjúpi kjúklinginn. Setjið plastfilmu yfir kjúklinginn og geymið í ískáp í 20 mínútur.

Setjið helminginn af kornflakesinu í poka og myljið. Setjið helminginn af kjúklingnum í pokann og hristið hann svo að kornflakesið hjúpi kjúklinginn. Raðið kjúklingnum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og spreyjið smá af olíu yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

Bakaðar sætar kartöflufranskar

  • 2-4 stórar sætar kartöflur
  • 1-2 msk maizena mjöl
  • 1-2 ólívuolía
  • sjávarsalt
  • krydd eftir smekk

Hitið ofninn í 210°. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og spreyjið smá olíu á hann. Afhýðið kartöflurnar., skerið í strimla á stærð við franskar kartöflur og setjið í stóra skál. Stráið maizenamjöli yfir og hristið vel svo að mjölið myndi létta húð um kartöflurnar. Setjið ólívuolíu yfir og hristið aftur þannig að kartöflurnar fái létta olíuhúð (þið gætuð þurft að bæta við meiri olíu). Dreifið úr kartöflunum á bökunarpappírnum þannig að þær myndi einfalt lag og liggi ekki saman. Bakið kartöflurnar í 15 mínútur, snúið þeim og bakið áfram í 15 mínútur til viðbótar. Fylgist með kartöflunum undir lokin og passið að ofbaka þær ekki.

Hunangssinnepssósa

  • 1/4 bolli majónes
  • 1/4 bolli dijon sinnep
  • 2 msk hunang

Hrærið majónesi og sinnepi vel saman. Bætið hunangi saman við og hrærið aftur þar til allt hefur blandast vel. Geymið í ískáp þar til sósan er borin fram.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

Nú styttist óðum í júróvisjónhelgina og við erum að vonum full tilhlökkunar. Eins og svo oft áður er Öggi með lag í keppninni (með Pétri Erni vini sínum) og mér þykir það vera eitt það fallegasta sem hann hefur samið. Eyþór Ingi syngur lagið og ég fæ gæsahúð í hvert sinn sem ég hlusta á það. Ef þig langar að heyra lagið þá getur þú gert það hér.

Æfing

Annars er ég með uppskrift að fullkomnum júróvisjónmat. Við höfum verið með æði fyrir mexíkóskum mat upp á síðkastið og um síðustu helgi prófaði ég uppskrift frá Rachel Ray. Ég sá hana elda réttinn í sjónvarpinu fyrir mörgum árum en það var þó ekki fyrr en um síðustu helgi að ég loksins lét verða að því að elda hann. Það er óhætt að segja að hann var biðarinnar virði og vel það.

Ég veit að hráefnalistinn er langur en mikið af hráefnunum gætu leynst í skápnum hjá þér. Ekki vera hrædd við kryddmagnið því kryddin fara æðislega vel saman og rétturinn er alls ekki sterkur. Ferskt kóríander og lime gefur honum ferskt bragð sem fer vel með krydduðum kjúklingnum.

Uppskriftin er stór og við nutum góðs af því að getað fengið okkur afganga daginn eftir. Mér þótti þetta frábær réttur sem var einfalt að útbúa og unun að borða. Þetta er því mín tillaga að mat fyrir júróvisjónpartýið.

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

  • 8 mjúkar tortillakökur
  • Pam sprey
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk cummin
  • 1 tsk kanil
  • 1 msk chiliduft
  • 1 tsk óreganó
  • salt
  • pipar
  • 900 g kjúklingabringur
  • 4 msk ólívuolía
  • 1 flaska mexíkóskur bjór
  • 2 rauðar paprikur
  • 2 rauðlaukar
  • 3-4 hvítlauksrif
  • 2 lime
  • 1/4 bolli hakkað ferskt kóríander
  • 1 bolli rifinn cheddar ostur
  • sýrður rjómi og salsa sósa til að bera fram með

Skerið tortillukökurnar í strimla og setjið á ofnplötu. Spreyið olíu yfir (ég nota PAM) og bakið við 180° í um 10 mínútur. Snúið strimlunum eftir 5 mínútur í ofninum. Takið úr ofninum og leggið til hliðar.

Blandið saman laukdufti, hvítlauksdufti, cummin, kanil, chilidufti, óreganó, salti og pipar. Skerið kjúklinginn í bita og blandið saman við kryddblönduna. Leggið til hliðar.

Sneiðið papriku og rauðlauk og rífið hvítlauk. Steikið við háan hita upp úr  2 msk af ólívuolíu í 3-4 mínútur. Bætið fínrifnu hýði og safa af 1 lime ásamt hökkuðu kóriander á pönnuna og kryddið með salti og pipar. Leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn upp úr 2 msk af ólívuolíu þar til kjúklingurinn er fulleldaður, um 5-6 mínútur. Hellið bjórflösku yfir og látið sjóða í 4-5 mínútur.

Blandið tortillastrimlum, grænmeti og kjúklingi (ásamt vökva ef einhver er) saman í stórt eldfast mót og rífið cheddar ost yfir. Setjið í 200° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram með nachos, sýrðum rjóma, salsasósu og niðurskornu lime.