Aðventugjafir

Aðventugjafir

Mér þykir gaman að færa fólki aðventugjafir og hingað til hafa þær gjafir sem ég hef gefið verið matarkyns. Það er svo einfalt að setja nokkrar sörur, smákökur eða jólasælgæti í fallegan poka og hnýta slaufu um hann. Ég held að allir verða glaðir af þess háttar gjöfum, ja nema kannski þeir sem eru í megrun en þeim er þá nær að standa í slíkri vitleysu í sjálfum jólamánuðinum.

Aðventugjafir

Um daginn fór Öggi til Péturs vinar síns og þá nýtti ég tækifærið og sendi Pétri piparmyntustykki. Ég vona að honum hafi þótt þau góð en er mest hrædd um að Öggi hafi borðað þau frá honum á meðan þeir sátu yfir kaffibolla og tölvuuppfærslum. Öggi vill nefnilega meina að piparmyntustykkin fari glæsilega með kaffinu og fær sér varla kaffibolla hér heima án þess að brjóta sér bita af þeim.

Aðventugjafir

Um daginn færði ég svo mömmu og tengdamömmu sinn hvorn pokann af heimagerðu granóla með pekanhnetum. Þær urðu mjög glaðar en eflaust varð ég glöðust af öllum því mér þótti svo gaman að færa þeim þetta. Ég er með æði fyrir þessu granóla og hef upp á síðkastið byrjað dagana á skál með ab-mjólk og vænum skammti af granóla. Það er æðislega gott og ekki skemmir fyrir hversu einfalt er að útbúa það.

Aðventugjafir

Granóla með pekanhnetum

  • 3 bollar tröllahafrar
  • 1 bolli grófsaxaðar pekanhnetur
  • 2 tsk kanil
  • ¼ tsk salt
  • ½ bolli ljós púðursykur
  • ¼ bolli vatn
  • 2 msk bragðlaus olía
  • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 150° og leggið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Blandið tröllahöfrum, pekanhnetum, kanil, vanillusykri og salti í skál. Blandið ljósum púðursykri og ¼ bolla af vatni saman í pott og hitið að suðu yfir miðlungsháum hita. Hrærið í þar til sykurinn hefur bráðnað. Bætið olíunni saman við. Takið pottinn af hitanum og hellið yfir þurrefnin. Hrærið í blöndunni þar til allt hefur blandast vel.

Skiptið blöndunni á bökunarplöturnar og dreifið úr þeim. Bakið í 15 mínútur, hrærið í granólanu og færið plöturnar þannig að sú sem var ofar í ofninum fari fyrir neðan og öfugt. Bakið áfram í 10-15 mínútur til viðbótar eða þar til granólað er komið með fallegan lit. Tröllahafrarnir geta verði mjúkir þegar þeir koma úr ofninum en þeir verða stökkir þegar þeir kólna. Látið kólna alveg á bökunarplötunum.

Krabbelurer

Krabbelurer

Ég hef rekist ítrekað á uppskriftir af því sem svíar kalla krabbelurer upp á síðkastið. Krabbelurer eru klattar sem mætti segja að séu á milli þess að vera pönnukökur og kleinuhringir. Deigið er steikt á pönnu upp úr smjöri og að því loknu velt upp úr sykri og borðað með þeyttum rjóma og sultu. Hljómar vel, ekki satt?

Krabbelurer

Svíarnir bera þetta óhikandi á borð sem morgunverð og sælkerinn sem ég er þá ákvað ég að gera slíkt hið sama í morgun. Við byrjuðum þó morgunverðinn á eggjahræru og Finn Crisp og að því loknu fengum við okkur krabbelurer. Æðislega gott.

Krabbelurer

Krabbelurer

  • 1 egg
  • 5 msk sykur
  • 2,5 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk vanillusykur
  • 3/4 dl mjólk
  • smjör til að steikja úr
  • sykur til að velta upp úr

Hrærið egg og sykur þar til blandan er létt.  Bætið þurrefnum og mjólk saman við og hrærið deigið slétt.

Steikið á pönnu við miðlungshita upp úr vel af smjöri í um 3 mínútur á hvorri hlið (seinni hliðin gæti þurft styttri tíma). Veltið upp úr sykri. Berið fram með sultu og jafnvel þeyttum rjóma.

Kotasælupönnukökur

Kotasælupönnukökur

Ég elska, elska, elska morgnana um helgar. Mér þykja þeir eitt það besta við helgarnar. Að geta byrjað daginn rólega, læðst fram á náttsloppnum, kveikt á útvarpinu og útbúið morgunmat. Öggi kemur oftast skömmu seinna fram og ef ég er ekki búin að leggja á borð þá gerir hann það. Þetta er notaleg stund og það ríkir kyrrð í húsinu sem er dásamlegt að hefja daginn í. Við erum oftast bara tvö á fótum og dundum okkur við þetta yfir spjalli um allt og ekkert. Þegar allt er tilbúið kveikjum við á kertum og vekjum krakkana. Virku morgnarnir eru hrein andstæða við helgarnar, þegar allir eru að flýta sér og enginn tími gefst til að njóta stundarinnar. Mér þykir leiðinlegt að byrja dagana þannig en einfaldlega næ ekki að koma okkur fyrr á fætur. Það að virku morgnarnir séu svona misheppnaðir veldur því eflaust að við njótum helganna enn betur.

Kotasælupönnukökur

Við erum ekki föst í sama morgunmatnum um helgar. Upp á síðkastið hef ég oftast fengið mér hrökkbrauð með osti og linsoðið egg en þess á milli gert amerískar pönnukökur, beikon og eggjahræru. Stundum setjum við bara morgunkorn, múslí, ab-mjólk, heimabakað brauð (þetta hefur lengi verið í uppáhaldi) og álegg á borðið. Síðan hef ég alltaf góðan djús með klökum í (Heilsusafi og rauður Brazzi verða oftast fyrir valinu).

Kotasælupönnukökur

Um síðustu helgi prófaði ég í fyrsta sinn að gera kotasælupönnukökur og bar þær fram með jarðaberjum og hlynsírópi. Aldrei hefði mig grunað að þær ættu eftir að vekja jafn mikla lukku og þær gerðu. Pönnukökurnar voru léttar í sér og fóru stórkostlega vel með fersku jarðaberjunum og hlynsírópinu. Ljúffengari morgunmat hef ég sjaldan fengið. Í fyrramálið ætla ég að endurtaka leikinn og ég hef hlakkað til þess alla vikuna. Dagurinn getur varla byrjað mikið betur en svona.

Kotasælupönnukökur

Kotasælupönnukökur (uppskrift úr The Weelicious Cookbok) – uppskriftin gefur um 18 litlar pönnukökur

  • 3 egg
  • 1 bolli kotasæla
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 msk hunang eða agave síróp
  • ½ bolli hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • ¼ tsk salt
  • smjör, olía eða olíusprey

Setjið fyrstu 4 hráefnin í skál og hrærið þeim saman. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman.

Kotasælupönnukökur

Hitið pönnu við miðlungsháan hita og setjið smá af olíu eða smjöri á pönnuna. Setjið um 1 msk af deiginu á pönnuna fyrir hverja pönnuköku.  Steikið í 2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til pönnukakan er gyllt á lit og steikt í gegn.

Kotasælupönnukökur

Beikon- og cheddarvöfflur

Beikon- og cheddarvöfflur

Ég  furða mig oft á því hvað ég á morgunþreytta fjölskyldu því það virðist sama hvað ég sef lengi um helgar, ég er alltaf fyrst á fætur. Og ég elska það.

Það er eitthvað við það að koma fram í þögnina á morgnana, sjá morgunsólina skína inn um eldhúsgluggann, kveikja á útvarpinu og dunda sér við að gera morgunmat á meðan fjölskyldan sefur. Þegar þau koma fram er ég yfirleitt búin að ná að leggja á borð og við getum sest niður saman.

Beikon- og cheddarvöfflur

Þegar ég gerði þessar cheddar- og beikonvöfflur þá var ég svo spennt að smakka þær að ég beið ekki eftir að neinn kæmi fram. Ég réði ekki við mig og áður en ég vissi af var ég búin að borða tvær vöfflur með pönnukökusýrópi án þess að átta mig á því að ég hafði gleymt hrærðu eggjunum sem ég ætlaði að hafa með þeim.

Þegar ég var búin gekk ég frá disknum mínum, lagði hreinan á borðið og lét sem þetta hafði aldrei gerst. Hver ætti svo sem að sjá að það vantaði tvær vöfflur á diskinn? Enginn.

Beikon- og cheddarvöfflur

Beikon- og cheddarvöfflur (uppskrift frá Shutterbean)

  • 2 bollar hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  •  ½ tsk salt
  • nýmalaður pipar
  • 1 bolli rifinn cheddar ostur
  •  ½ bolli steikt beikonkurl
  • 2 stór egg
  • 1  ½ bolli mjólk
  • 2 msk grænmetisolía (vegetable oil)
  • hlynsíróp/pönnukökusíróp til að bera fram með vöfflunum

Hitið vöfflujárn. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti. Setjið ost og beikon saman við og blandið vel.

Hrærið saman í annari skál eggjum, mjólk og olíu. Setjið þurrefnin saman við og hrærið þar til allt hefur blandast. Passið að ofhræra ekki deigið.

Setjið feiti á heitt vöffujárnið. Setjið um  ½ bolla af deigi á vöffujárnið og bakið í 3-5 mínútur eða þar til vafflan er gyllt á litinn og osturinn er bráðnaður. Endurtakið þar til deigið er búið. Berið vöfflurnar fram heitar með hlynsírópi.

Amerískar pönnukökur

Amerískar pönnukökur

Ó, hvað ég elska helgarnar.  Ég elska að koma heim eftir vinnu á föstudögum með blóm til að setja í vasa, elska að gera föstudagspizzu með krökkunum, elska sjónvarpskvöldin okkar með fullum skálum af nammi, elska að fara upp í hreint rúm á föstudagskvöldum og ég elska langa helgarmorgunverði.

Amerískar pönnukökur

Ég myndi vilja byrja allar helgar á svona morgunverði. Amerískar pönnukökur með hlynsýrópi og smjöri (ójá, ég set bæði á pönnukökuna. Ég meina, af hverju að velja bara annað þegar bæði er best?), stökkt beikon og hrærð egg með salti, pipar og herbs de provence-kryddblöndu sem tengdó keypti handa mér á markaði í Frakklandi (ég veit, hún dekrar við mig). Á meðan enginn sér set ég smá meira hlynsíróp þannig að það leki yfir allt. Með þessu hef ég ískaldan ávaxtasafa með klökum.

Ein ábending, gerið vel af pönnukökunum svo það verði afgangur eftir morgunverðinn og hafið stærðina á þeim þannig að hægt sé að stinga þeim í brauðristina. Ég stafla þeim á disk og set plast yfir. Um kvöldið eru þær alltaf búnar. Krakkarnir elska að geta stungið sér pönnuköku í brauðristina yfir daginn og smurt með smjöri og osti.

Amerískar pönnukökur

Amerískar pönnukökur (uppskrift fyrir 4)

  • 3/4 bolli mjólk
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1 bolli hveiti
  • 2 msk sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1 egg
  • 2 msk brætt smjör
  • 1 tsk vanilludropar

Blandið mjólk og hvítvínsediki saman í skál og látið standa í 10 mínútur. Hafið engar áhyggjur af hvítvínsedikinu, þið eigið ekki eftir að finna bragð af því.

Blandið þurrefnum saman í skál. Blandið mjókur/ediksblöndunni, eggjum og smjöri saman í annarri skál og hrærið blöndunni síðan saman við þurrefnin. Hrærið þar til blandan er að mestu laus við kekkji en passið að ofhræra ekki deigið.

Látið deigið standa í 10 mínútur (ath. að það er þykkt, ekki þynna það). Eftir 10 mínútur verða komnar bólur í deigið, ekki hræra í því. Takið varlega ca 1/4 bolla af deigið og setjið á heita pönnu sem hefur verið brætt smá smjör á. Steikið þar til loftbólur myndast  og snúið pönnukökunni þá við og steikið á hinni hliðinni.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Amerískar pönnukökuvöfflur

Mér þykir eitt það besta við helgarnar að getað byrjað daginn rólega yfir góðum morgunverði. Þar sem ég er yfirleitt fyrst á fætur hér á morgnana þá er ég oft búin að útbúa morgunverð og leggja á borð þegar Öggi og krakkarnir koma fram. Oft verða amerískar pönnukökur fyrir valinu því mér þykja þær svo æðislega góðar, helst með smjöri, hlynsírópi, beikoni og eggjahræru. Með þessu vil ég síðan hafa góðan djús með helling af klökum út í. Ég get varla hugsað mér betri byrjun á deginum.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Um síðustu helgi ákvað ég að prófa að setja pönnukökudeigið í vöfflujárnið. Ég notaði belgíska vöfflujárnið okkar og varð ekki fyrir vonbrigðum. Það var ósköp þægilegt að þurfa ekki að standa yfir pönnunni, passa að vera með réttan hita á henni og að snúa pönnukökunum við á réttum tíma heldur að geta bara ausið deiginu í vöfflujárnið og lokað því. Næst ætla ég að prófa að setja deigið í venjulega vöfflujárnið, það getur varla verið síðra.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Ég ákvað að gefa pönnunum alveg frí þennan morguninn og steikti beikonið í ofninum, á 200° í ca 10 mínútur. Einfalt og þæginlegt.

Amerískar pönnukökuvöfflur (uppskriftin passar fyrir 8 belgískar vöfflur)

  • 270 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 4 msk sykur
  • 260 ml mjólk
  • 2 egg
  • 4 msk brætt smjör

Sigtið hveiti, lyftiduft, salt og sykur saman í stóra skál. Hrærið léttilega saman mjólk og eggi í annari skál og hrærið síðan bræddu smjöri saman við.

Hellið mjólkurblöndunni í hveitiblönduna og hrærið saman með gaffli þar til blandan er mjúk og nokkuð kekkjalaus. Látið deigið standa í nokkrar mínútur.

Hitið vöfflujárn og bakið vöfflur úr deiginu líkt og um venjulegt vöffludeig væri að ræða. Einnig má baka venjulegar amerískar pönnukökur á pönnu úr deiginu.

Berið fram með smjöri, hlynsírópi, eggjahræru og beikoni.

Dásamlegar brauðbollur með sólblómafræjum

Við byrjuðum þennan sunnudag á löngum morgunverði með nýbökuðum brauðbollum. Ég held að dagar sem byrja svona vel geti ekki orðið annað en góðir. Brauðbollurnar eru frábærar á morgunverðarborðið og ekki skemmir fyrir að þær eru útbúnar kvöldið áður þannig að það þarf bara að stinga þeim í ofninn í 10-12 mínútur um morguninn.

Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að það tekur enga stund að útbúa þessar brauðbollur. Í gærkvöldi gerði ég deigið, bjó til bollurnar og raðaði þeim á bökunarplötuna sem fékk svo að dúsa í ískápnum í nótt. Þegar ég vaknaði kveikti ég á ofninum og stakk síðan bökunarplötunni inn. Á meðan brauðið var að bakast lagði ég á borð. Þegar ég síðan vakti fjölskylduna þá spurði Öggi mig hvort ég hefði farið út í bakarí. Ég hafði verið svo snögg að gera deigið í gærkvöldi að hann hafði ekki tekið eftir því.

Brauðbollurnar eru æðislega góðar. Ekki láta ykkur bregða þegar þið takið þær út úr ískápnum morguninn eftir og þær eru kaldar og harðar því eftir baksturinn verða þær lungnamjúkar og dásamlegar. Ég mæli með því að þið prófið, þetta eru góð verðlaun fyrir mjög litla fyrirhöfn.

Brauðbollur

  • 1-2 dl sólblómafræ
  • 1 bréf þurrger
  • 2 dl mjólk
  • 1 dl ab-mjólk (eða súrmjólk)
  • 3 msk smjör við stofuhita
  • 1 tsk salt
  • 5-6 dl hveiti
  • 2 dl heilhveiti

Hrærið gerið út í kalda mjólkina. Bætið ab-mjólk, smjöri, salti, hveiti og sólblómafræjum saman við og blandið vel saman. Ég leyfi hnoðaranum á Kitchenaid hrærivélinni að sjá um þetta. Skiptið deginu í 10 hluta, hnoðið hvern hluta í kúlu og leggið á bökunarplötu klædda með bökunarpappír. Leggið plastfilmu yfir og leyfið að hefast inn í ískáp yfir nótt (ca 10 klst).

Penslið bollurnar með upphrærðu eggi og stráið sólblómafræjum yfir. Bakið í ca 10-12 mínútur við 200°.

Að lokum langar mig að benda á nýjan djús sem við prófuðum í morgun, Sunquick tropefrugt, sem okkur þótt mjög góður. Öggi segir að nú muni fólk halda að ég sé að auglýsa djúsinn en ég get lofað því að ég keypti hann sjálf og fæ ekkert fyrir að benda á hann. Eins og venjulega þá setti ég vel af klaka út í djúskönnuna, djúsinn verður svo svalandi og mikið betri við það.

Fylltar brauðskálar með eggjum og beikoni

Eitt það besta við helgarnar er að geta byrjað daginn rólega og setið lengi saman yfir morgunmatnum. Mér finnst svo gaman að hafa aðeins fyrir morgunmatnum og vekja fjölskylduna með uppdúkuðu borði fyllt af góðgæti. Á borðinu finnst mér síðan verða að vera góður appelsínusafi eða Floridana heilsusafi sem ég helli í könnu fulla af klökum. Mér þykir safinn verða svo mikið betri við það, hann verður svo ískaldur og svalandi.

Við byrjuðum daginn í dag á þessum fylltu brauðskálum. Þær eru einfaldar og nokkuð fljótgerðar og því alveg tilvaldar á morgunverðarborðið. Ég átti heimilisbrauð og notaði það en eftir á að hyggja held ég að franskbrauð hafi verið enn betra og ætla að prófa það næst.

Þetta er engin heilög uppskrift og alveg kjörið að nota það sem er til að hverju sinni. Aðalmálið er að eiga brauð og egg, síðan má fylla það með hverju sem er. Það er t.d. hægt að nota chorizo-pylsu í staðin fyrir beikon eða að sleppa alveg kjötinu og setja t.d. smjörsteikt spínat, papriku og parmesan ost í brauðið.

Fylltar brauðskálar með eggjum og beikoni

  • 1 1/2 brauðsneið fyrir hverja brauðskál
  • smjör
  • beikon
  • egg
  • maldon salt og pipar

Hitið ofninn í 185° og smyrjið möffinsform (ekki pappírsform heldur möffins-bökunarform eins og sést glitta í hér á myndinni fyrir ofan) með bræddu smjöri. Fletjið brauðsneiðarnar út með kökukefli, skerið í eins stóra hringi og þið náið og skerið síðan hringinn í tvennt. Klæðið möffinsformið með brauðhelmingunum, ég notaði 3 helminga til að fylla formið mitt. Smyrjið brauðið með bræddu smjöri.

Steikið beikonið yfir miðlungs hita þar til það er nánast stökkt, ca 4 mínútur. Leggið 1 beikonsneið í hverja brauðskál og brjótið eitt egg yfir.  Saltið og piprið og bakið í ofninum þar til eggjahvíturnar hafa stífnað, um 20-25 mínútur. Berið fram heitt.

Dásamlegur morgunverður

Það virðist engu máli skipta hvenær ég fer að sofa, ég er alltaf fyrst á fætur á morgnana. Mér finnst það ósköp notalegt og oftar en ekki læðist ég fram, kveiki lágt á útvarpinu, fletti blöðunum og skoða uppskriftir. Á laugardagsmorgnum geri ég yfirleitt vikumatseðilinn en í sumarfríinu hefur það alveg dottið úr rútínu. Nú er ég alltaf að plana næstu máltíð, ligg yfir uppskriftum og hleyp í búðina þess á milli.

Í morgun ákvað ég að koma fjölskyldunni á óvart og vekja þau með alvöru morgunmat. Sólin skein og ég stóðst ekki mátið að dúka borðið á pallinum og hafa morgunmatinn þar. Ég bakaði amerískar pönnukökur, steikti beikon og gerði breska morgunverðarpönnu sem ég sá í Jamie Oliver blaðinu mínu. Ég held að það sé ekki hægt að byrja daginn betur en með fjölskyldunni í sólinni yfir svona morgunverði. Krökkunum leið eins og við værum í útlöndum og ég skil það vel. Það var steikjandi hiti á pallinum og við sátum lengi yfir matnum og spjölluðum. Þetta verður endurtekið fljótlega.

Kartöflu og chorizo morgunverðarpanna að hætti Jamie Oliver

  • ólívuolía
  • 2 stórir laukar, skornir í grófa bita
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð
  • 240 gr chorizo pylsa, hökkuð
  • 4-6 soðnar kartöflur, skornar í grófa bita
  • 4 egg
  • fersk steinselja

Hitið ofninn i 180°. Setjið ólivuolíu í ofnþolna pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn við vægan hita þar til laukurinn verður mjúkur. Bætið chorizo pylsunni á pönnunna og steikið áfram í 2-3 mínútur eða þar til hún byrjar að fá fallegan lit. Bætið soðnu kartöflunum á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur. Brjótið eggin yfir og stingið pönnunni í ofninn og bakið í 8 mínútur eða þar til eggjahvíturnar eru stífar og eggjarauðurnar fljótandi. Myljið pipar og salt yfir ásamt ferskri steinselju og berið fram.

Amerískar pönnukökur

  • 3 bollar hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 4 tsk lyftiduft
  • 1 egg
  • mjólk eftir þörfum (ca 2 bollar)

Hrærið öllu saman þar til deigið er slétt og kekkjalaust. Steikið á pönnu í bræddu smjöri við vægan hita og snúið við þegar loftbólur myndast. Borið fram með smjöri, sýrópi, beikoni og öllu því sem hugurinn girnist.