Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Það er ekki óalgeng sjón hér á heimilinu að það standi kaka á eldhúsborðinu. Á virkum dögum passa ég upp á að láta skál með ávöxtum standa frammi og hef ísskápinn fullan af skyri og ab-mjólk sem strákarnir geti gripið í milli skóla og æfinga, en um helgar þykir mér notalegt að hafa köku á borðinu.

Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Ef einhverjum vantar hugmynd að helgarbakstri þá mæli ég með þessari marmaraköku. Hún er frábrugðin hefðbundnum marmarakökum að því leiti að hún er með fersku sítrónubragði á móti súkkulaðinu. Kakan er sérlega góð og fer ljómandi vel með helgarkaffinu.

Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu (uppskrift frá Hembakat)

  • 3 egg
  • 2 ½ dl sykur
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  • 3 dl hveiti
  • 100 g smjör
  • 1 dl mjólk
  • 2 tsk vanillusykur
  • sítrónuhýði af einni sítrónu (passið að rífa léttilega þannig að hvíti hlutinn komi ekki með)
  • 1 ½ msk kakó

Yfir kökuna:

  • um 25 g suðusúkkulaði, brætt

Hitið ofninn í 180°. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið hveiti og lyftidufti saman við. Bræðið smjörið og blandið því saman við mjólkina. Hrærið blöndunni saman við deigið, þar til það er orðið slétt.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál. Hrærið vanillusykri og rifnu sítrónuhýði saman við deigið í annarri skálinni og kakói saman við deigið í hinni skálinni.

Setjið ljósa deigið í smurt formkökuform (ca 1 ½ líter að stærð). Setjið súkkulaðideigið yfir og blandið varlega saman með gaffli. Bakið neðst í ofninum í 40-45 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu. Skreytið með bræddu súkkulaði.

Dumlekökur í ofnskúffu

Dumlekökur í ofnskúffu

Hér áður fyrr, þegar börnin voru yngri, gat ágústmánuður oft verið svolítið snúin. Þá var sumarfríið oft búið hjá okkur foreldrunum en skólinn ekki byrjaður og málin voru leyst með því að skrá börnin á sumarnámskeið. Í dag er þetta liðin saga og börnin orðin svo stór að í ár voru þau í fyrsta sinn öll í sumarvinnu.  Það sem mér þykir ekki minna merkilegt er að í fyrsta sinn á ævinni kom sú staða upp að ég hef nánast verið ein heima í heila viku! Ég man varla eftir að hafa nokkurn tímann verið ein heima í sólarhring þannig að þetta eru svo sannarlega viðbrigði. Í fyrstu hugsaði ég með mér að það væri nú ágætt að þurfa ekki að hugsa um neinn nema sjálfa mig en þetta fer að verða gott. Á morgun kemur Malín heim (eftir tveggja vikna flakk um Stokkhólm og Wales) og ég get ekki beðið!

Dumlekökur í ofnskúffu

Í vikunni hef ég komið ýmsu í verk og þegar ég var að renna yfir myndirnar í tölvunni í gærkvöldi þá rakst ég á þessar af Dumle kökum sem ég bakaði fyrr í sumar. Þær voru æðislegar og áttu auðvitað að vera fyrir löngu komnar inn á bloggið. Það hentar jú sjaldan jafn vel að eiga góðgæti með kaffinu en þegar allir eru heima í sumarfríi! Þessi uppskrift er stór og gefur um 50 kökur sem hægt er að frysta og taka út eftir þörfum. Ég mæli þó með að þeim sé komið strax í frystinn því annars eiga þær eftir að klárast upp til agna áður en þú veist af. Þar tala ég af reynslu!

Dumlekökur í ofnskúffu

Dumlekökur (uppskriftin gefur um 50 kökur)

  • 300 g smjör, við stofuhita
  • 3 dl sykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 3 tsk lyftiduft
  • 3 mak sýróp
  • 7,5 dl hveiti
  • 2 pokar Dumle karamellur (samtals 240 g), hakkaðar

Hitið ofninn í 175° og klæðið ofnskúffu með bökunarpappír. Hnoðið öll hráefnin, fyrir utan Dumle karamellurnar, saman í deig og þrýstið því í ofnskúffuna þannig að það verði jafn þykkt og fylli út í hana. Stráið hökkuðum Dumle karamellum yfir. Bakið 10-12 mínútur, þar til kanntarnir hafa fengið gylltan lit. Látið kólna og skerið síðan í bita.

Dumlekökur í ofnskúffu

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Ég ætlaði að gera svo margt í gær en endaði á að gera nánast ekki neitt. Það tekur á að byrja að vinna eftir frí og vikan er búin að vera annasöm. Ég var því eins og sprungin blaðra í gær, svaf í tæpa 11 klukkutíma án þess að rumska og eyddi síðan deginum að mestu í að dunda mér hér heima. Um kvöldið vorum við Malín bara tvær í mat og hún sótti pizzu handa okkur í kvöldmatinn. Lúxus!

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Ég er ákveðin í að baka í dag en áður en ég fór til Spánar bakaði ég æðislega köku, hálfgerða sjónvarpsköku með Tvix súkkulaði. Uppskriftina fann ég í dönsku blaði, Spis bedre, og þegar ég las í gegnum uppskriftina rak ég augun í orðið „sødmælk“. Eftir að hafa klórað mér í hausnum og blótað því að hafa ekki fylgst betur með í dönskutímunum hér í den ákvað ég að senda snapp á systur mína, sem hefur búið í Kaupmannahöfn undanfarin 15 ár, og spyrja hana hvað þetta væri. Hún svaraði um hæl að sødmælk væri feitasta tegundin af mjólk, líklega það sem heitir léttmjólk á Íslandi! Hahaha… ég held svei mér þá að hún ætti að kíkja oftar í heimsókn heim.

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Kakan er bökuð í formkökuformi en ef þið eigið það ekki þá er það ekkert vandamál að nota bara venjulegt springform.

Sjónvarpskaka með twix súkkulaði (uppskrift úr Spis Bedre)

  • 50 g smjör
  • 4 egg
  • 300 g sykur
  • 300 g hveiti
  • 3 tsk lyftiduft
  • korn úr 1 vanillustöng (ég notaði 2 tsk vanillusykur)
  • 2 dl nýmjólk

Ofanbráð

  • 90 g Twix (ca 4 stykki)
  • 75 g smjör
  • 75 g púðursykur
  • 75 g kókosmjöl
  • ½ dl nýmjólk

Hitið ofninn í 200°. Bræðið smjörið og látið það kólna örlítið. Hrærið egg og sykur ljóst og létt, og hrærið smjörinu síðan saman við. Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið í deigið. Hrærið að lokum mjólkinni saman við. Setjið deigið í smurt formkökuform (1 lítra form) og bakið í 25 mínútur.

Hakkið Twix súkkulaðið gróft og látið í pott ásamt smjörinu, púðursykrinum, kókosmjölinu og nýmjólkinni. Látið allt bráðna saman við vægan hita.

Athugið með kökuna eftir 25 mínútur (þið gætuð þurft að bæta nokkrum mínútum við), takið hana út og hækkið hitan á ofninum upp í 225°. Setjið ofanbráðið yfir kökuna og bakið hana síðan áfram í 5 mínútur. Látið kökuna kólna aðeins í forminu áður en hún er tekin úr því.

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Um daginn var ég með einn saumaklúbbinn minn hjá mér, Stjörnurnar. Ég furða mig á að það séu liðin 18 ár síðan við byrjuðum að hittast, þá allar á þeim tímamótum í lífi okkar að móðurhlutverkin voru ýmist að hefjast eða handan við hornið. Núna 18 árum síðar erum við mörgum börnum ríkari, nokkrar búnar að flytja erlendis og heim aftur, sumar sestar að erlendis og ein flutt norður í land. Engu að síður höldum við alltaf saman og þessar vinkonur mínar verða mér alltaf kærar.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Og hvað bauð ég þeim svo upp á? Sitt lítið af hverju. Osta, beikonvafðar döðlur, tapasskinku, ber, pekanhjúpaða ostakúlu, ofnbakaðan camembert og súkkulaðiköku. Einfalt, fljótlegt og gott.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Súkkulaðikakan var svakaleg, þó ég segi sjálf frá, og jafnvel betri daginn eftir. Ég bar hana fram með rjóma, saltkaramelluís frá Häagen-Dazs (ég mæli með að þið prófið hann…. eða haldið ykkur alveg frá honum því hann er ávanabindandi!) og jarðaberjum. Skothelt!

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

  • 4 egg
  • 6 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 9 msk kakó
  • ½ msk vanillusykur
  • smá salt
  • 200 g smjör

Súkkulaðikaramellukrem

  • 75 g smjör
  • ½ dl sykur
  • ½ dl sýróp
  • 1 msk kakó
  • 1½ dl rjómi
  • 200 g mjólkursúkkulaði (ég var með frá Cadbury)

Botninn:

Hrærið lauslega saman egg og sykur. Blandið hveiti, kakói, vanillusykri og salti saman og hrærið saman við eggjablönduna. Bræðið smjörið og hrærið því saman við. Setjið deigið í smurt form (ca 24 cm) og bakið við 175° í um 40 mínútur. Látið kökuna kólna.

Kremið:

Bræðið smjör í potti og bætið sykri, sýrópi, kakói og rjóma saman við. Látið suðuna koma upp á meðan þið hrærið í blöndunni og látið síðan sjóða við vægan hita í 5-10 mínútur. Takið pottin af hitanum og bætið hökkuðu súkkulaði í hann. Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellið kreminu yfir kökuna og látið hana síðan standa í ísskáp til að kremið stífni.

Bananakaka með súkkulaðikremi

Bananakaka með súkkulaðikremi

Um síðustu helgi rak ég augun í banana í ávaxtaskálinni sem voru á síðasta snúningi. Yfirleitt enda gamlir bananar í þessu bananabrauði hjá mér (uppáhalds!) en þar sem ég hafði ákveðið fyrr um daginn að sleppa sætindum yfir helgina þá komst ekkert annað að hjá mér en að nýta bananana í köku. Helst með kremi. Þegar kakan kom út úr ofninum var ég fljót að gleyma sætindalausu helgarplönunum og það fór sæluhrollur um mig þegar ég settist niður með nýbakaða kökusneiðina með rjóma. Síðar um daginn leit mamma óvænt við og þá bauð ég henni upp á kökuna.Hún kann að meta nýbakað hún mamma. Sérstaklega þegar það er rjómi með. Og börnin gengu um í sæluvímu á meðan kakan var til, því þau elskuðu hana. Það er því óhætt að segja að kakan gerði helgina okkar örlítið ljúfari og við nutum hennar vel.

Bananakaka með súkkulaðikremi

Bananakaka með súkkulaðikremi

  • 75 g smjör
  • 2 ½ dl sykur
  • 2 msk mjólk
  • 1/4 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 2 þroskaðir bananar
  • 100 g súkkulaði
  • 2 ½ dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi

Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið því saman við sykur, mjólk, salt og vanillusykur. Aðskiljið eggjarauður og eggjahvítur og hrærið eggjarauðunum saman við deigið. Stappið bananana og hrærið saman við deigið. Hakkið súkkulaðið og blandið saman við hveiti og matarsóda. Hrærið blöndunni síðan saman við deigið. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim að lokum í deigið. Setjið deigið í vel smurt form og bakið við 175° í 30-40 mínútur. Kakan á að vera örlítið blaut í sér þannig að ekki baka hana of lengi.

Súkkulaðikrem:

  • 30 g mjúkt smjör
  • 2 ½ dl flórsykur
  • ½ tsk vanillusykur
  • 3 msk kakó
  • 50 g philadelphia rjómaostur

Hrærið smjöri, flórsykri, vanillusykri, kakó og rjómaosti saman þar til blandan er slétt. Smyrjið yfir kökuna sem hefur fengið að kólna.

Bananakaka með súkkulaðikremi

 

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Ég er á þeirri skoðun að það sé hvorki hægt að eiga nógu margar uppskriftir að súkkulaðikökum né hægt fá leið á þeim. Góð súkkulaðikaka gleður alltaf og á þessu heimili klárast hún alltaf fljótt. Með ískaldri mjólk er ómöglegt að standast hana! Þessi uppskrift er æðisleg og vert að spara hana. Ég lofa að hún mun vekja lukku.

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðikaka (uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 85 g smjör, við stofuhita
  • 145 g púðursykur
  • 25 g sykur
  • 1 stórt egg
  • 1 eggjarauða
  • 175 ml súrmjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 40 g kakó
  • 125 g hveiti
  • 1/4 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt

Krem:

  • 55 g suðusúkkulaði, brætt og kælt
  • 180 g flórsykur
  • 115 g smjör, við stofuhita
  • smá sjávarsalt (má sleppa)
  • 1 msk rjómi eða nýmjólk
  • 1/2 tsk vanilludropar

Kakan:

Hitið ofninn í 175° og klæðið 24 cm kökuform með smjörpappír eða smyrjið það vel.

Hrærið smjör, púðursykur og sykur saman þar til blandan verður létt. Bætið eggi, eggjarauðu og vanilludropum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Hrærið þá súrmjólk saman við. Hrærið að lokum hveiti, kakó, matarsóda, lyftidufti og salti saman við. Setjið deigið í kökuformið og bakið í 25-35 mínútur, eða þar til prjóni sem stungið hefur verið í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett á.

Kremið:

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til kremið hefur fengið slétta og létta áferð. Ef kremið er gert án matvinnsluvélar þá er byrjað á að hræra saman smjöri, flórsykri og salti í hrærivél eða með handþeytara. Bætið súkkulaði, mjólk og vanilludropum saman við og hrærið áfram þar til allt hefur blandast vel og kremið er orðið létt í sér. Setjið kremið yfir kökuna og njótið.

 

Æðisleg snickersmarengsterta og myndir úr fermingu strákanna

IMG_6128

Vikurnar hafa hreinlega horfið að undanförnu en núna eru strákarnir mínir fermdir og lífið að falla í rólegra horf. Við áttum yndislegan fermingardag. Erna vinkona hjálpaði mér í undirbúningnum og viku síðar þegar hún fermdi Gumma sinn hjálpaði ég henni. Við vinkonurnar græjuðum því tvær fermingar með viku millibili! Ég var spurð hér á blogginu hvað ég ætlaði að bjóða upp á í fermingunni og ég lét það í hendur strákana að velja það. Þeir voru ekki í vandræðum með að ákveða sig, brauðtertur, kökur, osta og súkkulaðimús!

Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens SnickersmarensSnickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens SnickersmarensSnickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens SnickersmarensSnickersmarens

Það er óhætt að segja að ég gekk of langt hvað varðar magn veitinga og hefði getað fætt hálfan Kópavog í viku með því sem var í afgang eftir veisluna. Ég hóaði því í nágrannana og lét þá taka hluta til sín, börnin hennar Ernu mættu með brautertur og ávaxtaspjót í nesti í skólann daginn eftir og ég fór með hluta í vinnuna til mín. Þar var ég spurð hvort uppskriftin af marengskökunni væri ekki örugglega á blogginu en hún var ekki hér, heldur gaf ég hana í MAN fyrir nokkru síðan. Það er því löngu tímabært að birta hana hér á blogginu.

Snickersmarens

Snickersmarengsterta

  • 4 eggjahvítur
  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 5 dl Rice Krispies

Stífþeytið eggjahvítur, sykur og púðursykur saman. Hrærið Rice Krispies varlega saman við. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír, setjið deigið á og mótið um 25 cm hring úr því. Bakið við 150° í 60 mínútur. Látið botninn kólna áður en kremið er sett á.

Krem:

  • 4 eggjarauður
  • 3 msk sykur
  • 2 snickers (samtals 100 g)
  • 60 g smjör

Bræðið Snickers og smjör saman við vægan hita og látið aðeins kólna. Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Hrærið öllu varlega saman og setjið kremið yfir botninn.

Yfir tertuna:

  • 5 dl rjómi
  • 2 snickers (samtals 100 g)
  • ber

Þeytið rjóma og hakkið snickers. Setjið þeytta rjómann yfir kremið og stráið hökkuðu snickersi yfir. Skreytið með berjum.

 

 

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Í vikunni bakaði ég möffins til að eiga með kaffinu. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að þær myndu jafnvel fá að liggja óhreyfðar fram að helginni en það fór auðvitað eins og það fór, og alls ekki eins og ég hafði hugsað mér. Ég hætti ekki að furða mig á því hvað unglinsstrákar geta borðað mikið! Möffinsin kláruðust samdægurs, að sjálfsögðu. Fyrst borðuðum við þau nýkomnin úr ofninum og þá voru súkkulaðibitarnir bráðnaðir í heitum möffinsunum, klikkaðslega gott. Síðan um kvöldið voru súkkulaðibitarnir harðnaðir í þeim og gáfu stökkt kröns í mjúkt möffinsið, líka alveg brjálæðislega gott.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Næst mun ég sýna fyrirhyggju og taka hluta af þeim frá. Það má t.d. frysta möffinsin. Það getur verið gott að eiga þau  í frystinum þegar gesti ber að garði eða möffinslönguninn grípur mann. Þá er bara að hita eitt í örbylgjuofninum í 30-45 sek og það er eins og þú hafir verið að taka það úr ofninum.

Fullkomnar súkkulaðibitamöffins með súkkulaðibitum (uppskriftin gefur 12 ágætlega stór möffins)

  • 2/3 bolli kakó
  • 1 3/4 bolli hveiti
  • 1 1/4 bolli púðursykur
  • 1 tsk matarsódi
  • 3/4 tsk salt
  • 1 tsk instant kaffi
  • 1 1/2 bolli grófhakkað suðusúkkulaði
  • 2 stór egg
  • 3/4 bolli mjólk
  • 2 tsk hvítvíns edik
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1/2 bolli smjör, brætt

Hitið ofninn í 175° og takið fram möffinsform. Ég set formin í möffinsmót, þá halda þau löguninni betur. Þessu má þó sleppa.

Hrærið þurrefnum saman (hveiti, sykri, matarsóda, salti og kaffi).

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Grófhakkið súkkulaðið.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Hrærið súkkulaðibitum saman við þurrefnin og leggið til hliðar.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Hrærið eggjum, mjólk, ediki og vanilludropum saman.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Bræðið smjörið.Hrærið eggjablöndunni saman við þurrefnin og hrærið síðan bræddu smjörinu saman við þar til allt hefur blandast vel. Notið skeið og setjið deigið í möffinsformin, fyllið þau að 3/4.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Bakið í 20-15 mínútur, eða þar til prjóni stungið í möffinsin kemur hreinn upp.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Mjúk súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Um síðustu helgi bakaði ég dásamlega súkkulaðibitaköku sem ég má til með að benda ykkur á ef þið eruð í bökunarhugleiðingum fyrir helgina. Kakan er mjúk, með stökkum súkkulaðibitum og bragðgóðu kremi yfir. Hreint út sagt dásamleg í alla staði!
Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Botninn:

  • 175 g smjör
  • 450 g hveiti
  • 2,5 dl mjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3/4 tsk salt
  • 350 g sykur
  • 100 g púðursykur
  • 4 egg
  • 150 g suðusúkkulaðibitar

Hitið ofninn í 175° og klæðið skúffukökuform með smjörpappír. Blandið saman mjólk og vanilludropum og setjið til hliðar. Blandið saman hveiti, salti og lyftidufti í annari skál og setjið til hliðar. Hrærið smjör, sykur og púðursykur saman í 3-5 mínútur, eða þar til blandan er ljós og létt. Lækkið hraðann á hrærivélinni og bætið eggjunum út í, einu í einu, og hrærið vel á milli. Bætið hveitiblöndunni og mjólkurblöndunni út í deigið á víxl og hrærið rólega á meðan. Blandið súkkulaðibitunum að lokum saman við með sleif. Setjið deigið í klætt skúffukökuform og bakið í miðjum ofni í 40-50 mínútur eða þar til prjóni sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett á.

Mjúk súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Krem:

  • 115 g suðusúkkulaði
  • 150 g smjör
  • 1 msk mjólk
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • 230 g flórsykur

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna aðeins. Hrærið smjöri við miðlungshraða í hrærivél (eða með handþeytara) í 2-3 mínútur eða þar til mjúkt. Hrærið mjólkinni saman við, síðan súkkulaðinu og svo vanilludropunum. Lækkið hraðann og hrærið flórsykrinum varlega saman við. Hrærið þar til kremið er slétt og mjúkt.

Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil

Í kvöld ætlum við strákarnir út að borða og á Billy Elliot (örugglega síðust af öllum!) og því þarf ég ekki að huga að neinum mat fyrir kvöldið. Mér þykir það ljúft inn á milli en það hefur verið full mikið af ljúfa út-að-borða lífinu upp á síðkastið. Ekki að ég sé að kvarta (sko alls ekki!) en mér þykir bara svo gaman að elda heima um helgar. Á morgun er því því planið að bæta það upp með góðri sunnudagssteik og ég ætla að leggjast aðeins yfir uppskriftabækurnar í dag þar sem mig langar að prófa eitthvað nýtt.

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil

Ég datt niður á svo góða kökuuppskrift hjá Smitten Kitchen um daginn og var ekki róleg fyrr en ég var búin að baka hana. Kakan er mjúk, dásamlega góð og passar stórvel með helgarkaffinu. Gunnar fékk sér 5 sneiðar á einu bretti og gaf henni bestu mögulegu einkunn. Tilvalinn helgarbakstur!

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil (uppskrift frá Smitten Kitchen)

Botn:

  • ½ bolli smjör við stofuhita (113 g)
  • 1 ½ bolli sykur (300 g)
  • 3 stór egg, hvítur og rauður aðskildar
  • 1 ½ tsk vanilludropar
  • 2 bollar sýrður rjómi
  • 3 bollar hveiti (375 g)
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 ½ tsk matarsódi
  • ¾ tsk salt

Fylling og toppur:

  • 2 bollar súkkulaðibitar (ég notaði 2 poka af suðusúkkulaðidropum)
  • ½ bolli sykur (100 g)
  • 1 tsk kanill

Hitið ofninn í 175° og smyrjið skúffukökuform. Hrærið saman smjör og sykur, bætið eggjarauðum og vanilludropum saman við og hrærið áfram. Sigtið hveiti, matarsóda, lyftiduft og salt saman í sér skál. Hrærið á víxl sýrðum rjóma og hveitiblöndunni saman við deigið. Stífþeytið eggjahvítur og hrærið þeim að lokum varlega saman við deigið.

Hrærið saman sykur og kanil fyrir fyllinguna.

Setjið helminginn af deiginu í skúffukökuformið, stráið helmingnum af kanilsykurblöndunni yfir og 1 bolla af súkkulaðibitum. Setjið seinni helminginn af deiginu yfir og reynið að slétta úr því þannig að það hylji fyllinguna. Setjið það sem eftir var af kanilsykrinum yfir og seinni bollann af súkkulaðibitunum. Þrýstið létt með lófanum yfir súkkulaðibitana svo þeir festist í deiginu. Bakið í 40-50 mínútur, eða þar til prjónn sem stungið hefur verið í kökuna kemur hreinn upp.

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil