Pizza með sýrðum rjóma og kavíar

Eftir Stokkhólmsfærsluna er kannski viðeigandi að setja inn uppskrift af pizzu sem er vinsæl í Svíþjóð og í miklu uppahaldi hjá mér. Ég hef séð pizzuna víða á sænskum bloggum en hún er bæði einföld (sérstaklega ef maður kaupir tilbúið pizzadeig) og brjálæðislega góð.

Þessi pizza er eflaust ekki allra og krakkarnir hér fúlsa við henni en ég fæ ekki nóg. Mér þykir hún himnesk og passa sérlega vel yfir sumartímann með köldu hvítvínsglasi. Þið bara verðið að prófa!

Pizza með sýrðum rjóma og kavíar

  • pizzabotn
  • philadelphia rjómaostur
  • parmesan
  • rauðlaukur
  • graslaukur
  • sýrður rjómi
  • kavíar
  • sítróna

Gerið pizzadeig eða kaupið tilbúið og fletjið/rúllið út. Smyrjið Philadelphia rjómaosti yfir og stráið rifnum parmesan yfir rjómaostinn. Skerið rauðlaukinn niður og stráið yfir. Bakið við 200° í ca 10-15 mínútur. Takið pizzuna úr ofninum, stráið graslauk yfir og setjið doppur af sýrðum rjóma og kavíar yfir pizzuna. Skreytið með sítrónusneiðum og berið fram.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Sætkartöflu pizzabotn úr 3 hráefnum!

Sætkartöflu pizzabotn

Ég veit að það er hefð á mörgum heimilum að vera með pizzur á föstudagskvöldum. Sjálf gæti ég eflaust lifað á pizzum og fæ ekki leið á þeim. Mér þykir hins vegar gaman að prófa nýjar uppskriftir og mismunandi áleggstegundir. Hér undir uppskriftaflipanum að ofan má finna nokkrar tegundir af pizzum sem mér þykja góðar og nú bæti ég enn einni í safnið.

Sætkartöflu pizzabotn

Þessi pizza er ólík þeim flestum þar sem botninn er gerður úr sætri kartöflu. Uppáhalds áleggið er síðan sett yfir, rétt eins og um hefðbundinn pizzabotn sé að ræða. Ég breytti þó út af vananum með áleggið í þetta sinn. Mér þykir satay sósa svo góð með kjúklingi og sætum kartöflum þannig að hún fékk að fara yfir botninn ásamt kjúklingi, rauðlauk og vel af osti. Þegar pizzan kom úr ofninum setti ég mangó, ferskt kóriander, kokteiltómata og salthnetur yfir hana. Útkoman var æðisleg!

Sætkartöflu pizzabotn (uppskriftin gefur einn stóran botn) – uppskrift frá Pinch of Yum

  • 1 meðalstór sæt kartafla
  • ⅔ bolli haframjöl
  • 1 egg
  • ½ tsk salt
  • krydd eftir smekk (má sleppa)

Hitið ofn í 200°. Setjið sætu kartöfluna og haframjölið í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til blandan er orðin fín. Bætið eggi og kryddum (séu þau notuð) saman við og látið vélina taka nokkra snúninga í viðbót til að allt blandist vel. Setjið blönduna á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og mótið pizzabotn sem er 0,5 – 1 cm á þykkt. Bakið í 25-30 mínútur, eða þar til botninn er þurr viðkomu.  Takið pizzabotninn úr ofninum, látið hann kólna og setjið hann síðan aftur á bökunarpappírsklædda bökunarplötuna en nú með þurru hliðina (sú sem hafði snúið upp í ofninum) niður. Takið bökunarpappírinn varlega af, penslið yfir botninn með ólífuolíu og bakið í 5-10 mínútur til viðbótar til að fá stökkann botn. Setjið sósu, álegg og ost yfir pizzubotninn og bakið þar til osturinn hefur bráðnað.

Sætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotn

 

Pizza með blómkálsbotni

Pizza með blómkálsbotni

Þá er enn ein helgin framundan og hjá mörgum sú síðasta af sumarfríinu. Grunnskólarnir byrja strax eftir helgi og því fer lífið hér á bæ að detta í rútínu aftur. Mér þykir ótrúlegt að strákarnir mínir séu að byrja í 9. bekk og Malín að hefja sitt þriðja menntaskólaár. Tíminn líður svo skelfilega hratt að það nær engri átt.

Pizza með blómkálsbotni

Helgin býður bæði upp á Reykjavíkurmaraþon og menningarnótt en ég sigli á móti straumnum og stefni út fyrir borgina. Það verður ljúft. Ostar, rauðvín og nautalund eru á helgarmatseðlinum og áður en ég held áfram leitinni að hinum fullkomna eftirrétti ætla ég að gefa ykkur uppskrift af heilsusamlegri föstudagspizzu. Ég bauð upp á hana hér heima um daginn og allir borðuðu með bestu lyst. Hefðbundnum hveitibotni er skipt út fyrir blómkálsbotn sem kemur skemmtilega á óvart og er bæði einfalt og gott.

Pizza með blómkálsbotni

Blómkálspizzabotn (uppskriftin gefur 2 þunna botna)

  • 250 g ferskur mozzarella, rifinn (2 stórar kúlur)
  • 1 blómkálshaus, meðalstór
  • 2 egg
  • 70 g parmesanostur, rifinn
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 200°. Rífið mozzarella, blómkál og parmesanost og blandið saman við eggin. Saltið og piprið. Fletjið þunnt út á tvær ofnplötur og bakið í 20 mínútur. Takið botnana úr ofninum, setjið á álegg eftir smekk og látið síðan aftur í ofninn í 5 mínútur.

Pizza með blómkálsbotniPizza með blómkálsbotniPizza með blómkálsbotniPizza með blómkálsbotni

Grilluð humarpizza

Grilluð humarpizzaÉg hef verið netlaus undanfarna daga en hef núna komið mér fyrir á netkaffihúsi til að blogga og svala netþörfinni. Ótrúlegt hvað netið skiptir orðið miklu máli í hversdagslífinu. Það er ekki einu sinni hægt að athuga með veðurspánna án þess. Og það sem verra er, ég hef ekki getað sett hingað inn bestu pizzuuppskrift sem hægt er að hugsa sér, grilluð humarpizza með hvítlaukssmjöri, parmesan og fleiri ómótstæðinlegum hráefnum.

Grilluð humarpizza

Þessi pizza er svo gjörsamlega ómótstæðileg að við grilluðum okkur hana tvo daga í röð um daginn. Það er svo lekkert að bjóða upp á hana með köldu hvítvínsglasi, hvort sem er í forrétt, aðalrétt eða fyrir saumaklúbbinn. Síðan er stórsnjallt að útbúa hana og geyma í ísskáp þar til hún fer á grillið. Þá þarf ekkert að gera eftir að gestirnir koma annað en að opna hvítvínsflösku og setja pizzurnar á grillið. Þetta getur ekki klikkað!Grilluð humarpizza

Grilluð humarpizza (uppskriftin miðast við eina pizzu)

  • álpappír
  • PAM sprey
  • salt og pipar
  • tortilla
  • 25 g smjör
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk parmesan (Parmareggio), finrifinn
  • 2 plómutómatar, hakkaðir og látið renna af þeim
  • fersk basilika
  • 60 g skelflettur humar frá Sælkerafiski
  • 1 msk parmesan (Parmareggio), fínrifinn
  • 2 lúkur pizza ostur
  • 30 g ferskur mozzarella í bitum

Rífið álpappír svo passi undir tortillaköku. Spreyið álpappírinn með PAM og stráið vel af maldon salti og pipar yfir. Leggið tortillu yfir. Bræðið smjör í potti og blandið saman við pressað hvítlauksrif. Penslið hvítlaukssmjörinu yfir tortillabotninn og stráið 2 msk af fínrifnum parmesan yfir. Hakkið plómutómata og látið leka af þeim í gegnum sigti. Leggið hökkuðu tómatana yfir parmesan ostinn og setjið basiliku sem hefur verið skorin/klippt í ræmur yfir. Skolið og þerrið humarinn og setjið hann yfir tómatana. Stráið 1 msk af parmesan yfir, þar eftir 2 lúkum af pizza osti og að lokum ferskum mozzarellabitum. Grillið þar til osturinn er bráðnaður og botninn stökkur.

Grilluð humarpizzaGrilluð humarpizzaGrilluð humarpizzaGrilluð humarpizzaGrilluð humarpizzaGrilluð humarpizzaGrilluð humarpizza

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Eins og mér þykir gaman að taka fram jólaskrautið fyrir aðventuna þá finnst mér líka alltaf jafn gott að pakka því niður aftur. Og á hverju einasta ári skipti ég jólaskrautinu út fyrir ferska túlípana. Mér þykir það hreinlega tilheyra því að pakka niður jólunum.

Ég hef undanfarin ár birt hér lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins og ætla að halda í þá hefð. Mér þykir alltaf áhugavert að sjá hvaða uppskriftir það eru sem hafa vakið mestu lukku og það gleður mig að sjá tvo fiskrétti á listanum í ár. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá sumar uppskriftir á listanum ár eftir ár. Ég bendi á að listann má vel nýta sem vikumatseðill, enda bæði fjölbreyttur og ljúffengur.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti er nú vinsælasta uppskrift ársins annað árið í röð. Uppskriftinni hefur verið deilt yfir 10.000 sinnum og skildi engan undra. Dásamlega góður réttur sem er í senn hollur, fljótgerður og einfaldur að útbúa.

Hakkbuff með fetaosti

Í öðru sæti er hakkabuff með fetaosti. Heimilismatur eins og hann gerist bestur!

Fiskur í okkar sósu

Í þriðja sæti er fiskur í okkar sósu. Þessi fiskréttur er einn af mínum uppáhalds og það gleður mig að sjá hann svona ofarlega á lista.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mexíkóskur mangókjúklingur var fjórða vinsælasta uppskrift ársins. Æðislegur réttur sem mér þykir passa sérlega vel á föstudagskvöldum.

Einföld og góð skúffukaka

Fimmta vinsælasta uppskrift ársins var í öðru sæti á listanum í fyrra. Einföld og góð skúffukaka sem svíkur engan og er ómótstæðileg með ískaldri mjólk.

Bananabrauð

Uppáhalds bananabrauðið heldur sjötta sæti listans frá því í fyrra. Ég vil ekki vita hversu oft ég hef bakað þetta brauð en við fáum ekki leið á því.

Mexíkósúpa

Í sjöunda sæti er mexíkósk kjúklingasúpa. Hér er á ferðinni uppskrift sem ég gríp oft til og hún vekur alltaf lukku. Dásamleg súpa í alla staði.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei er áttunda vinsælasta uppskriftin. Hún stendur alltaf fyrir sínu og er öruggt kort á föstudagskvöldum.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Í níunda sæti er ofnbakaður fiskur í paprikusósu. Namm!

Milljón dollara spaghetti

Tíunda vinsælasta uppskriftin var sú vinsælasta fyrir tveimur árum, milljón dollara spaghetti. Barnvænn réttur sem slær alltaf í gegn.

 

 

 

BBQ-Pizza

BBQ-Pizza

Mér hlotnaðist sá heiður að fá að gera nokkrar grilluppskriftir fyrir Hunt´s núna nýlega. Uppskriftirnar munu síðan birtast í grillbæklingi sem verður dreifður í verslanir á næstunni. Fjölskyldan varð himinlifandi yfir því kröftuga forskoti á grillsumarið sem fylgdi í kjölfarið og naut þess svo sannarlega að gæða sér á afrakstrinum. Þetta var æðislega skemmtilegt verkefni og því verður ekki neitað að grillaður matur er dásamlegur. Ég er ekki frá því að allur matur verði örlítið betri þegar hann er grillaður.

BBQ-Pizza

Ég fékk leyfi til að birta uppskriftirnar hér og þar sem ég fæ ekki betur séð en að veðurspáin bjóði upp á grillveður á morgun ætla ég að stinga upp á að föstudagspizzan verði þessi ljúffenga grillaða BBQ-pizza. Ég held að það verði enginn svikinn af henni og hér heima var barist um síðustu sneiðarnar. Föstudagspizzan gerist varla betri!

BBQ-Pizza

BBQ-Pizza (uppskriftin miðast við eina 16“ pizzu)

  • Pizzadeig (keypt eða heimagert)
  • 2 kjúklingabringur frá Rose Poultry
  • ½ rauðlaukur
  • 1 dl maísbaunir
  • ½ dl. Hunt´s Orginal BBQ Sauce
  • 50 g Philadelphia rjómaostur
  • 60 g mozzarella ostur, rifinn
  • 60 g cheddar ostur, rifinn
  • ferkst kóriander

Sósa: Hunt´s BBQ orginal sósa og Philadelphia rjómaostur eru sett í matvinnsluvél og unnið saman.

Grill er hitað og áleggið á pizzuna haft tilbúið. Kjúklingabringur eru kryddaðar eftir smekk, eða marineraðar í BBQ-sósu, grillaðar og skornar í þunnar sneiðar. Rauðlaukur er skorinn í þunnar sneiðar.

Pizzadegið er flatt út, sett á heitt grillið og grillað þar til botninn er orðinn stökkur (ef grillið er 200° heitt þá tekur það um 3-4 mínútur). Botninum er þá snúið við og álegginu raðað yfir á þann hátt að fyrst er sósan smurð yfir botninn, þar á eftir er helmingur af ostinum settur yfir, síðan kjúklingurinn, rauðlaukurinn og maísbaunirnar, og að lokum seinni helmingurinn af ostinum. Grillinu er síðan lokað og pizzan grilluð áfram þar til osturinn hefur bráðnað.

Áður en pizzan er borin fram er fersku kóriander stráð yfir hana.

Fljótlegar og ljúffengar smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur

Það hefur verið í nógu að snúast undanfarna daga og því ekki gefist mikill tími til að dunda sér í eldhúsinu. Á morgun verður 10. bekkur með kökusölu í skólanum og Malín á að koma með tvær kökur. Ég sé því núna fram á notalega kvöldstund í eldhúsinu með jólalögin í bakgrunninum og bökunarlykt í húsinu.

Smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur

Á sunnudaginn var útstáelsi á okkur þar sem við fórum í afmæli, á bókamessuna og þaðan í Garðheima að endurnýja útiseríuna. Við komum seint um síðir heim og reiddum fram ljúffengar pizzur á svipstundu. Mér þykir gott að eiga smjördeig í frystinum og þarna kom það sér mjög vel. Ég flatti nokkrar plötur út, smurði tomato & garlic stir through (úr glerkrukku frá Sacla) yfir og toppaði ýmist með marineruðum paprikubitum (líka úr glerkrukku frá Sacla) eða ferksrifum parmesan. Þegar pizzurnar komu úr ofninum þá settum við hráskinku, ruccola og ferskrifinn parmesan yfir. Svakalega fljótlegt og gott!

Smjördeigspizzur

Það er hægt að leika sér endalaust með hráefnin og útfærsluna en svona voru pizzurnar hjá okkur.

Smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur (hugmyndin kemur héðan)

  • smjördeig
  • Stir through með tómat og hvítlauk
  • marineraðir paprikubitar í kryddolíu
  • ferskur parmesan
  • hráskinka
  • ruccola

Hitið ofninn í 190°.

Afþýðið smjördeigið (ef þið eruð með frosið) og fletjið út. Smyrjið stir through yfir og stráið parmesan osti eða marineruðum paprikubitum yfir. Brjótið upp á kantana og penslið þá með upphrærðu eggi. Bakið í 10 mínútur. Takið úr ofninum og setjið hráskinku og ruccola salat yfir og toppið með ferskrifnum parmesan.

Grísk pizza

Grísk pizza

Í gærkvöldi setti ég jólatónlist á fóninn og byrjaði að pakka inn fyrstu jólagjöfunum. Það varð svo jólalegt hér heima við það eitt að heyra jólalögin að mig dauðlangaði til að setja aðventuljósin í gluggana og æða inn í geymslu eftir jólaskrautinu. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og veit fátt skemmtilegra en að undirbúa jólin.

Grísk pizza

Hér áður fyrr vildi ég alltaf geyma það fram á síðustu daga að pakka jólagjöfunum inn en eftir að hafa setið til þrjú aðfaranótt aðfangadags eitt árið við innpökkun ákvað ég að þeirri hefð yrði ég að breyta. Núna byrja ég snemma, tek eitt og eitt kvöld í að dunda mér við þetta og nýt hverrar stundar.

Mig langar að benda ykkur á að það er hægt að prenta út skemmtileg merkispjöld á síðu sem heitir Eat, drink, chic, eins og til dæmis þessa krúttlegu hreindýraknúsamiða, jólapeysumiða, jólakveðjur, þessi fallegu merkisspjöld eða hreindýraspjöldin sem ég notaði í gærkvöldi. Passið bara að kaupa fallegan pappír sem er þykkari en venjuleg blöð.

Grísk pizza

En úr jólagleðini yfir í helgina, það er föstudagur á morgun og margir með þá hefð að hafa pizzu í kvöldmatinn. Ég fór með Kristínu vinkonu minni til Boston fyrir nokkrum árum og  þar kynnti hún mig fyrir æðislegri pizzu á California Pizza Kitchen. Pizzan var grísk og þegar ég kom heim var það mitt fyrsta verk að finna uppskriftina. Nú man ég ekki lengur hvar ég fann uppskriftina en hún er stórgóð og ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þó að það taki smá tíma og hráefnalistinn er langur. Það er vel þess virði að eyða smá tíma í þessa dásemd.

Grísk pizza

Grísk pizza

  • Pizzabotn (uppskrift fyrir neðan)
  • 2 msk ólívu olía
  • 170 g ferskur, rifinn mozzarella ostur
  • 2 grillaðar grískar kjúklingabringur, skornar í sneiðar (uppskrift fyrir neðan)
  • grískt salat (uppskrift fyrir neðan)
  • 2 dl  tzatziki sósa (uppskrift fyrir neðan)
  • 30 g feta ostur
  • 2 tsk steinselja, hökkuð

Pizzabotn:

  • 1 tsk sykur
  • 2 tsk matarolía
  • 2 dl vatn (37°heitt)
  • 1 tsk ger
  • 1/2 tsk salt
  • 400 g hveiti

Hráefnið er sett í skál í þessari röð og hnoðað vel saman. Farið varlega í hveitið, setjið það smá saman út í þar til deigið sleppir skálinni. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast á meðan áleggið er undirbúið og ofninn hitaður.

Grískur kjúklingur:

  • 900 g kjúklingabringur
  • 2 msk ólíufolía
  • 0,5 dl grísk kryddblanda

Setjið kjúklingabringurnar í plastpoka og fletjið þær út með buffhamri þar til þær verða 1,5 cm að þykkt. Hrærið ólívuolíu og kryddblöndunni saman og veltið kjúklingabringunum, einni í einu, upp úr blöndunni. Setjið kjúklinginn í ísskáp í 10-20 mínútur.

Grillið kjúklinginn á grilli í 3-4 mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni við 175° í 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Grískt salat

  • 1 stór agúrka, afhýdd og skorin í teninga
  • 2 tómatar, kjarnhreinsaðir og skornir í teninga
  • 1 rauðlaukur, hakkaður
  • 1 dl kalamata ólífur, skornar í tvennt
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1 tsk rauðvínsedik
  • ½ tsk sykur
  • ¼ tsk hakkaður hvítlaukur
  • dass af þurrkuðu oregano
  • dass af grófu salti
  • dass af svörtum pipar
  • 1 msk ólífuolía

Setjið agrúrku, tómata, rauðlauk og ólífur í stóra skál. Hrærið hinum hráefnunum saman í lítilli skál og blandið svo saman við grænmetið.

Tzatziki sósa

  • 1,2 dl majónes
  • 3 msk jógúrt
  • 3 msk sýrður rjómi
  • 30 g fetaostur
  • 1 ½ msk agúrka, afhýdd og kjarninn fjarlægður, restin skorin í teninga
  • ½ tsk þurrkuð mynta

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og vinnið saman í slétta sósu.

Samsetning:

Hitið ofn í 220°. Fletjið pizzadeigið út í eina stóra pizzu eða tvær minni. Burstið ólíuolíu og stráið rifnum mozzarellaosti yfir botinn. Dreifið kjúklingasneiðum yfir ostinn og setjið pizzuna í ofninn í 8-10 mínútur eða þar til pizzabotninn er gylltur á könntunum og osturinn bránaður.

Þegar pizzan kemur úr ofninum er grísku salati dreift yfir pizzuna, fetaosti stráð yfir og að lokum tzatziki sóu. Stráið hakkaðri steinselju yfir pizzuna og berið hana fram með auka sósu til hliðar.

Pizza með karamelliseruðum lauk og pipruðu beikoni

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Það er tvennt sem ég er ákveðin í að gera í dag. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að brjálæðislega góðri pizzu og síðan ætla ég að setjast niður og svara tölvupóstum og spurningum sem ég hef fengið frá ykkur í vikunni. Ég vona að þið fyrirgefið seinaganginn. Mér þykir svo gaman að heyra frá ykkur en næ ekki alltaf að svara strax.

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Um síðustu helgi breytti ég út af vananum og bauð upp á föstudagspizzuna í nýrri útfærslu. Eða bæði og, ég prófaði að gera pizzu með karamelliseruðum lauk og pipruðu beikoni en til vonar og vara gerði ég líka hefðbundna pizzu.

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Ég hefði betur sleppt varaskeifunni því nýja pizzan reyndist ólýsanlega góð. Svo góð að ég sá eftir að hafa bara gert tvær því þær hreinlega hurfu af borðinu. Sætur laukurinn og salt beikonið passa stórkostlega vel saman og osturinn fullkomnar veisluna.

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Ég held að það gæti verið gaman að bjóða upp á pizzuna sem forrétt og bera hana þá fram með ísköldum bjór í flöskum. Ég er sjálf ekki mikið fyrir bjór en grunar að hann færi vel með pizzunni. Það er kannski eitthvað til að prófa um helgina?

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Pizza með karamelliseruðum lauk og pipruðu beikoni

  • 8 þykkar beikonsneiðar, skornar í bita
  • 2 msk ósaltað smjör
  • 2 laukar, skornir í þunnar sneiðar
  • ¼ tsk salt
  • 1 msk púðursykur
  • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 tsk ferskmalaður pipar
  • 350 g óðalsostur, rifinn (ég mæli sérstaklega með honum, hann passar svo vel á pizzuna)

Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið beikonið svo að fitan byrjar að renna af því og beikonið er aðeins byrjað að steikjast. Það á eftir að klára steikinguna í ofninum. Færið beikonið af pönnunni yfir á disk þaktan eldhúspappír og myljið pipar yfir. Látið fituna vera áfram á pönnunni, lækkið hitan í lágann hita og bætið smjöri saman við. Þegar smjörið er bráðnað er laukurinn settur á pönnuna ásamt salti. Setjið lok yfir og eldið við vægan hita í klukkustund, en hrærið í lauknum á 10 mínútuna fresti. Eftir klukkustund er púðursykri bætt á pönnuna og látið krauma áfram undir loki í 15 mínútur. Hrærið hvítlauk saman við og takið af hitanum. Færið laukinn yfir í skál og leggið til hliðar.

Fletjið pizzubotnana út og stráið helmingnum af ostinum yfir þá. Setjið laukinn yfir ostinn og þar á eftir beikonið. Endið á að setja ost yfir og bakið við 180° í 30-35 mínútur, eða þar til botninn er gylltur og osturinn bránaður og kominn með fallegan lit.

Pizzuflétta

Pizzuflétta

Ég hef áður sagt frá föstudagspizzunum okkar hér á blogginu en síðustu föstudaga hafa þær staðið hér á borðum í nýrri útfærslu. Mér þykir gaman að hafa örlitla fjölbreytni í þessari annars ágætu hefð og þetta nýjasta útspil mitt í pizzumálunum hefur vakið stormandi lukku hér á heimilinu.

Mér þykir pizzufléttan falleg á borði og því gaman að bera hana fram. Mér líður þó alltaf eins og ég hafi svindlað þegar fólk dáist að henni og heldur að ég hafi staðið einbeitt með tunguna í öðru munnvikinu við baksturinn, þegar sannleikurinn er sá að ég lék mér að því. Það er nefnilega lygilega einfalt að útbúa pizzufléttuna. Ég byrja á að gera pizzadeigið (ég nota þessa uppskrift). Þegar deigið er tilbúið þá er það flatt út í ílangan ferhyrning, t.d. á stærð við ofnskúffu.

Pizzuflétta

Pizzasósa, álegg og ostur eru sett eftir miðjunni endilangri og deigið á hliðunum skorið í ræmur.

Pizzuflétta

Leggið ræmurnar á víxl yfir hvora aðra.

Pizzuflétta

Penslið með hvítlauksolíu og stráið pizzakryddi yfir.

Pizzuflétta

Bakið við 220° þar til pizzufléttan hefur fengið fallegan lit.

Pizzuflétta

Þið sjáið að þetta er ekkert mál!