Nestishugmyndir

NestishugmyndirHæ blogglesendur hennar mömmu. Mamma bað mig um að gestablogga um nestið mitt og það geri ég með mikilli ánægju. Ég heiti Malín og var að byrja í menntaskóla. Fyrstu daga mína í skólanum fórum við vinkonurnar oftast yfir í Kringluna og keyptum okkur mat þar í hádeginu. Ég fann strax að mig langaði ekki til að venja mig á að borða svona óhollt á hverjum degi, fyrir utan hvað það er dýrt. Þar sem mamma gerir alltaf stórinnkaup einu sinni í viku þá ákvað ég að fara með henni í búðina og týndi í körfuna það sem mig langaði til að hafa í nesti. Það er ekkert mál að útbúa nesti ef maður er búinn að ákveða fyrirfram hvað það eigi að vera og það er þægilegt að geta gengið að því í töskunni og þurfa ekki að hlaupa út í búð að kaupa eitthvað rusl.

NestishugmyndirNestishugmyndirNestishugmyndir

Ég byrja dagana nánast alltaf á hafragraut. Ég vil hafa grautinn þykkan og set alls konar út í hann eins og epli, fræ, kanil eða hnetusmjör og banana. Mér þykir þetta vera góð byrjun á deginum og ég er södd allan morguninn eftir hafragrautinn. Nestið mitt er síðan hádegismaturinn minn. Það er alltaf heitur matur heima á kvöldin og því fæ ég mér bara léttan hádegisverð sem er nestið mitt. Mamma gerði hafrastykki í vikunni sem mér þykir æði að taka með mér í nesti (uppskriftin af þeim er hér) og vona að hún geri þau aftur fljótlega (mátt alveg gera tvöfaldan skammt næst mamma, eða þrefaldan…).

Nesti

Nestið mitt í síðustu viku var :

Mánudagur: Einfalt cesarsalat. Við keyptum salat, tilbúna eldaða kjúklingabita og cesardressingu. Ég ætlaði að setja harðsoðin egg, tómata og parmesan ost saman við en það gafst ekki tími til þess (það var jú mánudagur og allt). Salatið og kjúklingurinn fóru í nestisbox og sósan í sér box til að það myndi ekki liggja saman allan morguninn.

Þriðjudagur: Heilhveitivefjur með skinku, gúrku, salati og rjómaosti. Með þessu hafði ég vínber.

Miðvikudagur: Ég er svo stutt í skólanum á miðvikudögum að hafrastykki og ávöxtur duga.

Fimmtudagur: Píta með hummus og spínati (gleymdist að mynda það).

Föstudagur: Var veik og því ekki þörf á nesti.

Ég drekk ekkert annað en vatn og ég geymi því stórt glas með loki í skólanum og fylli á það af og til yfir daginn.

Ég keypti líka hrískökur með dökku súkkulaði og hafði þær í skápnum mínum í skólanum til að narta í á milli tíma.

Fleiri nestishugmyndir eru:

  • tortillavefjur – hægt að setja allt milli himins og jarðar í þær
  • flatkökur með hangikjöti, túnfisksalati, reyktum silungi…
  • beygla með pizzasósu og osti, inn í örbylgjuofn (ef það er svoleiðis græja í þínum skóla)
  • afgangur af kvöldmatnum deginum áður
  • ávextir, grænmeti
  • salat – hægt að gera endalaust margar útfærslur
  • smoothie (mömmu uppskrift er geggjuð, þið finnið hana hér)
  • gróft rúnstykki með pítusósu, reyktum silungi og eggi eða tómati
  • samloka með skinku og osti (ef það er samlokugrill aðgengilegt)
  • gróf samloka með gúrku og eggi
  • gróf brauðsneið með avókadó, eggi og tómat (algjört uppáhald)

Það væri gaman ef þið eruð með fleiri hugmyndir að þið mynduð skrifa þær hér fyrir neðan í athugasemdirnar.

Nestishugmyndir

xoxo

Malín ♥

Föstudagskvöld

Föstudagskvöld

Ég sá að það var óskað eftir nestishugmyndum og þar sem Malín sér alfarið um að útbúa sitt nesti sjálf þá fékk ég hana til að halda nestisdagbók þessa vikuna. Nestisfærsla er því væntanleg hingað á bloggið um leið og hún hefur lausa stund.

Hér að ofan er nýjasta viðbótin í snyrtibudduna mína. Mér þykja nýju haustlitirnir frá Chanel æðislegir og kolféll fyrir varalit (93 Intime) og naglalakki (625 Secret). Það fær að vera mín bjútý-ábending fyrir helgina.

Eigið gott föstudagskvöld 

Salamisalat

SalamisalatÉg er mjög hrifin af hrökkbrauði, og reyndar öllu brauði ef út í það er farið en hrökkbrauðið er það brauð sem ég borða mest af. Finn Crisp með eggjahræru og jurtasalti fæ ég seint leið á og hef borðað í hverri viku í ár og aldir, en best þykir mér þó þetta hrökkbrauð sem ég hef ekki undan að baka því ég klára það svo fljótt. Mér þykir það æðislega gott og borða það oftast með avókadó og jurtasalti (namm) eða þessu feta- og sítrónumauki þegar ég á það til (brjálæðislega gott!). Það er skrýtið að mér dytti aldrei í hug að setja eggjahræru á heimagerða hrökkbrauðið mitt, hún fer bara á Finn Crisp. Stundum kaupi ég Wasa Sport hrökkbrauð en þá set ég smjör, soðið egg sem er á milli þess að vera lin- og harðsoðið og gúrku ofan á það. Það er eins og hver hrökkbrauðstegund eigi sitt álegg, hálf galið.Salamisalat

Ég prófaði um daginn að gera salamihræru sem hristi verulega upp í hlutunum og var skemmtileg tilbreyting á hrökkbrauðið. Mér þykir hún meira að segja passa á allar tegundir hrökkbrauða sem og á venjulegt brauð. Þetta er brjálæðislega einfalt og mjög gott. Fersk gúrkan fer vel með söltu salamipylsunni en er þó ekki nauðsynleg. Setjið hana samt á, hún setur svolítið punktinn yfir i-ið.

Salamisalat

  • 100 g salami
  • 1/2 dl majónes
  • 1 dl philadelphiaostur

Fínhakkið salami. Hrærið majónesi og philadelphiaosti saman þar til blandan er slétt. Hrærið salami saman við.

Salamisalat

Gott ráð!

Gott ráð!

Ég hef verið í vandræðum með að þrífa háfinn yfir eldavélinni hjá mér frá upphafi. Það var sama hvaða efni ég notaði, hann var alltaf skýjaður. Því meira sem ég þreif hann, því ljótari varð hann. Að lokum gafst ég upp.

Gott ráð!

Það var svo nýlega að ég las á einhverri amerískri síðu að besta leiðin til að þrífa stálvörur í eldhúsi væri með kókosolíu. Ég hafði ekki nokkra trú á að það myndi virka en þegar ég var í búðinni um daginn og rak augun í kókosolíu í hillunni ákvað ég að slá til. Ég hafði jú engu að tapa. Ég ætlaði ekki að trúa því en á nokkrum mínútum varð háfurinn eins og nýr. Ég gerði ekkert annað en að setja kókosolíuna í eldhúspappír (eða réttara sagt klósettpappír því eldhúspappírinn var búinn) og bera hana á. Erna vinkona prófaði líka hjá sér með sama góða árangri. Hún sagði að ég yrði að setja þetta á bloggið og nú geri ég það. Kókosolían er algjörlega málið!

Gott ráð!

Föstudagskvöld

Föstudagskvöld

Í svona rigningu þykir mér extra notalegt að eyða föstudagskvöldinu heima og í kvöld nýt ég þess að kveikja á kertum, elda mexíkóska kjúklingasúpu, horfa á bíómynd og prófa fótadekrið sem ég hef heyrt svo mikið um.

Á morgun ætla ég hins vegar að gefa ykkur uppskriftina af fallegu litlu marenskökunum hennar mömmu. Þær eru himneskar!

marange

 Eigið gott föstudagskvöld ♥

Föstudagskvöld

Föstudagskvöld

Ó, hvað ég elska föstudagskvöld. Nammið er komið í skál og strákarnir eru að velja sjónvarpsefnið fyrir kvöldið. Það er notalegt kvöld framundan. Á morgun ætla ég að gefa ykkur uppskrift af bestu súkkulaði- og bananaköku sem þið eigið eftir að smakka. Við erum að missa okkur yfir henni!

Eigið gott föstudagskvöld kæru vinir ♥

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

 

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Við erum enn á Akureyri og njótum þess til hins ýtrasta. Í morgun fóru strákarnir með nágrannakrökkunum í sund og þegar þeir komu heim keyrðum við á Kaffi Kú sem er hér í Eyjafirðinum. Ef þið eigið leið hér framhjá með krakka þá mæli ég hiklaust með viðkomu þar. Kaffihúsið er staðsett yfir fjósi og á meðan við gæddum okkur á nýbökuðum vöfflum og heitu súkkulaði var hægt að fylgjast með því sem gerðist í fjósinu. Eftir kaffið fórum við síðan niður í fjósið þar sem strákarnir hefðu vel getað eytt því sem eftir er af sumrinu.

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunumSteikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Mér datt í hug að setja hér hugmynd að fljótlegri máltíð sem ég gríp stundum til þegar strákarnir eru svangir og allt þarf að gerast í einum hvelli. Nú er ég ekki að koma með neina spennandi uppskrift heldur einfaldlega að minna á það sem flestir hafa eflaust gert, steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum. Þetta er alltaf jafn gott og krakkarnir fá ekki nóg af þessu. Frábært að grípa til hvort sem er í hádegisverð eða þegar enginn hefur tíma til að elda kvöldverð.

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

  • samlokubrauðsneiðar
  • egg
  • bakaðar baunir

Hitið smjör á pönnu. Skerið hring sem er á stærð við eggjarauðu úr miðju brauðsneiðarinnar. Setjið brauðsneiðina á pönnuna og brjótið eggið yfir þannig að eggjarauðan lendi í holunni. Steikið á báðum hliðum og berið fram með tómatsósu og bökuðum baunum (ég hita þær alltaf aðeins í örbylgjuofninum).

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Dásamleg súkkulaðisósa

Föstudagskvöld

Ég var búin að lofa að setja þessa uppskrift hingað á bloggið, enda á hún svo sannarlega heima hér. Börnin mín eru sjúk í ís en sjálf vil ég helst hafa ísinn sem meðlæti, eins og til dæmis með heitri berjaböku eða súkkulaðiköku. Eða eins og hér, með hrúgu af berjum og sósu sem lyfir dásemdinni upp á hærra plan.

Föstudagskvöld

Dásamleg súkkulaðisósa

  • 1 dl sykur
  • 3/4 dl rjómi
  • 1/2 dl sýróp
  • smá salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl kakó
  • 50 g smjör

Setjið allt saman í pott og hrærið saman. Látið sjóða í nokkrar mínútur til að sósan þykkni. Berið súkkulaðisósuna heita eða volga fram.

Súkkulaðisósa

Föstudagskvöld

Föstudagskvöld

Í kvöld fögnum við því að Malín sé komin inn í Versló og að ég sé komin í sumarfrí (sem er vissulega ómerkilegt í samhenginu en ljúft engu að síður!). Ég er svo ólýsanlega stolt af Malínu. Hún er svo samviskusöm og búin að leggja svo hart að sér til að komast inn í Verslunarskólann. Þær voru fjórar vinkonurnar sem sóttu um og komust allar inn! Þvílík hamingja og skemmtilegir tímar framundan hjá þeim.

Föstudagskvöld

Ég ætla ekki að setja inn uppskrift í kvöld heldur loka tölvunni og njóta kvöldsins með fjölskyldunni. Á morgun set ég inn uppskrift af æðislegri súkkulaðisósu sem prýðir ísinn okkar og jarðaberin í kvöld.

Ég vona að þið eigið gott föstudagskvöld ♥

Föstudagskvöld

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Ég veit ekki hvað er með mig en ég fæ oft svo svakalega löngun í köku og mjólk á kvöldin. Þá baka ég köku eftir kvöldmatinn og hef kvöldkaffi áður en krakkarnir fara að sofa. Mér þykir svo notalegt að setjast niður með þeim yfir spjalli, nýbakaðri köku og köldu mjólkurglasi og varla hægt að enda daginn betur.

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Þessi kaka gladdi okkur eitt kvöldið í vikunni og vonandi nokkra vinnufélaga mína daginn eftir. Ég var alla vega spurð hvort að uppskriftin færi ekki á bloggið og það gleður mig alltaf. Svo hér kemur hún, á bloggið eins og lofað var. Dásamleg í alla staði og passar stórvel við náttföt, kertaljós og ískalda mjólk.

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

  • 2 egg
  • ½ dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 75 g smjör, brætt
  • 3/4 dl mjólk
  • 2  1/4 dl hveiti

Glassúr

  • ½ msk vanillusykur
  • 3 dl flórsykur
  • 35 g smjör, brætt
  • 2-4 msk vatn

Til að strá yfir kökuna

  • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°. Hrærið egg og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið hinum hráefnunum saman við og hrærið snögglega saman í deig. Passið að hræra ekki of lengi því þá er hætta á að kakan verði þung í sér og seig. Setjið deigið í smurt form (um 24 cm í þvermál) og bakið kökuna í 15-20 mínútur, eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr: Hrærið öllum hráefnum saman í skál. Notið vatnið til að ná réttri áferð og þykkt á glassúrnum.

Þegar kakan hefur kólnað þá er glassúrinn settur yfir hana og kókosmjöl stráð strax yfir glassúrinn.