Skúffukaka

Ég sit við eldhúsborðið með þriðja kaffibolla dagsins og er að fara í gegnum uppskriftir sem mig langar að prófa. Krakkarnir sofa alltaf fram yfir hádegi um helgar og mér þykir svo notalegt að læðast fram, kveikja á útvarpinu og byrja daginn rólega.

Ég er að vona að veðrið lagist svo ég geti farið út og sett útiseríuna upp. Það er farið að dimma svo snemma að það verður notalegt að fá smá ljós á pallinn. Síðan langar mig að baka eitthvað gott með kaffinu. Um daginn bakaði ég þessa skúffuköku eftir uppskrift frá Mitt Kök sem var æðisleg og myndi sóma sér vel með helgarkaffinu. Ég má því til með að mæla með henni á þessum rigningardegi.

Skúffukaka

  • 225 g smjör
  • 2 dl mjólk
  • 5 egg
  • 4 ½ dl sykur
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • 1 ¼ dl kakó
  • 3 tsk lyftiduft
  • 6 dl hveiti

Glassúr

  • 75 g smjör
  • ¾ dl sterkt kaffi
  • ½ dl kakó
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • 5 dl flórsykur

Yfir kökuna

  • 1 dl kókosmjöl

Hitið ofninn í 175° og klæðið ofnskúffu með bökunarpappír.

Bræðið smjörið, blandið mjólkinni saman við og leggið til hliðar. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er ljós og létt. Sigtið vanillusykur, kakó, lyftiduft og hveiti út í eggja- og sykurblönduna. Bætið smjör- og mjólkurblöndunni saman við og hrærið saman í slétt deig. Setjið deigið í formið og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.

Glassúr: Bræðið smjörið í potti og hrærið kaffi, kakó, vanillusykur og flórsykur út í. Látið mesta hitann rjúka úr kökunni áður en glassúrinn er settur yfir (best að setja hann yfir kökuna þegar hún er volg). Endið á að strá kókosmjöli yfir.

Heil­steikt­ur kjúk­ling­ur með feta­ostasósu

Mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar það líður langt á milli færslna en stundum gefst bara ekki tími fyrir meira. Það er búið að vera mikið að gera í haust og nú er smá törn í gangi sem mun halda áfram eitthvað fram í nóvember. Það sér þó fyrir endann á þessu!

Mitt í öllum látunum er kannski viðeigandi að benda á einfaldan og góðan kjúkling sem ég gerði fyrir Hraðrétti á mbl.is í sumar. Þetta er frábær aðferð til að elda góðan mat á einfaldan hátt og hentar sérlega vel þegar ekki gefst tími til að standa yfir pottunum!

Heil­steikt­ur kjúk­ling­ur með feta­ostasósu

  • 1 kjúk­ling­ur
  • 6 stór­ar kart­öfl­ur
  • 2 stór­ar gul­ræt­ur
  • 1 sæt kart­afla
  • 4 skarlottu­lauk­ar
  • ½ dl ólífu­olía
  • 2 pressuð hvít­lauksrif
  • maldonsalt
  • pip­ar
  • timj­an
  • 1 msk. bal­sa­mik-edik
  • 1 msk. sojasósa
  • 1 msk. ólífu­olía
  • 2 pressuð hvít­lauksrif

Aðferð:

  1. Skerið kart­öfl­ur og gul­ræt­ur í fernt á lengd­ina og sæta kart­öflu í bita.
  2. Afhýðið skarlottu­lauka og skerið í tvennt.
  3. Setjið græn­metið í eld­fast mót og hellið ólífu­olíu, pressuðum hvít­lauki, salti og pip­ar yfir.
  4. Blandið öllu vel sam­an og ýtið græn­met­inu til hliðar í mót­inu.
  5. Skolið og þerrið kjúk­ling­inn.

Kljúfið kjúk­ling­inn á milli bring­anna og leggið hann flat­ann í miðju eld­fasta móts­ins

  1. Hrærið bal­sa­miked­iki, sojasósu, ólífu­olíu og pressuðum hvít­lauksrifj­um sam­an og penslið blönd­unni yfir kjúk­ling­inn
  2. Stráið salti og pip­ar yfir allt
  3. Setjið í 200° heit­an ofn í 60 mín­út­ur

Köld sósa:

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 150 g mul­inn feta­ost­ur
  • 1 hvít­lauksrif
  • sítr­óna
  • salt
  • pip­ar
  • timj­an sett yfir

Hrærið sýrðum rjóma, feta­osti og pressuðu hvít­lauksrifi sam­an. Smakkið til með sítr­ónusafa, salti og pip­ar. Stráið fersku timj­an yfir áður en sós­an er bor­in fram.

Súkkulaði- og bananakökulengjur

Mér finnst svo æðislega notalegt að eiga heimabakað með helgarkaffinu. Í gær tók Malín sig til og bakaði sörur sem ég nýt góðs af í dag með kaffibollanum. Ég keypti líka jólaköku á föstudaginn sem við höfum verið að fá okkur af yfir helgina. Um síðustu helgi bakaði ég hins vegar súkkulaði- og bananakökulengjur sem voru svo góðar að ég borðaði þær beint úr ofninum og ætlaði ekki að geta hætt. Þessar verðið þið að prófa!

Súkkulaði- og bananakökulengjur

  • 150 g smjör við stofuhita
  • 3,75 dl hveiti
  • 1,5 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 3 msk sýróp
  • 1,5 tsk vanillusykur
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • 15 stk. Dumle bananakaramellur

Hitið ofninn í 175° og klæðið bökunarplötu með bökunarpappír.

Hnoðið öllum hráefnunum (fyrir utan karamellurnar) saman í deig. Skiptið deiginu í þrennt og rúllið út í lengjur. Leggið lengjurnar á bökunarpappírinn.

Skerið dumlekaramellurnar í tvennt (á lengdina) og þrýstið þeim í lengjurnar (sjá mynd). Bakið í miðjum ofni í 8-10 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna aðeins áður en lengjurnar eru skornar niður.

 

Cava Sangria

Um síðustu helgi hittumst við SSSskutlurnar hjá mér, en eins og ég hef áður sagt frá þá kynntist ég þeim í gegnum fótboltann hjá Gunnari. Synir okkar æfa saman hjá Breiðablik og við búum hér í sama hverfi í Kópavoginum. Eftir að við byrjuðum að skiptast á að skutla strákunum á æfingar festist þetta SSSskutlunafn við okkur (öll S-in koma til vegna þess að við heitum Sigrún, Sunna og Svava).

Það er aldrei dauð stund þegar við hittumst og kvöld með þeim er ávísun á hlátursköst og stuð. Ég bauð upp á kjúklingasalat og var síðan búin að gera tvo eftirrétti en í öllu fjörinu gleymdi ég að bera annan þeirra fram!

Fyrir matinn var ég með fordrykk sem ég má til með að gefa uppskrift af fyrir helgina. Hann ætti að koma öllum í helgargírinn!

Cava Sangria

  • 1 flaska freyðivín
  • 1 dl af líkjörnum 43
  • 2 dl appelsínusafi
  • klaki
  • appelsínusneiðar

Blandið öllu saman í könnu og njótið!

 

Indónesískar kjúklinganúðlur

Þegar ég var á Balí í fyrra fannst mér svo gaman að smakka matinn þar. Það var sama hvert ég fór, alls staðar fékk ég æðislegan mat. Kjúklingaréttir, pizzur, steikur, ítalskur matur, hamborgarar, mexíkóskur matur, sushi, indónesískar núðlur og steikt hrísgrjón…  þetta var hvert öðru betra! Það voru þó indónesísku réttirnir sem stóðu upp úr og ég var ákveðin í að prófa að elda bæði núðlurnar og steiktu hrísgrjónin þegar ég kæmi heim. Þeir réttir fengust út um allt og voru meira að segja á morgunverðarhlaðborðinu á einu af hótelunum.

Nú er rúmt ár liðið síðan ég kom heim frá Balí. Steiktu hrísgrjónin hef ég enn ekki gert en ég lét loksins verða að því að elda indónesísku núðlurnar. Svo sjúklega gott!

Bami Goreng (uppskrift fyrir 4)

  • 250 g eggjanúðlur (ósoðnar)
  • 4 msk olía (ekki ólífuolía)
  • 125 g vorlaukur
  • 1 brokkólíhöfuð
  • 2 gulrætur
  • 700 g kjúklingabringur eða úrbeinuð læri
  • 1 tsk karrý
  • 1-2 tsk sriracha (sterk chillísósa)
  • 1/2 dl. ketchap manis
  • 1/2 dl sojasósa
  • 2 tsk sesamolía
  • 2 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 hvítlauksrif

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka..Hellið vatninu af þeim og kælið núðlurnar svo þær haldi ekki áfram að soðna.

Skerið brokkólí, salatlauk og gulrætur niður og hafið tilbúið á bakka.

Skerið kjúklinginn í bita og steikið á pönnu. Kryddið hann með salti og pipar. Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar. Bætið olíu og sesamolíu á pönnuna og steikið grænmetið ásamt pressuðu hvítlauksrifi í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum aftur á pönnuna, kryddið með karrý og sriracha og hrærið öllu vel saman. Setjið vatn, kjúklingatening, ketchap manis, sojasósu og núðlurnar á pönnuna og látið allt hitna saman í nokkrar mínútur. Smakkið til með sojasósu, ketchap manis og sriracha.

Ég bar núðlurnar fram með sriracha, ketchap manis og sweet chili sósu til hliðar, þannig að hver og einn gæti bragðbætt núðlurnar eftir smekk.

Mexíkóostapasta með skinku, papriku og chili

Þegar það liggur grænmeti á síðasta snúningi í ísskápnum, eða afgangar af ostum, þá þykir mér gott að nýta það í pastarétt. Það virðist sama hvaða grænmeti og ostar eru notaðir, útkoman verður alltaf góð. Pastaréttir eru því fullkomnir í ísskápstiltektum. Þessi varð svo góður að ég flýtti mér að skrifa niður það sem fór í hann til að geta endurtekið leikinn.

Mexíkóostapasta með skinku, papriku og chili – uppskrift fyrir 6

  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • skinka (ég var með hálft skinkubréf), skorin í bita
  • 1 ½  rauð paprika, skorin í bita
  • 1/2 box sveppir, sneiddir
  • 1 ½ mexíkóostur
  • 1 matreiðslurjómi (5 dl)
  • pasta (ég var með 1 poka, 500 g.)

Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita og mýkið skarlottulauk, hvítlauk og chili í nokkrar mínútur. Hækkið hitann og bætið skinku, papriku og sveppum á pönnuna. Steikið saman í nokkrar mínútur og bætið þá matreiðslurjóma og mexíkóosti (gott að skera hann í litla teninga áður svo hann bráðni hraðar) á pönnuna og látið sjóða saman þar til osturinn hefur bráðnað. Smakkið til með salti.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu og blandið saman við sósuna. Það getur verið gott að setja smá af pastavatninu í pastasósuna til að þynna hana.

Vikumatseðill

Eins og svo oft áður byrja ég sunnudaginn með kaffibollann við tölvuna og plana vikuna. Mér þykir svo gott að fara inn í vikuna með fullan ísskáp og gott yfirlit yfir það sem er og þarf að gerast í vikunni.  Það er skemmtileg vika framundan með bíóferð og vinkonuhittingi. Ef ég nenni ætla ég síðan að mála svefnherbergið mitt um næstu helgi. Það hefur staðið til að taka það í gegn og nú ætla ég að láta verða af því. Í gær fór ég að skoða rúm og í dag ætla ég að velja málningu á veggina og ákveða hvernig ég ætla að hafa þetta. En fyrst af öllu, hér kemur vikumatseðill!

Vikumatseðill

Mánudagur: Fiskur í sweet chillí

Þriðjudagur: Hakk í pulsubrauði

Miðvikudagur: Minestrone og mozzarellafylltar brauðbollur

Fimmtudagur: Spaghetti Carbonara

Föstudagur: Kjúklingaborgari

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðikaka

Bragðmikið kjúklinga- og avókadó tacos

 

Þar sem ég hef ekki verið heima undanfarnar helgar hlakka ég sérlega mikið til helgarinnar. Ég er ekki með nein önnur plön en að slappa af og borða góðan mat. Í kvöld ætla ég að kíkja í matreiðslubækur og athuga hvort ég finni ekki einhverjar spennandi uppskriftir til að prófa. Mér heyrist á krökkunum að þeim langi í mexíkóska kjúklingasúpu og það er alltaf auðvelt að tala mig inn á hana. Hún klikkar aldrei!

Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og undir lok sumars eldaði ég svo gott tacos sem ég átti alltaf eftir að setja hingað inn. Uppskriftina fann ég á Gimme Delicious en þar má finna margt girnilegt.

Bragðmikið kjúklinga- og avókadó tacos (uppskrift fyrir 4)

  • 450 g kjúkingabringur, skornar í munnbita
  • 2 msk ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk chillikrydd
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/4 tsk lauk- eða hvítlaukskrydd
  • 1/4 tsk salt
  • ferskur limesafi

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Blandið saman ólífuolíu, pressuðum hvítlauksrifum, chillikryddi, cumin, laukkryddi og salti. Bætið kjúklingnum í blönduna og hrærið vel saman. Setjið í lokað ílát og látið standa í ísskáp í smá stund (má geyma í allt að 48 klst.). Hitið pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður, 8-12 mínútur. Takið af hitanum og setjið smá limesafa yfir.

Kóriandersósa

  • 1/2 bolli sýrður rjómi eða grísk jógúrt
  • 1/4 bolli ferskt kóriander
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk limesafi
  • salt og pipar

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða blandara og vinnið saman í 30 sek.

Samsetning

  • 2-4 avókadó (fer eftir stærð), skorið í sneiðar
  • 6-8 litlar tortillur

Hitið tortillurnar á pönnu. Setjið kjúklinginn á heita tortilluna, setjið avókadó yfir og endið á kóriandersósu.

 

Tælensk núðlusúpa – Hraðréttir

Það varð lengri þögn hér á blogginu en stóð til en undanfarnar vikur hef ég verið að vinna í verkefni sem hefur tekið svo mikinn tíma að ég hef ekki átt lausa stund til að sinna neinu.  Ég man ekki hvenær ég eldaði kvöldmat síðast og matarinnkaupin hafa snúist um að finna eitthvað sem krakkarnir geta eldað sjálf. Nú sér þó fyrir endan á þessari vinnutörn og ég held (og vona!) að það taki því allir fagnandi hér heima.

Ég man ekki eftir að hafa sagt frá því hér á blogginu að ég eldaði nokkra Hraðrétti fyrir Matur á mbl.is í vor. Núna síðast var birt tælensk núðlusúpa sem ég gerði og bara verð að benda á. Eins og sést á myndbandinu þá er súpan bæði einföld og fljótleg en hún er líka alveg meiriháttar góð og passar vel í haustveðrinu. Ég mæli með að prófa!

After Eight súkkulaðimús

Ég hef varla verið heima undanfarnar vikur og hef því lítið náð að dunda mér í eldhúsinu. Það styttist þó í að það fari að róast hjá mér og þegar það gerist verður vonandi meira líf hér á blogginu því ég með langan lista af uppskriftum sem mig langar að prófa.

Þangað til nýt ég góðs af uppskriftum sem eiga eftir að fara hingað inn, eins og þessi súkkulaðimús. Þeir sem lesa hér reglulega vita eflaust að súkkulaðimús er sá eftirréttur sem ég geri hvað oftast því börnin mín vita fátt betra. Um daginn breytti ég út af vananum og bætti After Eight í súkkulaðimúsina. Útkoman var æðisleg!

After Eight súkkulaðimús ( uppskrift fyrir 6)

  • 100 g suðusúkkulaði
  • 15 plötur After Eight
  • 3 eggjarauður
  • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Setjið súkkulaðimúsina í skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.