Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósuEnn ein helgin framundan og ég ætla aftur að koma með hugmynd að föstudagsmat. Það hafa eflaust fáir gaman af því að ráfa hugmyndasnauðir um matvörubúðina eftir vinnu á föstudögum, þegar hugurinn er kominn heim í helgarfrí. Það þarf fá hráefni í þennan dásamlega kjúklingarétt sem tekur enga stund að reiða fram þegar heim er komið. Ferskur parmesan þykir mér nauðsynlegur með og ekki skemmir fyrir að hita gott hvítlauksbrauð og bera fram með réttinum. Súpergott!

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

 • 2 kjúklingabringur
 • 1 rauð paprika
 • 6 stórir sveppir
 • smjör til að steikja í
 • 4 dl rjómi
 • 5 msk gott grænt pestó
 • salt
 • 1/2 kjúklinga- eða grænmetisteningur (má sleppa)
 • pasta

Skerið kjúklingabringur í litla bita og steikið þá í smjör þar til þeir hafa fengið fallega steikingarhúð. Hakkið sveppi og papriku og steikið með kjúklingnum í smá stund. Hellið rjóma yfir og látið sjóða saman við vægan hita til að hann taki bragð af paprikunni og sveppunum. Hrærið pestó út í og smakkið til með salti. Þið gætuð þurft að bæta smá pestó til viðbótar í og jafnvel 1/2 teningi, smakkið til!

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Berið fram með ferskum parmesan og njótið.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

VikumatseðillÉg gleðst á hverju ári þegar ég sé mandarínukassana birtast í verslunum. Bæði vegna þess að þær eru svo góðar og líka því þær minna á að það styttist í aðventuna. Ég held að þetta sé uppáhalds árstíminn minn og ég nýt mín sjaldan jafn vel og í desember. Jólatónlistin, baksturinn, undirbúningurinn…. stemningin í loftinu og fiðrildin í maganum.  Ég verslaði fyrstu jólagjafirnar þegar ég gerði vikuinnkaupin í gær en nú er stór taxfree helgi í Hagkaup og því kjörið að nýta sér það til jólainnkaupa. Bæði til að nýta afsláttinn (hann er líka í netversluninni fyrir þá sem kjósa að versla heima í stofu) og líka því það er svo gott að vera í tíma með jólagjafainnkaupin og geta átt desembermánuð náðugan. Síðan er jú einfaldlega ekki hægt að kaupa Quality Street og Nóakonfekt of snemma! Ég vil geta notið þess allan desembermánuð að fá mér mola eftir matinn.

Vikumatseðill

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Skinku- og spergilkálsbakaÞriðjudagur: Skinku- og spergilkálsbaka

BlómkálssúpaMiðvikudagur: Blómkálssúpa

Einfalt og stórgott lasagnaFimmtudagur: Einfalt og stórgott lasagna

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýiFöstudagur: Tælenskur kjúklingur í grænu karrý

Dumle-lengjurMeð helgarkaffinu: Dumle-lengjur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Tacogratín

TacogratínÞar sem það styttist í helgina datt mér í hug að koma með hugmynd að föstudagsmat. Það hljóta fleiri en ég að vera byrjaðir að huga að honum. Það er jú svoooo notalegt að koma heim eftir vinnudaginn með helgarfrí framundan og mér þykir tilheyra að gera vel við sig með góðum mat. TacogratínTacogratínTacogratín

Mér þykir oft gott að vera með tacos á föstudagskvöldum því það er bæði fljótlegt og gott. Það má útfæra það á ýmsan hátt og gaman að breyta til og prófa sig áfram. Þetta tacogratín vorum við með um síðustu helgi og okkur þótti það æðislegt. Strákarnir notuðu nachosflögurnar sem hnífapör í gratínið sem var stórsniðugt og gott. Það tekur enga stund að útbúa réttinn og hann er því kjörinn föstudagsmatur!

Tacogratín

 • 1 krukka tacosósa (225 g)
 • 1 1/2 dl ostasósa (þessar í glerkrukkunum hjá mexíkóvörunum í búðunum)
 • 1 dl maísbaunir
 • 500-600 g nautahakk
 • 1 pakki tacokrydd
 • 2,5 dl sýrður rjómi
 • 2,5 dl rifinn ostur, t.d. cheddar
 • nokkrir kirsuberjatómatar

Setjið tacosósu í botn á eldföstu móti og setjið ostasósu yfir í litlum doppum (það getur verið erfitt að dreifa úr henni þannig að mér þykir best að nota litla skeið og setja ostasósuna sem víðast yfir tacosósuna). Setjið maísbaunir yfir. Steikið nautahakk á pönnu og kryddið með tacokryddi. Setjið nautahakkið yfir maísbaunirnar. Skerið kirsuberjatómata í bita og dreifið yfir. Hrærið að lokum saman sýrðum rjóma og rifnum osti og setjið yfir réttinn. Setjið í 200° heitan ofn í ca 15-20 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður og rétturinn heitur i gegn.

Berið fram með nachos, guacamole og góðu salati.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Þorskur í ljúffengri karrýsósuEins og eflaust á mörgum heimilum landsins eru mánudagar oftast fiskidagar hjá okkur. Krakkarnir eru fyrir lifandis löngu búin að fá nóg af plokkfiski og því reyni ég að finna upp á einhverjum nýjungum. Ég datt niður á þennan einfalda rétt á sænsku matarbloggi og hann vakti lukku hjá okkur öllum. Fljótlegt og stórgott!

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

 • 800 g þorskur
 • smjör
 • 3 dl matreiðslurjómi
 • 1 msk karrý
 • smá cayennepipar
 • 10 kirsuberjatómatar
 • 1/2 grænmetisteningur
 • maizena

Skerið þorskinn í 2 x 2 cm bita (hafi fiskurinn verið frosinn er gott að skera hann áður en hann þiðnar alveg) og steikið í smjöri í nokkrar mínútur. Kryddið með karrý, hellið rjóma yfir og myljið hálfan grænmetistening yfir. Látið suðuna koma upp. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og bætið út í. Látið sjóða áfram þar til tómatarnir eru orðnir mjúkur. Smakkið til með cayennepipar (farið varlega og byrjið bara á örlitlu). Þykkið með maizena. Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Asískar kjötbollur

Asískar kjötbollur

Með fullri virðingu fyrir klassískum heimagerðum kjötbollum með kartöflumús og sósu, sem ég elska og gæti lifað á, þá er alltaf gaman að bregða út af vananum. Ég prófaði um daginn uppskrift að asískum kjötbollum sem voru mjög ólíkar þeim klassísku en ó, svo góðar og verða klárlega aftur á borðum hér fljótlega.

Asískar kjötbollur

Asískar kjötbollur (uppskrift fyrir 4)

 • 500 g nautahakk
 • 1 egg
 • 3 msk kálfakraftur (kalv fond)
 • 1 + 1 msk rautt karrýmauk
 • 1 laukur
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
 • 1/2 dl mango chutney
 • 10 þurrkuð limeblöð
 • kóriander
 • salt og pipar

Blandið saman nautahakki, eggi, kálfakrafti, 1 msk karrýmauki, ½ tsk salti og smá pipar. Gerið litlar kjötbollur úr blöndunni.

Fínhakkið laukinn og steikið við vægan hita á pönnu þar til hann er mjúkur en ekki farinn að dökkna. Bætið 1 msk af karrýmauki saman við og steikið saman í 1 mínútu til viðbótar. Hrærið kókosmjólk og mango chutney saman við. Setjið limeblöð og kjötbollurnar í sósuna og látið sjóða undir loki við vægan hita í um 7 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Stráið kóriander yfir eftir smekk og berið fram með hrísgrjónum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill og jólavörur

Vikumatseðill og jólavörurÉg er svo glöð yfir því að nóvember sé runninn upp. Mánuðurinn sem fyrsta aðventan fellur á. Það sem ég hlakka til! Þegar ég gerði vikuinnkaupinn um síðustu helgi gaf ég mér góðan tíma í að skoða jólavörurnar sem voru komnar í Hagkaup. Það var tvennt sem fékk að fylgja með heim, annars vegar glerkúpullinn á myndinni fyrir ofan sem hreindýrin mín munu fá að liggja í yfir aðventuna og hins vegar nýr jólatrésfótur. Mig hefur lengi dreymt um hvítan jólatrésfót sem er í laginu eins og stjarna og hef upp á síðkastið leitað af slíkum á netinu. Var eiginlega búin að gefa upp alla von á að finna hann hér heima og komin á það að panta hann erlendis frá. Ég ætlaði því varla að trúa mínum eigin augum þegar ég sá hann í Hagkaup, alveg eins fót og ég hafði hugsað mér!  Fóturinn er úr stáli, er þungur, massívur og alveg nákvæmlega eins og mig langaði í. Þvílík heppni!Vikumatseðill og jólavörur

Það er svolítið síðan ég setti vikumatseðil inn en þið vitið vonandi að ef þið skrifið vikumatseðill í leitina þá koma þeir allir upp. Nú þegar það er farið að dimma snemma og kólna í veðri þá langar mig alltaf meira í haustlegri mat. Súpur, kássur og kósýheit með fjölskyldunni og logandi kertaljós á matarborðinu. Það er einn af mörgum kostum vetrarins, hvað allt verður notalegt. Elska það.

Vikumatseðill

Ítalskur lax með fetaostasósu

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Innbakað nautahakk

Þriðjudagur: Innbakað nautahakk

Grjónagrautur

Miðvikudagur: Ofnbakaður grjónagrautur

Kasjúhnetukjúklingur

Fimmtudagur: Kasjúhnetukjúklingur

Tacopizzubaka

Föstudagur: Tacopizzubaka

Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði

Með helgarkaffinu: Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Föstudagskvöld og góð ídýfa

Föstudagskvöld og góð ídýfaÞá er besta kvöld vikunnar enn og aftur runnið upp. Ég dundaði mér í sumarfríinu við að prjóna vettlinga, fyrst fyrir mig en þá langaði Malínu líka í þannig að ég prjónaði aðra fyrir hana. Þá langaði Gunnari líka í vettlinga og ég byrjaði að prjóna fyrir hann en lagði þá frá mér áður en ég kláraði og í prjónakörfunni hafa þeir legið síðan. Nú er hins vegar farið að kólna svo í veðri að verkefni kvöldsins er að klára vettlingana þannig að hann geti farið að nota þá.

Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa

Sjónvarpssnarlið í kvöld er einfalt og gott. Avokadó er stappað í botn á skál, sýrður rjómi settur yfir og að lokum salsasósa yfir allt. Borið fram með nachos (helst svörtu Doritos). Súpergott!

Föstudagskvöld og góð ídýfa

Eigið gott föstudagskvöld 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Litla gula hænan

Litla gula hænanÉg var svo lánsöm að fá að gjöf kjúklinga frá Litlu gulu hænunni um daginn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er um velferðarkjúklinga að ræða, sem fá óerfðabreytt fóður, gott rými til að athafna sig og fara út að leika sér þegar veður leyfir. Hversu dásamlegt! Kjúklingarnir eru sælir og dafna eftir því. Mér þykir framtakið til fyrirmyndar og vert að skoða þegar kemur að kjúklingakaupum.

Litla gula hænan

Kjúklingurinn var pattaralegur og flottur. Ég nuddaði hann með sítrónu og kryddaði með kryddi lífsins, rósmarín og salti. Eftir það skar ég hálfa sítrónu í fernt og 1 sólóhvítlauk í báta og setti inn í kjúklinginn. Kjúklingurinn fór eftir það í ofnpott, lokið á og inn í 190° heitan ofn (án blásturs) í 2 klst. Það stóð nú ekki til að hafa hann svo lengi í ofninum og ég var hrædd um að hann væri orðinn þurr en þær áhyggjur voru óþarfar, kjúklingurinn datt af beinunum og var dásamlega meyr og góður.

Litla gula hænan

Þessi kjúklingur er góður fyrir líkama og sál. Ég bar hann fram með kartöflumús, maísbaunum sem ég hitaði í bræddu smjöri og saltaði með góðu salti, rifsberjahlaupi og sósu sem hefur lengi verið í uppáhaldi. Uppskriftin af henni hefur áður komið á bloggið en þolir vel að vera birt aftur.

Ljúffeng rjómasósa:

 • 2,5 dl rjómi (1 peli)
 • 1 dós sýrður rjómi (34%)
 • 1-2 kjúklingateningar
 • 1-2 msk rifsberjahlaup
 • 1-2 msk sojasósa
 • salt og hvítur pipar
 • maizena til að þykkja (má sleppa)

Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur. Byrjið á 1 kjúklingateningi, 1 msk af rifsberjahlaupi og 1 msk af sojasósu, smakkið til og bætið við eftir þörfum. Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Hakk og spaghettí

Hakk og spaghettíMér þykir hakk og spaghettí vera frábær hversdagsmatur. Það tekur svo stutta stund að útbúa hann og ef ég á sýrðan rjóma og chili explotion krydd þá þykir mér útkoman alltaf verða góð. Þegar ég veit að það stefnir í seinan dag þá tek ég stundum upp á því að gera kjötsósuna kvöldið áður og hita hana síðan bara upp daginn eftir á meðan spaghettíið sýður. Ef það verður afgangur nýti ég hann alltaf. Þeir fara ýmist í nestisbox inn í frysti, á brauðsneiðar smurðar með tómatsósu, kjötsósu og osti inn í ofn eða á pizzur. Þá set ég pizzasósu yfir botninn, krydda með oregano, set síðan kjötsósuna og toppa með rifnum osti. Einfalt og stórgott!

Hakk og spaghettí

Hakk og spaghetti

 • 1 laukur, hakkaður
 • 25 g smjör
 • 2 msk ólívuolía
 • paprikukrydd
 • 1/2 fræhreinsað chili, hakkað
 • 3 hvítlauksrif, hökkuð
 • 500 g nautahakk
 • 400 g hakkaðir tómatar (1 dós)
 • 1½ tsk tómatpuré
 • 4 msk tómatsósa
 • 3 msk kálfakraftur (kalvfond)
 • 1 dl sýrður rjómi
 • chili explotion (krydd í kvörn frá Santa Maria)
 • salt og pipar

Hakkið laukinn og mýkið hann í smjöri og ólívuolíu við mjög lágann hita í um 10 mínútur. Saltið, piprið og kryddið með paprikukryddi. Bætið hökkuðu chili og hvítlauk saman við og látið malla aðeins áfram á pönnunni með lauknum. Bætið nautahakkinu á pönnuna. Þegar nautahakkið er fullsteikt er tómötum, kálfakrafti, tómatpuré og tómatsósu hrært saman við. Látið sjóða við vægan hita eins lengi og kostur er en að minsta kosti í 30 mínútur. Ef ykkur þykir blandan verða þurr þá bætið þið smá vatni og ólívuolíu saman við. Kryddið með salti, pipar og chili explotion. Að lokum er sýrðum rjóma hrært út í og látin sjóða með síðustu mínúturnar.

Berið fram með pasta og ferskrifnum parmesan. Ef þið eigið ferska basiliku skuluð þið ekki hika við að saxa hana yfir!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósuUm helgar þykir mér notalegt að hægelda mat. Að kveikja á útvarpinu og dunda mér hér heima á meðan kvöldmaturinn sér um sig sjálfur á eldavélinni eða í ofninum. Kjötið verður svoooo meyrt að það nánast dettur í sundur. Brjálæðislega gott!

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Það rifjaðist upp fyrir mér í gærkvöldi að ég á eftir að setja inn uppskrift af dásamlegum hægelduðum kótilettum sem ég eldaði tvær helgar í röð um daginn. Þegar ég var með þær í fyrsta sinn hugsaði ég með mér að þetta væri nú eitthvað fyrir mömmu. Helgina eftir eldaði ég því kótiletturnar aftur og bauð henni til okkar. Hún dásamaði þær við hvern bita og við vorum sammála um að þetta er frábær helgarmatur.

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu (uppskrift fyrir 4)

 • 6 svínakótilettur
 • 1 gulrót
 • 1 gulur laukur
 • 1 lárviðarlauf
 • salt og pipar
 • vatn
 • 1 msk kálfakraftur (kalvfond)
 • 2 dl rjómi
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 1 msk sojasósa
 • salt og pipar
 • sykur

Saltið og piprið kótiletturnar og brúnið þær á báðum hliðum á rúmgóðri pönnu. Skerið lauk í báta og gulræturnar í sneiðar og bætið á pönnuna, hellið síðan vatni svo rétt fljóti yfir. Setjið kálfakraft og lárviðarblað í og látið sjóða undir loki við vægan hita í 2-3 klukkustundir. Snúið kótilettunum gjarnan annað slagið.

Takið kjötið af pönnunni og sigtið sósusoðið. Setjið soðið aftur á pönnuna (laukurinn og gulrótin eiga ekki að vera með), hrærið rjóma og sýrðum rjóma saman við og smakkið til með sojasósu, salti og pipar. Setjið smá sykur í sósuna og leggið kótiletturnar í og látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Berið fram með kartöflum og rifsberjahlaupi

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP