Steiktur fiskur í pulsubrauði

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Er ekki fiskur málið á mánudögum? Hann er það oftast hér á bæ. Steiktur fiskur í pulsubrauði kann að hljóma furðulega en kemur skemmtilega á óvart og krakkarnir eeeelska þetta.

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Það þarf enga uppskrift fyrir þennan rétt.  Þorskur (eða sá fiskur sem þér líst best á) er skorinn í passlega stóra bita til að rúmast í pulsubrauðunum, kryddaður með salti og pipar, velt upp úr hrærðu eggi, síðan raspi og að lokum steiktur á pönnu í vel af bragðdaufri olíu. Pulsubrauðin eru hituð í ofni (ég hita þau alltaf í pokanum við 90° í nokkrar mínútur, þá verða þau svo mjúk og góð). Setjið tómatsósu, remúlaði, súrar gúrkur, kál, hrásalat eða það sem hugurinn girnist í pulsubrauðið og síðan steikta fiskinn. Berið fram með ofnbökuðum kartöflubátum eða frönskum. Súpergott!

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Súkkulaði- og bananakaka

Súkkulaði- og bananakaka

Ég á alltaf erfitt með að henda mat en sá matur sem ég get alls ekki hent eru bananar. Þeir eru svo ljúffengir í brauðum og kökum, þó þeir séu orðnir ljótir og enginn hefur lyst á þeim, að ég enda alltaf á að baka úr þeim. Í langfelstum tilfellum enda gamlir bananar í þessu bananabrauði sem hverfur síðan undantekningarlaust á svipstundu ofan í krakkana, en annað slagið bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Þessa uppskrift sá ég hjá Smitten Kitchen og get lofað að hún er dásamlegri en orð fá lýst.

Í kökunni eru bæði kakó og súkkulaðibitar (tvöfalt súkkulaðibragð!!) sem blandast saman við bananabragðið og gerir kökuna gjörsamlega ómótstæðilega. Ég hakka súkkulaðið gróft því mér þykir gott að finna fyrir súkkulaðibitunum í kökunni.

Súkkulaði- og bananakaka

Kakan er í algjöru uppáhaldi hjá okkur þessa dagana og ég hef ekki tölu yfir hversu oft ég hef bakað hana á undanförnum vikum. Ég fann þó síðastliðið fimmtudagskvöld, þegar ég tók kökuna út úr ofninum kl. 11 um kvöldið og settist í sæluvímu niður með heita kökusneið og ískalt mjólkurglas og það var ó, svo dásamleg stund, að kannski væri þetta of langt gengið. Ég ætla því ekki að baka kökuna í komandi viku en þið getið gert það. Hér kemur uppskriftin…

Súkkulaði- og bananakaka

 • 3 mjög þroskaðir bananar
 • 115 g smjör, brætt
 • 145 g púðursykur
 • 1 stórt egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 tsk kanil
 • 125 g hveiti
 • 50 g kakó
 • 170 g súkkulaði, grófhakkað (ég nota suðusúkkulaði)

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform.

Stappið banana í botni á stórri skál (ég nota hrærivélina). Hrærið bræddu smjöri saman við, síðan púðursykri, eggi og vanilludropum. Bætið matarsóda, salti, kanil, hveiti og kakó saman við og hrærið varlega þar til hefur blandast vel (passið að hræra ekki of lengi). Hrærið súkkulaðibitunum í deigið og setjið það í smurt formið. Bakið í 55-65 mínútur, eða þar til próni stungið í kökuna kemur deiglaus upp. Látið kökuna kólna í forminu í 10-15 mínútur.

Kakan geymist í 4 daga í plasti við stofuhita en ég get nánast fullyrt að hún mun aldrei endast svo lengi!

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Föstudagskvöld

Föstudagskvöld

Ó, hvað ég elska föstudagskvöld. Nammið er komið í skál og strákarnir eru að velja sjónvarpsefnið fyrir kvöldið. Það er notalegt kvöld framundan. Á morgun ætla ég að gefa ykkur uppskrift af bestu súkkulaði- og bananaköku sem þið eigið eftir að smakka. Við erum að missa okkur yfir henni!

Eigið gott föstudagskvöld kæru vinir ♥

Fræhrökkbrauð með feta-og sítrónumauki

Fræhrökkbrauð og feta-og sítrónumauk

Við buðum mömmu í mat í gærkvöldi og ég gerði forrétt sem okkur þótti svo góður að ég þurfti að fjarlægja af borðinu til að við myndum ekki borða okkur södd af honum. Ó, hvað okkur þótti þetta gott og hvað ég hef notið þess að fá mér af þessu í dag.

Fræhrökkbrauð og feta-og sítrónumaukOg hvað var það sem var svona gott? Heimagerð fræhrökkbrauð með feta- og sítrónumauki. Hollt og brjálæðislega gott. Frábært í saumaklúbbinn, sem forréttur, millimál og sjónvarpssnarl. Eða á ostabakkann. Dásamlegt við hvaða tilefni sem er…

Fræhrökkbrauð og feta-og sítrónumaukFræhrökkbrauð

 • 0,5 dl sesamfræ
 • 0,5 dl hörfræ
 • 3/4 dl sólblómafræ
 • 1/4 dl graskersfræ
 • 2 dl maísmjöl
 • 0,5 dl ólífuolía
 • 2-2,5 dl sjóðandi vatn
 • gróft salt, t.d. maldonsalt
 • rósmarín

Hitið ofninn í 150°. Setjið öll hráefni fyrir utan vatnið í skál og hrærið saman. Hellið sjóðandi vatni yfir (ég nota á milli 2 og 2,5 dl) og hrærið saman í deig. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og setjið deigið yfir. Notið sleikju og dreifið úr deiginu þannig að það fylli út í bökunarplötuna (reynið að ná því eins þunnt og þið getið). Stráið salti og rósmarín yfir og bakið í 45 mínútur. Ég brýt hrökkbrauðið bara í óreglulega bita þegar það hefur kólnað en ef þið viljið fá reglulegri hrökkbrauðssneiðar þá mæli ég með að þið skerið það með pizzaskera áður en það fer í ofninn.

Feta- og sítrónumauk (uppskrift frá Paul Lowe)

 • 200 g fetakubbur
 • 1 msk rifið sítrónuhýði (passið að taka bara ysta lagið, ekki rífa sítrónuna djúpt niður)
 • 1-2 msk ferskur sítrónusafi
 • 1 hvítlauksrif, hakkað
 • 6 msk extra virgin ólífuolía
 • smá af rauðum piparflögum (ég notaði chili explotion krydd)

Setjið fetaostinn, sítrónuhýðið, 1 msk af sítrónusafa, hvítlauk og ólífuolíu í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar allt hefur blandast vel en er enn með aðeins grófri áferð. Smakkið til, ef hræran er of sölt þá er meiri sítrónu bætt við. Setjið í skál, sáldrið smá ólífuolíu yfir og kryddið með rauðum piparflögum.

Allt hráefni í þessar uppskriftir fæst í

HAGKAUP

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

 

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Við erum enn á Akureyri og njótum þess til hins ýtrasta. Í morgun fóru strákarnir með nágrannakrökkunum í sund og þegar þeir komu heim keyrðum við á Kaffi Kú sem er hér í Eyjafirðinum. Ef þið eigið leið hér framhjá með krakka þá mæli ég hiklaust með viðkomu þar. Kaffihúsið er staðsett yfir fjósi og á meðan við gæddum okkur á nýbökuðum vöfflum og heitu súkkulaði var hægt að fylgjast með því sem gerðist í fjósinu. Eftir kaffið fórum við síðan niður í fjósið þar sem strákarnir hefðu vel getað eytt því sem eftir er af sumrinu.

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunumSteikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Mér datt í hug að setja hér hugmynd að fljótlegri máltíð sem ég gríp stundum til þegar strákarnir eru svangir og allt þarf að gerast í einum hvelli. Nú er ég ekki að koma með neina spennandi uppskrift heldur einfaldlega að minna á það sem flestir hafa eflaust gert, steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum. Þetta er alltaf jafn gott og krakkarnir fá ekki nóg af þessu. Frábært að grípa til hvort sem er í hádegisverð eða þegar enginn hefur tíma til að elda kvöldverð.

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

 • samlokubrauðsneiðar
 • egg
 • bakaðar baunir

Hitið smjör á pönnu. Skerið hring sem er á stærð við eggjarauðu úr miðju brauðsneiðarinnar. Setjið brauðsneiðina á pönnuna og brjótið eggið yfir þannig að eggjarauðan lendi í holunni. Steikið á báðum hliðum og berið fram með tómatsósu og bökuðum baunum (ég hita þær alltaf aðeins í örbylgjuofninum).

Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiVið erum búin að eyða helginni á Akureyri í dásamlegri veðurblíðu. Hér er alltaf jafn yndislegt að vera og krakkarnir eru í skýjunum enda ekki annað hægt þegar farið er tvisvar á dag í Brynjuís og kvöldunum eytt í Eymundsson yfir heitu súkkulaði, tímaritum og brandarabókum (sjálf held ég mér við matreiðslubækurnar en nýt góðs af upplestri af bestu bröndurunum undir kítlandi hlátri bræðranna). Það er óhætt að segja að við njótum til hins ýtrasta að vera í fríi saman.

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

Mér skilst að það eigi að vera fínasta veður víðsvegar um landið í dag en svo taki rigningin við á morgun. Það er því um að gera að draga grillið fram fyrir kvöldið og gera vel við sig. Ég mæli svo sannarlega með að þessir dásamlegu hamborgarar lendi á grillinu í kvöld. Þeir eru svo brjálæðislega góðir og bornir fram með þessum ofnbökuðum kartöfluhelmingum verður veislan seint toppuð.

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti (5 hamborgarar)

 • 2 rauðlaukar
 • 2 msk smjör
 • 1 tsk púðursykur
 • 600 g nautahakk
 • ½ dl Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce
 • 1 msk estragon
 • salt
 • pipar
 • hvítmygluostur

Smjör er brætt á pönnu við miðlungsháan hita. Hökkuðum rauðlauk er bætt á pönnuna og látinn malla í smjörinu í 10 mínútur. Púðursykri er þá bætt á pönnuna og látið malla áfram í 10 mínútur. Á meðan er hrært reglulega í lauknum. Ef laukurinn dökknar of hratt þá er hitinn lækkaður.

Nautahakk, estragon, Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce, salt og pipar er blandað saman og mótaðir 5 hamborgarar. Hamborgararnir eru grillaðir á lokuðu grilli í um 3 mínútur, þá er þeim snúið við og ostasneiðar lagðar ofan á. Grillinu er lokað aftur og hamborgararnir grillaðir áfram í um 6 mínútur. Undir lokin eru hamborgarabrauðum bætt á grillið og þau hituð.

Hamborgararnir eru bornir fram með karamelluhúðaða rauðlauknum, salati, góðri hamborgarasósu og jafnvel líka beikoni og avokadó.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Ég veit ekki um neinn sem er jafn hrifinn af núðlusúpum og Jakob. Hann gæti lifað á þeim. Ég er því alltaf á höttunum eftir góðum núðlusúpuuppskriftum og þegar ég rakst á þessa tælensku núðlusúpu á Pinterest um daginn var ég fljót prófa hana.

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Núðlusúpan var æðisleg! Hún var bragðmikil en ekki sterk, hnetusmjörið gaf gott bragð án þess að vera yfirgnæfandi og fór stórvel með karrýmaukinu. Kóriander og salthnetur settu síðan punktinn yfir i-ið. Útkoman var einstaklega ljúffeng súpa sem sló í gegn við matarborðið. Það eina sem ég vil benda á er að freistast ekki til að setja allan núðlupakkann út í súpuna því þá breytist hún í núðlurétt þegar hún kólnar.

Þessa súpu tekur enga stund að útbúa og hún er því fullkominn föstudagsmatur!

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum (uppskrift fyrir 4-5)

 • 1 dós kókosmjólk
 • 1/4 bolli rautt karrýmauk (red curry paste). Ég notaði frá Blue dragon.
 • 4 bollar vatn
 • 2 kjúklingateningar
 • 450 g kjúklingabringur eða -lundir, skornar í bita
 • 1 bolli sæt kartafla, afhýdd og skorin í teninga
 • 1/3 bolli hnetusmjör
 • 1 msk tamarind sósa eða 1/4 bolli limesafi
 • 2 msk fiskisósa (fish sauce) eða sojasósa
 • 2 msk púðursykur
 • 1/2 tsk turmerik
 • 1 rauð paprika, skorin í þunnar sneiðar
 • 160 g núðlur (rice noodles)
 • 2 bollar baunaspírur
 • 1/4 bolli ferskt kóriander
 • 1/4 bolli salthnetur
 • vorlaukur, sneiddur

Hitið þykka hlutann sem er efst í kókosmjólkurdósinni í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Bætið karrýmaukinu saman við og látið sjóða saman í um mínútu. Bætið því sem eftir er í kókosmjólkurdósinni saman við ásamt vatni, kjúklingateningum, sætum kartöfluteningum, hnetusmjöri, tamarind sósu, fiskisósu, púðursykri og turmerik. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og sætu kartöflurnar mjúkar. Það tekur um 7-10 mínútur, eftir því hvað bitarnir eru stórir. Bætið papriku og núðlum í pottinn og sjóðið þar til núðlurnar eru mjúkar, það tekur um 5 mínútur. Bætið baunaspírum saman við og takið síðan af hitanum.

Berið núðlusúpuna fram með kóriander, hökkuðum salthnetum og vorlauki.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Skinkuhorn og hvítlaukssósa

Skinkuhorn

Ég verð að viðurkenna að mér þykir æðislegt að fá svona rigningar- og rokdag í sumarfríinu. Það býður upp á kósýdag hér heima án nokkurs samviskubits. Ef sólin hefði skinið hefði ég til dæmis aldrei bakað skinkuhorn og borðað yfir 4 þáttum af Orange is the new black um hábjartan dag. Ég hefði ekki haft móral í það. En það var brjálæðislega notalegt að kúra saman í sjónvarpssófanum með nýbökuð skinkuhornin og heyra í rigningunni fyrir utan.

Í gær var veðrið hins vegar gott og við fórum í langan göngutúr yfir daginn og um kvöldið fórum við niður í Laugardal að fylgjast með Gunnari hlaupa í miðnæturhlaupinu. Það voru ekki margir við endalínuna en Jakob fann stól og kom sér vel fyrir.

Skinkuhorn

Gunnar hefur hlupið svo lítið undanfarnar vikur og enda verið með hálsbólgu og kvef allan mánuðinn. Hann ákvað því að skrá sig í 5 km í staðin fyrir 10 km eins og hann er vanur. Hann stóð sig vel þrátt fyrir kvefið og kom í mark á 25.45 mínútum.

Skinkuhorn

Þessi skinkuhorn eru æðisleg og við kláruðum þau upp til agna á svipstundu. Þau gjörsamlega hurfu af diskinum. Mér þykir gott að dýfa þeim í hvítlaukssósuna en það má auðvitað sleppa henni. Mér þykir bara allt aðeins betra með sósu! Eins þykir mér gott að hafa bragðmikinn ost í fyllingunni en hér má leika sér eftir smekk og stuði.

Skinkuhorn

Skinkuhorn

 • 2 dl vatn
 • 2 tsk þurrger
 • 5-6 dl hveiti
 • ½ tsk sykur
 • ½ dl braðdauf olía (ekki ólívuolía)
 • 1 tsk salt

Fylling að eigin vali. Ég nota góða skinku, brie og rifinn sterkan gouda.

Hitið vatnið í sirka 37 gráður. Blandið geri, vatni og sykri saman í skál, setjið viskastykki yfir og látið standa í nokkrar mínútur eða þar til blandan fer að freyða. Bætið hveiti, olíu og salti saman við og hnoðið saman í deig. Ég hnoða deigið vel saman (3-5 mínútur með hnoðaranum í hrærivélinni). Látið deigið hefast í 30 mínútur (ég læt það hefast í ofninum við 40° án blásturs).

Skinkuhorn

Skiptið deiginu í tvennt. Fletjið út eins og pizzur og skerið í 8 sneiðar. Leggið fyllingu á hverja sneið, rúllið upp, leggið á smjörpappírsklædda böknarplötu, penslið með upphrærðu eggi og stráið sesamfræjum yfir. Bakið við 200° í 10-15 mínútur.

Skinkuhorn

Hvítlaukssósa:

 • 1 dl sýrður rjómi (feitur, helst þessi nýji sem er 34%)
 • 2 msk majónes (ég nota Hellmann´s)
 • 1 fínhakkað hvítlauksrif
 • smá salt

Öllu hrært saman og látið standa í ísskáp.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ljúfmeti og lekkerheit 2 ára og dásamleg sítrónukaka með hindberjum og pistasíuhnetum

Dásamleg sítrónukaka með hindberjum og pistasíuhnetum

Ég veit að það er mánudagur en ég bakaði köku í tilefni dagsins og taldi mig hafa góða ástæðu til. Bloggið mitt er 2 ára í dag. Tveggja ára! Ef það gefur ekki tilefni til að baka köku þá veit ég ekki hvað.

Dásamleg sítrónukaka með hindberjum og pistasíuhnetum

Bloggið er eitt skemmtilegasta áhugamál sem ég hef á ævinni haft. Ég eyði helst öllum lausum stundum í það, þó það sjáist kannski ekki hér. Að lesa uppskriftir, plana matseðla, prófa mig áfram, misheppnast, heppnast, skrifa niður uppskriftir, taka myndir… allt tekur þetta sinn tíma og ég hef ánægju af þessu öllu. Meira en það, ég elska þetta. Fyrir utan bloggið er ég í fullu starfi og með þrjú börn, það er því líf og fjör alla daga vikunnar sem veldur því að suma daga gefst einfaldlega ekki tími til að sinna blogginu og mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar svo er.

Dásamleg sítrónukaka með hindberjum og pistasíuhnetum

Bloggið væri ekkert án ykkar og það gleður mig inn að hjartarótum hvað þið eruð mörg sem kíkið hingað inn á hverjum degi. Ég man í byrjun þegar heimsóknirnar fóru í fyrsta sinn yfir 100 og mér þótti það svo merkilegt. Í dag skipta þær tugum þúsunda á degi hverjum og mig sundlar af tilhugsuninni einni saman. Þið eruð út um allan heim og bloggið hefur meðal annars fengið heimsóknir frá löndum eins og Venezuela, Qatar, Cambodia, Jordan, Mozambique, Kuwait, Nepal, Yemen og Aruba. Hverjir voru þar? Ég verð svo forvitin þegar ég sé heimsóknir frá framandi löndum.

Takk fyrir öll falleg komment og tölvupósta sem þið hafið sent mér á þessum tveimur árum. Þið hafið fegrað líf mitt með þeim og ég mun seint ná að lýsa því hversu vænt mér þykir um að þið gefið ykkur tíma til að senda mér kveðju ♥

Dásamleg sítrónukaka með hindberjum og pistasíuhnetum

Ég er áskrifandi af Bon Appetit fyrir nokkru einsetti ég mér að prófa alltaf að minnsta kosti eina uppskrift úr hverju blaði sem dettur inn um lúguna. Það gengur svona og svona en ég lúsles blöðin aftur og aftur. Ég elska þessi blöð. Í nýjasta blaðinu kallaði þessi uppskrift á mig, kannski vegna þess að ég er svo hrifin af sítrónum, hindberjum og pistasíuhnetum. Hún var því sjálfskrifuð sem uppskriftin sem yrði prófuð úr þessu blaði. Þessi kaka hefur allt og getur ekki klikkað. Mér þótti hún svo ljúffeng og við dásömuðum hana við hvern bita.

Sítrónukaka með hindberjum og pistasíuhnetum (uppskrift úr bon appétit)

 • 1  3/4 bolli hveiti (250 g)
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • ½ tsk gróft salt
 •  4 stór egg
 • 1  1/4 bolli + 2 msk sykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk fínrifið sítrónuhýði
 • 1 msk + 1/4 bolli ferskur sítrónusafi
 • 3/4 bolli mild ólífuolía
 • 1 bolli fersk hindber
 • 3 msk hakkaðar ósaltaðar og óristaðar pistasíuhnetur

Hitið ofn í 175° og smyrjið 24 cm kökuform.

Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál og leggið til hliðar. Hrærið egg og 1 bolla af sykri saman með handþeytara eða í hrærivél í 5 mínútur. Þá ætti blandan að vera orðin ljós og létt. Látið hrærivélina ganga og bætið vanilludropum og 1 msk af sítrónusafa saman við. Hrærið síðan olíunni smátt og smátt saman við. Hærið að lokum þurrefnum og sítrónuhýði varlega saman við. Setjið deigið í kökuformið og sléttið úr yfirborðinu. Setjið hindberin yfir, síðan pistasíuhneturnar og 2 msk af sykri. Bakið kökuna í 45-55 mínútur, eða þar til prjóni sem stungið hefur verið í kökuna kemur hreinn upp.

Á meðan kakan er í ofninum er 1/4 bolli af sykri og 1/4 bolli af sítrónusafa sett í lítinn pott. Látið suðuna koma upp, hrærið í og látið sykurinn leysast upp. Látið sítrónusýrópið kólna.

Þegar kakan er tilbúin er hún tekin úr ofninum og sett á grind til að kólna (ekki taka hana úr kökuforminu). Burstið sítrónusýrópinu yfir hana, notið allt sýrópið. Látið kökuna kólna alveg í forminu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Í gærkvöldi gerði ég uppáhalds granólað mitt og í leiðinni furðaði mig á því af hverju ég geri það ekki oftar. Þetta tekur enga stund! Það var því extra notalegt að koma fram í morgun, vitandi að það biði mín góður morgunverður án nokkurar fyrirhafnar. Besta byrjunin á deginum.

Matseðillinn fyrir komandi viku gefur hálfgert frí frá eldhúsinu á miðvikudeginum því þá er afgangur nýttur frá deginum áður. Uppskriftin er nefnilega stór og dugar vel í tvær máltíðir. Á föstudeginum er ein uppáhalds pizzan mín (ef þið hafið ekki gert hana þá hvet ég ykkur til að prófa!) og með helgarkaffinu kleinuhringir sem mig hefur langað í undanfarna daga. Ég fæ reglulega spurningar um kleinuhringjaformið sem ég nota og bendi því á að ég sá það um daginn í Hagkaup í Garðabæ (við endann á rekkanum með bökunarvörunum). Kostar ekki mikið og er hverrar krónu virði!

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Chili con carne

Þriðjudagur: Chili con carne og New York Times-brauð

Chili con carne

Miðvikudagur: Chili con carne með grænmeti í tortillavefju

Rjómalöguð kjúklingasúpa

Fimmtudagur: Rjómalöguð kjúklingasúpa

Pizza

Föstudagur: Mexíkó pizza

Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Með helgarkaffinu: Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP