Besta poppið!

Besta poppið!Ég má til með að benda ykkur á popp sem ég uppgötvaði nýlega (kannski síðust af öllum!) og er nýjasta æðið hér á heimilinu, Orville simply salted í pop up bowl. Poppið er fituminna en hefðbundið popp og með mjög góðu saltbragði. Malín var búin að sjá það víða á amerískum síðum og var spennt að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, svo æðislega gott!!Besta poppið!

Annars sit ég hér, með nýpoppað popp og tímarit, að bíða eftir að verða sótt. Við vinkonurnar ætlum að skella okkur í smá frí til Stokkhólms út vikuna. Ég læt frá mér heyra ef færi gefst en annars verð ég á instagram (heiti ljufmeti þar).

Besta poppið!

 

Nestishugmyndir

NestishugmyndirHæ blogglesendur hennar mömmu. Mamma bað mig um að gestablogga um nestið mitt og það geri ég með mikilli ánægju. Ég heiti Malín og var að byrja í menntaskóla. Fyrstu daga mína í skólanum fórum við vinkonurnar oftast yfir í Kringluna og keyptum okkur mat þar í hádeginu. Ég fann strax að mig langaði ekki til að venja mig á að borða svona óhollt á hverjum degi, fyrir utan hvað það er dýrt. Þar sem mamma gerir alltaf stórinnkaup einu sinni í viku þá ákvað ég að fara með henni í búðina og týndi í körfuna það sem mig langaði til að hafa í nesti. Það er ekkert mál að útbúa nesti ef maður er búinn að ákveða fyrirfram hvað það eigi að vera og það er þægilegt að geta gengið að því í töskunni og þurfa ekki að hlaupa út í búð að kaupa eitthvað rusl.

NestishugmyndirNestishugmyndirNestishugmyndir

Ég byrja dagana nánast alltaf á hafragraut. Ég vil hafa grautinn þykkan og set alls konar út í hann eins og epli, fræ, kanil eða hnetusmjör og banana. Mér þykir þetta vera góð byrjun á deginum og ég er södd allan morguninn eftir hafragrautinn. Nestið mitt er síðan hádegismaturinn minn. Það er alltaf heitur matur heima á kvöldin og því fæ ég mér bara léttan hádegisverð sem er nestið mitt. Mamma gerði hafrastykki í vikunni sem mér þykir æði að taka með mér í nesti (uppskriftin af þeim er hér) og vona að hún geri þau aftur fljótlega (mátt alveg gera tvöfaldan skammt næst mamma, eða þrefaldan…).

Nesti

Nestið mitt í síðustu viku var :

Mánudagur: Einfalt cesarsalat. Við keyptum salat, tilbúna eldaða kjúklingabita og cesardressingu. Ég ætlaði að setja harðsoðin egg, tómata og parmesan ost saman við en það gafst ekki tími til þess (það var jú mánudagur og allt). Salatið og kjúklingurinn fóru í nestisbox og sósan í sér box til að það myndi ekki liggja saman allan morguninn.

Þriðjudagur: Heilhveitivefjur með skinku, gúrku, salati og rjómaosti. Með þessu hafði ég vínber.

Miðvikudagur: Ég er svo stutt í skólanum á miðvikudögum að hafrastykki og ávöxtur duga.

Fimmtudagur: Píta með hummus og spínati (gleymdist að mynda það).

Föstudagur: Var veik og því ekki þörf á nesti.

Ég drekk ekkert annað en vatn og ég geymi því stórt glas með loki í skólanum og fylli á það af og til yfir daginn.

Ég keypti líka hrískökur með dökku súkkulaði og hafði þær í skápnum mínum í skólanum til að narta í á milli tíma.

Fleiri nestishugmyndir eru:

 • tortillavefjur – hægt að setja allt milli himins og jarðar í þær
 • flatkökur með hangikjöti, túnfisksalati, reyktum silungi…
 • beygla með pizzasósu og osti, inn í örbylgjuofn (ef það er svoleiðis græja í þínum skóla)
 • afgangur af kvöldmatnum deginum áður
 • ávextir, grænmeti
 • salat – hægt að gera endalaust margar útfærslur
 • smoothie (mömmu uppskrift er geggjuð, þið finnið hana hér)
 • gróft rúnstykki með pítusósu, reyktum silungi og eggi eða tómati
 • samloka með skinku og osti (ef það er samlokugrill aðgengilegt)
 • gróf samloka með gúrku og eggi
 • gróf brauðsneið með avókadó, eggi og tómat (algjört uppáhald)

Það væri gaman ef þið eruð með fleiri hugmyndir að þið mynduð skrifa þær hér fyrir neðan í athugasemdirnar.

Nestishugmyndir

xoxo

Malín ♥

Föstudagskvöld

Föstudagskvöld

Ég sá að það var óskað eftir nestishugmyndum og þar sem Malín sér alfarið um að útbúa sitt nesti sjálf þá fékk ég hana til að halda nestisdagbók þessa vikuna. Nestisfærsla er því væntanleg hingað á bloggið um leið og hún hefur lausa stund.

Hér að ofan er nýjasta viðbótin í snyrtibudduna mína. Mér þykja nýju haustlitirnir frá Chanel æðislegir og kolféll fyrir varalit (93 Intime) og naglalakki (625 Secret). Það fær að vera mín bjútý-ábending fyrir helgina.

Eigið gott föstudagskvöld 

Vikumatseðill

VikuinnkaupVikuinnkaupVikuinnkaupVikuinnkaupÞar sem það er varla hundi út sigandi í þessu veðri þykir mér kjörið að taka daginn í að gera vikumatseðil og undirbúa vikuna. Vikuinnkaupin breytast alltaf aðeins hjá mér á haustin og sérstaklega núna þegar Malín tekur með sér nesti í skólann. Það er smá áskorun að finna hentugt nesti og við erum að prófa okkur áfram.

Á matseðlinum þessa vikuna veit ég að kjötbollurnar á þriðjudeginum og pylsugratínið á miðvikudeginum eru tilhlökkunarefni hjá krökkunum en hjá mér er það kjúklingasúpan á föstudeginum sem stendur upp úr. Hún er himnesk og ef þið hafið ekki prófað hana þá hvet ég ykkur til þess. Heimagerða Snickersið er síðan hápunktur vikunnar. Hamingjan hjálpi mér hvað það er gott. Það ætti að vera til á hverju heimili. Alltaf.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Mánudagur: Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Ofnbakaðar kjötbollur

Þriðjudagur: Ofnbakaðar kjötbollur

Pylsugratín með kartöflumús

Miðvikudagur: Pylsugratín með kartöflumús

Spaghetti alla carbonara

Fimmtudagur: Spaghetti carbonara

Kjúklingasúpa

Föstudagur: Himnesk kjúklingasúpa með ferskjum

Heimagert snickers

Helgardekrið: Heimagert Snickers

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Salamisalat

SalamisalatÉg er mjög hrifin af hrökkbrauði, og reyndar öllu brauði ef út í það er farið en hrökkbrauðið er það brauð sem ég borða mest af. Finn Crisp með eggjahræru og jurtasalti fæ ég seint leið á og hef borðað í hverri viku í ár og aldir, en best þykir mér þó þetta hrökkbrauð sem ég hef ekki undan að baka því ég klára það svo fljótt. Mér þykir það æðislega gott og borða það oftast með avókadó og jurtasalti (namm) eða þessu feta- og sítrónumauki þegar ég á það til (brjálæðislega gott!). Það er skrýtið að mér dytti aldrei í hug að setja eggjahræru á heimagerða hrökkbrauðið mitt, hún fer bara á Finn Crisp. Stundum kaupi ég Wasa Sport hrökkbrauð en þá set ég smjör, soðið egg sem er á milli þess að vera lin- og harðsoðið og gúrku ofan á það. Það er eins og hver hrökkbrauðstegund eigi sitt álegg, hálf galið.Salamisalat

Ég prófaði um daginn að gera salamihræru sem hristi verulega upp í hlutunum og var skemmtileg tilbreyting á hrökkbrauðið. Mér þykir hún meira að segja passa á allar tegundir hrökkbrauða sem og á venjulegt brauð. Þetta er brjálæðislega einfalt og mjög gott. Fersk gúrkan fer vel með söltu salamipylsunni en er þó ekki nauðsynleg. Setjið hana samt á, hún setur svolítið punktinn yfir i-ið.

Salamisalat

 • 100 g salami
 • 1/2 dl majónes
 • 1 dl philadelphiaostur

Fínhakkið salami. Hrærið majónesi og philadelphiaosti saman þar til blandan er slétt. Hrærið salami saman við.

Salamisalat

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Dásamlegt sírópsbrauð

SírópsbrauðÞessar síðustu sumarvikur hafa flogið áfram og á morgun hefjast skólarnir og tómstundir á nýjan leik. Haustið hefur alltaf verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Þegar loftið er brakandi ferskt á morgnanna og hversdagsrútínan fer aftur í gang. Við ætlum að kveðja sumarið með því að fara á Justin Timberlake í kvöld og stemmningin er í toppi fyrir því.

Sírópsbrauð

Við byrjuðum daginn á löngum og góðum morgunverði. Ég bakaði sírópsbrauð í gærkvöldi og það var því fljótlegt að hafa morgunverðinn til í morgun. Mér þykir eitt það notalegasta við helgarnar vera að geta setið lengi yfir morgunverðinum. Ég næ því aldrei á virkum dögum og oftar en ekki gríp ég þá morgunverðinn með mér í bílinn.

Sírópsbrauð

Brauðið sem við gæddum okkur á í morgun er dásamlega ljúffengt, mjúkt og geymist vel. Hér áður fyrr notaði ég alltaf venjulegar rúsínur í það en eftir að ég datt niður á þessar hálfþurrkuðu rúsínur þykir mér ekkert varið í hinar. Þegar ávextirnir eru hálfþurrkaðir þá bæði helst sætleikinn í þeim og þeir haldast mjúkir og góðir. Þvílíkur munur! Ég er spennt að prófa fleiri ávexti úr þessari línu.

Sírópsbrauð

Það er bæði lítil fyrirhöfn og einfalt að baka gerlaus brauð. Það þarf bara að hræra öllu saman og setja inn í ofn. Mér þykir best að baka þetta brauð kvöldinu áður svo allt sé klárt þegar ég vakna. Ég vef því heitu inn í hreint viskastykki og set síðan glæran plastpoka utan um það. Þannig geymist það vel.

SírópsbrauðSírópsbrauð 

 • 3 ½ dl hveiti
 • 3 dl heilhveiti
 • 1 tsk salt
 • ½ sólblómafræ
 • 1 dl rúsínur (ég mæli með hálf þurrkuðu rúsínunum frá St. Dalfour)
 • ½ dl cashew hnetur
 • 5 dl súrmjólk
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 dl síróp

Hitið ofninn í 175°.  Blandið hveiti, heilhveiti, salti, sólblómafræjum, rúsínum og hnetum saman í skál og leggið til hliðar. Blandið súrmjólk, sírópi og matarsóda saman í annari skál og hrærið síðan varlega saman við þurrefnin.

Smyrjið 1,5 lítra brauðform eða klæðið það með bökunarpappír. Setjið deigið í formið og stráið smá hveiti yfir. Bakið brauðið í neðri hluta ofnsins í um 90 mínútur. Setjið álpappír yfir brauðið ef það fer að dökkna of mikið. Látið brauðið hvíla innvafið í viskastykki í 5 klukkutíma áður en það er borðið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Gott ráð!

Gott ráð!

Ég hef verið í vandræðum með að þrífa háfinn yfir eldavélinni hjá mér frá upphafi. Það var sama hvaða efni ég notaði, hann var alltaf skýjaður. Því meira sem ég þreif hann, því ljótari varð hann. Að lokum gafst ég upp.

Gott ráð!

Það var svo nýlega að ég las á einhverri amerískri síðu að besta leiðin til að þrífa stálvörur í eldhúsi væri með kókosolíu. Ég hafði ekki nokkra trú á að það myndi virka en þegar ég var í búðinni um daginn og rak augun í kókosolíu í hillunni ákvað ég að slá til. Ég hafði jú engu að tapa. Ég ætlaði ekki að trúa því en á nokkrum mínútum varð háfurinn eins og nýr. Ég gerði ekkert annað en að setja kókosolíuna í eldhúspappír (eða réttara sagt klósettpappír því eldhúspappírinn var búinn) og bera hana á. Erna vinkona prófaði líka hjá sér með sama góða árangri. Hún sagði að ég yrði að setja þetta á bloggið og nú geri ég það. Kókosolían er algjörlega málið!

Gott ráð!

Frosinn hindberjadrykkur

Frosinn hindberjadrykkurMikið er æðislegt að fá svona góða daga með sól og blíðu. Það lifnar allt við. Við kældum okkur niður í dag með æðislegum drykk sem ég hef gert nokkrum sinnum í sumar og alltaf hlotið mikið lof fyrir. Það er því tími til kominn að setja uppskriftina inn til að fleiri geti notið hennar.

Þessi frosni hindberjadrykkur er ferskur, svalandi og dásamlega góður. Krakkarnir hreinlega elska hann. Djúsinn sem ég nota, Sunquick Pink Guava & Strawberry, er í algjöru uppáhaldi hjá strákunum og þegar þeir fá að gera vel við sig verður hann fyrir valinu. Hér fer djúsinn svo vel með hindberjunum og sítrónan setur punktinn yfir i-ið. Þetta verður ekki einfaldara, öllu er hrúgað í blandarann og hann látinn ganga í smá stund. Útkoman verður hálfgert ískrap sem er fallegt í glasi og dásamlegt á bragðið.

Frosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkur Frosinn hindberjadrykkur (fyrir 3-4)

 • 200 g ís (ekki mjúkís)
 • 2,5-3 dl mjólk
 • 200 g frosin hindber
 • 2 tsk ferskur sítrónusafi
 • 4 msk Sunquick Pink Guava & Strawberry

Setjið öll hráefnin í blandara og látið ganga þar til blandan er slétt og mjúk.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Butter chicken

Butter chickenMér þykir alltaf verða ákveðin kaflaskil þegar verslunarmannahelgin er að baki. Þá er haustið handan við hornið og allt að fara í gang aftur. Krakkarnir fara að huga að skólasetningu og tómstundum vetrarins á meðan ég bíð með eftirvæntingu eftir að lífið falli í sína hversdagslegu rútínu.

Butter chickenButter chicken

Það er búið að vera svolítið um skyndilausnir í eldhúsinu hjá mér upp á síðkastið. Matur sem okkur þykir góður en tekur lítinn tíma að útbúa. Uppskriftir sem er sniðugt að grípa til þegar boðið er í mat án þess að hafa tíma til að undirbúa matarboðið. Þannig var það einmitt með þennan rétt. Ég var enga stund að reiða hann fram þegar ég hafði boðið í mat hér eitt kvöldið og allir voru ánægðir með matinn.  Jakob var svo ánægður að hann borðaði afganginn í morgunmat daginn eftir og hefðu glaður viljað fleiri diska.

Butter chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5)

 • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (eða kjúklingabringur)
 • 1 laukur
 • 1/2 spergilkálhaus
 • 1 krukka Butter chicken sósa frá Patak´s
 • 1-2 tsk karrý
 • 1 grænmetisteningur
 • 2-3 msk mangó chutney

Skerið kjúklinginn í bita, laukinn í báta og spergilkálið í bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er steiktur á öllum hliðum, bætið þá lauknum á pönnuna og steikið áfram þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið sósu, spergilkáli, karrý, grænmetisteningi og mangó chuthey á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og spergilkálið orðið mjúkt.

Butter chicken

Berið fram með hrísgrjónum og nan-brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÞvílík helgi sem við fengum! Ég og strákarnir nýttum veðurblíðuna á laugardeginum og fórum í dagsferð um suðurlandið með vinkonu minni. Við heimsóttum meðal annars sundlaugina á Hellu (frábær sundlaug), Seljalandsfoss og vinnufélaga okkar sem var staddur í Þykkvabænum. Ferðina enduðum við síðan í þriggja rétta humarveislu á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Æðislegur dagur í alla staði.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Við vorum ekki í neinu stuði fyrir fisk í kvöld og ég skellti því í stórgóðan pastarétt sem við fáum seint leið á. Þessi hefur lengi verið í uppáhaldi og ég geri yfirleitt tvöfaldan skammt því krökkunum þykir svo gott að hita hann upp daginn eftir. Það er svo einfalt og fljótlegt að útbúa þennan rétt og í kvöld lögðum við á borð í sjónvarpsholinu og horfðum á Tyrant yfir matnum. Frábærir þættir sem eru sýndir seint á sunnudagskvöldum og því hentar okkur betur að taka þá á frelsinu daginn eftir. Ég mæli með þeim ef ykkur vantar þætti til að horfa á!

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Pasta í rjómasósu með beikoni og sveppum (uppskrift fyrir 3-4)

 • 250 g sveppir (1 box)
 • 130 g beikon (ég nota 1 bréf af eðalbeikoni)
 • 1 laukur
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 2 dl rjómi
 • 1/2 grænmetisteningur
 • salt og pipar
 • smá af cayenne pipar (má sleppa)

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Skerið sveppina í fernt, hakkið laukinn og skerið beikonið í bita. Hitið smjör á pönnu (mér þykir alltaf betra að steikja úr smjörlíki) og steikið sveppina þar til þeir eru komnir með góða steikingarhúð, bætið þá lauk og beikoni á pönnuna og steikið áfram þar til beikonið er fullsteikt og laukurinn orðinn mjúkur. Hellið rjóma og sýrðum rjóma yfir og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Smakkið til með grænmetiskrafti, salti og pipar. Endið á að setja örlítið af cayenne pipar fyrir smá hita.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Ég er hrifin af pastanu frá De Cecco og í þennan rétt nota ég spaghetti n°12 sem ég sýð al dente (10 mínútur). Mér þykir þykktin á því vera svo góð og passa vel í réttinn.

Blandið pastanu saman við pastasósuna og hrærið smá af pastavatninu saman við. Það skemmir ekki fyrir að rífa parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram en það má þó vel sleppa því. Dásamlega gott á báða vegu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP