Sænskar pönnukökur

Sænskar pönnukökurÉg hef alltaf verið ferlega klaufsk þegar kemur að íslenskum pönnukökum og hef satt að segja aldrei komist upp á lagið með að steikja þær þunnar og fallegar. Framan af kenndi ég pönnukökupönnunni um en eftir að tengdamamma mín steikti fullkomnar pönnukökur trekk í trekk á henni neyddist ég til að horfast í augu við að klaufaskapinn yrði ég að skrifa á mig.

Sænskar pönnukökurÞað er mér til happs að okkur þykja sænsku pönnukökurnar ekki síðri og meira að segja örlítið betri en þær íslensku. Það er nefnilega ekkert mál að steikja þær því þær eru aðeins þykkari. Ég virðist svakalega flink þegar ég sný þeim með að henda þeim í loftið og grípa aftur með pönnukökupönnunni en það er þó ástæða fyrir þeim stælum. Ég næ ómöglega að snúa þeim öðruvísi án þess að rífa þær með spaðanum! Það er svo einfalt að gera þetta svona, þegar pönnukakan er orðin laus frá pönnunni þá er tímabært að snúa henni. Þegar seinni hliðin losnar þá er pönnukakan tilbúin. Pönnukökurnar eru þá brotnar saman og bornar fram með sultu og rjóma.

Sænskar pönnukökur

Sænskar pönnukökur (uppskrift frá Kokaihop)

 • 2,5 dl hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • smá vanillusykur
 • 6 dl mjólk
 • 4 egg
 • 1 msk sýrður rjómi
 • 3 msk smjör til að steikja upp úr (ég nota mun meira)

Blandið þurrefnum saman í skál. Bætið mjólk og sýrðum rjóma saman við og hrærið vel saman. Hrærið að lokum eggjunum í blönduna. Steikið upp úr smjöri.

Sænskar pönnukökurSænskar pönnukökur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

VikumatseðillNý vika framundan og fyrsta heila vinnuvikan mín í hálfan mánuð. Ég get ekki beðið! Þessi vika verður frábrugðin öðrum að því leyti að strákarnir fara með mömmu til systur minnar í Köben á miðvikudagsmorgni og verða út vikuna. Ég mun sakna þeirra hrikalega en þeir hafa talið dagana í fleiri vikur og ráða sér varla af tilhlökkun. Í fjarveru þeirra verður fámennt við matarborðið en það má þó alltaf gera vikumatseðil og hér kemur mín tillaga.

Vikumatseðill

Steiktur fiskur í pulsubrauðiMánudagur: Steiktur fiskur í pulsubrauði

Ofnbakaðar kjötbollurÞriðjudagur: Ofnbakaðar kjötbollur

Skinku- og spergilkálsbakaMiðvikudagur: Skinku- og spergilskálsbaka

TacolasagnaFimmtudagur: Tacolasagna

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýiFöstudagur: Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Syndsamlega góðar vöfflurMeð helgarkaffinu: Vöfflur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Skúffukaka með karamellukremi

Skúffukaka með karamellukremiÉg er orðin svolítið dauf í dálkinn eftir að hafa legið heila viku í flensu og óska þess heitast að hún núna fari og veri. Ég er þó öll að koma til og hef fulla trú á að ég verði stálslegin áður en helgin er á enda. Ég er viss um það.

Skúffukaka með karamellukremi

Þangað til ætla ég að halda áfram að dunda mér við að lesa matreiðslublöðin mín og gæla við tilhugsunina um hlýtt sumar með mörgum grillkvöldum og skemmtilegum ferðalögum. Ég var svo heppin að fá Bon Appétit blað inn um lúguna í vikunni (það sem sú áskrift hefur oft veitt mér mikla gleði og verið hverrar krónu virði) og er búin að lúslesa það spjaldanna á milli og merkja við þær uppskriftir sem ég ætla að prófa. Síðan ætla ég að halda áfram að gæða mér á skúffuköku sem ég bakaði og er æðisleg. Mér þykir góð tilbreyting að hafa karamellukrem á skúffukökunni og því verður seint neitað að karamella og súkkulaði fara stórvel saman. Kannski eitthvað til að baka með helgarkaffinu?

Skúffukaka með karamellukremiSkúffukaka með karamellukremi

Skúffukaka með karamellukremi (uppskrift úr Hembakat)

 • 2 egg
 • 2 dl sykur
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 dl púðursykur
 • 3 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 ½ dl mjólk
 • 150 g smjör, brætt
 • 4 dl hveiti

Karamelluglassúr:

 • 125 g smjör
 • 1 ½ dl sykur
 • 3/4 dl rjómi
 • 3/4 dl síróp
 • 1 tsk kakó

Yfir kökuna:

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í175°. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Blandið saman lyftidufti, púðursykri, kakó og vanillusykri. Hrærið blöndunni út í eggjablönduna ásamt mjólk, bræddu smjöri og hveiti. Hrærið snögglega saman í slétt deig. Setjið deigið í skúffukökuform (sirka 22 x 35 cm að stærð) og bakið í miðjum ofni í 25-30 mínútur.

Karamelluglassúr: Bræðið smjörið í potti. Hrærið sykri, rjóma, sírópi og kakói saman við og látið suðuna koma upp á meðan hrært er í pottinum. Lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita í 18-20 mínútur.

Setjið karamelluglassúrinn yfir kökuna og stráið kókos yfir. Leyfið karamellunni að stífna aðeins áður en kakan er skorin í bita.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Ég vaknaði með flensu á páskadagsmorgun og hef hreinlega bara versnað með hverjum deginum sem líður. Alveg glatað! Ég bind miklar vonir við að þessu fari að snúa og að ég komist til vinnu áður en vikan er öll. Þrátt fyrir veikindin höfum við átt ljúfa daga og svo sem ekki yfir neinu að kvarta. Dagana áður en ég lagðist í rúmið náðum við að fara á skíði, í hellaferð, fara í matarboð og halda matarboð. Það hefur því ekki væst um okkur.

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Ferðin í Leiðarenda var skemmtileg upplifun og kom mér á óvart hvað hellirinn er fallegur. Ef þið ætlið að fara þá eru hjálmar og höfuðljós nauðsynleg og mjög gott að vera á broddum. Það tekur sinn tíma að fara um hann og upplagt að taka með nesti. Ég bakaði pizzasnúða og hitaði súkkulaði sem við tókum með okkur og borðuðum í hellinum. Ævintýri fyrir alla aldurshópa!

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Við byrjuðum flesta daga í fríinu á heitu crossant (ég kaupi þau frosin) með skinku, osti og eggjahræru. Við virðumst ekki fá leið á þeirri blöndu. Krakkarnir setja stundum Nutella á sín, þið getið rétt ímyndað ykkur gleðina. Brjálæðislega gott þegar Nutella bráðnar aðeins í heitu crossantinu.

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Ég eldaði fyllt hátíðarlæri með frönskum camembert (frá Hagkaup) sem var súpergott og ég vona að hægt verði að kaupa áfram. Með lambinu bar ég meðal annars fram sykurbrúnaðar kartöflur. Ég veit að það kunna eflaust allir að brúna kartöflur en ég las einu sinni að það væri snjallt að setja sítrónusafa á sykurinn á meðan hann bráðnar því þá brennur hann ekki. Ég hef síðan þá stuðst við þessa uppskrift, sem mig minnir að komi úr Gestgjafanum, og hún klikkar ALDREI.

Sykurbrúnaðar kartöflur:

 • 2 dl sykur
 • 2 msk sítrónusafi
 • 40 g smjör
 • 1 kg kartöflur

Sykurinn og sítrónusafinn er sett á pönnu og látið bráðna við vægan hita (hrærið sem minnst í á meðan). Þegar sykurinn hefur bráðnað er smjörinu bætt út í og látið bráðna saman. Soðnum, skrældum kartöflum (passið að hafa þær þurrar) er þá bætt í.

Í eftirrétt var uppáhaldið hans Gunnars, súkkulaðimús (þú finnur uppskriftina hér). Við erum öll hrifin af súkkulaðimús en Gunnar gæti lifað á henni og hún verður því alltaf fyrir valinu þegar hann fær að ráða.

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

 

Pannacottakaka með ástríðualdin

Pannacottakaka með ástríðualdinÓ, hvað ég elska páskafrí. Fyrir utan sumarfrí þá þykir mér páskafrí vera besta fríið. Ekkert sem þarf að gera annað en að njóta. Við hófum fríið í Bláfjöllum á miðvikudagskvöldinu í æðislegu veðri og á heimleiðinni keyptum við nammi og skyndibita sem við nutum hér heima yfir sjónvarpinu, endurnærð eftir útiveruna. Síðan höfum við farið í göngutúra og notið þess að borða gott og vera saman. Nú liggur leiðin með krakkana og vinafólki í hellaferð og planið er að enda daginn í humar og hvítvíni. Hversu ljúft!

Pannacottakaka með ástríðualdin

Ég gerði köku um daginn fyrir saumaklúbbinn minn sem við vorum allar svo hrifnar af að ég má til með að setja uppskriftina hingað inn. Þessi dásemd myndi sóma sér svo dæmalaust vel á páskaborðinu og er ferskur og góður eftirréttur. Njótið!

Pannacottakaka með ástríðualdin – uppskrift frá Bakverk och Fikastunder

Botn:

 • 200 g  digistive kex
 • 100 g brætt smjör

Myljið digestive kexið í mylsnu (notið matvinnsluvél ef þið eigið hana, annars bara kökukefli og plastpoka!). Bræðið smjörið og blandið saman við kexmylsnuna. Þrýstið blöndunni í botninn á lausbotna formi sem er um 24 cm í þvermál. Kælið.

Pannacottakaka með ástríðualdinPannacottakaka með ástríðualdin

Fylling:

 • 5 ástríðualdin
 • 4 dl rjómi
 • 0,5 dl mjólk
 • 0,5 tsk vanillusykur
 • 0,5 dl sykur
 • 2,5 matarlímsblöð

Leggið matarlímið í kalt vatn í að minnsta kosti 5 mínútur. Skafið úr ástríðualdinunum og setjið í pott ásamt rjóma, mjólk, vanillusykri og sykri. Látið suðuna koma upp og takið þá pottinn af hitanum. Takið matarlímsblöðin úr vatninu, kreistið mesta vatnið frá og setjið matarlímsblöðin í pottinn. Hrærið þar til þau hafa leyst upp. Sigtið blönduna og látið hana yfir botninn. Látið standa í ísskáp í að minsta kosti 4 klst.

Pannacottakaka með ástríðualdinPannacottakaka með ástríðualdin

Yfir kökuna:

 • 2 matarlímsblöð
 • 4 ástríðualdin
 • 1 dl vatn
 • 1 msk sykur

Leggið matarlímið í kalt vatn í að minnsta kosti 5 mínútur. Skafið úr ástríðualdinunum og setjið í pott ásamt vatni og sykri. Hitið upp og hrærið síðan matarlímsblöðunum saman við. Hellið vökvanum yfir pannacottað og látið stífna í ísskáp í nokkrar klukkustundir.

Pannacottakaka með ástríðualdin

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Gúllassúpa með nautahakki

Gúllassúpa með nautahakkiÉg veit að ég hef verið súpuglöð upp á síðkastið og gefið hér hverja súpuuppskriftina á fætur annarri en ég ræð ekki við mig. Þetta er sá árstími sem ég gæti lifað á súpum og brauði. Um daginn gerði ég tvo fulla súpupotta sem ég frysti og hef verið að gæða mér á nánast daglega síðan. Súpur hljóta að vera notalegasti matur sem til er í vetrarkuldanum!

Þessi gúllassúpa er sérlega ljúffeng og upplagt að frysta hana til að eiga þegar enginn nennir að elda eða allir koma seint heim. Ég borða hana ýmist með góðu brauði eða nachos og þykir bæði betra. Sýrður rjómi fer yfirleitt í súpuskálarnar mínar en auðvitað má sleppa honum. Eins má leika sér með hráefnið, skipta kartöflum út fyrir gulrætur eða sætar kartöflur, nautahakkinu fyrir gúllasbita… það eru engar reglur, bara að dekra við súpuna og hún verður dásamleg.

Gúllassúpa með nautahakki

Gúllassúpa með nautahakki (uppskrift fyrir 5-6)

 • 500 g nautahakk
 • 3 msk tómatpúrra
 • salt og pipar
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 rauð paprika
 • smjör
 • 1 laukur
 • 2 dósir Hunt´s niðursoðnir hakkaðir tómatar, samtals 800 g (mér þykir gott að blanda Roasted Garlic og Basil, Garlic & Oregano)
 • 7 litlar kartöflur, skornar í bita
 • 1/2 tsk tabasco
 • 8 dl vatn
 • 3 nautateningar
 • 2 msk soja
 • 2 tsk paprikukrydd

Steikið nautahakk á pönnu. Kryddið með salti og pipar og hrærið tómatpúrru saman við. Leggið til hliðar.

Hakkið papriku og lauk. Bræðið smjör á pönnu og bætið prpriku, lauk og hvítlauk á pönnuna. Látið mýkjast við vægan hita.

Setjið allt í pott og látið sjóða saman í 15-20 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.

Gúllassúpa með nautahakkiGúllassúpa með nautahakkiGúllassúpa með nautahakki

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósaNú er stutt vinnuvika og páskafrí framundan. Við ætlum að vera heima yfir páskana en bindum miklar vonir við gott skíðafæri í Bláfjöllum. Fyrir utan skíðin langar mig mest til að eyða fríinu í rólegheitum, fara í göngutúra, kíkja í matreiðslubækur og borða góðan mat. Ég elda alltaf lamb á páskadag en annars er lítið um matarhefðir yfir páskana hjá okkur. Mér datt þó í hug að það gæti verið sniðugt að smakka páskabjórinn á föstudagskvöldinu og þá fer pizza með karamelluseruðum lauk og beikoni stórvel með. Ég mæli með að þið prófið hana!

Gratineraður fiskur á hrísgrjónabeði

Mánudagur: Gratineraður fiskur á hrísgrjónabeði

Milljón dollara spaghetti

Þriðjudagur: Milljón dollara spaghetti

Rjómalöguð kjúklingasúpa

Miðvikudagur: Rjómalögðu kjúklingasúpa

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Fimmtudagur: Ómótstæðilegur pastaréttur 

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Föstudagur: Pizza með karamelluseruðum lauk og pipruðu beikoni

Kotasælupönnukökur

Morgunverður yfir páskana: Kotasælupönnukökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kaldhefað hunangsbrauð í ofnskúffu

Kaldhefað hunangsbrauð í ofnskúffuÞar sem það styttist í helgina þá ætla ég að setja inn uppskrift sem gerir helgarmorgnana enn notalegri en áður. Mér þykir nýbakað brauð vera með því besta á morgunverðarborðinu en þar sem það getur tekið sinn tíma að baka brauð þá er ekki alltaf stemmning fyrir brauðbakstir í morgunsárið.

Kaldhefað hunangsbrauð í ofnskúffu

Mér þykir þetta brauð vera himnasending um helgar þar sem deigið er gert klárt kvöldið áður og látið hefast í ofnskúffu í ísskápnum yfir nóttina. Um morguninn er ofnskúffunni bara skellt í heitan ofninn á meðan lagt er á borð og hellt upp á kaffi. Dagurinn getur varla byrjað betur!

Kaldhefað hunangsbrauð í ofnskúffu

Kaldhefað hunangsbrauð í ofnskúffu – 16 stykki

 • 50 g ferskt ger
 • 6 dl köld mjólk
 • 3 dl haframjöl
 • 50 g smjör, brætt
 • 2 msk hunang
 • 2 tsk salt
 • 2 dl heilhveiti
 • 11-12 dl hveiti

Um kvöldið:

Myljið gerið í skál og hrærið mjólkinni saman við þar til gerið hefur leyst upp.  Hrærið haframjölinu saman við og látið blönduna standa í nokkrar mínútur. Bætið bræddu smjöri, hunangi, salti, heilhveiti og hveiti í smáum skömmtum saman við og hnoðið saman í deig. Látið hefast undir viskastykki í um 30 mínútur.  Klæðið ofnskúffu með bökunarpappír og notið hendurnar til að fletja deigið út í ofnskúffuna. Skerið deigið í 4 x 4 stykki og sigtið smá hveiti yfir. Setjið plastfilmu yfir og látið standa í ísskáp yfir nóttu.

Um morguninn:

Takið ofnskúffuna úr ísskápnum og látið hana standa við stofuhita í um 20 mínútur. Hitið ofninn í 230°. Bakið brauðið í miðjum ofni í 20-24 mínútur. Látið brauðið kólna undir viskastykki.

Kaldhefað hunangsbrauð í ofnskúffu

Allt hráefni í þessa uppskrif fæst í

HAGKAUP

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Heimsins bestu súkkulaðibitakökurUndanfarnir dagar hafa verið nokkuð viðburðaríkir því við fengum skiptinema frá Frakklandi til okkar síðasta föstudag sem mun dvelja hjá okkur í viku. Í haust munu hlutskiptin síðan snúast við þegar Malín fer Frakklands sem skiptinemi í viku. Þetta ævintýri er á vegum Versló og er bæði stórsniðugt og skemmtilegt. Við vorum sérlega heppin með skiptinema, fengum yndislega stelpu til okkar sem er jákvæð og þakklát fyrir allt sem er gert fyrir hana og segist vera farin að kvíða því að kveðja og halda heim. Hún fer vonandi með góða upplifun héðan á föstudaginn og Malín hefur eflaust eignast vinkonu fyrir lífstíð.

Heimsins bestu súkkulaðibitakökurHeimsins bestu súkkulaðibitakökur

En úr einu í annað, ég les annað slagið amerískt blogg sem heitir Love Taza. Bloggið er ekki matarblogg en af og til læðast þangað inn mataruppskriftir og þegar þar birtist uppskrift sem hét „The world´s best chocolate chip cookie“ þá gat ég ómöglega staðist að prófa þær. Skiljanlega! Kökurnar eru æðislegar og ekki skemmir fyrir hvað það er einfalt að gera þær. Þessar mun ég baka aftur og aftur…

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur (uppskrift frá Love Taza)

 • 1 bolli smjör
 • 1 bolli sykur
 • 1 bolli púðursykur
 • 2 egg
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 1 tsk. matarsódi
 • 2 tsk lyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 3¼  bollar hveiti
 • 1 bolli (eða meira) súkkulaðibitar

Hrærið smjörið mjúkt og kremkennt. Hrærið sykri og púðursykri saman við. Hrærið eggjum og vanilludropum saman við. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim smátt og smátt saman við smjör/sykur blönduna. Hrærið súkkulaðibitum að lokum í deigið.

Skiptið deiginu í um 30-35 bita og raðið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu (það er algjör óþarfi við að dunda sér við að rúlla kúlur úr deiginu). Bakið við 175° í 8-10 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Sebrakaka

SebrakakaÞað er orðið langt síðan ég gaf uppskrift af köku sem er hálf furðulegt því ég eeeeeeelska kökur. Að bjóða upp á nýbakað með kvöldkaffinu þykir mér með því notalegasta sem ég veit og að eiga heimabakaða köku á eldhúsborðinu um helgar er alltaf jafn gott.
Sebrakaka

Um daginn bakaði ég köku sem okkur þótti öllum góð. Nú man ég ómöglega hvaðan uppskriftin kom en finn kannski út úr því þegar fram líður og skal þá setja það inn. Þessi fer mjög vel með helgarkaffinu og mun eflaust ekki staldra lengi við.

Sebrakaka

Sebrakaka

 • 4 egg
 • 2  ½ dl sykur
 • 2 ½ dl mjólk
 • 250 g smjör, brætt
 • 1 msk vanillusykur
 • 1 msk lyftiduft
 • smá salt
 • 5 dl hveiti

Fyrir dökka deigið:

 • 3 msk kakó

Fyrir ljósa deigið:

 • 3 msk hveiti

Hitið ofninn í 180° og smyrjið 24 cm hringlaga kökuform.

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er ljós og létt. Bætið mjólk, smjöri, vanillusykri, lyftidufti, salti og hveiti saman við og hrærið þar til blandan er slétt og kekkjalaus. Setjið 5-6 dl af deiginu í aðra skál og hrærið kakói saman við. Hrærið 3 msk af hveiti saman við ljósa deigið.

Setjið um  ½ dl af ljósa deiginu í miðjuna á bökunarforminu. Setjið síðan um  ½ dl af dökka deiginu í miðjuna á ljósa deiginu í forminu. Við þetta rennur ljósa deigið út, nær köntunum. Haldið áfram að setja dökka og ljósa deigið til skiptis á þennan máta í formið og reynið að enda á ljósa deiginu.

sebrakaka sebrakaka sebrakaka

Bakið kökuna neðarlega í ofninum í 45-55 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP