Pekanhjúpuð ostakúla

Pekanhjúpuð ostakúla

Strákarnir fermast um miðjan mars og við erum aðeins byrjuð að velta fyrir okkur veitingunum í veislunni. Þeir vilja hafa kökur og brauðtertur og þannig fær það að vera. Við erum þó svo mikið fyrir osta að mér datt í hug að gera pekanhjúpaða ostakúlu sem ég bauð upp á um áramótin og hreinlega lifði á daginn eftir. Hún var svo brjálæðislega góð! Og þegar ég fékk þá frábæru hugmynd að hafa hana í fermingunni þá áttaði ég mig á því að ég á enn eftir að setja uppskriftina hingað inn. Svo hér kemur hún, ég lofa að þið eigið eftir að vera ánægð með hana!

Pekanhjúpuð ostakúla

Pekanhjúpuð ostakúla

 • 500 g philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
 • 250 g maukaður ananas í dós (crushed)
 • 1/2 bolli græn paprika, hökkuð fínt
 • 2 msk vorlaukur, hakkaður
 • 1/3 bolli pekanhnetur, hakkaðar
 • 1 tsk Lawry´s seasoned salt
 • 3/4 bolli pekanhnetur, hakkaðar

Blandið saman mjúkum rjómaosti, maukuðum og afrunnum ananas, papriku, vorlauki, 1/3 bolla af hökkuðum pekanhnetum og salti. Notið sleif og mótið ostablönduna í skálinni. Setjið filmu á borð og dreifið 3/4 bolla af hökkuðum pekanhnetum yfir. Setjið ostakúluna yfir og veltið upp úr hnetunum þannig þær hjúpi kúluna. Pakkið pekanhjúpaðri kúlunni inn í plastfilmuna og geymið í ísskáp þar til hún er borin fram. Berið fram með kexi.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Pulsu- og makkarónuskúffa

Pulsu- og makkarónuskúffa

Haustið 2012 birti ég uppskrift af makkarónuskúffu sem var í miklu uppáhaldi hjá Malínu þegar hún var yngri. Rétturinn er einfaldur og góður, meira að segja svo góður að ég veit fyrir víst að það hefur verið boðið upp á hann í fermingarveislu! Ég lýg því ekki…

Pulsu- og makkarónuskúffa

Um daginn prófaði ég nýja uppskrift af einfaldri makkarónuskúffu, í þetta sinn með pulsum í. Þessi skúffa vakti ekki síður lukku en sú gamla og sérlega gott þótti okkur að hafa hot chili tómatsósu með henni (þessa í plastflöskunni, ekki í glerinu). Það sama á við með þessa makkarónuskúffu og þá gömlu, að hún er ekki síðri daginn eftir. Eins er hægt að leika sér með uppskriftina, t.d. að krydda með paprikukryddi eða chili explosion. Þetta er frábær hversdagsréttur sem tekur ekki nokkra stund að reiða fram og þar sem uppskriftin er drjúg þá eru góðar líkur á að það verði til afgangur daginn eftir sem hægt er að taka í nesti eða hita sér upp kvöldið eftir.

Pulsu- og makkarónuskúffa

 • 300 g makkarónur (ósoðnar)
 • 10 pulsur
 • 4 dl mjólk
 • 4 egg
 • 1/2 tsk múskat
 • 1/2 tsk pipar
 • 1 tsk salt
 • 2-3 lúkur rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Látið suðu koma upp í rúmgóðum potti, saltið vatnið og sjóðið makkarónurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá. Skerið pulsurnar í bita. Hrærið egg, mjólk og krydd saman. Blandið makkarónum, pulsum og eggjahrærunni saman og setjið í eldfast mót. Stráið rifnum osti yfir og bakið í um 30 mínútur (passið að osturinn brenni ekki undir lokin). Mér finnst gott að krydda aðeins yfir diskinn með svörtum pipar, en það er auðvitað smekksatriði.

Pulsu- og makkarónuskúffaPulsu- og makkarónuskúffaPulsu- og makkarónuskúffa

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Eftir að ég birti uppskrift að pankohúðuðum kjúklinganöggum hef ég reglulega fengið fyrirspurnir um hvar Panko fáist á Íslandi. Þá hafði ég keypt það í Hagkaup í Smáralind en þegar ég ætlaði að kaupa meira var það búið. Síðan þá hef ég svipast um eftir því í nánast hverri búðarferð sem ég fer í og það var svo loksins í gær að ég sá ég Panko aftur, núna í Hagkaup í Skeifunni. Ég má því til með að benda áhugasömum á að það fæst þar (alla vega þessa stundina, vonandi er það núna komið til að vera). En að máli málanna, vikumatseðlinum!

Vikumatseðill

Fiskur með eggjasósu og beikoni

Mánudagur: Fiskur með beikoni og eggjasósu

Asískar kjötbollur

Þriðjudagur: Asískar kjötbollur

Quiche Lorraine

Miðvikudagur: Quiche Lorraine

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Fimmtudagur: Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Tacopizzubaka

Föstudagur: Tacopizzubaka

Sænskar pönnukökur

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Gló-brauðið sívinsæla

Gló-brauðið sívinsæla

Ég ætla að koma með enn eina morgunmats-/nestishugmyndina en þetta er þó örugglega sú síðasta í bili. Mér þykir þetta brauð bara svo æðislega gott og nánast ómissandi með grænmetisréttinum. Það er líka frábært sem morgunmatur, bæði óristað og ristað. Þegar brauðið er nýkomið úr ofninum læt ég það kólna, sker það síðan í sneiðar og frysti. Það er nefnilega svo gott að geta gripið brauðsneiðar með í vinnuna á morgnana, til að eiga með hádegismatnum eða sem millimál.

Gló-brauðið sívinsæla

Það vildi mér til happs að ég neyddist til að fara yfir hluta af uppskriftasafninu mínu í jólafríinu. Ástæðan var sú að ég álpaðist til að kaupa mér hillu undir uppskriftabækurnar en áður voru þær að hluta til geymdar í lokuðum skáp sem var stútfullur af óskipulögðum blöðum og bókum, allt í einum hrærigraut. Það var ótrúlegt hvað leyndist mikið í skápnum og meðal annars fann ég úrklippu úr dagblaði sem hafði að geyma þessa dásamlegu brauðuppskrift frá veitingastaðnum Gló. Þessi hillukaup urðu því til þess að ég bæði fann helling af spennandi uppskriftum til að prófa (eins og þessa brauðuppskrift) og kom loksins skipulagi á uppskriftabækurnar, blöðin og úrklippurnar. Nú er bara að sjá hvað ég næ að halda því lengi…

Gló-brauðið sívinsælaGló-brauðið sívinsælaGló-brauðið sívinsælaGló-brauðið sívinsæla

Gló-brauðið sívinsæla

 • 2½ dl gróft spelt
 • 2½ dl fínt spelt
 • 1 dl sesamfræ
 • 1 dl sólblómafræ
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1 dl saxaðar hnetur
 • 1 msk vínsteinslyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 2-3 msk hunang
 • 2-2½ dl sjóðandi vatn
 • 1 msk sítrónusafi

Hitið ofninn í 180°. Blandið þurrefnunum saman í skál + hunang, hellið vatni o gsítrónusafa út í og hrærið þessu saman. Skiptið í tvennt, setjið í tvö meðalstór smurð form eða eitt í stærra lagi. Bakið við 180°í um 30 mín, takið brauðið úr forminu og haldið áfram að baka í 10 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Grænmetisréttur með kínóa og sætum kartöflum

Grænmetisréttur með kínoa og sætum kartöflum

Þar sem ég er enn í hálfgerðri vímu eftir veisluhöld desembermánuðar ákvað ég um daginn að elda mér pott af grænmetisrétti til að eiga í nesti og að hafa með í vinnuna. Ég furða mig á því hvað ég elda súpur og grænmetisrétti sjaldan til að eiga í nesti. Það er jú svo gott að vera með nesti og þurfa ekki að fara út í hádeginu að kaupa eitthvað sem manni langar ekkert sérstaklega í.

Grænmetisréttur með kínoa og sætum kartöflum

Þessi réttur er í senn hollur og góður. Hann er líka léttur í maga og því frábær hádegisverður. Ég bakaði gróft speltbrauð í leiðinni sem ég skar í sneiðar og frysti. Grænmetisrétturinn fór í 6 nestisbox sem fóru öll í frysti. Á morgnana kippi ég bara einu boxi og brauðsneið með mér og ég slepp við að fara út í hádeginu í matarleiðangur. Ljómandi gott!

Grænmetisréttur með kínoa og sætum kartöflum

Grænmetisréttur með kínóa og sætum kartöflum (5-6 skammtar)

 • 3 litlar sætar kartöflur
 • 1 rauðlaukur
 • 4 hvítlauksrif
 • 2 tsk mexíkóskt chillíkrydd
 • 1/2 tsk paprikukrydd
 • 1/2 tsk cummin
 • 1/2 tsk maldon salt
 • 3 1/2 bolli vatn
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 dós (400 g) svartar baunir (skolaðar)
 • 1 dós (400 g) hakkaðir tómatar í dós (ég notaði Hunt´s diced tomatos for chili)
 • 1/2 bolli kínóa
 • safi úr lime

Afhýðið og skerið sætu kartöflurnar í litla bita og hakkið rauðlaukinn. Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti og steikið kartöflur og rauðlauk við meðalháan hita í um 5 mínútur. Bætið öllum öðrum hráefnum, fyrir utan limesafa, í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 25 mínútur. Hrærið annað slagið í pottinum á meðan. Setjið í skálar og kreistið limesafa yfir. Berið fram með góðu brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Við Malín erum bara tvær heima í kvöld og höfum ákveðið að eyða kvöldinu í sjónvarpssófanum með take-away, nammi og Jane the virgin á netflixinu. Á meðan Malín sækir matinn nýti ég tímann og set vikumatseðilinn hingað inn. Ég fór fyrr í dag og verslaði inn fyrir vikuna. Mér þykir alltaf jafn góð tilfinning að hefja vinnuvikuna með fullan ísskáp og þurfa ekki að huga að því hvað eigi að vera í matinn. Lúxus í hversdagsleikanum!

Vikumatseðill

Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi

Mánudagur: Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi

Spaghetti bolognese

Þriðjudagur: Spaghetti bolognese

Rjómalöguð kjúklingasúpa

Miðvikudagur: Rjómalöguð kjúklingasúpa

Einfaldur kvöldverður og dásamlegur eftirréttur

Fimmtudagur: Þunnbrauðsvefja með pulsum og kartöflumús

Mexíókskt kújklingalasagna

Föstudagur: Mexíkóskt kjúklingalasagna

Súkkulaði- og bananakaka

Með helgarkaffinu: Súkkulaði- og bananakaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kaldur hafragrautur – frábær morgunmatur!

Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!

Ég hef komist að því að ég er rútínumanneskja fram í fingurgóma þegar kemur að morgunmat og það finnst varla flippuð taug í mér í þeim efnum. Undanfarna mánuði hef ég byrjað dagana á grænum safa og heimagerðu fræhrökkbrauði með avokadó. Sami morgunmatur alla virka daga. Um helgar hef ég hins vegar gert mér dagamun með eggjahræru og hrökkbrauði. Það geri ég þó allar helgar. Þið sjáið að það er lítið flipp í þessu. Mér þykir grænn safi og hrökkbrauð bara vera svo æðislegur morgunverður og góð byrjun á deginum og um helgar er svo notalegt að setjast niður með blaðið og eggjahræruhrökkbrauð.

Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!

Núna ákvað ég hins vegar að breyta til (kannski því það var að koma nýtt ár, hver veit hvaðan þessi brjálæðislega flippaða hugdetta kom). Ég ákvað að skipta græna safanum út fyrir kalda hafragrautinn frá Sollu, þó í útfærslu Köru vinkonu minnar sem er snillingur í öllu og þessi hafragrautsútfærsla hennar en algjör snilld. Ég gerði grautinn oft hér áður fyrr því strákarnir mínir eru svo ánægðir með hann. Þeir taka hann með sér í nesti í skólann og fá sér hann fyrir æfingar. Ég vil því gjarnan eiga hann í ísskápnum. Það er súper fljótlegt og einfalt að gera grautinn og hann geymist í 5 daga í ísskáp. Það er því upplagt að útbúa hann á sunnudagskvöldum og eiga í morgunmat/nesti/millimál fram í vikuna.

Hafragrautur (uppskriftin gefur um 5 skammta)

 • 2 dl tröllahafrar
 • 1 epli, kjarnhreinsað og skorið í bita
 • ½ dl graskersfræ
 • 1 tsk kanil
 • ½ dl hakkaðar möndlur
 • 2 ½ dl vatn
 • smá salt

Blandið öllu saman í skál, setjið lok yfir og látið standa í ísskáp yfir nótt. Geymist í 5 daga í loftþéttu íláti inni í ísskáp.

Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Er ekki upplagt að setja inn fyrsta vikumatseðil ársins og koma sér aftur í rútínu eftir jólafríið? Flestir hafa eflaust gert það í vikunni sem leið en ekki ég. Hér er allt jólaskrautið enn uppi og það er bara vegna þess að við tímum ekki að taka það niður. Ég sem vil alltaf helst henda öllu út fyrir áramót hef notið þess að vera með gervitré í ár og því ekkert barr og háfldautt tré til að pirra sig á. Það hefur verið svo notalegt að hafa jólatréið í stofunni og ljósin í gluggunum að ég hef frestað því alla vikuna að taka þetta niður. Ég hef þó gefið það út hér heima, við litlar vinsældir, að í dag verði öllu pakkað. Þetta gengur ekki lengur!

Vikumatseðill

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Mánudagur: Fiskréttur með blaðlauki og sveppum

Ofnbakaðar kjötbollur

Þriðjudagur: Ofnbakaðar kjötbollur

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Miðvikudagur: Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Fimmtudagur: Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Mexíkósk kjúklingabaka

Föstudagur: Mexíkósk kjúklingabaka

Syndsamlega góðar vöfflur

Með helgarkaffinu: Vöfflur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Tíu góðar tillögur að eftirréttum fyrir áramótin

Vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2013

Það eru eflaust margir að velta áramótamatseðlinum fyrir sér þessa dagana. Sjálf hef ég ákveðið að hafa humar í forrétt og nautalund í aðalrétt en er enn að velta eftirréttinum fyrir mér. Fyrir þá sem eru í sömu hugleiðingum koma hér 10 stórgóðar tillögur:

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Brownies með saltri karamellusósu

Brownies með saltri karamellusósu

Tobleronemús

Tobleronemús

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

Nutella semifreddo

Nutella semifreddo

Litlar og lekkerar marenskökur

marange

Pannacotta með hindberjasýrópi

Pannacotta með hindberjasýrópi

Brownikaka með Daim og jarðaberjafrauði

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Marensrúlla með ástaraldin

Marensrúlla með ástaraldin

Ísbaka með bourbon karamellu

Ísbaka með bourbon karamellu

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Flórentínur

FlórentínurÞessi jól munu eflaust fara í sögubækur fjölskyldunnar sem þau notalegustu allra tíma. Við höfum ekki hreyft okkur! Jólaboðinu sem mamma er vön að vera með á jóladag var frestað sökum veikinda sem varð til þess að við fórum aldrei á fætur í gær. Ég las í gegnum þrjár matreiðslubækur, velti áramótamatseðlinum fyrir mér, horfði á sjónvarpið og borðaði sætindi allan daginn. Hversu notalegt! Ég ætla að halda áfram á sömu nótum í dag. Það þarf að gera pláss í ísskápnum fyrir áramótamatinn og eina leiðin til að gera það er að borða það sem í honum er.

FlórentínurFlórentínur

Ég prófaði tvær nýjar smákökuuppskriftir fyrir þessi jól, flórentínur og súkklaðibitakökur, og báðar reyndust æðislegar. Malín og Gunnar hafa staðið á beit í Flórentínunum og súkkulaðibitakökurnar endaði ég á að fela í frystinum því þær hurfu allt of hratt. Báðar uppskriftirnar fann ég á blogginu Eldað í vesturbænum, æðislegt blogg sem því miður hefur legið í dvala undanfarin ár. Ég held enn í vonina að það lifni aftur við. Hér kemur uppskriftin af Flórentínunum, tekin beint af Eldað í vesturbænum.

Flórentínur

Flórentínur

(Uppskrift frá The Gourmet Cookie Book)

 • 125 ml rjómi
 • 120 g sykur
 • 45 g smjör
 • 150 g möndlur, fínsaxaðar
 • Börkur af hálfri appelsínu, rifinn eða fínsaxaður
 • 50 g hveiti

Aðferð:

Setjið rjóma, sykur og smjör saman í pott og náið upp suðu, passið að hræra reglulega því annars brennur sykurinn við botninn eða blandan sýður upp úr pottinum. Sjóðið þangað til að blandan verður þykk og karamellubrún á litinn. Slökkvið undir pottinum og hrærið möndlum, appelsínuberki og hveiti saman við.

Takið fram ofnplötu og bökunarpappír og setjið eina matskeið í einu af deiginu á plötuna með 6 cm millibili. Fletjið dropana með sleikju (ágætt að bleyta hana aðeins fyrst svo hún límist ekki við dropana).

Bakið kökurnar við 180°C í 8 – 10 mínútur. Leyfið þeim að kólna í ca. 5 mínútur áður en þær eru færðar á grind. Leyfið þeim að kólna alveg og smyrjið þær síðan með bráðnu súkkulaði.

Geymið í ísskáp.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP