Vikumatseðill

Ég hef ekki náð að sinna blogginu eins og ég hefði viljað þessa vikuna. Ástæðan er einfaldlega sú að það hefur allt verið á haus hjá mér. Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni, ég er búin að standa í framkvæmdum hér heima og mitt í öllu var ég með tvö matarboð og fór í eitt afmæli. Helgin hefur verið nýtt í að leggja lokahönd á framkvæmdirnar, koma öllu aftur á sinn stað og þrífa. Í dag verða svo gerð stórinnkaup, ekki degi of seint því ísskápurinn er hálf tómur. Það verður dásamlegt að sigla inn í nýja viku með hreint heimili og ísskápinn fullan af mat. Hversdagsleikinn getur verið svo ljúfur…

Vikumatseðill

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Mánudagur: Steiktur fiskur í pulsubrauði

Nautahakks og makkarónupanna

Þriðjudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Ferskt tortellini í pestósósu

Miðvikudagur: Tortellini í pestósósu

Kjúklingalaksa

Fimmtudagur: Laksa með kjúklingi

Grísk pizza

Föstudagur: Grísk pizza

Súkkulaði- og bananakaka

Með helgarkaffinu: Súkkulaði- og bananakaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Tacos með rauðum linsubaunum

Tacos með rauðum linsubaunum

Ég er að reyna að hafa að minnsta kosti einn kjötlausan dag í viku. Það ætti ekki að vera svo erfitt en virðist þó ekki gerast sjálkrafa hjá mér. Ég á það til að mikla þetta verkefni fyrir mér þó ég viti vel að það er til svo mikið af góðum kjötlausum réttum og þeir þurfa ekki að vera flóknir. Það er til dæmis snjallt að vera með súpur eins og blómkálssúpu, sveppasúpu, aspassúpu eða tómatsúpu eitt kvöld í viku og þar með er málið leyst. Eða að gera grænmetispizzu á föstudagskvöldinu sem er poppuð upp með hnetum, góðum ostum og hvítlauksolíu (ég bauð upp á þannig í matarboði sem ég var með síðasta föstudagskvöld og sló í gegn). Síðan hef ég nokkrum sinnum gert tacos með baunum í staðin fyrir nautahakk og það er alls ekki síðra, og jafnvel betra, en með nautahakki og mun ódýrara.

Tacos með rauðum linsubaunum

Þetta er svo einfalt að það hálfa væri nóg. Ég kaupi rauðar linsubaunir (ég nota frá Sollu, en hægt er að nota hvaða tegund sem er) því þær passa stórvel í tacos. Það þarf ekki að leggja þær í bleyti, þær hafa stuttan suðutíma og kosta lítið. Þegar þær hafa soðið í 10 mínútur verða þær mjúkar og klessast aðeins saman. Undir lokin á suðutímanum bæti ég tacokryddi saman við og útkoman er æðisleg.

Tacos með rauðum linsubaunum

Það eina sem ég geri er að skola baunirnar og setja þær í pott í hlutföllunum 1 dl. rauðar linsubaunir á móti 2-3 dl af léttsöltuðu vatni. Þegar mest allt vatnið hefur soðið burt er tacobréfi hrært saman við og látið sjóða með í lokin. Ég ber baunirnar fram í stökkum tacoskeljum með salsa, avokadó (átti guacamole sem ég notaði í staðin fyrir avokadó), tómötum, gúrku, káli, rauðlauk, sýrðum rjóma, ostasósu og nachos. Það þarf ekki svona mikið meðlæti, notið bara það sem þið eigið eða hafið löngun í!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Helgin hefur verið lituð af sorg. Á föstudagskvöldinu buðum við mömmu, bróður mínum, systur minni (sem er á landinu aldrei þessu vant) og börnunum hennar í mat. Við áttum svo yndislegt kvöld, borðuðum yfir okkur og nutum þess að vera öll saman. Það gerist sjaldan því systir mín býr í Kaupmannahöfn. Þegar þau fóru lagðist ég í sófann með tölvuna og komst að því sem hafði gerst í París. Svo hræðilega sorglegt og óskiljanlegt. Hvernig getur svona mannvonska verið til?

Ég fór í göngu um Elliðarárdalinn í gær og það var svo kyrrsælt þar. Ég gat ekki annað en hugsað til þess hvað við erum lánsöm að búa hér, á landi þar sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af árásum og hryðjuverkum. Að við getum gengið um fallega landið okkar áhyggjulaus. Getum farið á fótboltaleiki, tónleika og veitingahús áhyggjulaus. Parísarbúar voru líka öruggir og áhyggjulausir, þar til á föstudagskvöldinu. Það hræðir mig hvað lífið getur breyst snögglega.

Vikumatseðill

Fiskgratín með sveppum

Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum

Gúllassúpa með nautahakki

Þriðjudagur: Gúllassúpa með nautahakki

Skinku- og spergilkálsbaka

Miðvikudagur: Skinku- og spergilkálsbaka

Kjúklingakúskús með sweet chili

Fimmtudagur: Kjúklingakúskús með sweet chili

Súpergott tacogratín

Föstudagur: Súpergott tacogratín

Daimlengjur

Með helgarkaffinu: Daimlengjur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðarMér þykja nýbakaðir sænskir kanilsnúðar ómótstæðilega góðir. Því miður gef ég mér sjaldan tíma til að baka þá en þegar ég geri það passa ég mig á að baka stóra uppskrift og fylla frystinn í leiðinni. Það er nefnilega upplagt að frysta kanilsnúða og best þykir mér að frysta þá á meðan þeir eru enn volgir. Síðan þegar gesti ber að garði, eða löngunin kemur yfir mann, þá er bara að kippa snúðum út, afþýða í 2-3 mínútur (eftir fjölda snúða) í örbylgjuofninum og snúðarnir verða eins og nýbakaðir.

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

Eftir að ég bakaði þessa snúða um daginn hef ég fengið daglegar símhringingar í vinnuna frá krökkunum þar sem þau spyrja hvort þau megi hita sér snúð. Það getur enginn staðist þá hér heima og við verðum líklegast ekki róleg fyrr en snúðarnir eru búnir. En það er líka í fínu lagi því þeir voru bakaðir til að njóta og það er óneitanlega notalegt að setjast niður á kvöldin með mjólkurglas og heitan snúð. Eða að hita súkkulaði og snúða í kaffitímanum. Svo brjálæðislega gott!

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

 • 1 pakki þurrger
 • 200 g smjör
 • 6 dl mjólk
 • 2 egg
 • 2½ dl sykur
 • 2½ tsk salt
 • 22-24 dl hveiti

Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið í um 37°. Blandið öllum hráefnum saman og vinnið saman í deig (ef þið notið hrærivél látið hana þá vinna deigið í 10 mínútur, ef þið hnoðið í höndunum þá a.m.k. 10 mínútur). Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur.

Fylling:

 • 200 g smjör við stofuhita
 • 2 dl sykur
 • 4 msk kanill

Á meðan deigið hefast er hráefnum í fyllinguna hrært saman.

Skiptið deiginu í tvennt og fletjið hvorn hluta út í aflanga köku (þannig að deigið verði í laginu eins og skúffukaka). Smyrjið fyllingunni yfir og brjótið deigið saman eftir langhliðinni. Skerið í 4-5 cm strimla og skerið síðan upp í hvern strimil þannig að hann líti út eins og buxur. Snúið „buxnaskálmunum“ og vefjið síðan í snúð þannig að endarnir fari undir snúðinn (það má líka einfaldlega rúlla deiginu upp og skera í sneiðar). Setjið á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Látið nú snúðana hefast í köldum bakaraofni með pott með sjóðandi vatni undir, í 60-90 mínútur. Penslið snúðana með eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 225° í 8-10 mínútur.

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðarExtra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

 

Parmesanbuff í rjómasósu

Parmesanbuff í rjómasósu

Mér þykir gaman að brjóta upp hversdagsleikan með góðum mat og jafnvel vínglasi með í miðri viku, en heimilismatinn má þó ekki vanmeta. Eins og þessi parmesanbuff sem eru frábær hversdagsmatur. Hversdagsmatur sem gæti skammlaust verið helgarmatur og á borðum í matarboðum. Hversdagsmatur sem getur ekki annað en vakið lukku. Parmesan osturinn gefur buffunum gott bragð sem nýtur sín einnig vel í sósunni. Krakkarnir fengu sér öll aftur á diskinn og óhætt að segja að máltiðin hafi vakið lukku. Stormandi lukku!

Parmesanbuff í rjómasósu

Parmesanbuff í rjómasósu

 • 700 g nautahakk
 • 2 egg
 • 100 g fínrifinn parmesan
 • um 2 dl vatn
 • 2 tsk salt
 • svartur og hvítur pipar

Blandið öllum hráefnum saman (ég skelli öllu í hrærivélina og læt hana taka nokkra snúninga) og mótið 9 buff. Steikið í 4-5 mínútur á hvorri hlið í vel af smjöri (eða smjörlíki). Takið buffin af pönnunni og gerið sósuna.

Sósa:

 • 2 dl vatn
 • 1-2 msk kálfakraftur (kalv fond)
 • 2 dl rjómi
 • 2 dl mjólk
 • smá skvetta af sojasósu
 • smá rifsberjahlaup
 • maizena (til að þykkja)

Hellið vatninu á pönnuna sem buffin voru steikt í (ekki hreinsa pönnuna áður) og bætið kálfakraftinum saman við. Ef þurfa þykir má síðan hella soðinu í gegnum sigti og setja það svo aftur á pönnuna. Hrærið rjóma og mjólk saman við og leyfið að sjóða í nokkrar mínútur. Smakkið til með sojasósu og rifsberjahlaupi. Þykkið sósuna með maizena og látið parmesanbuffin að lokum í sósuna og sjóðið saman við vægan hita í nokkrar mínútur.

Parmesanbuff í rjómasósuParmesanbuff í rjómasósuParmesanbuff í rjómasósu

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Í dag er svolítið merkilegur dagur í mínum bókum því 1. nóvember fyrir nákvæmlega 10 árum hætti ég að drekka kók-drykki. Ég elskaði kók og pepsí og í raun alla svarta gosdrykki, drakk allt of mikið af þeim og það reyndist mér þrautinni þyngri að hætta að drekka þá. Það var satt að segja alveg hræðilega erfitt. Ég hef ekki tekið einn einasta kóksopa á þessum 10 árum, enda alveg viss um að ég fell við þann fyrsta. Ef ég gæti nú bara kvatt fleiri ósiði, eins og þá óstjórnlegu sælgætislöngun sem virðist ekki ætla að eldast af mér (nammiskálin á myndinni er síðan í gærkvöldi, sem ég naut yfir tveimur nýjum tímaritum sem biðu mín). Ég ætla þó ekki að svekkja mig á því, heldur vera ánægð með að hafa þó náð þessum áfanga. Síðan hef ég alið upp þrjú börn sem drekka ekki neina gosdrykki (Malín er á 18. ári og hefur aldrei drukkið gos). Það verður líka að teljast nokkuð gott!

Og að því sögðu, og ekki í neinu samhengi við það sem sagt var, kemur hér hugmynd að vikumatseðli. Ég vona að hann nýtist ykkur ♥

Vikumatseðill

Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi

Mánudagur: Pönnusteikur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Þriðjudagur: Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Gúllassúpa með nautahakki

Miðvikudagur: Gúllassúpa með nautahakki

Pylsugratín með kartöflumús

Fimmtudagur: Pylsugratín með kartöflumús

Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Sítrónukaka með kókos

Með helgarkaffinu: Sítrónukaka með kókos

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Í gærkvöldi kom ég í seint heim og þá hentaði ósköp vel að eiga hráefni í einfaldasta og fljótgerðasta pastarétt sem ég veit um. Kvöldmaturinn var kominn á borðið á innan við 15 mínútum eftir að ég kom heim og var svo dásamlega góður.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Ég nota ferskt tortellini í þennan rétt, það þarf að sjóða í 1 mínútu og er mjög gott. Salvíusmjörið tekur nokkrar mínútur að útbúa og þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með hvítlauksbrauði ásamt vel af parmesan og smá rauðu í glasinu. Dásemdar veislumatur!

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri (uppskrift fyrir 2)

 • 50 g smjör
 • 10 fersk salvíublöð
 • 1½  msk hunang
 • 2 msk balsamik edik
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn
 • parmesan
 • Ferkst tortellini, gjarnan með ostafyllingu eða skinku- og ostafyllingu

Bræðið smjörið í potti (eða á lítilli pönnu) og bætið salvíublöðunum í. Látið malla við miðlungsháan hita þar til smjörið hefur brúnast. Bætið hunangi og balsamik ediki saman við og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Blandið sósunni saman við nýsoðið tortellini og stráið ríkulega af rifnum parmesan yfir.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér hefur smjörið verið brætt og salvíu bætt á pönnuna

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér er smjörið tekið að brúnast

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Hér hefur hunangi og balsamik edik verið bætt saman við. Tilbúið!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Boeuf bourguignon

Boeuf bourguignon

Ég furða mig stundum á því hvað ég get látið mig dreyma um hluti í langan tíma án þess að fjárfesta í þeim. Ég veit til dæmis ekki hvað mig hefur lengi langað í góðan steypujárnspott og hversu oft ég hef skoðað þá, án þess að kaupa mér slíkan. Ég á einn fínan úr Ikea en hann er full lítill og mig hefur langað í stærri pott. Pott sem ég get eldað kvöldmat fyrir fjölskylduna í.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Að því sögðu get ég nú glöð sagt frá að það flutti nýr steypujárnspottur inn í eldhúsið mitt á dögunum. Hann er æðislegur! Frábært að elda í honum og fallegur á borði. Fyrir valinu varð pottur frá Pyrex, en þeir voru þróaðir í samstarfi við NASA og þola frá -40°upp í 800°hita! Pottarnir eru að fá svo frábæra dóma og eftir að ég rakst á þá í Hagkaup fannst mér spennandi að slá til. Þeir eru frábærir til að hægelda mat en einnig til að baka ofnbrauð, eins og t.d. New York times-brauðið góða.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Fyrsti rétturinn sem ég eldaði í pottinum langþráða var boeuf bourguignon, sem fékk að hægeldast yfir daginn og almáttugur minn eini hvað rétturinn var góður. Ég bar réttinn bara fram með heimagerðri kartöflumús enda þurfti ekki meira meðlæti. Kjötið bráðnaði í munni og sósan var dásamlega bragðgóð.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Boeuf bourguignon – uppskrift fyrir 6

 • 1 kg nautahnakki
 • 200 g beikon
 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 4 dl rauðvín
 • 2 msk tómatpúrra
 • 2 nautateningar
 • vatn (ca 6 dl, eða eins og þarf til að rétt fljóta yfir kjötið)
 • 10 sveppir
 • 5 perlulaukar
 • ólífuolía og smjör
 • salt og pipar
 • 2 lárviðarlauf
 • 1/2 tsk timjan
 • steinselja
Skerið kjötið í passlega stóra grýtubita og skerið beikonið í strimla. Hakkið laukinn. Bræðið smjör og olíu á pönnu við háan hita og steikið nautakjötið og laukinn, gjarnan í nokkrum skömmtum svo að kjötið brúnist vel. Saltið og piprið kjötið vel. Færið yfir í steypujárnspott og bætið vatni, rauðvíni, nautakraftsteningum, tómatpúrru og pressuðum hvítlauk í pottinn. Látið pottinn yfir miðlungsháan hita (sirka stilling 3-4 af 9). Steikið núna beikonið á pönnunni sem kjötið var á og bætið því svo í pottinn, sem ætti núna að vera byrjaður að sjóða vægt. Bætið timjan og lárviðarlaufi í pottinn og leyfið nú að sjóða í amk 1-2 klst en því lengur því betra (ég lét réttinn sjóða við mjög vægan hita allan daginn, örugglega hátt í 6 klst). Rétt áður en rétturinn er borinn fram eru sveppirnir skornir í fernt ásamt perlulauknum, steikt í vel af smjöri og síðan bætt í pottinn og látið liggja þar í smá stund. Áður en rétturinn er borinn á borð er hakkaðri ferskri steinselju stráð yfir.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Það voru blandaðar tilfinningar yfir að vakna við hvíta jörð í morgun. Gleði yfir að það styttist í skíðatímabilið og jólin en minni gleði yfir að það styttist í að skafa bílinn á morgnanna og þyngri morgunumferð en hefur verið. Ég ætla þó ekki að hugsa um það núna heldur njóta dagsins, fara í góða göngu í fyrsta snjónum þennan veturinn og fá mér heitt súkkulaði með miklum rjóma (það hlýtur að tilheyra svona dögum!). Dagurinn er svo fallegur að það væri synd að nýta hann ekki í útiveru. En fyrst, vikumatseðill!

Vikumatseðill

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki

Þriðjudagur: Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki

Gulrótar, tómata og kókossúpa

Miðvikudagur: Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Fimmtudagur: Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Mexíókskt kújklingalasagna

Föstudagur: Mexíkóskt kjúklingalasagna

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Með helgarkaffinu: Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Þetta hefur verið annasöm vika og ég er svo brjálæðislega fegin að það sé loksins komið föstudagskvöld. Ég er ekki með nein plön fyrir helgina en sé fyrir mér góðan svefn, göngutúr, heitt súkkulaði (elska að fara á Súfistann eftir göngur og fá mér heitt súkkulaði með miklum rjóma) og að sjálfsögðu góðan mat. Kvöldinu í kvöld ætlum við hins vegar að eyða í sjónvarpssófanum og á meðan ég bíð eftir að The voice byrji má ég til með að gefa uppskrift af pastarétti sem við gerðum um daginn og var svo góður. Ég er veik fyrir pastaréttum og eftir að ég keypti mér æðislegan parmesan fyrr í mánuðinum hef ég nýtt hvert tækifæri til að vera með rétti sem hægt er að rífa hann yfir. Þvílík veisla segi ég bara!

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum (uppskrift fyrir 3)

 • 250 g beikon
 • 150 g sveppir
 • 2 skarlottulaukar
 • 1-2 hvítlauksrif
 • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
 • 2,5 dl rjómi
 • 4 sólþurrkaðir tómatar + 3 msk af olíunni
 • salt og pipar
 • 1-2 dl af vatninu sem pastað var soðið í
 • 2 msk fínrifinn parmesan ostur

Sjóðið pasta í vel söltu vatni, samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið beikonið í bita og steikið. Hellið fitunni af pönnunni. Hakkið laukinn, hvítlaukinn og sólþurrkuðu tómatana, skerið sveppina í fernt og bætið á pönnuna. Steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið sýrðum rjóma, rjóma og olíunni frá tómötunum á pönnuna og látið sjóða í nokkrar mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Bæti smá af vatninu sem pastað var soðið í á pönnuna og sjóðið áfram í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hellunni og hrærið parmesan í sósuna. Berið fram með pasta og ferskrifnum parmesan.

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP