Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaðiÉg elska heitt súkkulaði með rjóma og sérstaklega yfir vetrartímann. Það hlýtur að vera notalegasti drykkur sem til er! Eftir útiveru eða með vöfflukaffinu, heitt súkkulaði með rjóma er alltaf jafn dásamlega gott.

Heitt súkkulaði

Það hefur tekið mig rúmt ár að setja þessa uppskrift hingað inn og ég er ekki að grínast með það. Ég hef enga skýringu á hvers vegna það tók þennan fráleita tíma en get í fullri hreinskilni sagt að þetta er besta heita súkkulaði sem ég veit um. Ég skrifaði uppskriftina í glósubók á sínum tíma og hef passað bókina eins og gull síðan þá, eingögnu út af þessari uppskrift. Það er því löngu tímabært að birta uppskriftina hér og leyfa fleirum að njóta dásemdinnar, áður en veturinn líður undir lok.

Uppskriftin miðast við fyrir einn og ber að margfalda eftir fjölda gesta. Hún er þó drjúg og fyrir 4 dugar að gera þrefalda uppskrift.

Heitt súkkulaði (uppskrift fyrir 1)

 • 3 dl nýmjólk
 • 1 msk kakómalt (t.d. Nesquick)
 • 1 ½ msk flórsykur
 • smá salt
 • 4 bitar suðusúkkulaði (4 molar af suðusúkkulaðiplötu)

Setjið allt í pott og hitið að suðu. Hellið í bolla og setjið vel af þeyttum rjóma og súkkulaðispæni yfir.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!Ég gæti vel lifað á súpum og ber þær á borð hér í hverri viku. Bæði þykir mér gaman að elda þær sem og mér þykir eitthvað notalegt við að setjast niður með heita súpu og gott brauð þegar það er kallt úti. Þess að auki eru þær ódýr og fljótgerður matur sem upplagt er að frysta í einstaklingsskömmtum til að eiga í nesti.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Þessi tómatsúpa er sú langbesta sem ég hef smakkað. Hráefnið er oftast til í skápnum og ég get haft hana á borðinu korteri eftir að ég kem heim. Ódýr og barnvæn máltíð sem hittir í mark hjá öllum aldurshópum.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Tómatsúpa með pasta (uppskrift fyrir 3-4)

 • 2 dl ósoðið pasta
 • 1 dós Hunt´s hakkaðir tómatar með basiliku, hvítlauk og oreganó (411 g)
 • 1 ½ dl vatn
 •  ½ laukur, hakkaður
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 ½ tsk þurrkuð basilika
 • 1 tsk sykur
 • salt og pipar

Sjóðið pastað í vel söltu vatni (verið óhrædd við að nánast missa saltstaukinn í vatnið) og skolið síðan í köldu vatni.

Hakkið og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er orðinn mjúkur en ekki farin að brúnast. Bætið öllum öðrum hráefnum fyrir utan pastað saman við og látið sjóða í 10 mínútur. Smakkið til og bætið pastanu í súpuna. Berið fram með ferskrifnum parmesan og góðu brauði.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Kjötbollur með mozzarella og basilikuEftir bolludag og sprengidag í beinu framhaldi mætti kannski ætla að enginn hefði áhuga á bollum í neinu formi á næstunni en ég þori nánast að fullyrða að þessar kjötbollur fá ykkur til að skipta um skoðun. Þær eru guðdómlegar! Ég hef bæði boðið upp á þær í matarboði sem og lífgað upp á hversdagsleikann með þeim, alltaf við rífandi lukku. Með þessum verður enginn fyrir vonbrigðum!

Kjötbollur með mozzarella og basilikuKjötbollur með mozzarella og basilikuKjötbollur með mozzarella og basiliku

Kjötbollur með mozzarella og basiliku (uppskrift frá Matplatsen)

 • 600 g nautahakk eða blanda af nauta- og svínahakki
 • 1 poki með mozzarella
 • 1/2 pakkning fersk basilika
 • 4 sólþurrkaðir tómatar
 • 1 dl rjómi
 • 1 egg
 • salt og pipar
 • smör til að steikja í

Sósa:

 • steikingarsoð
 • 2 dl rjómi
 • 100 g philadelphiaostur
 • 1/2 grænmetisteningur

Blandið hakki, eggi, rjóma, hakkaðri basiliku, hökkuðum sólþurrkuðum tómötum og mozzarella skornum í litla teninga. Saltið og piprið og mótið bollur.

Steikið bollurnar við miðlungsháan hita, í nokkrar mínútur og á öllum hliðum, í vel af smjöri. Takið bollurnar af pönnunni og hrærið rjóma, philadelphia og grænmetisteningi í steikingarsoðið. Látið suðuna koma upp og leggið síðan bollurnar í sósuna. Látið sjóða við vægan hita þar til bollurnar eru fulleldaðar. Verði sósan of þykk þá er hún þynnt með vatni.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

 

Vikumatseðill

VikumatseðillEnn ein vikan að baki og tímabært að plana þá næstu. Mér líst vel á að hafa komandi viku einfalda og elda stóran skammt af chili con carne sem nýtist í tvær og jafnvel þrjár máltíðir. Þessi uppskrift er stórgóð og fer alltaf vel í mannskapinn hér heima. Kasjúhnetukjúklinginn er upplagt að hafa á föstudagskvöldi þar sem það tekur enga stund að reiða þann dásamlega rétt fram. Möndlukökunni fæ ég ekki leið á og mun hún fara stórvel með helgarkaffinu.

Eigið góða viku kæru lesendur ♥

Vikumatseðill

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Mánudagur: Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Chili con carne

Þriðjudagur: Chili con carne

Chili con carneChili con carne

Miðvikudagur: Afgangur af chili con carne, annað hvort settur í tortillur með gómsætu meðlæti eða á pizzu.

Sveppasúpa

Fimmtudagur: Sveppasúpa og brauð

Kasjúhnetukjúklingur

Föstudagur: Kasjúhnetukjúklingur

möndlukaka

Með helgarkaffinu: Möndlukaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

M&M kökulengjur

M&M kökulengjurStundum velti ég því fyrir mér hvort það sé nokkuð notalegra en nýbakaðar kökur og köld mjólk á kvöldin. Þegar amstri dagsins er lokið og ró komin yfir, að setjast þá niður með krökkunum og spjalla um daginn og veginn á meðan mumsað er á nýbökuðu góðgæti.

M&M kökulengjur

Ég nýt þess svo að eiga þessar stundir og læt mér fátt um finnast hvaða vikudagur er. Það breytir engu. Þegar kvöldmaturinn hefur verið einfaldur þá er svo lítið mál að baka einn umgang af svona kökum, það tekur enga stund.

M&M kökulengjur

Þessar M&M kökulengjur hurfu á augabragði ofan í krakkana og ég hafði fullan skilning á því. Þær eru gjörsamlega ómótstæðilegar, hvort sem er með kaffinu eða köldu mjólkurglasi. Stökkar að utan, seigar að innan og stökkir M&M bitar þess á milli… dásemdin ein!

M&M kökulengjur

M&M kökulengjur (um 30 stykki)

 • 125 g smjör við stofuhita
 • 1 ½ dl sykur
 • 1 ½ dl púðursykur
 • 1 egg
 • 1 msk vanillusykur
 • ½ tsk matarsódi
 • smá salt
 • 3 dl hveiti
 • um 1 dl M&M smartís

Hitið ofninn í 180°. Blandið saman smjöri, sykri, púðursykri, eggi, vanilusykri, matarsóda og salti. Bætið hveitinu saman við og hrærið snögglega saman í deig. Skiptið deiginu í tvennt (eða fernt fyrir minni lengjur), rúllið því út í lengjur og leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír (passið að hafa gott bil á milli því þær renna út). Þrýstið lengjunum aðeins út og dreifið M&M yfir þær. Bakið í 15-18 mínútur (styttið bökunartíman örlítið ef þið gerið fjórar lengjur). Skáskerið lengjurnar í sneiðar þegar þær koma úr ofninum (á meðan þær eru heitar) og látið síðan kólna.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epliÞegar það er svona dimmt og kuldalegt úti þykir mér notalegt að kveikja á kertum og bjóða upp á góða súpu og brauð. Slíkar máltíðir gera lífið svo ljúft. Þessi súpa er þó einstaklega ljúf því hún er í senn æðislega bragðgóð, ofboðslega einföld og sérlega fljótgerð.

Það er upplagt að gera vel af súpunni og frysta í einstaklingsskömmtum því það er svo gott að geta tekið hana með í nesti eða gripið til hennar eftir langan dag.  Dásamleg máltíð sem vert er að prófa.

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli (uppskrift frá Arla)

 • 300 g kjúklingabringur
 • 1 laukur
 • 1 epli
 • 1 msk karrý
 • 2 dósir niðursoðnir tómatar (samtals 800 g)
 • 1 dl vatn
 • 2 grænmetisteningar
 • 2 ½ dl rjómi
 • smá sykur
 • salt og pipar

Skerið kjúklinginn í litla bita, fínhakkið laukinn og rífið eplið. Steikið kjúklinginn, laukinn, eplið og karrý í smjöri þar til mjúkt. Bætið tómötum, vatni, grænmetisteningum og rjóma saman við. Látið sjóða í 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Smakkið til með smá sykri, salti og pipar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Með yndislega helgi að baki þykir mér við hæfi að setjast niður og skipuleggja næstu viku. Að fara yfir hver á að vera hvar og hvenær. Hvaða kvöld er saumaklúbbur og hver er að fara í próf. Og það sem er ekki síður mikilvægt, að ákveða hvað eigi að vera í matinn í vikunni. Það léttir mér svo lífið að plana vikuna og gera stórinnkaup um helgar. Þá þarf ég ekki að fara í búðina eftir vinnu á virkum dögum heldur get brunað beint heim. Lúxus!

Vikumatseðill

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Mánudagur: Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Parmesanbaka með spínati og kirsuberjatómötum

Þriðjudagur: Parmesanbaka með spínati og kirsuberjatómötum

Gulrótar, tómata og kókossúpa

Miðvikudagur: Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk

Asískar kjötbollur

Fimmtudagur: Asískar kjötbollur

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Föstudagur: Kjúklingur með beikoni, steinselju og  parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

 

Hakkbuff í raspi

Hakkbuff í raspi

Mér þykir janúar hafa liðið óvenju hratt og dagarnir hreinlega hlaupa frá mér. Uppskriftirnar sem ég á eftir að setja hingað inn safnast upp og það er orðið af nógu að taka. Þó að helgin sé framundan má ég til með að setja inn dásamlega uppskrift að hversdagsmat sem sló í gegn hér á heimilinu í vikunni, hakkbuff í raspi.

Hakkbuff í raspi

Þegar ég gerði buffinn setti ég öll hráefnin fyrir utan raspinn í hrærivélina og blandað þeim saman þar. Síðan bræddi ég smjörlíki á pönnu (mér þykir gott að steikja upp úr smjörlíki, það brennur ekki eins og smjörið vill gera), mótaði buff, velti upp úr raspinum og steikti í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Síðan kláraði ég að elda þau í ofninum á meðan ég gerði sósuna og kartöflumús. Einfalt og súpergott!

Hakkbuff í raspi

Uppskriftin er stór og því getur verið snjallt að frysta helminginn af buffunum til að eiga síðar.

Hakkbuff í raspi (fyrir 10 manns)

 • 500 g nautahakk
 • 500 g svínahakk
 • 2 egg
 • 1 ½ dl rjómi
 • 2 msk dijonsinnep
 • salt og pipar
 • rasp

Blandið öllum hráefnunum fyrir utan raspinn saman í skál. Mótið buff úr blöndunni, veltið þeim upp úr raspi og steikið á pönnu þar til þau fá fallega steikingarhúð. Raðið steiktu buffunum í smurt eldfast mót og látið í 180° heitan ofn þar til fullelduð.

Sósa:

 • steikingarsoðið sem er eftir á pönnunni
 • 2½ dl vatn
 • 2½ dl rjómi
 • 1½ – 2 grænmetisteningar
 • ½ msk rifsberjahlaup
 • salt og pipar
 • maizena til að þykkja sósuna og jafnvel sósulit til að dekkja hana (má sleppa)

Hellið vatninu á pönnuna og látið sjóða saman við steikingarkraftinn sem er á pönnunni eftir buffin. Hrærið hann upp svo að ekkert verði eftir á pönnunni. Sigtið yfir í pott og bætið rjóma, grænmetisteningi og rifsberjahlaupi saman við. Látið sjóða saman og smakkið til með salti og pipar, og jafnvel meiri grænmetiskrafti. Þykkið sósuna með maizena og viljið þið dekkri sósu bætið þá nokkrum dropum af sósulit  út í.

Berið fram með kartöflumús og rifsberjahlaupi.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Eins og mér þykir gaman að taka fram jólaskrautið fyrir aðventuna þá finnst mér líka alltaf jafn gott að pakka því niður aftur. Og á hverju einasta ári skipti ég jólaskrautinu út fyrir ferska túlípana. Mér þykir það hreinlega tilheyra því að pakka niður jólunum.

Ég hef undanfarin ár birt hér lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins og ætla að halda í þá hefð. Mér þykir alltaf áhugavert að sjá hvaða uppskriftir það eru sem hafa vakið mestu lukku og það gleður mig að sjá tvo fiskrétti á listanum í ár. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá sumar uppskriftir á listanum ár eftir ár. Ég bendi á að listann má vel nýta sem vikumatseðill, enda bæði fjölbreyttur og ljúffengur.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti er nú vinsælasta uppskrift ársins annað árið í röð. Uppskriftinni hefur verið deilt yfir 10.000 sinnum og skildi engan undra. Dásamlega góður réttur sem er í senn hollur, fljótgerður og einfaldur að útbúa.

Hakkbuff með fetaosti

Í öðru sæti er hakkabuff með fetaosti. Heimilismatur eins og hann gerist bestur!

Fiskur í okkar sósu

Í þriðja sæti er fiskur í okkar sósu. Þessi fiskréttur er einn af mínum uppáhalds og það gleður mig að sjá hann svona ofarlega á lista.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mexíkóskur mangókjúklingur var fjórða vinsælasta uppskrift ársins. Æðislegur réttur sem mér þykir passa sérlega vel á föstudagskvöldum.

Einföld og góð skúffukaka

Fimmta vinsælasta uppskrift ársins var í öðru sæti á listanum í fyrra. Einföld og góð skúffukaka sem svíkur engan og er ómótstæðileg með ískaldri mjólk.

Bananabrauð

Uppáhalds bananabrauðið heldur sjötta sæti listans frá því í fyrra. Ég vil ekki vita hversu oft ég hef bakað þetta brauð en við fáum ekki leið á því.

Mexíkósúpa

Í sjöunda sæti er mexíkósk kjúklingasúpa. Hér er á ferðinni uppskrift sem ég gríp oft til og hún vekur alltaf lukku. Dásamleg súpa í alla staði.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei er áttunda vinsælasta uppskriftin. Hún stendur alltaf fyrir sínu og er öruggt kort á föstudagskvöldum.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Í níunda sæti er ofnbakaður fiskur í paprikusósu. Namm!

Milljón dollara spaghetti

Tíunda vinsælasta uppskriftin var sú vinsælasta fyrir tveimur árum, milljón dollara spaghetti. Barnvænn réttur sem slær alltaf í gegn.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

 

 

 

Carnita taco

Carnita tacoGleðilegt ár kæru lesendur. Það varð óvænt smá pása hér á blogginu en nú dettur allt í rútínu aftur. Ég vona að þið hafið haft það gott yfir hátíðirnar og að nýja árið leggist vel í ykkur. Við áttum yndisleg jól og borðuðum yfir okkur oft á dag, alveg eins og það á að vera. Þess á milli var spilað, lesið, farið á skíði, í jólaboð, vakað fram eftir nóttu og sofið fram eftir degi. Dásamlegt í alla staði.Carnita taco

Ég ætla að taka saman vinsælustu uppskriftirnar á árinu sem leið en núna ætla ég að gefa uppskrift af frábærum helgarmat. Mér þykir kjörið að gera þennan rétt um helgar því kjötið þarf dágóðan eldunartíma og mér þykir alltaf dálítið notalegt að dunda mér heima um helgar á meðan kvöldmaturinn sér um sig sjálfur á eldavélinni. Carnita taco

Kryddblandan sem notuð er í marineringuna dugar margfallt þannig að það er um að gera að geyma hana í lokuðum umbúðum og nota síðan aftur og aftur. Hún er glettilega góð og það verður enginn svikinn af því að eiga hana í búrskápnum. Passið bara að skella henni ekki allri út á kjötið, það gæti orðið full mikið af því góða.

Carnita taco

Carnita taco (uppskrift úr Texmex från grunden)
 • 1 kg beinlaus svínabógur (eða annað svínakjöt, t.d. kótilettur)
 • 2 msk kryddblanda (uppskrift fyrir neðan)
 • 1 lime
 • 1 appelsína
 • 1 msk sojasósa
 • 1 tsk cumin
 • 5 hvítlauksrif
 • 1/2 – 1 líter Coca cola

Kryddblanda

 • 3 msk paprikukrydd
 • 1 tsk cayennepipar
 • 1 tsk hvítur pipar
 • 1 msk hvítlaukskrydd
 • 1 msk chilikrydd
 • 1 msk þurrkað oregano
 • 1 msk salt

Blandið öllu saman.

Skerið kjötið í litla bita og nuddið kryddblöndunni (ath. að nota bara 2 msk af henni) og cumin. Pressið lime- og appelsínusafa yfir og hellið sojasósu yfir. Bætið fínhökkuðum hvítlauk saman við og blandið öllu vel saman. Látið standa að minnsta kosti 1 klst. en gjarnan lengur (það er t.d. upplagt að gera þetta kvöldið áður til að flýta fyrir).

Steikið kjötið við háan hita og hellið afgangs marineringu yfir. Hellið Coca Cola yfir þannig að það næstum fýtur yfir kjötið og látið sjóða undir loki í amk 2 klst. Fylgist með og bætið Coca Cola á eftir þörfum. Undir lokin á suðutímanum á vökvinn að vera farinn. Tætið kjötið í sundur áður en þið berið það fram.

 Mangósalsa
 • 2 mangó, skorin í teninga (má nota frosið mangó)
 • 1/2 pakkning kóriander
 • safi úr 1-2 lime
 • biti af fínhökkuðu chili (fjarlægið fræin ef þið viljið ekki hafa salsað sterkt)
 • 1/2 tsk salt
Blandið öllum hráefnunum saman og geymið í ísskáp þar til borið fram.
Carnita tacoCarnita tacoCarnita taco
Berið fram í tortillakökum með guacamole og sýrðum rjóma, eða því sem hugurinn girnist.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP