
Ég lofaði í gær að setja inn uppskrift að þessari dásamlegu böku sem ég bauð upp á í afmælisveislu strákanna í dag. Þetta er ein af þeim uppskriftum sem mér þykir mikill fjársjóður að eiga. Ekki bara er einfalt að útbúa bökuna og hægt að gera hana með góðum fyrirvara heldur er hún líka alveg stórkostlega góð.
Við héldum afmælisveislu strákana í dag og þeir vildu bjóða fjölskyldunni í súpu og kökur í hádeginu. Það kom mér ekki á óvart að þeir vildu hafa Mexíkóska kjúklingasúpu því hún er í miklu uppáhaldi hjá þeim. Í eftirrétt vildu þeir fá að skreyta venjulega skúffuköku og síðan bakaði ég silvíuköku, möndluköku og síðast en ekki síst þessa frosnu bismarkböku með marshmellowkremi.

Ég hef bakað þessa frosnu bismarkböku nokkrum sinnum áður og hún slær alltaf í gegn. Í fyrra vorum við með hana í eftirrétt um áramótin sem vakti mikla lukku. Bakan er sæt en jafnframt fersk og passar því vel eftir mikla máltíð. Þar að auki þykir mér frábært að vera með eftirrétt sem hægt er að útbúa með góðum fyrirvara þegar mikið stendur til í eldhúsinu, eins og svo oft vill vera um áramótin.

Ef þið eruð að leita að eftirrétti fyrir áramótin þá er þessi kaka mín tillaga. Það má gera hana strax í dag og geyma í frystinum þar til hún verður borin fram. Uppskriftin kemur úr sænskri matreiðslubók, Vinterns söta.
Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi
Botn:
- 20 súkkulaðikexkökur, t.d. Maryland
- 2 msk kakó
- 25 g brætt smjör
Bismarkkrem
- 5 dl rjómi
- 1 dós marshmalowkrem (fæst t.d. í Hagkaup, sjá mynd)
- Nokkrir dropar af piparmintudropum
- nokkrir dropar af rauðum matarlit
- 1 dl bismarkbrjóstyskur + nokkrir til skrauts
Súkkulaðisósa:
- 125 g dökkt súkkulaði
- 75 g smjör
- ½ dl sykur
- ½ dl sýróp
- ½ dl vatn
- smá salt

Setjið kex, kakó og brætt smjör í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið blöndunni í smelluform með lausum botni (það getur verið gott að klæða það fyrst með smjörpappír) og setjið í frysti.

Þeytið rjómann og blandið marshmallowkreminu varlega saman við. Passið að hræra marshmallowkreminu ekki of vel saman við rjómann, það á að vera í litlum klessum í rjómanum. Hrærið nokkrum dropum af piparmintudropum saman við (smakkið til, mér þykir passlegt að nota ca 1 tsk.). Setjið um þriðjung af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.
Myljið bismarkbrjóstsykurinn í mortéli og blandið honum saman við stærri hluta kremsins. Takið kökubotninn úr frystinum og breiðið kreminu með bismarkbrjóstsykrinum yfir hann. Hrærið nokkrum dropum af rauðum matarlit saman við kremið sem var lagt til hliðar og breiðið það yfir hvíta bismarkkremið. Notið hníf til að mynda óreglulega áferð í kremið.
Frystið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkutíma. Takið hana úr frystinum 10-15 mínútum áður en það á að bera hana fram. Skreytið með bismarkbrjóstsykri.
Setjið öll hráefnin í súkkulaðisósuna í pott. Látið suðuna koma upp við vægan hita og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur eða þar til sósan er orðin þykk og glansandi.
Berið sósuna fram heita eða kalda með kökunni.

Líkar við:
Líkar við Hleð...