Afmæliskaka

Það sem mér þykir best við helgarnar er að geta sofið út og fengið mér góðan morgunmat. Á virkum dögum gef ég mér aldrei tíma til að setjast niður yfir morgunverði heldur geri grænan safa sem ég tek með mér á hlaupum. Um helgar bæti ég upp fyrir það með að sofa lengi (fer létt með 10 tíma án þess að rumska) og sitja lengi yfir morgunverðinum. Oftast verður eggjahræra og Finn Crisp fyrir valinu en núna er ég með æði fyrir ristuðu súrdeigsbrauði með avocadó, sítrónusafa, chili explotion og maldonsalti. Svo gott!

En að máli málanna, kökunni sem ég setti inn á Instagram um síðustu helgi og hef fengið ófáar fyrirspurnir um uppskrift af. Okkur þótti þessi kaka æðisleg! Ég mæli með að sleppa ekki rommdropunum í glassúrnum, þeir gera svo mikið. Á unglingsárum mínum bakaði ég oft súkkulaðiköku með smjörkremi sem var með rommdropum í og ég man enn hvað mér hún æðislega góð. Uppskriftin er stór og við nutum hennar með kvöldkaffinu í þrjú kvöld í röð. Svo notalegt!

Afmæliskaka

  • 4 egg
  • 400 g sykur
  • 300 g smjör
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 3 dl mjólk
  • 575 g hveiti
  • 1 msk kakó
  • 5 tsk lyftiduft
  • 4 tsk vanillusykur

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og þykk (það tekur um 5 mínútur á mesta hraða á hrærivélinni).

Bræðið smjörið, takið pottinn af hitanum og hrærið hökkuðu súkkulaði saman við þar til blandan er slétt. Hrærið mjólk saman við og leggið til hliðar.

Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman. Hrærið smjörblöndunni og þurrefnablöndunni á víxl saman við eggjablönduna. Hrærið saman í slétt deig. Klæðið ofnskúffu með bökunarpappir og setjið deigið í hana. Bakið við 200° í miðjum ofni í 25 mínútur (ef þið notið skúffukökuform í staðin fyrir ofnskúffu þá þarf að bæta 10-15 mínútum við bökunartímann). Útbúið glassúrinn á meðan kakan er í ofninum því hann fer yfir heita kökuna.

Glassúr

  • 125 g smjör
  • 500 g flórsykur
  • 1 msk kakó
  • 4 msk uppáhellt kaffi
  • 1/2 tsk rommdropar
  • 1 tsk vanillusykur

Bræðið smjörið í potti. Lækkið hitann og bætið kaffi, kakói, vanillusykri, rommdropum og og flórsykri í pottinn og hrærið saman þar til glassúrinn er sléttur. Látið pottinn standa yfir lágum hita þannig að glassúrinn haldist heitur án þess að hann sjóði. Þegar kakan kemur úr ofninum er glassúrinn settur yfir heita kökuna. Skreytið að vild.

Mjúk súkkulaðikaka

 

Hvað passar betur með helgarkaffinu en mjúk og dásamleg súkkulaðikaka? Mér þykir nýbökuð súkkulaðikaka gjörsamlega ómótstæðileg. Þessa bakaði ég um síðustu helgi þegar ég var ein heima, sem var afleit hugmynd. Ég fékk mér kökuna með kaffinu yfir daginn og borðaði hana svo í kvöldmat. Ég varð því himinlifandi þegar ég kom heim úr vinnunni daginn eftir og krakkarnir voru búnir með kökuna.

 

 

Næst mun ég baka kökuna þegar krakkarnir eru heima því það er augljóst að ég hef enga sjálfsstjórn þegar kemur að þessari dásamlegu súkkulaðiköku.

Mjúk súkkulaðikaka

  • 3 egg
  • 4½ dl sykur
  • 4 ½ dl hveiti
  • 2 ½ msk kakó
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • 2 ½ dl mjólk
  • 150 g smjör, brætt

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Hrærið hveiti, kakó og vanillusykur saman við. Hrærið að lokum bræddu smjöri og mjólk saman við þar til deigið er slétt. Setjið í hringlaga form og bakið við 174° í 40-45 mínútur.

Krem

  • 100 g smjör
  • 1 ½ – 2 dl matreiðslurjómi
  • 4 msk sykur
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 2 msk kakó

Setjið öll hráefnin í pott og látið sjóða saman við vægan hita þar til kremið byrjar að þykkna. Hellið kreminu yfir heita kökuna og látið kökuna svo kólna. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma.

Nutellafylltar blondies

Ég held að ég hafi aldrei verið eins sein í jólabakstrinum og þetta árið. Ég bakaði piparlakkrístoppana í nóvember sem kláruðust samstundis og síðan hefur tíminn bara flogið. Ég sem vil alltaf eiga sörur og saffransnúða í frystinum áður en aðventan byrjar klikkaði algjörlega þetta árið.

Þó ég hafi ekki staðið mig í smákökubakstrinum hef ég þó bakað ýmislegt annað. Þessar nutellafylltu blondies bauð ég upp á hér heima eitt kvöldið og daginn eftir kláruðum við þær. Okkur þóttu þær dásamlega góðar og ekki síðri daginn eftir.

Nutellafylltar blondies (uppskrift frá Ambitious Kitchen)

  • 1 bolli smjör
  • 2 bollar púðursykur
  • 2 egg
  • 1 msk vanilludropar
  • 2 bollar hveiti
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  • ¼ tsk salt
  • 2 bollar dökkt súkkulaði, grófhakkað (ég notaði suðusúkkulaðidropana frá Síríus)
  • 1 bolli Nutella (16 msk)
  • sjávarsalt til að strá yfir

Hitið ofn í 175° og klæðið skúffukökuform (í sirka stærðinni 23 x 33 cm, má líka vera aðeins minna) með smjörpappir.

Bræðið smjör í potti yfir miðlungsháum hita. Þegar smjörið byrjar að freyða er byrjað að hræra í pottinum. Eftir nokkrar mínútur byrjar smjörið að brúnast  í botninum á pottinum, haldið þá áfram að hræra og takið af hitanum um leið og smjörið er komið með gylltan lit og farið að gefa frá sér hnetulykt. Takið smjörið strax úr pottinum og setjið í skál til að koma í veg fyrir að það haldi áfram að brúnast. Látið smjörið kólna áður en lengra er haldið.

Hrærið saman smjör og sykur þar til hefur blandast vel. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið þar til blandan er mjúk og létt. Bætið þurrefnunum varlega saman við og endið á að hræra varlega súkkulaðinu saman við deigið.

Skiptið deiginu í tvennt. Setjið helminginn í botninn á kökuforminu (deigið kann að virðast of lítið til að fylla út í formið en hafið ekki áhyggjur af því þótt það verði bara þunnt lag, það á eftir að hækka!). Setjið Nutella jafnt yfir (það getur verið gott að setja matskeiðar af Nutella með jöfnu millibili yfir deigið og dreifa svo úr því með sleif eða hníf). Endið á að setja seinni helminginn af deiginu yfir og passið að það hylji alveg Nutellafyllinguna. Bakið í 23-27 mínútur eða þar til kanntarnir á kökunni eru orðnir gylltir á lit. Það er betra að baka hana aðeins styttra en lengur, svo hún verði frekar blaut í sér en ekki þurr. Stráið sjávarsalti yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum og látið hana síðan standa í 20 mínútur áður en hún er skorin í bita.

Kókoskúlukaka

Krakkarnir mínir eru öll sólgin í kókoskúlur og þegar ég fer til Svíþjóðar reyni ég alltaf að kaupa sænskar kókoskúlur þar til að taka með heim. Okkur þykja þær bestar. Þegar Malín kom heim frá Stokkhólmi um daginn kom hún heim með bæði venjulegar kókoskúlur og kókoskúlur með dökku súkkulaði, sjávarsalti og karamellukurli. Þær voru dásamlegar. Í Ikeaferðum kippi ég oft kókoskúlum með mér, krökkunum til mikillar gleði. Það ætti því kannski ekki að koma á óvart að hér heima eru oft gerðar kókoskúlur og þá er þessi uppskrift vinsælust en þessi þykir okkur sú allra besta. Það er bara aðeins meira maus að gera þær og því verða hinar oftar fyrir valinu.

Um daginn bakaði ég síðan kókoskúluköku og var með í eftirrétt. Það þarf eflaust ekki að taka það fram að hún sló rækilega í gegn hér heima. Þetta er svo dásamlega einföld kaka sem er hrærð saman í potti með sleif. Það fylgir því bakstrinum lítið uppvask og ekkert vesen. Ég vil hafa kaffið sterkt í henni en það er auðvitað smekksatriði. Síðan þykir mér gott að hafa hana aðeins blauta í sér. Með léttþeyttum rjóma verður kakan gjörsamlega ómótstæðileg!

Kókoskúlukaka 

  • 125 g smjör
  • smá salt
  • 3 dl sykur
  • 1/2 dl kakó
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl haframjöl
  • 1 msk kaffi (gjarnan sterkt kaffi)
  • 1 dl hveiti
  • 2 egg

Skraut

  • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°.

Bræðið smjörið í rúmgóðum potti. Bætið salti, sykri og kakói í pottinn og hrærið vel. Bætið öllum öðrum hráefnum í pottinn og hrærið saman í deig. Setjið deigið í smurt kökuform og stráið kókos yfir. Bakið neðst í ofninum í 20-24 mínútur. Látið kólna í forminu og berið síðan fram með léttþeyttum rjóma.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Súkkulaðibaka með sætum rjóma og berjum

Laugardagur og kosningar! Mér þykja kosningadagar alltaf vera hátíðlegir og hlakka til að fylgjast með kosningasjónvarpinu í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem öll börnin mín hafa áhuga á kosningunum og það er því mikil tilhlökkun fyrir kvöldinu. Ég þarf að fara í búðina í dag og versla inn fyrir kvöldið (svo mikilvægt að vera með gott snarl í kvöld) en leiðin liggur einnig í Ikea og að sjálfsögðu á kjörstað.

Ég bakaði þessa köku um daginn og var með í eftirrétt og má til með að mæla með henni. Hún var dásamlega góð og gæti verið sniðugur eftirréttur fyrir kvöldið. Stingið íslenskum fánapinnum í hana til að fá réttu stemninguna áður en þið berið hana fram í kvöld. Súpergóð!

Súkkulaðibaka með sætum rjóma og berjum (uppskrift úr Joy the Baker Cookbook)

Bökuskelin:

  • 1 ½ bolli hveiti
  • ½ bolli flórsykur
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk kanil
  • 1/8 tsk engifer (krydd)
  • ½ bolli ósaltað smjör, kalt
  • 1 stórt egg

Setjið hveiti, sykur, salt og krydd í skál og blandið saman. Skerið smjörið í bita og bætið í skálina. Blandið öllu vel saman með höndunum þar til deigið hefur myndað litla kekki. Bætið eggi saman við og hrærið deiginu saman með gaffli (hafið ekki áhyggjur ef deigið verður eins og mylsna, það er allt í lagi). Setjið deigið í lausbotna bökuform og notið puttana til að þrýsta því í formið og upp með hliðum þess. Kælið í frysti í klukkustund. Hitið þar eftir ofn í 175°. Smyrjið álpappír með smjöri og leggið með smjörhliðina niður yfir bökuskelina. Bakið í 20 mínútur, takið þá álpappírinn af og bakið í aðrar 15 mínútur, eða þar til bökuskelin er fallega gyllt. Látið skelina kólna alveg áður en fyllingin er sett í.

Fyllingin:

  • 225 g dökkt súkkulaði, fínhakkað
  • 1 ¼ bolli rjómi
  • ¼  bolli ósaltað smjör, við stofuhita, skorið í bita

Á meðan bökuskelin er í frystinum er gott að gera fyllinguna. Setjið fínhakkað súkkulaðið í skál og leggið til hliðar. Setjið rjómann í pott og hitið varlega að suðu. Hellið helmingnum af heitum rjómanum yfir súkkulaðið og látið standaí 1 mínútur (súkkulaðið mun bráðna). Hrærið súkkulaðinu og rjómanum saman og bætið því sem eftir var af rjómanum varlega saman við. Hrærið þar til blandan er slétt. Bætið þá smjörbitum út í og hrærið saman með sleikju þar til smjörið hefur bráðnað. Blandan verður dökk og glansandi. Setjið til hliðar og látið kólna (blandan þykkist þegar hún kólnar. Mér fannst hún þó þykkjast svo hægt að ég endaði á að kæla hana í ísskápnum).

Yfir bökuna:

  • 1 bolli rjómi
  • 3 msk flórsykur
  • 1 bolli hindber
  • ¼ bolli brómber (ég var bara með hindber)

Þeytið saman rjóma og flórsykri þar til rjóminn er léttþeyttur.

Samsetning: Setjið fyllinguna í bökuskelina. Setjið berin yfir og endið á að setja rjómann yfir miðjuna (látið hann ekki ná yfir alla bökuna, það er svo fallegt að sjá súkkulaðifyllinguna og berin meðfram kantinum). Berið strax fram. Kakan er best á fyrsta degi en geymist þó vel í allt að 3 daga í ísskáp.

 

Nutellabananakaka

 
Ég sit hér yfir morgunmatnum mínum (ristað súrdeigsbrauð með stöppuðu avokadó, sítrónusafa, chilli explotion og góðu salti – svo gott!!) og er að gera innkaupalista fyrir matvörubúðina á sama tíma og ég skrifa þessa bloggfærslu. Mig langar að baka köku til að eiga með kaffinu og datt í hug að endurtaka helgarbaksturinn frá síðustu helgi. Þessi kaka vakti sérlega mikla lukku hjá krökkunum og ég veit að þau verða glöð að sjá hana aftur á borðinu. Ef fleiri eru í baksturshugleiðingum þá mælum við með þessari!
Nutellabananakaka
  • 2 bollar hveiti
  • ¾ tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • ¼ bolli mjúkt smjör
  • 1 bolli sykur
  • 2 stór egg
  • 1¼ bolli stappaður þroskaður banani
  • 1 tsk vanilludropar
  • ⅓ bolli mjólk
  • ¾ bolli Nutella
Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform.
Hrærið saman sykur og smjör. Bætið eggjum, einu í einu, saman við og hrærið vel á milli. Bætið stöppuðum bönunum, mjólk og vanilludropum saman við og hrærið þar til hefur blandast vel. Setjið hveiti, matarsóda og salt út í og vinnið saman í slétt deig (passið að ofhræra ekki deigið).
Setjið Nutella í skál og hitið í 15 sek í örbylgjuofni. Hrærið aðeins í skálinni til að jafna hitann og bætið síðan 1 bolla af deiginu saman við. Hærrið þar til hefur blandast vel.
Setjið helming af ljósa deiginu í botninn á formkökufominu, setjið síðan brúna deigið yfir og endið á seinni helmingnum af ljósa deiginu. Stingið hnífi í deigið og snúið honum aðeins um formið til að snúa ljósa og brúna deiginu aðeins saman. Setjið formið í ofninn og bakið í 50-60 mínútur, eða þar til prjóni sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna standa í forminu í amk 15 mínútur áður en hún er tekin úr því.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Dásamlega mjúk banana- og súkkulaðikaka með léttu súkkulaðikremi

Ég veit að það mun eflaust falla í grýttan jarðveg að lofsama veðrið undanfarna daga en ég verð að viðurkenna að mér þykir þetta pínu notalegt. Sú staðreynd að ég er ekki enn byrjuð í sumarfríi hefur eflaust eitthvað með þessa jákvæðni mína gagnvart rigningu og roki að gera, en það er bara svo gott að koma heim eftir vinnu og geta lagst upp í sófa á kvöldin með góðri samvisku. Það get ég aldrei gert þegar veðrið er gott.

Ég eldaði kjötsúpu í gærkvöldi sem mér þykir vera mikill vetrarmatur og í kvöld var ég með bjúgu og uppstúf í matinn við mikinn fögnuð krakkanna. Ég man ekki hvenær ég eldaði bjúgu síðast en það var klárlega ekki um hásumar.

Það er líka upplagt í þessu veðri að baka köku til að eiga með kaffinu. Þessi dúnmjúka súkkulaði- og bananakaka með léttu súkkulaðikremi er gjörsamlega ómótstæðileg! Sem betur fer þá vill hún klárast fljótt því ég get ekki vitað af henni í friði inn í eldhúsi. Súpergóð!!

Banana- og súkkulaðikaka – uppskrift úr Hemmets Journal

  • 150 g smjör
  • 1 ½ dl rjómi
  • 1 þroskaður banani
  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 1 msk vanillusykur
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 4 dl hveiti

Krem

  • 100 g suðusúkkulaði
  • 150 g mjúkt smjör
  • ½ dl kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 2 dl flórsykur

Skraut

  • 1-2 dl kókosmjöl

Hitið ofninní 175°.

Bræðið smjörið og blandið því saman við rjómann. Stappið bananann og hrærið honum saman við rjómablönduna. Þeytið egg, sykur og vanillusykur þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þurrefnunum saman við eggjablönduna og blandið að lokum rjómablöndunni varlega saman við. Setjið deigið í skúffukökuform (um 25 x 35 cm) og bakið í neðri hluta ofnsins í 20-25 mínútur. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett á.

Krem: Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið kólna aðeins. Hrærið súkkulaðinu saman við smjörið. Bætið kakó, vanillusykri og flórsykri saman við og hrærið saman þar til kremið er orðið mjúkt og létt í sér. Setjið yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

 

 

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Bananakaka

Í svona leiðindarveðri þykir mér fátt eins notalegt og að dunda mér heima, sérstaklega ef það stendur nýböku kaka á eldhúsborðinu til að njóta með kaffinu. Ég var svo heppin að strákarnir bökuðu möffins í skólanum í gær sem ég get gætt mér á í dag en ég neyðist engu að síður til að fara í búðina þar sem ískápurinn er tómur og helst þyrfti ég að skjótast í Ikea (hafið þið smakkað kleinurnar sem fást í bakaríinu hjá þeim? Þær eru alltaf nýbakaðar og svo góðar!) því mig langar að koma betra skipulagi á einn eldhússkápinn hjá mér. Mest af öllu langar mig þó að sitja sem fastast hér heima, hlusta á vindkviðurnar fyrir utan og kúra í sjónvarpssófanum.

Ef einhverjir eru í bökunarhugleiðingum þá sting ég upp á þessari bananaköku en uppskriftin kemur úr fystu matreiðslubókinni sem ég eignaðist. Ég bakaði kökuna síðast um páskana (sem skýrir litlu eggin á henni) og hún vekur alltaf sérlega lukku hjá yngra fólki.

Bananakaka

  • 2 ½ bolli hveiti
  • 2 ½ tsk lyftiduft
  • ¾ tsk salt
  • 1/8 tsk negull
  • 1 ¼ kanil
  • ½ tsk múskat
  • ½ bolli smjör
  • 1 ¼ bolli sykur
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 ½ bolli marðir bananar

Hitið ofn í 200°. Hrærið smjör og sykur létt. Bætið eggjunum út í og hrærið slétt. Hrærið þurrefnum saman við og endið á að hræra bönunum og vanilludropum í deigið. Setjið í tvö form eða eitt skúffukökuform og bakið í 25 mínútur (stingið í kökuna með prjóni til að sjá hvort hún sé tilbúin).

Bananasmjörkrem

  • ½ banani, stappaður
  • ¼ bolli smjör, við stofuhita
  • 3 ½ bolli flórsykur

Hrærið smjör og banana saman. Hrærið flórsykri saman við þar til réttri áferð er náð.

Páskarnir og dásamlega páskatertan

Eftir alla veðurblíðuna yfir páskana verð ég að viðurkenna að mér þykir pínu notalegt að fá hvassviðri í dag og get dundað mér hér heima á náttsloppnum án nokkurs samviskubits. Við höfum átt yndislega páska með útivist, afslöppun og allt of mikið af góðum mat. Alveg eins og páskar eiga að vera. Ég fór aldrei á skíði eins og ég hafði hugsað mér og verð að horfast í augu við þá staðreynd að árskortið mitt í Bláfjöllum voru verstu kaup síðasta árs. Ég læri vonandi af reynslunni núna en árskortið mitt síðasta vetur reyndist heldur ekki borga sig.

Það er hefð fyrir því hér heima að vera með góðan morgunverð á páskadag. Núna sofa unglingarnir svo lengi að morgunmaturinn er borðaður í hádeginu en það er bara notalegt. Ég gerði mér létt fyrir í ár og keypti bæði frosin crossant sem ég fyllti með skinkumyrju og frosin súkkulaðicrossant. Síðan steikti ég beikon og gerði eggjahræru. Allir voru alsælir. Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið, bara gott!

Á páskadag er ég alltaf með lambakjöt í kvöldmat. Sjálf er ég hrifnust af lambahryggi en virðist þó oftast kaupa lambalæri á páskunum. Ég hafði hugsað mér að gera kartöflugratín og bernaise með lærinu en þegar ég spurði krakkana langaði þeim í gamaldags lambalæri með sveppasósu og brúnuðum kartöflum. Lærið fékk að hægeldast frá hádegi og varð svo æðislega gott að við borðuðum yfir okkur.

Í eftirrétt bauð ég upp á páskaköku með nutellafyllingu og appelsínurjóma. Ég var svo södd eftir matinn að ég rétt gat smakkað kökuna en hún vakti mikla lukku viðstaddra. Uppskriftin kemur hér ef einhverjum langar að prófa.

Páskakaka – uppskriftin er fyrir um 15 manns (uppskrift frá Coop)

  • 100 g smjör
  • 2 dl mjólk
  • 4 dl hveiti
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 dl hrásykur

Fylling

  • 5 dl rjómi
  • 400 g Nutella við stofuhita
  • 1/4 dl appelsínusafi (ég var með trópí)
  • fínrifið hýði af einni appelsínu
  • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið í potti. Takið af hitanum og bætið mjólkinni saman við. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman. Hrærið egg, sykur og hrásykur saman þar til blandan er létt og loftkennd. Hrærið þurrefnunum saman við og bætið smjörmjólkinni í. Hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í smurt form (24 cm) og bakið í miðjum ofni í um 40 mínútur (ég þurfti að bæta aðeins við bökunartímann). Stingið prjóni í kökuna til að sjá hvort hún sé tilbúin. Látið kólna.

Þeytið rjómann. Hrærið Nutella saman við rúmlega helminginn af rjómanum. Hrærið appelsínusafa, appelsínuhýði og vanillusykri saman við restina af rjómanum.

Skiptið tertubotninum í þrennt með löngum hnífi. Setjið nutellafyllinguna á milli botnanna og endið á að setja appelsínurjómann yfir hana.

 

Oreo súkkulaðikaka

Ég er búin að vera ein heima síðan á miðvikudag og því óhætt að segja að páskafríið í ár hafi byrjað rólega. Ég hef lítið annað gert en að dunda mér hér heima. Í gær dreif ég mig síðan í búðina og verslaði inn fyrir páskana og um kvöldið fórum við og fengum okkur sushi og litum síðan í heimsókn til vina. Í dag koma strákarnir heim og í kvöld sækum við Malínu og Oliver út á flugvöll en þau hafa eytt vikunni í Kaupmannahöfn. Það sem mig hlakkar til að fá alla heim!

Ég bakaði svo góða köku um daginn sem mér datt í hug að setja hingað inn ef einhver sem er ekki kominn með nóg af súkkulaði (er það annars hægt?) er að leita af góðum eftirrétti. Kakan er bara svo dásamlega góð að það nær engri átt. Blaut í sér og mjúk. Mín vegna má sleppa Oreo kexinu í henni en krakkarnir taka eflaust ekki undir það. Þau elska allt með Oreo! Kexið gefur kökunni þó kröns sem fer vel á móti dúnmjúkri kökunni.

Oreo súkkulaðikaka

  • 200 g suðusúkkulaði
  • 150 g smjör
  • 175 g púðursykur
  • 4 egg
  • 5 msk hveiti
  • 1 tsk salt
  • 1 pakki Oreo (gott að nota með tvöfaldri fyllingu), sparið nokkrar kexkökur ef þið viljið setja yfir kremið

Hitið ofn í 180°. Hrærið egg og púðursykur saman. Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti og blandið við eggja- og púðursykurblönduna. Hrærið hveiti og salti saman við (athugið að þeyta ekki). Hakkið Oreokexið og blandið helmingnum af því þeim í deigið. Setjið deigið í form (24 cm) og stráið seinni helmingnum af Oreokexinu yfir. Bakið í 30 mínútur.

Krem

  • 100 g mjúkt smjör
  • 50 g sigtað kakó
  • 200 g flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • ½ dl mjólk

Hrærið smjör og kakó saman í skál. Hrærið flórsykri og vanillusykri saman við. Bætið mjólkinni smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Hrærið áfram í nokkrar mínútur, svo deigið verði létt í sér og mjúkt. Setjið yfir kalda kökuna.