Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Gærkvöldið tók óvænta stefnu þegar ég ákvað skyndilega að bjóða mömmu og Eyþóri bróður í mat og fótboltaáhorf til okkar. Þvílíkt kvöld og þvílíkur leikur! Ég hef ekki taugar í þetta og hef því blendnar tilfinningar fyrir næsta leik. Tilhlökkun og kvíði fyrir stressfaktornum sem fer upp úr öllu veldi, en það er kannski bara partur af programmet? Hvað veit ég. Ég sem hef aldrei fylgst með fótbolta sit orðið allar helgar og horfi á 4. flokk Breiðabliks keppa og núna bætist Evrópumótið við. Maður veit víst aldrei hvað bíður manns. Kannski fer ég bráðum að halda með liði í ensku deildinni eða eitthvað. Nei, ég segi bara svona…

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggirGrillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Þar sem matarboðið kom skyndilega upp og mig langaði hvorki í hamborgara né pizzu, þá ákvað ég að grípa í uppskrift sem ég fékk fyrir nokkrum árum og hefur verið notuð óteljandi sinnum hér heima, grillaðir BBQ-kjúklingaleggir. Þessi uppskrift er með þeim einföldustu og bestu, ég lofa! Kjúklingaleggirnir eru forsoðnir þannig að þeir þurfa bara stutta stund á grillinu. Með þessari eldunaraðferð fær maður safaríka og góða kjúklingaleggi en ekki þurra eins og vill verða þegar þeir eru bara grillaðir. Skotheld uppskrift sem vekur alltaf lukku!  Með matnum drukkum við Allegrini Soave sem setti algjörlega punktinn yfir i-ið. Frábært hvítvín á góðu verði.

grillaður bbq1

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Kjúklingaleggirnir eru soðnir í potti með kjúklingakrafti (ca 1 kjúklingateningur á hvern bakka af kjúklingaleggjum) í 10-15 mínútur. Þá eru þeir teknir úr pottinum og látnir kólna aðeins. BBQ-sósu er síðan penslað á kjúklingaleggina og þeir að lokum grillaðir í stutta stund þannig að BBQ-sósan karamellist utan um kjúklingalegginn. Gott er að pensla smá auka BBQ-sósu á kjúklinginn þegar hann er á grillinu.

Vikumatseðill

Fyrir utan heimsókn á læknavaktina í gærmorgun (sem betur fer var lítið að gera þar, enda hálf þjóðin í Color run) sem endaði á sýklalyfi, ofnæmislyfi og sterakremi, þá hefur helgin verið sérlega góð. Hápunktur helgarinnar var klárlega gærkvöldið, þegar við fórum með mömmu og Eyþóri bróður mínum á Bjórgarðinn í drykk og léttan kvöldverð og síðan yfir í Borgarleikhúsið á Mamma Mía. Þvílík sýning! Við skemmtum okkur stórkostlega og erum enn í skýjunum. Ég segi bara ekki láta hana framhjá ykkur fara!

Vikumatseðill

Fiskur með gulrótum í ljúffengri sósu

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Brokkólí- og sveppabaka

Þriðjudagur: Brokkólí- og sveppabaka

Kjúklingalaksa

Miðvikudagur: Laksa með kjúklingi

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Fimmtudagur: Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!

Föstudagur: Dásamlegur BBQ-kjúklingur með öllu í einum pakka!

Sítrónukaka með kókos

Með helgarkaffinu: Sítrónukaka með kókos

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld og helgarfrí framundan. Það er búið að vera stöðugt prógramm þessa vikuna og því ljúft að eiga rólegt kvöld framundan með mexíkóska kjúklingasúpu í kvöldmat og nammi yfir sjónvarpinu. Ég er með æði fyrir nýja nóakroppinu með piparduftinu og súkkulaðihúðuðu saltkringlunum en uppgötvaði nýlega hvað það er líka gott að blanda venjulegu nóakroppi og poppi saman. Áður en ég hendi mér í sjónvarpssófann með nammiskálarnar ætla ég þó að reima á mig skóna og taka smá göngutúr. Ég gekk 5.75 km hring hér um Kópavoginn í gærkvöldi á tímanum 54.35 sem er ekkert til að státa sér af. Í kvöld skal ég gera betur!

Lobsterroll og heimagert majónes

Lobsterroll

Síðasta föstudagskvöld var ég með svooo góðan rétt að ég má til með að setja hann inn sem tillögu fyrir helgina – lobsterroll og djúpsteiktar franskar!

Lobsterroll

Helgarmaturinn verður ekki mikið einfaldari.  Humarinn er skorinn í grófa bita og léttsteiktur á pönnu (passa að steikja hann alls ekki of lengi!). Smakkið majónes til með salti, pipar og sítrónusafa eða smá chilisósu, t.d. Sriranka eða Sambal oelek. Hrærið bragðbætta majónesinu síðan saman við humarinn. Hitið pulsubrauð í ofni og fyllið með humarblöndunni. Berið fram með djúpsteiktum frönskum og auka majónesi.

Lobsterroll

Með matnum drukkum við portúgalskt rósavín vinnufélagi minn mælti með, frá Vila Real. Létt, ferskt og smásætt vín á góðu verði (flaskan kostar undir 2.000 krónum í Vínbúðinni). Frábær sumardrykkur!

Majónes (uppskriftin gefur um 4 dl)

  • 2 eggjarauður
  • ½ msk hvítvínsedik
  • smá salt
  • smá hvítur pipar
  • 1½ msk dijonsinnep
  • 4 dl rapsolía

Passið að hafa öll hráefnin við stofuhita þegar majónesið er gert, annars er hætta á að það skilji sig.

Notið handþeytara og skál. Hrærið fyrst eggjarauðum, hvítvínsediki, salti, pipar og sinnepi saman. Setjið oíuna hægt saman við, fyrst í dropatali þar til blandan byrjar að þykkna og svo í mjórri bunu. Hrærið stöðugt í á meðan. Ef þið ætlið að bragðbæta majónesið þá er það gert í lokin.

Lobsterroll

 

Súpergott tacogratín!

Súpergott tacogratín!

Það má eflaust halda að það að vera matarbloggari sé nokkuð hættulaust starf. Ég get þó upplýst ykkur um að ég lagði líf mitt í hættu við að mynda þennan rétt. Á meðan krakkarnir biðu full tilhlökkunar að smakka á þessari nýju útfærslu af tacogratíni (sem er með því besta sem við vitum!) var ég, eins og svo oft áður, að álpast við að taka mynd af réttinum fyrir bloggið. Eitthvað hallaði ég stólnum sem ég sat á aftur til að ná betri mynd sem fór nú ekki betur en svo að ég missti jafnvægið, með þeim afleiðingum að ég flaug á hausinn og fékk í leiðinni þrjá stóla yfir mig. Svipurinn á Malínu var óborganlegur, hún var að springa úr hlátri en þorði ekki fyrir sitt litla líf að láta það eftir sér að hlægja ef ske kynni að ég væri slösuð, sem ég var ekki. Ég fékk þó myndarlegan marblett sem gaf okkur regluleg hlátursköst í heila viku.

Súpergott tacogratín!

Rétturinn var alveg hreint dásamlega góður og krakkarnir elskuðu hann! Ég bauð upp á hann yfir Eurovision (sem við gátum varla horft á vegna þess að við vorum enn í hláturskasti yfir fallinu mínu) en mér þykir hann passa svo vel á föstudagskvöldum þegar öllum langar í eitthvað gott og ég vil eyða sem styðstum tíma í eldhúsinu. Ég keypti ferskt guacamole í Hagkaup (það fæst bara um helgar) sem ég bar fram með réttinum ásamt heitri ostasósu (keypti í glerkrukku) og nachos, en ferskt salat passar líka vel með. Ef það eru fullorðnir í mat er ekki úr vegi að bjóða upp á kaldan bjór með, eins og t.d. Corona með límónusneið í.

Súpergott tacogratín!

Að lokum fær myndin sem varð mér nánast að bana (engin dramatík) að fylgja með. Fókusinn hefur greinilega farið í vitleysu við fallið og lent á kertastjakanum í staðin fyrir matnum, sem er sko í fínu lagi mín vegna því mér þykir hann svo fallegur. Vänskapsknuten frá Svenskt tenn, sem hefur staðið á óskalistanum leeeengi og var keyptur í síðustu Stokkhólmsferð. Maður getur víst alltaf á sig kertastjökum bætt!

Súpergott tacogratín!

Tacogratín

  • 1 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 500 g nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd (28 g)
  • 1 dl vatn
  • 1 krukka tacosósa (230 g)
  • 1 lítil dós maís (280 g)
  • 2-3  tómatar
  • 2 hnefafylli tortillaflögur
  • 1 askja texmex smurostur (250 g)
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°.

Hitið pönnu og bræðið smá smjör á henni. Hakið laukinn og rífið hvítlauksrifið og steikið upp úr smjörinu þar til mjúkt og bætið þá nautahakkinu á pönnuna og steikið þar til fulleldað. Bætið tacokryddi, vatni og tacosósu á pönnuna og hrærið saman við nautahakkið. Bætið maísbaunum á pönnuna og látið allt sjóða saman við vægan hita í 5 mínútur.

Setjið nautahakksblönduna í eldfast form. Myljið tortillaflögurnar örlítið og hrærið þeim saman við nautahakksblönduna. Hrærið saman texmex smurosti og sýrðum rjóma og setjið yfi rnautahakkið. Skerið tómatana í bita og setjið yfir sýrðu rjómablönduna. Setjið að lokum rifinn ost yfir og stingið nokkrum nachosflögum ofan í. Setjið í ofninn í 15 mínútur. Berið fram með salati, guacamole, ostasósu og auka nachosflögum.

Mexíkófiskur

Mexíkófiskur

Fyrir nokkrum árum gaf Arla út matreiðslubók sem hét Fredag, eða föstudagur. Ég las góða dóma um bókina og varð ekki róleg fyrr en ég eignaðist hana, sem reyndist þrautinni þyngri þar sem það var ekki hægt að panta hana til Íslands. Þegar bókin loks varð mín las ég hana í þaula og setti hana svo upp í hillu, þar sem hún hefur fengið að dúsa alla daga síðan. Það var því tími til kominn að draga bókina fram og prófa einhverja af öllum þeim girnilegu uppskriftum sem hún hefur upp á að bjóða.

Mexíkófiskur

Fyrir valinu varð einaldur mexíkófiskur, einfaldlega af því að ég átti öll hráefnin í hann. Rétturinn hreif mannskapinn og krakkarnir hrósuðu honum óspart. Þessi verður klárlega eldaður oftar hér heima. Einfalt og stórgott!

Mexíkófiskur

Mexíkófiskur – uppskrift fyrir 4

  • 600 g þorskur eða ýsa
  • 1 tsk salt
  • 1 peli rjómi eða matreiðslurjómi (2,5 dl)
  • 1 krukka tacosósa (230 g eða um 2 dl)
  • 2 dl rifinn ostur
  • um 20 nachos flögur, muldar

Hitið ofninn í 200°. Smyrjið eldfast mót með smjöri, leggið fiskstykkin í og saltið þau. Hrærið saman rjóma, tacosósu og rifnum osti og hellið yfir fiskinn. Setjið í ofninn í 15 mínútur, stráið þá muldum nachosflögum yfir og setjið aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar (samtals 25 mínútur í ofninum).

Meðlæti með grillmatnum

 

Meðlæti með grillmatnum

Ég lofaði viðbót í meðlætaflokkinn hér á blogginu og bæti núna tveim góðum meðlætum í hópinn, grillaðar kartöflur með rósmarín og reyktu paprikukryddi sem og marineruðum sveppum sem er gott að setja yfir grillkjötið.

Meðlæti með grillmatnum

Grillaðar kartöflur með rósmarín og reyktu paprikukryddi

  • 500 g kartöflur, skornar í teninga
  • 1 laukur, skorinn í smáa bita
  • 6 hvítlauksrif, afhýdd og hvert rif skorið í þrennt
  • 1,5-2 msk ólífuolía
  • 1 ½ tsk rósmarínkrydd (þurrkað), sem er mulið niður í mortéli
  • ½ tsk reykt paprikukrydd
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk pipar úr kvörn

Hitið grillið í miðlungshita. Setjið kartöflubitana, laukinn, hvítlaukinn og ólífuolíuna í skál og blandið vel saman. Bætið rósmarín, reyktri papriku, salti og pipar í skálina og blandið öllu vel saman.

Takið tvö 60 cm álpappírsblöð og leggið yfir hvort annað þannig að það myndi kross. Setjið kartöflublönduna í miðjuna á krossinum og passið að þær séu í nokkuð jöfnu lagi. Brjótið álpappírinn saman yfir kartöflurnar og klípið hann saman til að loka vel fyrir. Takið þriðja álpappírsblaðið og vefjið utan um kartöflupakkann. Setjið á grillið í 20 mínútur, snúið þá pakkanum við og grillið áfram í 15-20 mínútur. Farið varlega þegar þið opnið álpappírspakkann því það kemur mikill hiti úr honum. Kartöflurnar geymast heitar í pakkanum í 10-15 mínútur.

Meðlæti með grillmatnum

Grillaðir marineraðir sveppir

Marineringin:

  • 1/4 bolli ólífuolía
  • 1/4 bolli sítrónusafi
  • handfylli af steinselju
  • 1 tsk sykur
  • 1 tsk salt
  • 1/4 tsk pipar
  • 1/4 tsk cayenne pipar
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1 msk balsamik edik

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og vinnið saman í nokkuð slétta blöndu.

  • 450 g sveppir
  • 10 spjót

Skerið sveppina í tvennt, setjið þá í poka og hellið marineringunni yfir. Setjið pokann í ísskáp í 30-45 mínútur.

Ef notuð eru tréspjót er best að leggja þau í bleyti í 15 mínútur svo þau brenni ekki á grillinu. Þræðið sveppina upp á spjótin (best er að snúa þeim upp á svo sveppirnir klofni ekki) og grillið í 3 mínútur á hvorri hlið.

Heimsins besti og einfaldasti ís – Nutellaís!

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Yfir Eurovision um síðustu helgi bauð ég upp á æðislegt tacogratín sem vakti rífandi lukku og ég mun setja uppskrift af hingað inn fljótlega. Það var þó eftirrétturinn sem stal senunni, Nutellaís! Einfaldasti og besti ís í heimi! Þessi er ávanabindandi…

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Ísinn var dásamaður í bak og fyrir, og kláraðist að sjálfsögðu upp til agna. Þetta verður ekki einfaldara, aðeins tvö hráefni! Þetta verðið þið að prófa.

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Nutellaís

  • 5 dl rjómi
  • 350 g Nutella

Setjið rjóma og Nutella í skál og þeytið saman þar til létt. Setjið í form og í frysti í amk 6 klst. Berið fram með ferskum berjum.

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Við nýttum veðurblíðuna um daginn og grilluðum lambakjöt. Þegar ég var að velta meðlætinu með grillmatnum fyrir mér þá áttaði ég mig á því að það vantar upp á meðlætistillögur hér á blogginu. Meðlætið skiptir jú svo miklu máli, sérstaklega með grillkjöti. Nú stefni ég á að kippa þessu í lag og set strax inn sætar parmesankartöflur sem voru svoooo góðar. Mér þykja sætar kartöflur alltaf góðar en þessar eru extra góðar með parmesanhjúp og kryddum. Frábært meðlæti!

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

  • 2 sætar kartöflur
  • 2 tsk pressaður hvítlaukur
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 msk smjör, brætt
  • 4 msk rifinn parmesan ostur
  • ½ tsk hvítlaukssalt
  • ½ tsk ítölsk kryddblanda

Hitið ofninn í 200°.

Afhýðið kartöflurnar og skerið í 2 cm teninga. Setjið hvítlauk, olíu, smjör, hvítlaukssalt, parmesan og ítölsku kryddblönduna í plastpoka og blandið vel. Bætið sætu kartöflunum í pokann og hristið hann vel, þannig að kartöflurnar verði hjúpaðar af olíu/smjör/ostablöndunni. Setjið álpappír yfir ofnplötu, spreyið léttilega yfir með olíu og dreifið úr kartöflunum yfir. Bakið í um 20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn.

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Mæðradagsblómin frá Malínu standa einn og það kæmi mér ekki á óvart ef þau munu lifa út næstu viku líka. Ég elska afskorin blóm og vil helst alltaf vera með vönd hér heima. Með blómunum frá Malínu fylgdi sætur bangsi, meira krúttið sem hún er þessi skotta mín (sem varð 18 ára og sjálfráða á dögunum! Það sem tíminn líður…).

Vikumatseðill

Í ljósi þess að í gær var Eurovision og í dag er hvítasunna grunar mig að margir geri vel við sig í mat þessa helgina. Hér er alla vega sá hátturinn á. Ég ætla því að halda mér við mánudagsfiskinn á morgun, en þar sem þá er annar í hvítasunnu ætla ég að draga fram góðu laxuppskriftina frá mömmu. Þar slæ ég tvær flugur í einu höggi, fæ bæði veislumat og fisk, og veit að allir verða ánægðir.

Vikumatseðill

lax

Mánudagur: Lax með mango chutney og pistasíuhnetum

Chili con carne

Þriðjudagur: Chili con carne

Chili con carne

Miðvikudagur: Afgangur frá þriðjudeginum settur ofan á pizzabotn

Pasta með púrrulauk og beikoni

Fimmtudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni

Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil

Með helgarkaffinu: Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil