Vikumatseðill

Þá er enn ein vikan að enda og ný bíður. Sunnudagar hjá mér þýða oftast langur morgunverður, göngutúr, nýtt naglalakk, vikuinnkaup og vikumatseðill. Þetta er ekki flókið en eftir þetta getur vikan ekki annað en byrjað vel!

Vikumatseðill

lax

Mánudagur: Lax með mango chutney og pistasíuhnetum

Parmesanbuff í rjómasósu

Þriðjudagur: Parmesanbuff í rjómasósu

Pulsu- og makkarónuskúffa

Miðvikudagur: Pulsu- og makkarónuskúffa

Tacos með rauðum linsubaunum

Fimmtudagur: Tacos með rauðum linsubaunum

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Föstudagur: Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Nutellakökur

Með helgarkaffinu: Nutellakökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Himneskar humarvefjur

Himneskar humarvefjur

Ég sá athugasemdir varðandi bollamálin í möffinsuppskriftinni góðu. Það er lítið mál að breyta bollamáli yfir í dl, 1 bolli er 2,3-2,4 dl. Ég mæli þó hiklaust með að fjárfesta í bollamálum, þau kosta nokkra hundraðkalla og koma oft að góðum notkum.

Himneskar humarvefjur

Mér datt í hug að setja inn uppskrift fyrir helgina, sem er í sjálfu sér engin nákvæm uppskrift heldur kannski frekar hugmynd að helgarmat, himneskar humarvefjur. Ég hef boðið upp á þær í forrétt þegar ég er með matarboð en einnig sem léttan kvöldverð með hvítvínsglasi. Þetta hittir alltaf í mark!

Himneskar humarvefjur

 • franskbrauð
 • íslenskt smjör
 • hvítlaukur, pressaður
 • fersk steinselja, hökkuð
 • skelflettur humar

Hitið ofn í 180°. Bræðið smjör, hvítlauk og steinselju saman. Skerið skorpuna af brauðsneiðunum, veltið hverri brauðsneið upp úr bræddu smjörblöndunni og fletjið síðan brauðsneiðarnar út með kökukefli. Setjið humar í hverja brauðsneið og rúllið þeim svo upp. Setjið í eldfast mót og inn í ofn í 8 mínútur.

Mér þykir gott að bera humarvefjurnar fram með ruccolasalati, smá balsamikgljáa og aioli eða hvítlaukssósu. Gott hvítvínsglas fullkomnar svo máltíðina.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Í vikunni bakaði ég möffins til að eiga með kaffinu. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að þær myndu jafnvel fá að liggja óhreyfðar fram að helginni en það fór auðvitað eins og það fór, og alls ekki eins og ég hafði hugsað mér. Ég hætti ekki að furða mig á því hvað unglinsstrákar geta borðað mikið! Möffinsin kláruðust samdægurs, að sjálfsögðu. Fyrst borðuðum við þau nýkomnin úr ofninum og þá voru súkkulaðibitarnir bráðnaðir í heitum möffinsunum, klikkaðslega gott. Síðan um kvöldið voru súkkulaðibitarnir harðnaðir í þeim og gáfu stökkt kröns í mjúkt möffinsið, líka alveg brjálæðislega gott.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Næst mun ég sýna fyrirhyggju og taka hluta af þeim frá. Það má t.d. frysta möffinsin. Það getur verið gott að eiga þau  í frystinum þegar gesti ber að garði eða möffinslönguninn grípur mann. Þá er bara að hita eitt í örbylgjuofninum í 30-45 sek og það er eins og þú hafir verið að taka það úr ofninum.

Fullkomnar súkkulaðibitamöffins með súkkulaðibitum (uppskriftin gefur 12 ágætlega stór möffins)

 • 2/3 bolli kakó
 • 1 3/4 bolli hveiti
 • 1 1/4 bolli púðursykur
 • 1 tsk matarsódi
 • 3/4 tsk salt
 • 1 tsk instant kaffi
 • 1 1/2 bolli grófhakkað suðusúkkulaði
 • 2 stór egg
 • 3/4 bolli mjólk
 • 2 tsk hvítvíns edik
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1/2 bolli smjör, brætt

Hitið ofninn í 175° og takið fram möffinsform. Ég set formin í möffinsmót, þá halda þau löguninni betur. Þessu má þó sleppa.

Hrærið þurrefnum saman (hveiti, sykri, matarsóda, salti og kaffi).

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Grófhakkið súkkulaðið.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Hrærið súkkulaðibitum saman við þurrefnin og leggið til hliðar.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Hrærið eggjum, mjólk, ediki og vanilludropum saman.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Bræðið smjörið.Hrærið eggjablöndunni saman við þurrefnin og hrærið síðan bræddu smjörinu saman við þar til allt hefur blandast vel. Notið skeið og setjið deigið í möffinsformin, fyllið þau að 3/4.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Bakið í 20-15 mínútur, eða þar til prjóni stungið í möffinsin kemur hreinn upp.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti – allt í einni skúffu!

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti - allt í einni skúffu!

Ég hef undanfarna daga verið löt í eldhúsinu. Hef lítið nennt að hafa fyrir kvöldmatnum og viljað hafa hann eins einfaldan og hægt er. Það geta komið svona dagar, en núna finn ég hins vegar að þetta tímabil er yfirstaðið og núna vantar mig fleiri máltíðir í daginn til að komast yfir að elda allt sem mig langar að prófa.

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti - allt í einni skúffu!

Í letikastinu eldaði ég þennan ofureinfalda rétt þar sem allt fór í einni ofnskúffu inn í ofn. Það er eitthvað við svona rétti þar sem allt fer í eina skúffu og verður tilbúið á sama tíma. Kjötið verður svo mjúkt og rótargrænmetið fær gott bragð af kjötmarineringunni. Meðlætið þarf ekki að vera flókið. Ég var meira að segja svo löt að ég opnaði bara kalda hvítlaukssósu og hrópaði gjörið svo vel! Ekkert frekara meðlæti þurfti en vissulega væri smart að bera salat fram með réttinum og góða heita sósu. Eða tzatziki og grískt salat. En á letidögum þarf ekkert slíkt og hér voru allir kampakátir með einfaldleikann.

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti – allt í einni skúffu!

 • 1 svínalund
 • 1/2 dl ólivuolía
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 tsk timjan
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn
 • rótargrænmeti (ég var með kartöflur og sætar kartöflur)

Marinerið svínalundina í ólivuolíu, sítrónusafa, pressuðum hvítlauk, timjan, salti og pipar. Látið liggja í 20 mínútur eða á meðan rótargrænmetið er undirbúið og ofninn hitaður. Hitið ofninn í 200°. Skerið rótargrænmetið í báta/bita og setjið í ofnskúfu, veltið því upp úr ólívuolíu og kryddið eftir smekk (ég notaði maldon salt, pipar og timjan). Setjið inn í ofn í 15 mínútur. Á meðan er svínalundin brúnuð á pönnu við háan hita, á öllum hliðum. Bætið svínalundinni í ofnskúffuna og hellið því sem eftir var af marineringunni yfir og bakið áfram í 20 mínútur. Leyfið kjötinu að standa aðeins áður en það er skorið í sneiðar.

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti - allt í einni skúffu!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Vikumatseðill

VikumatseðillGleðilegan valentínusardag! Það eru skiptar skoðanir á valentínusardeginum hér á Íslandi en ég tek öllum tækifærum til að gera mér dagamun fagnandi. Hér heima er verið að draga rafmagn í nýja innstungu því ég fékk þá hugmynd að það væri fínt að hafa lampa í nýju bókahillunni. Það var þó engin innstunga nálægt hillunni og því er verið að bjarga núna. Á meðan nýti ég tækifærið og undirbý vikumatseðil og ætla síðan að hendast í búðina að gera vikuinnkaup. Síðan er bongóblíða úti og því upplagt að viðra sig. Fyrir mig liggur leiðin annað hvort í góða göngu eða upp í fjöll. Það verður að nýta þessa fallegu vetrardaga!

Vikumatseðill

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Þriðjudagur: Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Miðvikudagur: Spaghetti með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Kjúklingur með karamelluhúðaðri papriku í mangó chutney sósu

Fimmtudagur: Kjúklingur með karamelluhúðaðri papriku í mangó chutney sósu

Fylltar tortillaskálar

Föstudagur: Fylltar tortillaskálar

Heslihnetuvöfflur með berjakompóti og rjómakremi

Með helgarkaffinu: Heslihnetuvöfflur með berjakompóti og léttu rjómakremi

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Mjúk súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Um síðustu helgi bakaði ég dásamlega súkkulaðibitaköku sem ég má til með að benda ykkur á ef þið eruð í bökunarhugleiðingum fyrir helgina. Kakan er mjúk, með stökkum súkkulaðibitum og bragðgóðu kremi yfir. Hreint út sagt dásamleg í alla staði!
Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Botninn:

 • 175 g smjör
 • 450 g hveiti
 • 2,5 dl mjólk
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk lyftiduft
 • 3/4 tsk salt
 • 350 g sykur
 • 100 g púðursykur
 • 4 egg
 • 150 g suðusúkkulaðibitar

Hitið ofninn í 175° og klæðið skúffukökuform með smjörpappír. Blandið saman mjólk og vanilludropum og setjið til hliðar. Blandið saman hveiti, salti og lyftidufti í annari skál og setjið til hliðar. Hrærið smjör, sykur og púðursykur saman í 3-5 mínútur, eða þar til blandan er ljós og létt. Lækkið hraðann á hrærivélinni og bætið eggjunum út í, einu í einu, og hrærið vel á milli. Bætið hveitiblöndunni og mjólkurblöndunni út í deigið á víxl og hrærið rólega á meðan. Blandið súkkulaðibitunum að lokum saman við með sleif. Setjið deigið í klætt skúffukökuform og bakið í miðjum ofni í 40-50 mínútur eða þar til prjóni sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett á.

Mjúk súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Krem:

 • 115 g suðusúkkulaði
 • 150 g smjör
 • 1 msk mjólk
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 230 g flórsykur

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna aðeins. Hrærið smjöri við miðlungshraða í hrærivél (eða með handþeytara) í 2-3 mínútur eða þar til mjúkt. Hrærið mjólkinni saman við, síðan súkkulaðinu og svo vanilludropunum. Lækkið hraðann og hrærið flórsykrinum varlega saman við. Hrærið þar til kremið er slétt og mjúkt.

Súkkulaðibitakaka með súkkulaðismjörkremi

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Pekanhjúpuð ostakúla

Pekanhjúpuð ostakúla

Strákarnir fermast um miðjan mars og við erum aðeins byrjuð að velta fyrir okkur veitingunum í veislunni. Þeir vilja hafa kökur og brauðtertur og þannig fær það að vera. Við erum þó svo mikið fyrir osta að mér datt í hug að gera pekanhjúpaða ostakúlu sem ég bauð upp á um áramótin og hreinlega lifði á daginn eftir. Hún var svo brjálæðislega góð! Og þegar ég fékk þá frábæru hugmynd að hafa hana í fermingunni þá áttaði ég mig á því að ég á enn eftir að setja uppskriftina hingað inn. Svo hér kemur hún, ég lofa að þið eigið eftir að vera ánægð með hana!

Pekanhjúpuð ostakúla

Pekanhjúpuð ostakúla

 • 500 g philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
 • 250 g maukaður ananas í dós (crushed)
 • 1/2 bolli græn paprika, hökkuð fínt
 • 2 msk vorlaukur, hakkaður
 • 1/3 bolli pekanhnetur, hakkaðar
 • 1 tsk Lawry´s seasoned salt
 • 3/4 bolli pekanhnetur, hakkaðar

Blandið saman mjúkum rjómaosti, maukuðum og afrunnum ananas, papriku, vorlauki, 1/3 bolla af hökkuðum pekanhnetum og salti. Notið sleif og mótið ostablönduna í skálinni. Setjið filmu á borð og dreifið 3/4 bolla af hökkuðum pekanhnetum yfir. Setjið ostakúluna yfir og veltið upp úr hnetunum þannig þær hjúpi kúluna. Pakkið pekanhjúpaðri kúlunni inn í plastfilmuna og geymið í ísskáp þar til hún er borin fram. Berið fram með kexi.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP