Súkkulaðimús

Súkkulaðimús

Fyrir helgi lét ég verða af því að kaupa mér nýjar eftirréttaskálar. Fyrir valinu urðu Ultima Thule skálarnar frá iittala, ein stór og átta litlar. Mér þykja þær æðislegar! Passlega stórar og fallegar á borði.

Súkkulaðimús

Þar sem spánýjar skálar voru komnar í hús þótti mér tilvalið að bjóða upp á eftirrétt í gærkvöldi. Einfaldasta, fljótlegasta og besta eftirréttinn að mati krakkanna, súkkulaðimús. Með ferskum berjum og jafnvel smá léttþeyttum rjóma er erfitt að standast hana. Mums!

Súkkulaðimús

Súkkulaðimús (fyrir 4)

  • 100 g súkkulaði (gjarnan 50 g rjómasúkkulaði og 50 g suðusúkkulaði)
  • 2 eggjarauður
  • 2,5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Setjið súkkulaðimúsina í 4 skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Gleðilega páska. Ég vona að þið hafið átt gott páskafrí og notið með ykkar nánustu. Hjá okkur hafa síðustu dagar einkennst af góðum mat og afslöppun. Veðrið hefur gert okkur kleift að dóla heima í náttfötunum fram eftir degi án nokkurs samviskubits og við höfum notið rólegheitana.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ég byrjaði páskafríið á að gera granóla með pekanhnetum og morgunverðir undanfarna daga hafa verið létt ab-mjólk með fullt af granóla og ferskum bláberjum. Dásamlega gott!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Í gær saumaði ég gjafapoka sem ég síðan fyllti með heimagerðu granóla, páskalakkrísnum frá Johan Bulow, súkkulaði og fleira vel völdu góðgæti sem við Malín færðum síðan vinkonu minni til að njóta yfir páskana. Okkur þótti það persónulegra en að gefa hefðbundið páskaegg og skemmtilegri gjöf. Nokkurs konar heimagert páskaegg!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Á föstudaginn buðum við mömmu í mat og ég eldaði hægeldað nautakjöt og kartöflugratín sem ég bar fram með fersku salati og tveimur sósum. Nautakjötið var innra læri sem var einfaldlega nuddað með olíu, kryddað með vel af pipar og maldon salti og steikt snögglega við háan hita á öllum hliðum. Eftir það setti ég kjöthitamæli í kjötið og stakk því inn í 120° heitan ofn þar til mælirinn sýndi 70°. Það tók um tvo og hálfan tíma. Mér hefði þótt passlegt að hafa kjötið í 65° en smekkur manna er misjafn og sumir vildu ekki hafa kjötið rautt. Þegar kjötið kom úr ofninum vafði ég álpappír um það á meðan kjötið jafnaði sig.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Með kjötinu gerði ég kartöflugratín eftir uppskrift frá Pioneer Woman. Ég kann varla við að birta hér þriðju uppskriftina úr sömu bókinni, The Pioneer Woman cooks, Food From My Frontier, en gratínið var það besta sem við höfum smakkað! Ég segi bara kaupið bókina, hún er hverrar krónu virði!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ég ákvað að gera bæði bernaise sósu og piparostasveppasósu með kjötinu. Bernaise sósan var fulkomin! Æðisleg uppskrift sem ég fann á uppskriftavef Hagkaups og kemur frá Rikku. Svo dásamlega bragðmikil og góð. Þú finnur uppskriftina hér.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Piparostasveppasósan klikkar aldrei og stendur alltaf fyrir sínu. Um hálfur laukur er skorinn fínt og um 150 g sveppir sneiddir. Laukurinn er mýktur í potti í blöndu af smjöri og ólívuolíu og sveppunum síðan bætt við. Steikt þar til mjúkt og fallegt og þá er 0,5 l. rjóma/matreiðslurjóma, heilum niðurskornum piparosti og hálfum grænmetisteningi bætt í pottinn. Sjóðið við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Kryddið með smá cayenne pipar (farið varlega því hann er sterkur en smá af honum gerir kraftaverk fyrir sósuna) og bætið seinni helmingnum af grænmetisteningnum í pottin ef þörf þykir. Súpergott!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Með þessu bar ég fram gott salat með kokteiltómötum, rauðri papriku, rauðlauk, avokadó, bláberjum og fetaosti.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ljúffeng máltíð sem féll vel í kramið hjá öllum og við lágum afvelta eftir.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Eftirrétturinn var súkkulaðimúsin hennar mömmu sem ég hef þegar birt á blogginu. Þú finnur uppskriftina hér. Það hefur hins vegar komið í ljós að mamma fékk uppskriftina frá systur minni sem býr í Kaupmannahöfn og má því segja að uppskriftin flakki manna á milli, eins og góðar uppskriftir eiga til að gera.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Í dag sváfum við út og hituðum okkur crossant og pains au chocolat í morgunmat áður en páskaeggin voru opnuð. Mér þykir æðislegt að eiga það í frystinum til að hita um helgar. Einfaldara verður það varla! Fæst frosið í Hagkaup og er bæði ódýrara og betra en að fara í bakaríið.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Nutellaostakaka með Oreobotni

Nutellaostakaka með Oreobotni

Börnin mín gætu lifað á Nutella og Malín veit fátt betra en ostakökur. Þegar ég datt niður á uppskrift af Nutellaostaköku á Pinterest var ég því ákveðin í að gera vel við okkur og bjóða upp á kökuna við fyrsta tækifæri.

Nutellaostakaka með Oreobotni

Ég finn alltaf tilefni fyrir eftirrétt. Það dugar að allir séu heima eða gott sjónvarpsefni til að njóta eftirréttarins yfir. Mér þykir það lífga upp á daginn og færa honum örlítinn hversdagslúxus.

Nutellaostakaka með Oreobotni

Þessi ostakaka er æðisleg og krakkarnir voru fljót að hreinsa skálina þegar ég var búin að hræra í fyllinguna. Tilbúna kakan vakti ekki minni lukku og hreinlega hvarf úr skálunum. Núna er beðið eftir að ég bjóði aftur upp á hana, sem ég mun svo sannarlega gera fljótlega!

Nutellaostakaka með OreobotniÞað tekur stutta stund að útbúa þessa dásemd og hráefnalistinn er einfaldur. Þið finnið Cool Whip í frystinum í Hagkaup og best er að láta það þiðna í ísskáp. Það tekur um 4 klst.

Nutellaostakaka með Oreobotni (fyrir 4-6)

Botn:

  • 12 Oreo kexkökur
  • 3 msk smjör, brætt

Fylling:

  • 225 g Philadelphia rjómaostur
  • 2/3 bolli Nutella
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 askja (225 g) Cool Whip (fæst í Hagkaup), sem hefur þiðnað í ísskáp í amk 4 klst.

Botn: Myljið Oreo kexkökurnar (t.d. í matvinnsluvél), bræðið smjörið og hrærið saman. Skiptið blöndunni jafnt á milli þeirra skála eða glasa sem á að bera kökurnar fram í, þrýstið blöndunni í botninn og leggið til hliðar.

Fylling: Setjið rjómaost og Nutella í skál og hrærið saman með handþeytara eða í hrærivél þar til blandan er mjúk og einlit. Hrærið vanilludropum saman við.  Notið sleikju til að blanda Cool Whip saman við blönduna, vinnið allt varlega saman þar til blandan er orðin einlit og engar rendur í henni. Setjið fyllinguna yfir Oreobotninn (ég setti fyllinguna í sprautupoka og sprautaði henni í skálarnar). Setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp þar til borið fram.

Tobleronemús

Tobleronemús

Ég hef eytt síðustu dögum í að kynna mér menntaskólana með Malínu. Mér þykir svo ótrúlegt að það sé komið að þessu og langar allra mest til að stöðva tímann. Hún ákvað að heimsækja skólana sem koma til greina áður en hún tekur lokaákvörðun og ég reyni hvað ég get að sitja á skoðunum mínum og hafa sem minnst áhrif á hana. Það er jú hún sem ætlar að eyða næstu árum á skólabekk, ekki ég. Ég nýt þess þó að taka þátt í þessu með henni, að skoða skólana og heyra hvað henni finnst. Hún hefur alltaf haft sterkar skoðanir og verið skynsöm, ég hef því engar áhyggjur yfir að hún velji annað en rétt.

Tobleronemús

Mér datt í hug að setja inn uppskrift af æðislegri súkkulaðimús sem gæti verið sniðugt að bjóða upp á um helgina. Ég gaf uppskriftina í nýjasta tölublaði MAN magasín. Ég veit ekki hvort ég hafi sagt frá því áður en ég hef gefið uppskriftir í MAN frá upphafi og ef þið hafið ekki skoðað blaðið hvet ég ykkur til þess því það er æðislegt. Ég verð alltaf jafn glöð þegar ég kem heim og nýtt tölublað bíður mín.

Tobleronemús

Tobleronamús

  • 100 g Toblerone
  • 100 g dökkt Toblerone eða suðusúkkulaði
  • 4 eggjarauður
  • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið það kólna örlítið og hrærið síðan eggjarauðum saman við þar til blandan er slétt. Léttþeytið rjómann og hrærið honum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum. Setjið í skálar og látið standa í ísskáp þar til Tobleronemúsin hefur stífnað.

Blóðappelsínu ostakaka

Blóðappelsínu ostakaka

Þegar ég verslaði inn um helgina sá ég að ávöxtur mánaðarins í Hagkaup er blóðappelsína. Þær voru svo girnilegar að ég greip tvo poka með mér. Við vorum fljót að klára fyrri pokann, enda gjörsamlega ómótstæðilegar kaldar og safaríkar úr íssápnum, en hinn fékk að fara í ostaköku sem ég hef haft augastað á og beðið eftir tækifæri til að baka.

Blóðappelsínu ostakaka

Ég var svo heppin að eiga von á tengdaforeldrum mínum í mat kvöldið eftir og gat því boðið þeim upp á ostakökuna í eftirrétt. Kakan vakti mikla lukku því bæði er hún falleg á borði og smakkast dásamlega. Frískandi og fullkominn eftirréttur að mínu mati.

Blóðappelsínu ostakaka

Ég bakaði kökuna deginum áður og gerði efsta lagið daginn sem ég bar hana fram. Í fljótu bragði lítur kakan kannski út fyrir að vera flókin og tímafrek en svo er nú ekki. Það tekur enga stund að gera kökuna og það er jafnvel betra að gera hana með dags fyrirvara, sem mér þykir geta verið mikill kostur.

Nutella

Að lokum vil ég benda á að á morgun er alþjóðlegi Nutella-dagurinn og því um að gera að nýta tækifærið og bjóða upp á góðgæti með Nutella í. Þú finnur nokkrar góðar uppskriftir hér á blogginu, t.d. þessa mjúku Nutellaformköku sem er æðisleg með kaldri mjólk, bananaköku með Nutellakremi sem hefur fengið mikið hrós, bananabrauð með Nutella sem á eftir að hverfa ofan í mannskapinn á svipstundu, hnetusmjörs- og Nutella kökur, hafrakökur með bönunum og Nutella, hnetusmjörs- og bananapönnukökur með Nutellasýrópi sem slá alltaf í gegn á morgunverðarborðinu og heitur Nutella súkkulaðidrykkur sem tekur enga stund að gera.

Blóðappelsínu ostakaka

Botninn

  • 200 g Digestivekex
  • 50 g piparkökur
  • 100 g smjör

Lag 1

  • 450 g Philadelphia ostur
  • um 1 msk rifið hýði af blóðappelsínu (passið að taka bara ysta lagið og ekki hvíta hlutann, hann gefur beiskt bragð)
  • 2 msk safi úr blóðappelsínu
  • 3 egg
  • 1¼ dl sykur

Lag 2

  • 3 dl sýrður rjómi
  • 3 msk sykur
  • 1 msk vanillusykur

Lag 3

  • 1½ dl safi úr blóðappelsínum
  • 2 matarlímsblöð

Hitið ofninn í 180°.

Myljið kexin og blandið bræddu smjöri saman við. Þrýstið blöndunni í botn á 24 cm kökuformi og bakið í 5-10 mínútur.

Setjið öll hráefnin í lag 1 í matvinnsluvél og vinnið saman í jafnt deig (það er líka hægt að nota töfrasprota). Hellið deiginu yfir forbakaðann kexbotninn og bakið neðarlega í ofninum í 25 mínútur. Passið að baka kökuna ekki lengur svo hún verði ekki þurr.

Hrærið hráefnunum í lag 2 saman og breiðið yfir kökuna. Bakið í 5 mínútur til viðbótar. Látið kökuna kólna alveg (helst í ísskáp yfir nóttu) áður en lag 3 er sett yfir.

Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn. Hitið safann úr blóðappelsínum í potti. Takið af hitanum, kreystið vökvann frá matarlímsblöðunum og bætið blöðunum í pottinn. Hrærið þar til matarlímsblöðin hafa bráðnað. Látið kólna aðeins áður en blöndunni er hellt varlega yfir kökuna. Látið kökuna standa í ísskáp þar til hlaupið hefur stífnað.

Berið kökuna fram kalda úr ísskáp og gjarnan með þeyttum rjóma.

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Eru þið búin að kíkja á útsölurnar? Ég ætla að halda mér frá þeim en gerði þó eina undantekningu og keypti mér þriggja hæða fatið sem þið sjáið hér fyrir ofan í Ilvu fyrir 1500 krónur. Mér þótti það svo fallegt og kjörið til að bera fram sætindin í um áramótin.

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Ég ætla að gera hlé á vikumatseðlinum þessa vikuna þar sem áramótin einkenna hana með viðeigandi frídögum. Ég er alltaf með heilsteiktan kalkún á gamlárskvöld en í ár ætla ég að bregða út af vananum og prófa smjörsprautuðu kalkúnabringurnar frá Hagkaup. Ég hef heyrt vel af þeim látið og hlakka til að prófa. Við verðum líka með kalkúnabringur í salvíusmjöri sem Öggi fékk í jólagjöf frá vinnunni sinni. Hvað eftirréttinn varðar þá hallast ég að því að gera tíramísú úr nýju bókinni hennar Rikku, Veisluréttir Hagkaups, sem ég fékk í afmælisgjöf. Ég hef undanfarin jól gert tíramísú eftir gamalli uppskrift frá Rikku en þar sem ég get ómögulega fundið hana þá ætla ég að prófa nýju uppskriftina (þú finnur hana hér). Kannski er þetta sama uppskriftin en ég man þó að sú gamla var með núggatsúkkulaði.

Ef þið eruð líka í eftirréttahugleiðingum fyrir komandi veisluhöld þá er ég með nokkrar tillögur sem ég mæli með:

Ísbaka með bourbon karamellu

1. Ísbaka með bourbon karamellu. Brjálæðislega góð baka úr smiðju Nigellu Lawson sem ég er að gæla við að bæta á eftirréttaborðið hjá mér um áramótin.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

2. Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi. Ég á hálfa böku í frystinum síðan um daginn sem ég hef bannað fjölskyldumeðlumum að snerta því ég ætla að draga hana fram um áramótin, þó að það sé búið að borða helminginn af henni! Ég þarf bara aðeins að fegra bökuna með jólastafabrjóstsykri eða bismarkbrjóstsykri og þá mun hún sóma sér vel á eftirréttaborðinu.

Oreo-ostakaka

3. Oreo-ostakaka þykir mér fara vel á eftirréttaborðinu og get lofað að hún mun falla í kramið hjá öllum aldursflokkum.

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

4. Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu er algjör bomba og fullkomin áramótaterta. Það væri smart að stinga stjörnuljósum í hana rétt áður en hún er borin fram.

súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi

5. Einföld súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi er einfaldur eftirréttur sem krakkarnir mínir elska. Mér þykir hnetumulningurinn ómissandi með.

Karamelluperur

KaramelluperurÞá er einn besti dagur vikunnar runninn upp og sólin skín. Mig hefur langað til að baka möffins síðan ég fyllti skápinn af ýmiskonar kökuskrauti um daginn. Að eyða góðum tíma í eldhúsinu með krökkunum og leyfa þeim að skreyta kökurnar að vild. Þrátt fyrir góðviðrið er ég að spá í að láta verða af þessum bakstri í dag en fyrst ætla ég að drífa mig með Ögga í smá göngutúr í þessu fallega veðri.

Karamelluperur

Við erum komin með æði fyrir heitum karamelluperum sem við njótum með vanilluís. Ég bauð upp á þær sem eftirrétt um síðustu helgi og fengum okkur þær aftur í gærkvöldi. Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar að prófa.

Karamelluperur

Karamelluperur (uppskrift frá Matplatsen)

  • 4 perur
  • ½ vanillustöng
  • 2 msk smjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl rjómi

Afhýðið perurnar og skerið í báta. Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin úr.

Bræðið smjör á pönnu og bætið síðan perum, vanillustöng og vanillufræjum á pönnuna. Stráið sykri yfir. Steikið þar til perurnar hafa fengið fallegan lit og lækkið síðan hitann. Setjið lok á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til perurnar eru nánast mjúkar (suðutíminn er misjafn eftir perum, hjá mér hafa um 15 mínútur dugað). Bætið rjóma á pönnuna og látið sjóða áfram í 5-10 mínútur án loks.

Berið perurnar fram heitar með góðum vanilluís.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Þar sem ég fæ reglulega fyrirspurnir um hvar Marshmallow creme fáist þá má ég til með að benda á að það fæst núna á amerískum dögum í Hagkaup. Það hefur verið erfitt að fá marshmallow creme hér á landi en annað slagið dúkkar það upp og þá er um að gera að hlaupa til svo hægt sé að baka frosnu bismarkbökuna með marshmellowkreminu. Ef þið hafið enn ekki gert hana þá hvet ég ykkur til þess.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég birti uppskriftina af bökunni fyrir tæpu ári síðan en hún þolir vel að vera birt hér aftur. Mér þykir hún ómissandi sem eftirréttur um jól eða áramót og ekki skemmir fyrir að hægt sé að gera hana með góðum fyrirvara og geyma í frysti.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Botn:

  • 20 súkkulaðikexkökur, t.d. Maryland
  • 2 msk kakó
  • 25 g brætt smjör

Bismarkkrem

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós marshmalowkrem (fæst t.d. í Hagkaup, sjá mynd)
  • Nokkrir dropar af piparmintudropum
  • nokkrir dropar af rauðum matarlit
  • 1 dl bismarkbrjóstyskur + nokkrir til skrauts

Súkkulaðisósa:

  • 125 g dökkt súkkulaði
  • 75 g smjör
  • ½ dl sykur
  • ½ dl sýróp
  • ½ dl vatn
  • smá salt

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Setjið kex, kakó og brætt smjör í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið blöndunni í smelluform með lausum botni (það getur verið gott að klæða það fyrst með smjörpappír) og setjið í frysti.

Þeytið rjómann og blandið marshmallowkreminu varlega saman við. Passið að hræra marshmallowkreminu ekki of vel saman við rjómann, það á að vera í litlum klessum í rjómanum. Hrærið nokkrum dropum af piparmintudropum saman við (smakkið til, mér þykir passlegt að nota ca 1 tsk.).  Setjið um þriðjung af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Myljið bismarkbrjóstsykurinn í mortéli og blandið honum saman við stærri hluta kremsins. Takið kökubotninn úr frystinum og breiðið kreminu með bismarkbrjóstsykrinum yfir hann.  Hrærið nokkrum dropum af rauðum matarlit saman við kremið sem var lagt til hliðar og breiðið það yfir hvíta bismarkkremið. Notið hníf til að mynda óreglulega áferð í kremið.

Frystið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkutíma. Takið hana úr frystinum 10-15 mínútum áður en það á að bera hana fram. Skreytið með bismarkbrjóstsykri.

Setjið öll hráefnin í súkkulaðisósuna í pott. Látið suðuna koma upp við vægan hita og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur eða þar til sósan er orðin þykk og glansandi.

Berið sósuna fram heita eða kalda með kökunni.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Brownies með saltri karamellusósu

Brownies með saltri karamellusósu

Í lok janúar pantaði ég mér áskrift að Bon Appétit blaðinu. Síðan þá hef ég brunað spennt heim úr vinnunni í von um að blaðið biði mín og það var ekki fyrr en í síðustu viku sem það loksins datt inn um lúguna hjá okkur. Ég var eiginlega búin að gefa upp vonina.

Brownies með saltri karamellusósu

Blaðið reyndist biðarinnar virði og ég hef nú þegar prófað tvær uppskriftir sem hafa báðar slegið í gegn hjá okkur. Þessar brownies með saltri karamellusósu er önnur uppskriftanna og hamingjan hjálpi mér hvað þær voru góðar. Ég bar þær fram í matarboði sem eftirrétt á skírdag og þær einfaldlega fullkomnuðu máltíðina. Klárlega bestu brownies sem ég hef á ævi minni smakkað og ég get ekki beðið eftir tækifæri til að bjóða upp á þær aftur.

Brownies með saltri karamellusósu

Það má gera brownie-kökuna deginum áður. Setjið þá plast yfir hana og geymið við stofuhita. Karamellusósuna má gera með viku fyrirvara. Setjið hana í lokaðar umbúðir og kælið. Hitið hana upp áður en hún er borin fram.

Brownies með saltri karamellusósu (uppskrift úr Bon Appétit)

  • 1 msk kakó
  • ½ bolli (115 g) ósaltað smjör
  • 85 g ósætt súkkulaði (með sem hæsta kakóinnihaldi, helst yfir 80%), hakkað
  • 55 g suðusúkkulaði, hakkað
  • 2/3 bolli hveiti
  • 1 msk instant espresso kaffiduft
  • 1/4 tsk gróft salt
  • 2 stór egg
  • 1 bolli sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/3 bolli grófhakkað suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 175°. Smyrjið kökuform sem er 20×20 cm og stráið kakó yfir það. Hellið því kakói frá sem ekki festist.

Bræðið smjör, ósætt súkkulaði og suðusúkkulaði saman í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og hrærið blöndunni saman í slétt krem. Leggið til hliðar.

Hrærið hveiti, espressó dufti, grófu salti og 1 msk kakó saman í skál. Leggið til hliðar.

Hrærið egg og sykur saman í hrærivél (eða með handþeytara) á hröðustu stillingu þar til blandan verður ljós og þykk, um 2 mínútur. Hrærið vanilludropunum saman við. Hrærið súkkulaðiblöndunni varlega saman við og þar á eftir þurrefnunum. Passið að ofhræra ekki deigið heldur einungis hræra það saman þar til blandan er kekkjalaus. Hrærið 1/3 bolla af grófhökkuðu suðusúkkulaði saman við og setjið deigið í kökuformið.

Bakið þar til prjóni stungið í deigið kemur með mjúkri mylsnu upp, eða í 20-25 mínútur. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í forminu.

Sölt karamellusósa

  • 1/2 bolli sykur
  • 2 msk vatn
  • 2 msk ósaltað smjör, skorið í litla bita
  • 2 msk rjómi
  • sjávarsalt

Setjið sykur og vatn í lítinn pott og hitið á miðlungsháum hita (ég var með stillingu 5 af 9) þar til byrjar að sjóða. Hrærið í pottinum þar til sykurinn leysist upp. Þegar byrjar að sjóða í pottinum þá er hitinn hækkaður örlítið (ég hækkaði hann í stillingu 6) og hætt að hræra í pottinum. Veltið pottinum annað slagið og burstið niður með hliðunum með blautum pensli. Látið sjóða þar til sykurinn er orðinn fallega gylltur á litinn, það tekur 5-8 mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið smjöri og rjóma saman við (blandan mun bullsjóða við þetta). Hrærið í pottinum þar til blandan er slétt. Látið karamellusósuna kólna aðeins í pottinum.

Skerið brownies-kökuna í bita, hellið volgri karamellusósunni yfir og stráið sjávarsalti yfir karamellusósuna.

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ég fékk tölvupóst frá Svanhvíti systur minni sem býr í Kaupmannahöfn þar sem hún sagðist vera orðin langeyg eftir uppskrift að kökunni sem ég bauð henni og manninum hennar upp á þegar þau voru stödd hér á landinu um daginn. Maðurinn hennar var svo hrifinn af kökunni að hann hefur ekki hægt að hugsa um hana. Svanhvít ætlar því að baka hana fyrir hann og ég stekk að sjálfsögðu til og birti uppskriftina hér í einum grænum.

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ég fékk uppskriftina senda eins og bréf frá himnum eftir að hafa setið og velt því fyrir mér hvað ég ætti að hafa í eftirrétt handa þeim. Unnur, mágkona mín sem er búsett í Svíþjóð, hafði keypt sér matreiðslublað þar sem þessa uppskrift var að finna. Hún veit hvað ég er veik fyrir góðum kökum og ákvað því að taka mynd af uppskriftinni og senda mér. Ég hugsaði extra hlýtt til hennar að kvöldi sama dags þegar ég bar kökuna fram, aðeins of mikið bakaða en samt svo dásamlega góða.

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ostakökubrownies

Browniesdeigið:

  • 200 g smjör
  • 200 g dökkt súkkulaði
  • 4½ dl flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 3 egg
  • 2 dl hveiti

Ostakökudeigið:

  • 200 g rjómaostur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 dl flórsykur
  • 1 egg

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið. Hakkið súkkulaðið og látið það bráðna í smjörinu. Hrærið saman flórsykur, vanillusykur og egg. Hellið blöndunni í súkkulaðismjörið. Hrærið hveitinu varlega saman við.

Ostakökudeigið: Hrærið rjómaost, vanillusykur, flórsykur og egg saman þar til blandan verður slétt.

Setjið smjörpappír í skúffukökuform (ca 25×35 cm). Setjið súkkulaðideigið í formið. Hellið ostakökudeiginu yfir og blandið deigunum varlega saman með skeið. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mínútur. Látið kólna í forminu og skerið svo í bita.

Bismarkrjómi

  • 1 dl bismarkbrjóstsykur
  • 3 dl þeyttur rjómi

Myljið bismarkbrjóstsykurinn fínt niður. Þeytið rjómann og blandið saman við bismarkmulninginn.