Bragðmikið og hollt túnfisksalat með sólþurrkuðum tómötum og ólívum

Túnfisksalat með sólþurrkuðum tómötum og ólívum

Ég hef aldrei haft jafn lítið fyrir jólunum í ár og mér líður eins og ég sé að svíkjast undan eða gleyma einhverju. Jólagjafirnar eru keyptar, smákökurnar hafa verið bakaðar (og borðaðar… og bakaðar aftur) og um daginn sló ég til og keypti gervijólatré. Ég hef undanfarin ár verið með lifandi tré og endurtekið sömu vitleysuna, þ.e. að keyra á milli verslana (tek heilan dag í þetta) og þykja öll tréin ljót, enda á að kaupa það skársta og um leið og ég hef komið með það heim orðið handviss um að tréð sé fullt af pöddum. Þá hef ég sett það í sturtu og látið það dúsa þar yfir nóttina. Á þessum tímapunkti dauðsé ég eftir að hafa keypt lifandi tré og ekki staðið við loforð fyrra árs um að kaupa aldrei aftur lifandi tré. Gjörsamlega galin hegðun sem endurtekur sig á hverju ári! En í ár ákvað ég að láta vaða beint í gervitréið og hlakka til að sleppa við dramakastið. Ég vona að ég eigi ekki eftir að sjá eftir því eða fá dramakast yfir að vera ekki með lifandi tré. Það væri nú eitthvað…

Túnfisksalat með sólþurrkuðum tómötum og ólívum

En á meðan beðið er eftir jólunum reyni ég að halda mér nokkurn veginn á mottunni matarlega séð. Það er jú svo mikil matarveisla framundan. Mér var um daginn bent á túnfisk í chillisósu sem væri svo góður. Ég hef aldrei tekið eftir honum áður en kannski hefur hann verið til lengi? Ég ákvað að nota hann í heilsusamlegt túnfisksalat sem heppnaðist æðislega vel og hefur verið snarlið mitt undanfarna daga. Það er svo gott að eiga salatið í ísskápnum og frábært að setja ofan á hrökkbrauð (og enn betra á Ritzkex). Salatið er bragðmikið og fullkomið sem snarl eða í saumaklúbbinn.

Túnfisksalat með sólþurrkuðum tómötum og ólívum

Bragðmikið túnfisksalat með sólþurrkuðum tómötum og ólívum

  • 1 dós túnfiskur í chillisósu (frá Ora)
  • 5 sólþurrkaðir tómatar frá Sacla
  • 10 ólívur
  • 1/4 – 1/2 rauðlaukur
  • 2 dl kotasæla

Hakkið tómata og rauðlauk, setjið allt í skál og hrærið vel saman.

Túnfisksalat með sólþurrkuðum tómötum og ólívumTúnfisksalat með sólþurrkuðum tómötum og ólívum

Vikumatseðill

Ég hef ekki náð að sinna blogginu eins og ég hefði viljað þessa vikuna. Ástæðan er einfaldlega sú að það hefur allt verið á haus hjá mér. Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni, ég er búin að standa í framkvæmdum hér heima og mitt í öllu var ég með tvö matarboð og fór í eitt afmæli. Helgin hefur verið nýtt í að leggja lokahönd á framkvæmdirnar, koma öllu aftur á sinn stað og þrífa. Í dag verða svo gerð stórinnkaup, ekki degi of seint því ísskápurinn er hálf tómur. Það verður dásamlegt að sigla inn í nýja viku með hreint heimili og ísskápinn fullan af mat. Hversdagsleikinn getur verið svo ljúfur…

Vikumatseðill

Steiktur fiskur í pulsubrauði

Mánudagur: Steiktur fiskur í pulsubrauði

Nautahakks og makkarónupanna

Þriðjudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Ferskt tortellini í pestósósu

Miðvikudagur: Tortellini í pestósósu

Kjúklingalaksa

Fimmtudagur: Laksa með kjúklingi

Grísk pizza

Föstudagur: Grísk pizza

Súkkulaði- og bananakaka

Með helgarkaffinu: Súkkulaði- og bananakaka

Tacos með rauðum linsubaunum

Tacos með rauðum linsubaunum

Ég er að reyna að hafa að minnsta kosti einn kjötlausan dag í viku. Það ætti ekki að vera svo erfitt en virðist þó ekki gerast sjálkrafa hjá mér. Ég á það til að mikla þetta verkefni fyrir mér þó ég viti vel að það er til svo mikið af góðum kjötlausum réttum og þeir þurfa ekki að vera flóknir. Það er til dæmis snjallt að vera með súpur eins og blómkálssúpu, sveppasúpu, aspassúpu eða tómatsúpu eitt kvöld í viku og þar með er málið leyst. Eða að gera grænmetispizzu á föstudagskvöldinu sem er poppuð upp með hnetum, góðum ostum og hvítlauksolíu (ég bauð upp á þannig í matarboði sem ég var með síðasta föstudagskvöld og sló í gegn). Síðan hef ég nokkrum sinnum gert tacos með baunum í staðin fyrir nautahakk og það er alls ekki síðra, og jafnvel betra, en með nautahakki og mun ódýrara.

Tacos með rauðum linsubaunum

Þetta er svo einfalt að það hálfa væri nóg. Ég kaupi rauðar linsubaunir (ég nota frá Sollu, en hægt er að nota hvaða tegund sem er) því þær passa stórvel í tacos. Það þarf ekki að leggja þær í bleyti, þær hafa stuttan suðutíma og kosta lítið. Þegar þær hafa soðið í 10 mínútur verða þær mjúkar og klessast aðeins saman. Undir lokin á suðutímanum bæti ég tacokryddi saman við og útkoman er æðisleg.

Tacos með rauðum linsubaunum

Það eina sem ég geri er að skola baunirnar og setja þær í pott í hlutföllunum 1 dl. rauðar linsubaunir á móti 2-3 dl af léttsöltuðu vatni. Þegar mest allt vatnið hefur soðið burt er tacobréfi hrært saman við og látið sjóða með í lokin. Ég ber baunirnar fram í stökkum tacoskeljum með salsa, avokadó (átti guacamole sem ég notaði í staðin fyrir avokadó), tómötum, gúrku, káli, rauðlauk, sýrðum rjóma, ostasósu og nachos. Það þarf ekki svona mikið meðlæti, notið bara það sem þið eigið eða hafið löngun í!

Boeuf bourguignon

Boeuf bourguignon

Ég furða mig stundum á því hvað ég get látið mig dreyma um hluti í langan tíma án þess að fjárfesta í þeim. Ég veit til dæmis ekki hvað mig hefur lengi langað í góðan steypujárnspott og hversu oft ég hef skoðað þá, án þess að kaupa mér slíkan. Ég á einn fínan úr Ikea en hann er full lítill og mig hefur langað í stærri pott. Pott sem ég get eldað kvöldmat fyrir fjölskylduna í.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Að því sögðu get ég nú glöð sagt frá að það flutti nýr steypujárnspottur inn í eldhúsið mitt á dögunum. Hann er æðislegur! Frábært að elda í honum og fallegur á borði. Fyrir valinu varð pottur frá Pyrex, en þeir voru þróaðir í samstarfi við NASA og þola frá -40°upp í 800°hita! Pottarnir eru að fá svo frábæra dóma og eftir að ég rakst á þá í Hagkaup fannst mér spennandi að slá til. Þeir eru frábærir til að hægelda mat en einnig til að baka ofnbrauð, eins og t.d. New York times-brauðið góða.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Fyrsti rétturinn sem ég eldaði í pottinum langþráða var boeuf bourguignon, sem fékk að hægeldast yfir daginn og almáttugur minn eini hvað rétturinn var góður. Ég bar réttinn bara fram með heimagerðri kartöflumús enda þurfti ekki meira meðlæti. Kjötið bráðnaði í munni og sósan var dásamlega bragðgóð.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Boeuf bourguignon – uppskrift fyrir 6

  • 1 kg nautahnakki
  • 200 g beikon
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 4 dl rauðvín
  • 2 msk tómatpúrra
  • 2 nautateningar
  • vatn (ca 6 dl, eða eins og þarf til að rétt fljóta yfir kjötið)
  • 10 sveppir
  • 5 perlulaukar
  • ólífuolía og smjör
  • salt og pipar
  • 2 lárviðarlauf
  • 1/2 tsk timjan
  • steinselja
Skerið kjötið í passlega stóra grýtubita og skerið beikonið í strimla. Hakkið laukinn. Bræðið smjör og olíu á pönnu við háan hita og steikið nautakjötið og laukinn, gjarnan í nokkrum skömmtum svo að kjötið brúnist vel. Saltið og piprið kjötið vel. Færið yfir í steypujárnspott og bætið vatni, rauðvíni, nautakraftsteningum, tómatpúrru og pressuðum hvítlauk í pottinn. Látið pottinn yfir miðlungsháan hita (sirka stilling 3-4 af 9). Steikið núna beikonið á pönnunni sem kjötið var á og bætið því svo í pottinn, sem ætti núna að vera byrjaður að sjóða vægt. Bætið timjan og lárviðarlaufi í pottinn og leyfið nú að sjóða í amk 1-2 klst en því lengur því betra (ég lét réttinn sjóða við mjög vægan hita allan daginn, örugglega hátt í 6 klst). Rétt áður en rétturinn er borinn fram eru sveppirnir skornir í fernt ásamt perlulauknum, steikt í vel af smjöri og síðan bætt í pottinn og látið liggja þar í smá stund. Áður en rétturinn er borinn á borð er hakkaðri ferskri steinselju stráð yfir.

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Í síðustu viku gerðum við okkur glaðan miðvikudag, eða öllu heldur glatt miðvikudagskvöld. Við gerum það ósjaldan, enda vikan þá rúmlega hálfnuð og því kjörið tilefni til að gera vel við sig. Ég eldaði einfaldan pastarétt, bakaði brauð og opnaði hvítvínsflösku. Þegar ég bar réttinn fram hugsaði ég með mér að þetta væri nú hálf ómerkileg máltíð en átti fljótt eftir að skipta um skoðun. Við gátum ekki hætt að borða því rétturinn var svo góður og daginn eftir börðust strákarnir um það sem eftir var.

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Til að gera góða máltíð betri má hafa í huga að það er mjög gott að bera pastaréttinn fram með nýbökuðu brauði og pestó. Það má þá jafnvel hræra smá pestói saman við pastað ef það er stemning fyrir því. Síðan er gott að eiga góðan parmesan til að rífa yfir og alls ekki spara hann. Og þar sem það fer hvítvín í réttinn er upplagt að bera hann fram með köldu hvítvínsglasi til að flaskan sé ekki opnuð til einskis…

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan (uppskrift fyrir 4-6)

  • 1 rauðlaukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 100 g salami (þunnt skorið, notið góða tegund)
  • 1 poki furuhnetur
  • 1 dl hvítvín
  • ólívuolía
  • 250 g ostafyllt ferskt ravioli (4 formaggi)
  • 150 g pasta
  • ruccola eftir smekk (2-3 góð handfylli)
  • parmesan (ekki spara hann)

Fínhakkið rauðlauk og hvítlauk og skerið salamisneiðarnar i fernt. Steikið lauk, hvítlauk, salami og furuhnetur í vel af ólívuolíu í 2 mínútur. Bætið hvítvíni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita. Sjóðið pastað. Hellið smá af pastavatninu á pönnuna og bætið síðan soðnu pastanu líka á pönnuna. Blandið öllu vel saman. Setjið pastablönduna í skál og blandið ruccola saman við. Rífið vel af parmesan yfir og berið fram, gjarnan með hvítlauksbrauði.

Föstudagur!

SpánnÞað hefur verið þögn hér á blogginu upp á síðkastið og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa kannski séð að ég hef verið í smá haustfríi. Við fórum til Spánar og framlengdum sumrinu aðeins í leiðinni. Það var yndislegt þrátt fyrir að ég náði mér í flensuskít sem virðist ekki ætla að fara úr mér. Alveg glatað!

SpánnÞað kom mér á óvart hversu skemmtileg borg Alicante er. Ég áttaði mig á því að ég hef vanmetið hana stórlega. Þröngar götur, góðir veitingastaðir og hótelið okkar var frábærlega staðsett á ströndinni. Eftir viku í Alicante færðum við okkur til Calpe og þangað ætla ég að fara aftur. Við gistum á þessu hóteli sem var æðislegt í alla staði. Kampavínsbar, æðisleg sólbaðsaðstaða, einn besti morgunmatur sem við höfum fengið (úrvalið gaf valkvíða á háu stigi, himneskt eftirréttahlaðborð og í glösunum var ýmist cava, nýpressaður appelsínudjús eða nespressó) og frábærlega staðsett á ströndinni með veitingastaði allt um kring.

SpánnEins gott og það er að fara í frí þá jafnast ekkert á við að koma aftur heim. Það sem ég saknaði krakkana! Helgin verður nýtt í að ná sér af veikindum (þetta er hálfgert flensubæli hér þessa dagana), fylla á ísskápinn og plana næstu viku. Okkur er farið að langa í heita lifrapylsu, kartöflumús og rófustöppu, kannski að það fari á matseðil komandi viku. Haustlegur matur og ég brýt eflaust allar reglur með því að bera hann fram með Egils appelsíni (það drekkur það þó enginn nema ég). Iss, að ég skuli segja frá þessu…

Spánn

Hægeldað nautachilli

Hægeldað nautachilliNú er löng helgi framundan og eflaust einhverjir farnir að huga að matseðli helgarinnar. Um daginn eldaði ég nautachillirétt sem okkur þótti æðislegur og ég má því til með að stinga upp á honum sem helgarmatnum. Rétturinn þarf sinn tíma á pönnunni og því upplagt að nýta frídag í eldamennskuna. Þetta er kjörinn réttur fyrir saumaklúbbinn eða matarboð því hann verður bara betri eftir að hafa staðið í ísskáp í nokkra daga. Mér þykir oft þægilegt að geta unnið á undan mér þegar ég á von á gestum.

Hægeldað nautachilli

Ég bar réttinn fram með tortillum, guacamole (ég kaupi tilbúið ferskt guacamole í Hagkaup), sýrðum rjóma, pækluðum rauðlauk og nachos. Ekki skemmir fyrir að bjóða upp á kaldan Corona bjór með. Súpergott!

Hægeldað nautachilli

Hægeldað nautachilli

  • 1,2 kg nautakjöt
  • 1 tsk salt
  • 150 g beikon
  • 2-3 msk ólívuolía
  • 1 laukur, fínhakkaður
  • 2 chili, fínhökkuð
  • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 400 g hakkaðir tómatar í dós (1 dós)
  • 1 msk limesafi
  • 4 dl vatn
  • 1 msk maizenamjöl + vatn
  • salt og pipar

Kryddblanda

  • 1 msk chilikrydd
  • 2 tsk cumin
  • 1 tsk oreganó
  • 0,5 dl vatn

Skerið mestu fituna af nautakjötinu og skerið kjötið síðan í 3 cm þykka bita. Saltið með 1 tsk af salti og blandið saman í skál. Leggið til hliðar.

Blandið kryddum í kryddblöndunni saman og leggið til hliðar.

Steikið beikonið á djúpri pönnu á miðlungsháum hita þar til það verður stökkt. Takið beikonið af pönnunni og leggið til hliðar. Setjið beikonsteikingarfituna í skál og geymið.

Steikið kjötið í skömmtum í blöndu af beikonsteikingarfitu og ólívuolíu. Steikið þar á eftir fínhakkaðan laukinn. Bætið hökkuðu chili og hvítlauk á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur til viðbótar. Bætið þá kryddblöndunni á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur.

Bætið nautakjöti, hökkuðum tómötum, limesafa og vatni á pönnuna. Setjið lok yfir og látið chiliréttinn sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir. Bætið beikoni saman við undir lokin og látið sjóða með síðustu 5 mínúturnar.  Blandið maizenamjöli og smá vatni saman í skál og hrærið saman við chiliréttinn. Látið sjóða aðeins áfram, rétturinn mun þykkna við þetta. Smakkið til með salti og pipar. Berið strax fram eða látið réttinn standa í ísskáp í 2-3 daga – hann verður bara betri við það!

Hægeldað nautachilli

 

Föstudagskvöld og góð ídýfa

Föstudagskvöld og góð ídýfaÞá er besta kvöld vikunnar enn og aftur runnið upp. Ég dundaði mér í sumarfríinu við að prjóna vettlinga, fyrst fyrir mig en þá langaði Malínu líka í þannig að ég prjónaði aðra fyrir hana. Þá langaði Gunnari líka í vettlinga og ég byrjaði að prjóna fyrir hann en lagði þá frá mér áður en ég kláraði og í prjónakörfunni hafa þeir legið síðan. Nú er hins vegar farið að kólna svo í veðri að verkefni kvöldsins er að klára vettlingana þannig að hann geti farið að nota þá.

Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa

Sjónvarpssnarlið í kvöld er einfalt og gott. Avokadó er stappað í botn á skál, sýrður rjómi settur yfir og að lokum salsasósa yfir allt. Borið fram með nachos (helst svörtu Doritos). Súpergott!

Föstudagskvöld og góð ídýfa

Eigið gott föstudagskvöld 

Föstudagskvöld

FöstudagskvöldFöstudagskvöld

Góða kvöldið!

Mig langar að benda ykkur á að Hagkaup er með 20% afslátt af Margrétar skálunum þessa dagana. Í tilefni af 60 ára afmæli skálanna komu þær aftur í gömlu retro litunum sem eru dásamlega fallegir. Ég stökk til um leið og þær komu og keypti mér fjórar skálar í mismunandi stærðum (ég valdi bleikar og bláar en hefði vel getað hugsað mér þær allar). Ég hef átt eina Margrétarskál í fjölda mörg ár og nota hana stöðugt. Mamma á skálarnar hins vegar í öllum stærðum. Þessar dönsku skálar eru margverðlaunaðar og hafa meira að segja verið á frímerki í Danmörku!

Við erum nýbúin að borða kvöldmatinn (tacogratín – svoooo gott!), strákarnir eru að velja mynd og kvöldinu ætlum við að eyða í sjónvarpssófanum.  Ég get ekki hugsað mér betri stað á föstudagskvöldum en hér heima í afslöppun eftir vikuna. Ég er enn í sæluvímu eftir Svíþjóðarferðina og þegar ég datt niður á sænskt snakk í vikunni var ég fljót að kippa með mér tveimur pokum sem eru komnir í skál núna.

Föstudagskvöld

Svíþjóðarferðin var yndisleg í alla staði. Veðrið lék við okkur og við höfðum það svo gott. Stokkhólmur er borg sem allir ættu að heimsækja. Fyrir mér er ferð í Iittala outlettið ómissandi í Stokkhólmsheimsóknum og ég mátti til með að smella af nokkrum myndum þar til að sýna ykkur.

FöstudagskvöldFöstudagskvöldFöstudagskvöldFöstudagskvöldFöstudagskvöld

Himnaríki!

Eigið gott föstudagskvöld 

Besta poppið!

Besta poppið!Ég má til með að benda ykkur á popp sem ég uppgötvaði nýlega (kannski síðust af öllum!) og er nýjasta æðið hér á heimilinu, Orville simply salted í pop up bowl. Poppið er fituminna en hefðbundið popp og með mjög góðu saltbragði. Malín var búin að sjá það víða á amerískum síðum og var spennt að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, svo æðislega gott!!Besta poppið!

Annars sit ég hér, með nýpoppað popp og tímarit, að bíða eftir að verða sótt. Við vinkonurnar ætlum að skella okkur í smá frí til Stokkhólms út vikuna. Ég læt frá mér heyra ef færi gefst en annars verð ég á instagram (heiti ljufmeti þar).

Besta poppið!