Kjúklingur í panang karrý

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að gera helgarplön. Sjálf sé ég fram á rólega helgi og hafði því hugsað mér að halda áfram að horfa á Big Little Lies. Við erum búin með fyrstu tvo þættina á jafn mörgum vikum og ég búin að lýsa því yfir hér heima að við munum fara langt með seríuna yfir helgina. Nú er því bara að standa við stóru orðin og leggjast í sófann með popp og nammi.

Fyrir þá sem eru að velta helgarmatnum fyrir sér þá mæli ég með þessum kjúklingi í panang karrý sem við vorum með í kvöldmat um daginn. Ég panta mér alltaf panang karrý þegar ég fer á tælenska veitingastaði og fæ ekki leið á því. Þessi réttur er bæði fljótgerður og súpergóður. Ég mæli með að prófa!

Kjúklingur í panang karrý

Panangkarrýmauk

  • 3 msk rautt karrýmauk
  • 1 msk hnetusmjör (creamy)
  • 1/2 tsk kórianderkrydd
  • 1/4 tsk cumin

Rétturinn

  • 1 msk kókosolía
  • 1 skarlottulaukur
  • 1 msk rifið engifer
  • 1 dós kókosmjólk
  • 300-400 g kjúklingalundir eða -bringur, skornar í þunnar sneiðar
  • 1,5 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 tsk fiskisósa
  • 1 msk sykur
  • 10 dl blandað grænmeti (t.d. brokkólí, gulrætur, paprika, kartöflur, sveppir, sætar kartöflur…)
  • 170 g hrísgrjónanúðlur, eldaðar eftir leiðbeiningum á pakkningu
  • ferskt kóriander og lime skorið í báta til að bera fram með réttinum
Skerið grænmetið niður og steikið í smá ólívuolíu á pönnu við miðlungsháan hita þar til grænmetið er komið með fallegan lit (3-5 mínútur). Leggið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu, bætið skarlottulauknum á pönnuna og mýkið í 3-4 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Bætið engifer á pönnuna og steikið í hálfa mínútu áður en 1/4 af kókosmjólkinni er bætt á pönnuna ásamt karrýmaukinu. Steikið saman í 1 mínútu. Bætið kjúklingi á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því sem eftir var af kókosmjólkinni ásamt vatninu, kjúklingateningnum, fiskisósunni og sykrinum á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita í 5-10 mínútur. Bætið grænmetinu saman við.

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Berið réttinn fram með núðlum, fersku kóriander og lime sem hefur verið skorið í báta.

SaveSave

Banana- og súkkulaðifudge

Það eru eflaust fáir hér inni í leit að sætindum svona rétt eftir jól en ég hreinlega get ekki sleppt því að setja þessa dásemdarmola hingað inn. Ég vil geta gengið að þeim vísum næst þegar ég ætla að gera þá og þá er hvergi betra að geyma uppskriftina en hér.

Krakkarnir elskuðu þetta sælgæti! Bananar og súkkulaði passa jú svo vel saman og það er sérlega gaman að bera fram sælgæti sem er heimagert.

Banana- og súkkulaðifudge

Súkkulaðifudge

  • 3 dl rjómi
  • 3 dl sykur
  • 1 dl sýróp
  • 50 g smjör
  • 2 msk hunang
  • 100 g suðusúkkulaði

Setjið rjóma, sykur og sýróp í pott. Látið suðuna koma upp og sjóðið við miðlungsháan hita þar til blanda er orðin 120° heit. Takið pottinn frá hitanum og hrærið smjör og hunang út í. Látið pottinn aftur á heita helluna og látið sjóða áfram í 2 mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið hökkuðu súkkulaði saman við þar til blanda er orðin slétt. Hellið blöndunni í lítið mót/form sem hefur verið klætt með smjörpappír. Látið standa í ísskáp á meðan bananablandan er gerð.

Bananafudge

  • 12 mjúkir bananar af nammibarnum (sjá mynd hér fyrir neðan)
  • 2 dl sykur
  • 1 dl rjómi
  • 50 g smjör
  • 150 g hvítt súkkulaði

Klippið bananana í litla bita og setjið í pott ásamt smjöri, rjóma og sykri. Látið sjóða saman vði vægan hita þar til allt hefur bráðnað. Látið sjóða áfram í 5 mínútur og hrærið í pottinum á meðan. Takið pottinn af hitanum og hrærið hökkuðu súkkulaði saman við þar til blandan er orðin slétt. Látið kólna aðeins áður en blöndunni er hellt yfir súkkulaðifudge-ið. Látið kólna alveg (helst í ísskáp yfir nóttu) áður en skorið í bita.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Notaleg kjúklingasúpa með chilli

Ég hef eflaust oft skrifað um hversu hrifin ég er af súpum og þegar það er svona kuldalegt úti þykir mér eitthvað sérlega notalegt við að hafa heita súpu og brauð í matinn. Þær virðast alltaf vera viðeigandi, sama hvort um er að ræða fyrir saumaklúbbinn, matarboð eða kvöldmat með krökkunum. Það er alltaf hægt að bjóða upp á súpu og þær verða bara betri ef þær eru gerðar með fyrirvara.

Þessi kjúklingasúpa vakti mikla lukku hjá krökkunum og þau dásömuðu hana við hverja skeið. Dásemd í skál!

Kjúklingasúpa

  • 1 msk ólívuolía
  • 1 rauð paprika
  • 3 úrbeinuð kjúklingalæri
  • smá salt og pipar (6 hringir á piparkvörninni er passlegt)
  • 2 msk ólívuolía
  • 1/4 laukur
  • 1/3 rautt chilli (sleppið fræjunum ef þið viljið hafa súpuna milda)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1/2 dós (200 g) hakkaðir tómatar
  • 5 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 grænmetisteningur
  • 6 hringir á piparkvörninni
  • smá salt
  • 1-2 tsk paprikukrydd
  • 2 msk limesafi
  • 2 handfylli fersk basilika
  • 2 handfylli spínat

Hitið ofn í 200° og smyrjið lítið eldfast mót með ólífuolíu. Skerið paprikuna í tvennt og takið kjarnann úr. Leggið paprikuna með hýðið upp (sárið niður) í eldfasta mótið. Saltið og piprið kjúklinginn og leggið í mótið með paprikunni. Setjið í ofninn í um 25 mínútur. Látið kólna örlítið og takið svo hýðið af paprikunni. Skerið paprikuna og kjúklinginn í strimla og leggið til hliðar.

Skerið laukinn í bita og fínhakkið chillíið. Hitið olíu í potti og steikið lauk, chillí og pressað hvítlauksrif við vægan hita. Bætið vatni, teningum, papriku, kjúklingi og tómötunum (ásamt safanum) í pottinn og látið sjóða saman. Smakkið til með paprikukryddi, limesafa, salti og pipar.

Grófhakkið basiliku og spínat og bætið í súpuna þegar hún er borin fram.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSa

Vikumatseðill

Ég eyddi nánast öllum gærdeginum hér heima í að þrífa og þvo þvott eftir að hafa hvorugu sinnt síðan ég kom heim á mánudeginum. Það var því heldur betur tímabært að taka til hendinni. Eftir að hafa þrifið og tæmt þvottakörfurnar dreif ég mig í vikuinnkaup og kom svo við á Serrano og keypti kvöldmat. Ég er því búin að versla inn fyrir komandi viku (elska að hafa ísskápinn fullan!) en hér kemur þó hugmynd að vikumatseðli ef einhver er í þeim pælingunum í dag.

Vikumatseðill

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Þriðjudagur: Baka með sætri kartöflu, spínati og fetaosti

Miðvikudagur: Rjómalöguð kjúklingasúpa

Fimmtudagur: Himneskar kjötbollur í möffinsformi

Föstudagur: Spaghetti Cacio E Pepe

Með helgarkaffinu: Skinkuhorn og hvítlaukssósa

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Crépes með nutellamús

Ég hef í gegnum tíðina eignast svo mikið af matreiðslubókum að ég hef varla pláss fyrir fleiri. Ég reyni því að sitja á mér og kaupa ekki fleiri bækur en það er erfitt þegar það koma svo margar áhugaverðar út á hverju ári. Ég get skoðað þær endalaust en er því miður ekki jafn dugleg að nota uppskriftirnar. Það koma þó stundir sem ég tek mig á og þá gerast oft spennadi hlutir í eldhúsinu.

Fyrir jólin 2016 pantaði ég mér nokkrar bækur á netinu. Ég var búin að setja allt of margar bækur í körfu og endaði á að skilja matreiðslubækurnar eftir og kaupa frekar skáldsögur til að hafa yfir jólin. Malín stalst hins vegar í tölvuna mína þegar ég sá ekki til og sá hvaða bækur ég hafði skilið eftir í körfunni og pantaði þær. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég opnaði jólagjöfina frá henni og sá matreiðslubækurnar sem mig hafði langað  svo í en ekki pantað. Það sem ég var glöð!

Það gerðist svo núna, rétt rúmu ári síðar, að ég lét verða af því að gera eftirrétt úr einni bókinni, Pernillas Kök.. Eftir að hafa lesið bókina fram og til baka og í marga hringi varð crépes með nutellamús fyrir valinu. Þetta var svo brjálæðislega gott að það náði engri átt! Þetta skuluð þið prófa.

Crépes með nutellamús (uppskrift fyrir 4)

Crepes

  • 2 dl hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 2 egg
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk sykur
  • smjör til að steikja úr

Nutellamús

  • 1 dl nutella
  • 2 dl rjómi

Skraut

  • fersk ber
  • súkkulaðisósa
  • grófhakkaðar, ristaðar heslihnetur (ég sleppti þeim)

Setjið hveiti og mjólk í skál og hrærið saman. Hrærið eggjunum saman við og að lokum sykri og salti. Hrærið þar til deigið er slétt. Látið deigið standa í smá stund áður en pönnukökurnar eru steiktar. Bræðið smá smjör á pönnukökupönnu fyrir hverja pönnuköku og steikið þær gylltar á báðum hliðum. Leggið þær til hliðar og látið kólna.

Setjið nutella í skál með 1 dl af rjóma. Hrærið með handþeytara eða í hræivél þar til blandan hefur myndað slétta og loftkennda mús. Þeytið það sem eftir var af rjómanum í annarri skál og blandið svo varlega saman við nutellamúsina.

Fyllið pönnukökurnar með nutellamúsinni. Brjótið þær saman og setjið fersk ber, hakkaðar hnetur og súkkulaðisósu yfir.

 

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Föstudagskvöld

Síðasta föstudagskvöld naut ég lífsins í Stokkhólmi og í kvöld hef ég það notalegt hér heima með krökkunum. Bæði er svo ljúft! Gunnar er að fara á fótboltaæfingu og eftir hana fara strákarnir á nýársball en við hin erum búin að setja nammi í skál og ætlum að eiga rólegt kvöld hér heima. Við  vorum að byrja að horfa á Big Little Lies á maraþoninu og getum ekki hætt. Ef þið hafið ekki séð þættina þá get ég bara sagt að þeir lofa góðu!

Eigið gott föstudagskvöld ♥

SaveSave

SaveSave

Cornflakesnammi með rúsínum

Það er eflaust þversagnarkennt að setja inn færslu um betri matarvenjur einn daginn og setja síðan inn uppskrift af sætindum daginn eftir en eitt þarf ekki að útiloka annað. Að borða vel þarf í mínum bókum ekki að þýða að taka allt góðgæti út, heldur að setja meira hollt inn. Það væri lítið varið í lífið ef ekkert mætti!

Þetta Cornflakesgóðgæti gerði ég fyrir jólin og við nutum yfir sjónvarpinu eitt kvöldið. Svo æðislega gott!

Cornflakesnammi með rúsínum

  • 1/2 dl sykur
  • 125 g suðusúkkulaði
  • 1/2 dl sýróp
  • smá salt
  • 1 msk kakó
  • 50 g smjör
  • 1/2 dl rúsínur
  • 5-6 dl cornflakes

Setjið allt nema Cornflakes og rúsínur í pott. Blandið vel saman, látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í um 5 mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið rúsínum og Cornflakes varlega saman við. Setjið í lítil form og látið harðna í ísskáp.

 

 

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Linsubaunasúpa

Eftir veisluhöld desembermánaðar og notalega byrjun á árinu er kannski kominn tími á aðeins hollari matarvenjur. Ég er vön að borða ágætlega yfir daginn og er oftast með nesti með mér í vinnunni. Það hentar mér best, bæði virðist ég ekki fá leið á að borða það sama dag eftir dag og síðan þykir mér þægilegt að þurfa ekki að fara út í hádeginu að kaupa mér mat. Sparar bæði tíma og pening.

Nestið mitt er sjaldan eitthvað til að hrópa húrra fyrir og samanstendur oftast af grænum safa og kaffi um morguninn og bollasúpu og hrökkbrauði í hádeginu. Það koma þó stundir sem ég elda fullan pott af súpu eða geri stórt eldfast mót með grænmetisfylltri eggjaköku, sem ég set í nestisbox og frysti. Ég hef stundum gert þessa frönsku linsubaunasúpu (hún er mjög góð!) en prófaði nýja uppskrift fyrir nokkru sem ég skildi eftir á hellunni á meðan ég skaust aðeins frá og þegar ég kom aftur heim þá var hún orðin að hálfgerðum pottrétti. Það kom þó ekki að sök, súpan er bæði matarmikil og fullkomin í nestisboxið.

Linsubaunasúpa

  • 2 tsk ólívuolía til að steikja í
  • 1 stór laukur, hakkaður
  • 1 dl gulrætur, hakkaðar
  • 1 dl sellerí, hakkað
  • 2 tsk salt
  • 3 dl linsubaunir
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 7 – 8 dl vatn
  • 1 – 2 teningar grænmetiskraftur
  • 1 stórt handfylli ferskt kóriander
  • 1/2 tsk cumin (ath ekki sama og kúmen)
  • 1/2 tsk svartur pipar

Léttsteikið grænmetið í rúmgóðum potti. Bætið tómötum og kryddum saman við og steikið aðeins saman. Bætið vatni, grænmetiskrafti og linsubaunum í pottinn og látið sjóða þar til linsubaunirnar eru orðnar mjúkar. Smakkið til!.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Stokkhólmur

Eins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust tekið eftir þá framlengdum við jólafríinu með langri helgi í Stokkhólmi. Við gerðum það sama í fyrra og vorum svo lukkuleg með ferðina að þessi ferð var bókuð sama dag og við komum heim.

Ég er svo hrifin af Stokkhólmi og get ekki dásamað borgina nóg. Þar er gaman að rölta um og fullt af frábærum veitingastöðum. Við gistum ýmist á Berns hótelinu eða Haymarket. Berns er súpervel staðsett en Haymarket er þó skemmtilegra hótel og í uppáhaldi hjá okkur. Það er vel staðsett en þar er einnig frábær veitingastaður, kaffihús og bar sem er þéttsetinn öll kvöld og frábær stemning þar. Við vorum á Haymarket núna og ég mæli algjörlega með því. Á báðum hótelunum eru herbergin lítil og við höfum í síðustu ferðum bókað stærri herbergi. Það er vel þess virði.

Morgunmaturinn á hótelinu er frábær og ég tek alltaf tvo diska í einu. Annan með hrökkbrauði og áleggi og hinn með pönnukökum, eggjahræru og beikoni (sem vantar á diskinn).

Við vorum búin að lesa góða dóma um veitingastaðinn á Haymarket, Paul´s, og borðuðum þar eitt kvöldið. Maturinn var svo góður og notalegt að geta bara sest niður á barinn eða tekið lyftuna upp á herbergi eftir matinn. Mér þykir upplagt að borða þar fyrsta kvöldið, þegar þreytan er farin að segja til sín eftir morgunflug með litlum nætursvefni eins og svo oft vill verða (hver kannast ekki við að vera að pakka fram á nótt og ná bara rétt að leggja sig fyrir morgunflug!), þá er þægilegt að þurfa ekki að fara af hótelinu.

Það er orðin hefð fyrir því hjá okkur að byrja Stokkhólmsferðir á rækjubrauði og hvítvínsglasi á Sturehof. Ég veit fátt betra. Besta rækjubrauð í heimi! Það er líka hefð að fara í Svenskt Tenn eftir Sturehof. Við förum aldrei tómhent þaðan út og í þetta sinn keyptum við kertastjaka sem við höfum haft augastað á og er svo fínn hér heima.

Pa&co dásamlegur staður sem við fórum á síðasta sumar og aftur núna. Ég hélt mér við kjötbollurnar enda algjörlega skotheldur réttur.

Taverna Brillo er eitt elsta brasseri Stokkhólms og þar er virkilega gaman að borða. Við pöntuðum okkar uppáhald, osta og plokk, og borðuðum svo mikið að við hættum við aðalréttinn sem við vorum búin að ákveða.

Ég virðist ekki geta farið erlendis án þess að versla hluti sem er vesen að ferðast með og í Stokkhólmi kaupi ég alltaf eitthvað úr Mateus stellinu. Það er handgert og mér þykir það svo fallegt að ég er alveg tilbúin til að drösla því í handfarangri heim. Þið sjáið bara hvað ég er glöð þarna innan um diska, föt og skálar!

Síðan verslaði ég smá fínerí, meðal annars seðlaveski sem leynist þarna í pokanum. Maður verður að leyfa sér aðeins!

Kampavín og snakk í Mood gallerian. Ljúft að setjast niður og hvíla lúin bein.

Eins dásamlegt og það er að fara í frí þá er alltaf jafn gott að koma aftur heim. Ég byrjaði að vinna aftur í dag eftir 18 daga jólafrí og í kvöld borðuðum við fiskibollur með karrýsósu, kartöflum og hrásalati. Á meðan ég hef setið hér við tölvuna hafa strákarnir setið á móti mér yfir heimanáminu. Hversdagsleikinn eins og hann gerist bestur!

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Vikumatseðill

 Eftir desembermánuð, með öllum sínum veisluhöldum og veislumat, tek ég hversdagsleikanum fagnandi með sinni rútínu og vikumatseðli. 

Vikumatseðill

Mánudagur: Smjörsteiktur þorskur

Þriðjudagur: Quiche Lorraine

Miðvikudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Fimmtudagur: Blómkálssúpa með sveppaosti og sweet chili

Föstudagur: Carnitas

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

 

SaveSave