Föstudagskvöld

Ég las um daginn svo skemmtilega bók sem ég má til með að benda áhugasömum á, Amy Schumer – The Girl with the Lower Back Tattoo. Ég gat ekki lagt bókina frá mér og skemmti mér konunglega yfir lestrinum. Hló oft upphátt og las upp úr henni fyrir krakkana, sem hlógu jafnvel enn meira en ég. Léttmeti eins og það gerist best!

Tælensk núðlusúpa

Síðustu dagar og vikur hafa farið í menntaskólapælingar því strákarnir klára 10. bekk í vor. Ég held að ég geti fullyrt að ég velti þessu meira fyrir mér en þeir og bíð spennt eftir hverju einasta opna húsi í skólunum. Í gær skoðuðum við Kvennó og á fimmtudaginn opnar Versló dyrnar. Eftir þessa viku verða bræðurnir vonandi búnir að gera upp hug sinn. Ég sit á skoðunum mínum og ætla sem minnst að skipta mér að þessu.

Það hefur verið lítið fréttnæmt úr eldhúsinu upp á síðkastið þar sem ég hef notið góðs af matarboðum og þess á milli höfum við mest fengið okkur eitthvað fljótlegt á hlaupum. Það var þó eitt kvöldið um daginn sem ég eldaði tælenska núðlusúpu sem var alveg hreint æðislega góð. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þessi matarmikla súpa féll í kramið hjá öllum. Það var strax óskað eftir að ég myndi elda hana fljótlega aftur sem hljóta að vera góð meðmæli með súpunni.

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi

  • 2 msk ólífuolía
  • 2 kjúklingabringur
  • 1 laukur, hakkaður
  • 2 gulrætur, skornar í sneiðar
  • 3 msk rautt karrýmauk
  • 1 msk ferskt rifið engifer
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 dósir kókosmjólk
  • 1 líter vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk fiskisósa
  • 1 tsk mulið kaffir lime
  • 2 msk púðursykur
  • 1/2 msk basilika
  • 1 tsk salt
  • 1/2 tsk pipar
  • 1 rauð paprika
  • 2-3 dl blómkál
  • 1 lítil sæt kartafla
  • 100 g hrísgrjónanúðlur
  • 1- 1,5 tsk sriracha
  • kóriander
  • lime
  • salthnetur

Hitið 1 msk af olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í um 2 mínútur á hvorri hlið (það þarf ekki að elda hann í gegn, heldur bara að brúna hann). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.

Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og mýkið í 3 mínútur. Bætið karrýmauki, engifer og hvítlauki í pottinn og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið kjúklinginn í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, kjúklingateningum, sojasósu, fiskisosu, kaffir laufum, púðursykri, basiliku, salti og pipar. Látið suðuna koma upp og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur.

Takið kjúklinginn aftur úr pottinum og látið hann kólna aðeins þannig að hægt sé að skera eða rífa hann í sundur. Bætið papriku, blómkáli og sætri kartöflu í pottinn og látið sjóða í 5-8 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Bætið núðlunum í pottinn og sjóðið áfram eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið rifinn /niðurskorinn kjúklinginn í súpuna og smakkið súpuna til með sriracha og limesafa.

Berið súpuna fram með kóriander, limesneiðum og salthnetum.

Svíþjóðarkaka

Silvíukakan er ein af vinsælustu kökuuppskriftunum hér á blogginu enda er kakan æðislega góð, fljótgerð og hráefnin eru oftast til í skápunum. Ég hef bakað hana óteljandi sinnum og alltaf klárast hún jafn hratt. Um daginn bakaði ég köku sem minnti svolítið á silvíukökuna nema í þessari er botninn klofinn í tvennt og vanillusmjörfylling sett á milli, sem botninn sýgur í sig og gerir hann dásamlega góðan.

Það sem kökurnar eiga sameiginlegt er að botninn er svipaður, það tekur stutta stund að baka þær og hráefnin eru einföld. Mikilvægast af öllu er þó að þær eru báðar æðislega góðar!

Svíþjóðarkaka

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 dl sjóðandi vatn

Fylling:

  • 100 g smjör
  • 1 dl mjólk
  • 3 msk vanillusykur

Hitið ofn í 175°. Klæðið botn á kökuformi með smjörpappír og smyrjið hliðarnar.

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin mjög létt í sér og ljós. Blandið hveiti og lyftidufti saman við með sleikju. Hellið sjóðandi vatni saman við og hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í um 30-35 mínútur. Kakan á að vera þurr þegar prjóni er stungið í hana.

Fylling: Hitið mjólk og smjör að suðu og hrærið vanillusykri saman við þar til blandan er slétt.

Látið kökuna kólna. Kljúfið hana svo í tvennt, þannig að það sé botn og lok. Hellið mjólkurblöndunni yfir botninn, hellið varlega þannig að kakan nái að sjúga í sig vökvann. Setjið síðan lokið yfir og sigtið flórsykur yfir kökuna.

 

 

 

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu

Þessi kjúklingaréttur var á boðstólnum hjá mér fyrir tæpu ári síðan þegar ég bauð mömmu í mat. Okkur þótti maturinn ægilega góður og allir voru sammála um að uppskriftin yrði nú að fara beinustu leið á bloggið, svo fleiri gætu notið hennar.

Það fór þó svo að ég týndi uppskriftinni og hún rataði því aldrei á bloggið. Ég hélt myndunum sem ég hafði tekið til haga ef uppskriftin skyldi nú koma í leitirnar, sem gerðist svo loksins í gær. Hér kemur hún því, ári síðar en algjörlega biðarinnar virði!

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu (uppskrift fyrir 6, af blogginu 56kilo.se)

  • 1 kg kjúklingabringur
  • 1 stór laukur
  • 5 hvítlauksrif
  • smjör til að steikja úr
  • 2,5 dl grófhakkaðir sveppir
  • 6 dl rjómi
  • 2 tsk salt
  • smá svartur pipar
  • 2 kjúklingakraftsteningar
  • 2-3 tsk þurrkað rósmarín
  • 6 hakkaðir sólþurrkaðir tómatar
  • hýði og safi úr 1 sítrónu
  • 2 dl svartar ólífur
  • 1 búnt steinselja
  • 2 dl rifinn parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í þrennt á lengdina. Bræðið smjör í rúmgóðum potti og steikið kjúklinginn þar til hann hefur fengið lit. Saltið og piprið og takið úr pottinum. Setjið fínhakkaðan lauk og hvítlauk í pottinn ásamt grófhökkuðum sveppum og steikið úr smjöri þar til farið að mýkjast. Bætið kjúklingnum aftur í pottinn og setjið rjóma, sólþurrkaða tómata, sítrónusafa, kjúklingateninga og rósmarín í pottinn. Látið sjóða við vægan hita í um 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Hrærið ólífum, hakkaðri steinselju, sítrónuhýði og rifnum parmesan saman við áður en rétturinn er borinn fram.

Vikumatseðill

Þvílík veðurblíða sem við höfum fengið hér á höfuðborgarsvæðinu yfir helgina. Svo fullkominn endir á góðri viku. Ég náði að fara fjórum sinnum í ræktina í vikunni (örugglega persónulegt met!), fara fjórum sinnum út að borða (lúxus!) og eiga rólegar stundir hér heima þess á milli (besta sem eg veit!). Í dag ætla ég að elda fullan pott af kjötsúpu til að eiga eftir ræktina á morgun og jafnvel að fara í góðan göngutúr á meðan súpan stendur á hellunni. Síðan er þvottakarfan víst full, þannig að ég þarf að gera eitthvað því. Það er alltaf eitthvað. Vikuinnkaupin voru gerð í gær en fyrir þá sem eru að plana matarvikuna þá kemur hér tillaga að vikumatseðli.

Vikumatseðill

Mánudagur: Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Þriðjudagur: Baka með sætum kartöflum, spínati, kasjúhnetum og fetaosti

Miðvikudagur:  Kjúklinga pad thai

Fimmtudagur: Quesadillas með nautahakksfyllingu

Föstudagur: Himneskar humarvefjur

Með helgarkaffinu: Bananakaka með súkkulaðibitum

Nachos í ofnskúffu

Það er júrovisjónhelgi framundan og á slíkum kvöldum þykir mér maturinn yfir sjónvarpinu nánast mikilvægari en sjónvarpsefnið sjálft. Það er jú lítið varið i júróvisjónkvöld án veitinga! Ég vil hafa góðan en einfaldan mat, sem krefst ekki hnífapara og hægt er að borða auðveldlega yfir sjónvarpinu. Síðan vil ég hafa skálar stútfullar af snakki og nammi. Og nóg af gosi. Hér má hvergi spara!

Um síðustu helgi vorum við með notalegan mat á föstudagskvöldinu sem við borðuðum yfir sjónvarpinu. Ég gerði einfalt nachos í ofnskúffu sem tók enga stund að útbúa. Með nachosinu var ég með salsa, guacamole (ég gerði mér einfalt fyrir og keypti ferskt guacamole í Hagkaup), heita ostasósu og sósu sem ég gerði úr sýrðum rjóma (uppskriftin er hér fyrir neðan). Þetta var svo gott að það gat enginn hætt fyrr en fatið var tómt. Þetta þykir mér vera frábær júróvisjónmatur. Það er einfalt að gera tvöfalda uppskrift ef boðið er fjölmennt og ég held að flest öllum þyki þetta gott. Þetta getur varla klikkað!

 

Nachos í ofnskúffu (uppskrift fyrir ca 4-5)

  • nachosflögur
  • 500 g nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd
  • 1 krukka tacosósa (230 g)
  • jalapenos
  • 1 poki rifinn ostur (ca 250 g)

Setjið nachosflögurnar í ofnskúffu með bökunarpappír. Steikið nautahakkið og kryddið með tacokryddinu. Hellið tacosósunni yfir og blandið vel saman. Setjið nautahakkið og jalapenos yfir nachosið og stráið rifnum osti yfir. Setjið í 200° heitann ofn í 5-10 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað.

Köld sósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • 1 tsk paprikukrydd
  • 1/2 tsk chilikrydd
  • salt og pipar
  • ítalskt salatkrydd

Hrærið sýrðum rjóma, paprikukryddi og chilikryddi saman og smakkið til með salti, pipar og ítölsku salatkryddi. Látið standa í ísskáp í smá stund.

Grænmetislasagna

Ég er að reyna að hætta sem styrktaraðili líkamsrætarstöðvar og er byrjuð að mæta í tíma þar. Það gengur svona og svona. Ég ætlaði að mæta tvisvar í síðustu viku en fékk svo hræðilegar harðsperrur strax eftir mánudagstímann að ég gat varla hreyft mig fyrr en undir lok vikunnar. Ég gat því gleymt því að mæta í annann tíma þá vikuna. Það sama var vikuna á undan, þá mætti ég bara í einn tíma. Í gær mætti ég aftur til leiks og hræddist svo að harðsperrufíaskó síðustu viku myndi endurtaka sig að ég þorði varla að taka á því. Það virðist hafa virkað því dagurinn í dag var alveg bærilegur.

Í þessu líkamsræktarátaki (…ef átak má kalla þegar mætt er einu sinni í viku og svo legið eins og skata það sem eftir er af vikunni) hef ég reynt að skipuleggja kvöldmatinn þannig að ég elda eitthvað fljótlegt þá daga sem ég fer í ræktina og gef mér meiri tíma í eldhúsinu hin kvöldin. Á sunnudaginn útbjó ég því grænmetislasagna sem átti bara eftir að fara í ofninn þegar ég kom heim úr ræktinni í gær. Uppskriftin varð svo stór að ég gat haft það aftur í matinn í kvöld og sett í nestisbox fyrir morgundaginn. Lasagnað var æðislega gott og ég gat ekki betur séð en að allir hafi verið ánægðir með að borða það aftur í kvöld.

Grænmetislasagna – uppskrift fyrir 8-10

Tómatsósan:

  • 2 gulir laukar
  • 1/2 rautt chili
  • 1 dl ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif
  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 2 dl vatn
  • 1,5 grænmetisteningur
  • 20 snúningar á piparkvörn
  • 1-2 msk sykur

Afhýðið og fínhakkið laukinn og fínhakkið chilíið (hafið fræin með). Hitið olíuna í þykkbotna potti og steikið lauk, chilí og hvítlauk í nokkrar mínútur. Laukurinn og hvítlaukurinn eiga að mýkjast án þess að brúnast. Bætið hökkuðum tómötum, vatni og grænmetisteningum út í og látið sjóða saman við lágan eins lengi og tími gefst. Kryddið með pipar og sykri.

Ostasósa

  • 75 g smjör
  • 1 ½ dl hveiti
  • 1 líter mjólk
  • 1 tsk salt
  • ½ – 1 tsk hvítur pipar
  • 1/8 tsk  múskat
  • 1/8 tsk cayenne pipar
  • 180 g krydd havarti

Bræðið smjörið í þykkbotna potti. Hrærið hveitinu saman við smjörið og hrærið síðan mjólkinni smátt og smátt saman við. Passið að hrærið allan tímann í pottinum svo brenni ekki við. Hrærið kryddum út í og látíð sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið rifnum ostinum út í.

Spínatfylling

  • 2 gulir laukar
  • 500 g spínat
  • 50 g smjör
  • ¼ tsk salt
  • 6 snúningar á piparkvörn
  • ½ tsk múskat

Afhýðið laukinn og skerið í hálfmána. Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er mjúkur. Kryddið. Bætið spínatinu á pönnuna og steikið áfram þar til spínatið er orðið mjúkt.

  • 2 kúrbítar
  • 250 g mozzarella
  • 100 g parmesan
  • 500 g ferskar lasagnaplötur (eða þurrkaðar)

Skerið kúrbítinn á lengdina með ostaskera í örþunnar sneiðar. Rífið mozzarellaostinn og fínrífið parmesanostinn.

Samsetning:

Smyrjið botn á stóru eldföstu móti með smá ólífuolíu. Setjið ¼ af ostasósu í botninn, leggið lasagnaplötur yfir, setjið helminginn af tómatsósunni yfir, síðan allan kúrbítinn (leggið sneiðarnar yfir hvora aðra), helminginn af mozzarellaostinum og helminginn af parmesanostinum, kryddið með svörtum pipar, setjið ¼ af ostasósunni yfir, lasagnaplötur, alla spínatblönduna, seinni helminginn af parmesanostinum, ¼ af ostasósunni, kryddið með svörtum pipar, lasagnaplötur, það sem eftir er af tómatsósunni og það sem eftir er af ostasósunni. Setjið í 175° heitann ofn í 20 mínútur, setjið þá það sem eftir var af mozzarellaostinum yfir og bakið áfram þar til osturinn er bráðnaður.

Vikumatseðill

Konudagsblómin hafa staðið falleg alla vikuna og standa enn. Ég vil helst alltaf hafa afskorin blóm hér heima en það gengur ekki alveg upp. Ég kaupi þó oft vendi fyrir helgarnar og verð alltaf jafn glöð þegar þeir standa svona lengi og ná jafnvel tveimur helgum, eins og núna. En úr einu í annað, hér kemur tillaga að matseðli fyrir vikuna!

Vikumatseðill

Mánudagur: Fiskur í sweet chili

Þriðjudagur: BBQ-kjöthleifur

Miðvikudagur: Kjúklingasúpan hennar mömmu

Fimmtudagur: Satay-kjúklinganúðlur

Föstudagur: Tacopizzubaka

Með helgarkaffinu: Franskar brauðrúllur

Pink Gin Fizz

Um síðustu helgi ákváðum við að hætta við að fara út að borða eins og við höfðum ákveðið og í staðin að elda góðan mat heima. Ég gerði pizzuna sem ég setti inn uppskrift af í gær en fyrir matinn fengum við okkur fordrykk og snarl. Ég vel mér oftast gindrykki þegar kemur að sterkum drykkjum en fæ mér yfirleitt bara gin og tonic. Þetta var því skemmtileg tilbreyting. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir bleikum greipsafa en ég skipti honum út fyrir Sparkling Ice Pink Grapefruit flavoured sparkling water sem ég fann í goskælinum í Hagkaup. Það kom mjög vel út!

Pink Gin Fizz

  • 30 ml gott gin
  • 100 ml bleikur greipsafi (pink grapefruit juice)
  • 150 ml tonic
  • vel af klaka (ég nota mulinn klaka)
  • safi úr 1/2 lime

Blandið öllu saman og hellið í glas.

Pizza með pestó, hráskinku, sólþurrkuðum tómötum og ólífum

Á morgun er föstudagur og pizzakvöld á mörgum heimilum. Við erum búin að vera dugleg að prófa nýjar pizzur upp á síðkastið, eða öllu heldur ný álegg á pizzurnar, og um síðustu helgi gerðum við ítalska pizzu hér heima.

Ég keypti bæði tilbúinn botn og tilbúið pestó, sem gerði það að verkum að það tók enga stund að gera pizzuna. Kósýföt, kertaljós, pizza og rauðvín í glasinu… helgin getur varla byrjað betur!

Pizza með pestó, hráskinku, sólþurrkuðum tómötum og ólífum

  • pizzadeig
  • rautt pestó
  • hráskinka
  • ólífur
  • sólþurrkaðir tómatar
  • rifinn ostur
  • fersk basilika

Fletjið botninn út og smyrjið rauðu pestói yfir. Stráið rifnum osti yfir og setjið svo hráskinku, ólífur og sólþurrkaða tómata yfir. Stráið smá rifnum osti yfir og bakið í funheitum ofni þar til osturinn er bráðnaður. Setjið ferska basiliku yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum.