Mozzarellafylltar brauðbollur

Ég lofaði í gær uppskrift af gjörsamlega himneskum brauðbollum og ætla svo sannarlega ekki að svíkja það. Hér heima kolféllu allir fyrir þessu brauði og það er nú viku síðar enn verið að tala um hvað það var gott. Brauðbollurnar passa æðislega vel með súpum en þær eru í raun góðar með hverju sér er… og líka einar og sér! Jafnvel með pizzasósu til að dýfa þeim í þar sem þær minna á ostafylltar brauðstangir. Ég notaði tilbúið pizzadeig í bollurnar og lét þær ekkert hefast. Rúllaði bara brauðinu utan um ostinn, raðaði í form, setti hvítlaukssmjör, krydd og ost yfir áður en það fór inn í ofn. Einfalt og brjálæðislega gott!

Mozzarellafylltar brauðbollur

  • 1 rúlla af pizzadegi fyrir þykkan botn (eða annað pizzadeig)
  • 20 stykki (tæplega 2 pokar) af fersku mozzarella (litlu kúlunum)
  • smjör
  • hvítlauksrif
  • pizzakrydd
  • rifinn ostur

Rúllið deiginu út og skerið það í 20 bita. Látið renna af ostinum. Vefjið hverjum deigbita utan um mozzarellakúlu og rúllið í kúlu, þannig að deigið hjúpi ostinn alveg. Endurtakið með alla deigbitana (það munu verða 4 kúlur eftir af ostinum, sem hægt er að borða á meðan eða geyma). Smyrjið eldfast mót eða kökuform (ég notaði 20 cm kökuform og klæddi botninn með bökunarpappír) og raðið kúlunum í formið. Bræðið smör og pressið hvítlauksrif yfir. Penslið blöndunni yfir brauðbollurnar. Kryddið með pizzakryddi og endið á að strá smá rifnum osti yfir. Bakið við 225° í um 15 mínútur.

Minestrone

Ég keypti mér tvær uppskriftabækur í janúar, þrátt fyrir að hafa lofað mér að draga úr slíkum kaupum. Bækurnar eru eins ólíkar og þær geta orðið þar sem önnur þeirra er bara með grænmetisuppskriftum á meðan hin er bara með uppskriftum af kokteilum. Ég á eftir að prófa kókteilabókina en í vikunni sem leið eldaði ég fyrstu uppskriftina úr grænmetisbókinni, minestrone súpu. Okkur þótti súpan svo góð að þó hún verði eina uppskriftin sem ég mun elda úr bókinni þá réttlætir hún kaupin á henni. Súpuna bar ég fram með mozzarellafylltum brauðbollum sem voru svo góðar að krakkarnir eru enn að tala um þær (ég lofa að setja inn uppskriftina af þeim á morgun). Frábær máltíð sem tekur enga stund að elda.

Minestrone – uppskrift (fyrir 4-5) úr Nyfiken Grön

  • 1 laukur
  • 3 hvítlaukssrif
  • 1 gulrót
  • 250 g kokteiltómatar
  • 2 msk ólivuolía
  • 2 tsk timjan (þurrkað)
  • 1 líter vatn
  • 2-3 grænmetisteningar
  • handfylli af steinselju
  • 1 dós bakaðar baunir (400 g)
  • 2 dl pasta (ég var með spaghetti sem ég braut niður)
  • salt og pipar

Fínhakkið lauk og hvítlauk. Skerið gulrótina í sneiðar og tómatana í tvennt. Hitið olíu í stórum potti og steikið grænmetið með timjan við miðlungsháan hita í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í pottinum á meðan. Bætið vatni og grænmetisteningum í pottinn og látið sjóða í 15 mínútur. Bætið bökuðum baunum, pasta og steinselju í pottinn og látið sjóða þar til pastað er tilbúið. Smakkið til með salti og pipar.

 

Vikumatseðill

Ég ætlaði að vera fyrr á ferðinni með vikumatseðilinn en dagurinn hefur hlupið frá mér í alls konar stúss, þegar mig langaði mest af öllu bara að dóla heima á náttsloppnum eftir útikvöld í gær. Við vorum boðin í fordrykk til vinahjóna í gærkvöldi og þaðan héldum við svo á Kopar og enduðum á Slippbarnum. Svo brjálæðislega gaman! Dagurinn í dag hefur hins vegar verið aðeins seigari og ég hlakka mikið til að skríða snemma upp í rúm í kvöld. En nóg um það, hér kemur tillaga að vikumatseðli!

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Miðvikudagur: Ofnbökuð ostapylsa

Fimmtudagur: Caesarbaka

Föstudagur: Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk og gúrku og hvítlaukschilisósu

Með helgarkaffinu: Nutellaformkaka

 

Afmæliskaka

Það sem mér þykir best við helgarnar er að geta sofið út og fengið mér góðan morgunmat. Á virkum dögum gef ég mér aldrei tíma til að setjast niður yfir morgunverði heldur geri grænan safa sem ég tek með mér á hlaupum. Um helgar bæti ég upp fyrir það með að sofa lengi (fer létt með 10 tíma án þess að rumska) og sitja lengi yfir morgunverðinum. Oftast verður eggjahræra og Finn Crisp fyrir valinu en núna er ég með æði fyrir ristuðu súrdeigsbrauði með avocadó, sítrónusafa, chili explotion og maldonsalti. Svo gott!

En að máli málanna, kökunni sem ég setti inn á Instagram um síðustu helgi og hef fengið ófáar fyrirspurnir um uppskrift af. Okkur þótti þessi kaka æðisleg! Ég mæli með að sleppa ekki rommdropunum í glassúrnum, þeir gera svo mikið. Á unglingsárum mínum bakaði ég oft súkkulaðiköku með smjörkremi sem var með rommdropum í og ég man enn hvað mér hún æðislega góð. Uppskriftin er stór og við nutum hennar með kvöldkaffinu í þrjú kvöld í röð. Svo notalegt!

Afmæliskaka

  • 4 egg
  • 400 g sykur
  • 300 g smjör
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 3 dl mjólk
  • 575 g hveiti
  • 1 msk kakó
  • 5 tsk lyftiduft
  • 4 tsk vanillusykur

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og þykk (það tekur um 5 mínútur á mesta hraða á hrærivélinni).

Bræðið smjörið, takið pottinn af hitanum og hrærið hökkuðu súkkulaði saman við þar til blandan er slétt. Hrærið mjólk saman við og leggið til hliðar.

Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman. Hrærið smjörblöndunni og þurrefnablöndunni á víxl saman við eggjablönduna. Hrærið saman í slétt deig. Klæðið ofnskúffu með bökunarpappir og setjið deigið í hana. Bakið við 200° í miðjum ofni í 25 mínútur (ef þið notið skúffukökuform í staðin fyrir ofnskúffu þá þarf að bæta 10-15 mínútum við bökunartímann). Útbúið glassúrinn á meðan kakan er í ofninum því hann fer yfir heita kökuna.

Glassúr

  • 125 g smjör
  • 500 g flórsykur
  • 1 msk kakó
  • 4 msk uppáhellt kaffi
  • 1/2 tsk rommdropar
  • 1 tsk vanillusykur

Bræðið smjörið í potti. Lækkið hitann og bætið kaffi, kakói, vanillusykri, rommdropum og og flórsykri í pottinn og hrærið saman þar til glassúrinn er sléttur. Látið pottinn standa yfir lágum hita þannig að glassúrinn haldist heitur án þess að hann sjóði. Þegar kakan kemur úr ofninum er glassúrinn settur yfir heita kökuna. Skreytið að vild.

Quesadillas með pestó, fetaosti og parmaskinku

Sá réttur sem ég gríp hvað oftast til þegar ég er hugmyndasnauð varðandi kvöldmat eru quesadillas. Mér þykja þær alltaf slá í gegn. Þessar gerði ég um síðustu helgi og bar fram með buffalokjúklingi og gráðostasósu (ég veiiiit, furðuleg samsetning af kvöldverði) því ég var ekki viss um hvort quesadillurnar myndu falla í kramið hjá krökkunum, þar sem fyllingin var ólík því sem þau eru vön. Það voru óþarfa áhyggjur því þau mokuðu þeim í sig! Ég bar quesadillurnar fram með tacosósu en það er í raun algjör óþarfi því þær eru æðislegar einar og sér. Sjálfri þykja mér þær fara vel með vínglasi um helgar (og án tacosósu), bæði sem forréttur eða létt máltíð.

Quesadillas með pestó, fetaosti og parmaskinku

  • tortillakökur
  • grænt pestó
  • fetaostur
  • parmesanostur
  • fersk basilika
  • ferskt chili
  • parmaskinka

Smyrjið tortillaköku með pestói. Setjið fetaost, parmesanost, ferska basiliku, hakkað chili (sleppið fræjunum ef þið viljið ekki hafa þetta sterkt) og parmaskinku yfir helminginn og brjótið svo tortillakökuna saman, þannig að hún myndi hálfmána. Steikið á pönnu á báðum hliðum og þrýstið aðeins á tortilluna svo osturinn bráðni.

Skerið í sneiðar og berið fram.

 

Pastagratín

Í síðustu viku eldaði ég pastagratín í kvöldmat. Uppskriftin reyndist svo stór að hún dugði okkur í kvöldverð tvö kvöld í röð og í nesti fyrir tvo!  Í hversdagsamstrinu, og sérstaklega þegar skutl á æfingar lendir á matartíma, þykir mér algjör lúxus að þurfa ekki að hafa meira fyrir kvöldmatnum en að hita upp frá deginum áður. Bragðið verður bara meira og betra þegar rétturinn hefur fengið að standa og það má alltaf hafa annað meðlæti fyrir þá sem vilja tilbreytingu.

Við borðuðum gratínið í nokkrum ólíkum útfærslum. Sumir fengu sér hvítlauksbrauð og tómatsósu með því á meðan ég hrúgaði parmesan yfir réttinn og fékk mér spínatsalat með fetaosti og balsamikgljá  með. Súpergott!

Pastagratín – uppskrift fyrir 6-8 (eða jafnvel 10-12!)

  • 400 g spaghetti
  • 2 kúlur af mozzarella

Kjötsósan

  • 400 g nautahakk
  • 400 g hakkaðir tómatar í dós
  • 400 g tómatmauk í dós
  • 1 laukur
  • 4 hvítlauksrif
  • 2 tsk þurrkað oregano
  • 2 tsk þurrkuð basilika
  • 2 tsk paprikukrydd
  • 1-2 tsk dijonsinnep (má sleppa)
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk balsamikedik eða sykur
  • 1 grænmetisteningur
  • smá chili explotion krydd eða sambal oelek
  • salt og pipar

Sósa

  • 5 dl sýrður rjómi
  • 150 rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, pressað

Yfir réttinn

  • 50 g rifinn ostur
Skerið lauk smátt. Hitið olíu á pönnu og mýkið laukinn. Bætið nautahakkinu á pönnuna ásamt pressuðum hvítlauki og kryddið með oregano og basiliku. Steikið þar til nautahakkið er fulleldað. Bætið hökkuðum tómötum, tómatmauki, paprikukryddi, dijonsinnepi, sojasósu, balsamikediki, chili explotion og grænmetisteningi á pönnuna og látið sjóða saman undir loki í 20-30 mínútur. Smakkið til með salti og pipar.
Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu, hellið vatninu frá og leggið til hliðar.
Hrærið sýrðum rjóma, rifnum osti og pressuðu hvítlauksrifi saman. Skerið mozzarella í þunnar sneiðar.

Samsetning:

Setjið helminginn af sýrða rjóma sósunni í botninn á eldföstu móti (í ca stærðinni 25 x 30 cm). Setjið spaghettí yfir. Setjið hinn helminginn af sýrða rjóma sósunni yfir og leggið mozzarellasneiðar yfir. Setjið kjötsósuna yfir og leggið sneiðar af mozzarella yfir kjötsósuna. Endið á að setja rifinn ost yfir réttinn. Setjið í 200° heitan ofn í 20-30 mínútur.

 

Tælenskur lax með núðlum og kóriander

Það væri áhugavert að vita hversu mörg heimili elda fisk á mánudögum. Í mínum bókum eru mánudagar fiskidagar og helst reyni ég koma öðrum fiskrétti á matseðilinn síðar í vikunni. Ég kæmist þó eflaust ekki upp með að bjóða upp á fisk þrisvar í viku, sérstaklega þar sem strákarnir fá líka fisk í skólanum og þættu því eflaust nóg um.

Eitt af því besta sem Malín fær er lax en sjálf er ég hrifnari af bleikju. Þessi laxuppskrift (ef uppskrift má kalla, þetta er svo einfalt!) er hins vegar svo góð að meira að segja þeir sem borða ekki lax fá sér aftur á diskinn. Ég mæli með að prófa!

Tælenskur lax með núðlum og kóriander

  • um 800 g laxaflök
  • nokkrar matskeiðar sojasósa

Leggið laxaflökin í eldfast mót eða ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið nokkrar matskeiðar af soja yfir og bakið í ofni við 180° í 15 mínútur.

  • 250 g eggjanúðlur
  • 1,5 dl sweet chilisósa
  • 1-2 msk sojasósa
  • 1 rauð paprika, hökkuð
  • 1 búnt vorlaukur, skorið í sneiðar
  • 2 dl kasjúhnetur

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið sweet chilisósu og sojasósu á pönnu og steikið núðlurnar, vorlauk, papriku og kasjúhnetur í sósunum. Stráið fersku kóriander yfir áður en núðlurnar eru bornar fram. Berið núðlurnar fram með laxinum og limebátum til að kreista yfir.

 

 

Vikumatseðill

Það styttist í mánaðarmót og þar sem stundum vill vera minna í veskinu í janúar en aðra mánuði tók ég saman vikumatseðil sem er í ódýrari kantinum. Það getur líka verið ágætt að taka smá sparnaðarvikur inn á milli. Þessir réttir eiga það allir sameiginlegt að vera með hráefnalista í styttri kantinum og vera sérlega vinsælir hjá yngri kynslóðinni. Ég veit að tómatsúpan er vinsæl á mörgum heimilum og ef þú átt eftir að smakka hana þá mæli ég svo sannarlega með að láta verða af því.

Vikumatseðill

Mánudagur: Steiktur fiskur í ofni

Þriðjudagur: Spaghetti með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Miðvikudagur: Mögulega besta tómatsúpa í heimi

Fimmtudagur: Pylsupottréttur með beikoni og sweet chili rjómasósu

Föstudagur: Kjúklinga- og spínatquesadillas

Með helgarkaffinu: Silvíukaka

 

Mjúk súkkulaðikaka

 

Hvað passar betur með helgarkaffinu en mjúk og dásamleg súkkulaðikaka? Mér þykir nýbökuð súkkulaðikaka gjörsamlega ómótstæðileg. Þessa bakaði ég um síðustu helgi þegar ég var ein heima, sem var afleit hugmynd. Ég fékk mér kökuna með kaffinu yfir daginn og borðaði hana svo í kvöldmat. Ég varð því himinlifandi þegar ég kom heim úr vinnunni daginn eftir og krakkarnir voru búnir með kökuna.

 

 

Næst mun ég baka kökuna þegar krakkarnir eru heima því það er augljóst að ég hef enga sjálfsstjórn þegar kemur að þessari dásamlegu súkkulaðiköku.

Mjúk súkkulaðikaka

  • 3 egg
  • 4½ dl sykur
  • 4 ½ dl hveiti
  • 2 ½ msk kakó
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • 2 ½ dl mjólk
  • 150 g smjör, brætt

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Hrærið hveiti, kakó og vanillusykur saman við. Hrærið að lokum bræddu smjöri og mjólk saman við þar til deigið er slétt. Setjið í hringlaga form og bakið við 174° í 40-45 mínútur.

Krem

  • 100 g smjör
  • 1 ½ – 2 dl matreiðslurjómi
  • 4 msk sykur
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 2 msk kakó

Setjið öll hráefnin í pott og látið sjóða saman við vægan hita þar til kremið byrjar að þykkna. Hellið kreminu yfir heita kökuna og látið kökuna svo kólna. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma.

Föstudagur

Síðasta haust las ég viðtal við konu sem sér um förðunarhluta sænska tímaritisins Mama. Ég man varla um hvað viðtalið fjallaði en það sem hins vegar sat eftir var sólarpúður sem hún sagðist nota á hverjum degi og gæti ekki verið án. Ég fór strax daginn og keypti púðrið. Nú er ég á púðurdós númer tvö og gæti ekki verið ánægðari. Púðrið gefur fallegan lit sem er ekki of dökkur og með örlitlum ljóma í. Svo er það ódýrt, um 3.500 kr ef ég man rétt. Í seinna skiptið keypti ég það á tax free dögum í Hagkaup og þá fór verðið undir 3.000 kr.

Púðrið er því föstudagstips fyrir þá sem hafa áhuga, það heitir Creme Bronzer frá Max Factor í litnum 05 Light Gold. Svo gott!

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave