Brauðtertan hennar mömmu

Ég skammast mín ofan í tær fyrir að hafa gleymt að setja inn uppskriftina að brauðtertunni hennar mömmu, sem svo margar báðu um þegar ég birti mynd af henni fyrr í vetur. Ég hef sjaldan fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift eins og þessa. Mamma gerir brauðtertuna við hvert tækifæri sem gefst og kom með tvær síðast þegar það var landsleikur. Hún gerir bestu brauðtertur sem ég veit um og þessar hendir hún í eins og ekkert sé.

Þegar ég fór í saltkjöt og baunir til mömmu í síðustu viku var ég ákveðin í að skrifa niður uppskriftina hjá henni. Eyþór bróðir mætti síðan með kampavín og sagði okkur svo frábærar fréttir að ég steingleymdi að fá hana. Núna er ég þó loksins komin með uppskriftina, eða öllu heldur aðferðina, því mamma gerir brauðtertuna alltaf eftir tilfinningu. Þegar hún heyrði að uppskriftin væri á leiðinni á bloggið ætlaði hún að fara að hræra í sósuna til að geta gefið nákvæm mál. Klukkan var 23 á sunnudagskvöldi og ég tók það ekki í mál!

Ég veit ekki af hverju, en ég hef alltaf kallað þessa brauðtertu fyrir þá færeysku. Ég hlýt að hafa misheyrt eitthvað í gamla daga og það var ekki fyrr en nýlega þegar ég spurði mömmu hvort hún ætlaði að gera þá færeysku, að í ljós kom að mamma vissi bara ekkert um hvað ég var að tala. Í kjölfarið komst ég að því að brauðtertan hefur aldrei gengið undir þessu nafni og tengist Færeyjum ekki neitt! Það er því stórfurðulegt að ég hafi haldið að brauðtertan heiti sú færeyska í öll þessi ár og hafi komist upp með að kalla hana því nafni án athugasemda.

Brauðtertan hennar mömmu 

Það eru engin nákvæm mál og í raun hægt að nota hvað sem er á brauðtertuna. Mamma tekur skorpuna af brauði (hún notar ýmist fransbrauð eða heilhveitibrauð) og rífur brauðið í botn á eldföstu móti (hún segir að það sé betra að rífa það en að raða sneiðunum í formið, því þá gangi betur að fá sér af brauðtertunni). Síðan hrærir hún saman 2-3 kúfaðar msk af majónesi og 2 kúfaðar msk af sýrðum rjóma (það er best að nota 34% sýrða rjómann) og kryddar sósuna með smá af karrý og aromat (ca 1/2 tsk af hvoru). Hér er mikilvægt að smakka til. Sósuna setur hún síðan yfir brauðið, hún á að fara aðeins inn í brauðið en það á ekki vera þykkt sósulag yfir því (því mömmu finnst það svo ólekkert). Síðan er raðað því sem hugurinn girnist yfir. Mamma er yfirleitt með doppu af rauðkáli í miðjunni, síðan raðar hún í kringum það harðsoðnum eggjum, ananas, skinku, rækjum, reyktum laxi eða silungi (þá sleppir hún annað hvort skinkunni eða rækjunum). Stundum hefur hún hangikjöt, egg, blandað grænmeti og fl. Það virðist sama hvað hún setur yfir, þetta alltaf jafn brjálæðislega gott!

Vikumatseðill

Krakkarnir eru í vetrarfríi næstu dagana og munu því hafa það notalegt hér heima á meðan ég verð í vinnunni. Þau eru enn sofandi en ég sit hér með kaffibollann minn og skipulegg vikuna. Það er skemmtileg vika framundan með vinkonuhittingi, bíóferð og deitkvöldi með Jakobi. Ég ákvað um áramótin að fá eitt kvöld í mánuði með hverju barni og núna er komið að Jakobi. Hann veit fátt betra en svínarif og við ætlum að prófa rifjakvöld á Mathúsi Garðabæjar. Ég hlakka til! Í síðustu viku var mikið útstáelsi á mér og bloggfærslurnar urðu færri fyrir vikið. Það mun ekki endurtaka sig í þessari viku. Nú verð ég betur skipulögð!

Vikumatseðill

Mánudagur: Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp

Þriðjudagur: Nautahakkschilli með cheddarskonsum

Miðvikudagur: Salamibaka með fetaosti

Fimmtudagur: Tælenskur kjúklingur með kókos

Föstudagur: Chilihakkpizza

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðibaka

Blómkáls- og eplasúpa

Ég ætlaði að setja uppskriftina af þessari blómkálssúpu inn í gær en hreinlega steingleymdi því! Veit ekki hvernig það gat gerst. Blómkálssúpuna eldaði ég í síðustu viku og hún var bara svo æðislega góð. Þykk og matarmikil, með sætu frá eplunum sem fór svo vel með blómkálinu. Ég átti smá sýrðan rjóma (kannski 2 msk) sem ég bætti í súpuna en það er algjör óþarfi. Súpan er þykk en það er lítið mál að bæta meira vatni í til að þynna hana. Okkur þótti hins vegar svo gott að hafa súpuna þykka og dýfa heitu snittubrauði með smjöri í hana. Namm!

Blómkáls- og eplasúpa (uppskrift fyrir 4)

  • 1 gulur laukur
  • 1/2 blómkálshaus
  • 2 epli (ég var með rauð)
  • smá þurrkað timjan (1/2 – 1 tsk)
  • 2 grænmetisteningar
  • salt og pipar

Afhýðið og hakkið laukinn. Skerið blómkálið og eplin í bita. Steikið lauk, blómkál og epli í rúmgóðum potti og kryddið með timjan. Hellið vatni yfir þannig að það rétt fljóti yfir grænmetið og bætið grænmetisteningum í pottinn. Látið sjóða undir loki þar til grænmetið er orðið mjúkt (tekur 5-10 mínútur). Mixið súpuna slétta með töfrasprota. Smakkið til með salti og pipar.

Ofnbökuð eggjakaka með grænmeti

Fyrir nokkrum vikum fékk ég uppskrift hjá vinkonu minni af svo frábæru nesti sem hún hafði gert sér og mér leist svo vel á. Ég er oftast með nesti með mér í vinnunni og finnst því gott að eiga í frystinum til að taka með mér.  Ég hef oft gert linsubaunasúpur og fryst í passlegum skömmtum en þessi eggjakaka er góð tilbreyting frá súpunum.

Þetta er í raun engin nákvæm uppskrift heldur er grænmeti sem þér þykir gott eða átt til steikt á pönnu og kryddað eftir smekk. Grænmetið er síðan sett í eldfast mót, nokkrum eggjum er hrært saman og svo hellt yfir grænmetið. Það er líka t.d. hægt að setja ost yfir eða fetaost í eggjahræruna. Þetta er síðan sett inn í ofn þar til eggjahræran er orðin passlega elduð.

Ég var með sæta kartöflu, papriku, brokkólí, sveppi og rauðlauk í minni eggjaköku og kryddaði grænmetið með ítalskri hvítlauksblöndu frá Pottagöldrum. Þegar eggjakakan kom úr ofninum skar ég hana í sneiðar og frysti. Á morgnanna tók ég svo bara eina sneið með mér sem ég hitaði aðeins í örbylgjuofninum áður en ég borðaði hana í hádeginu. Einfalt, hollt og gott!

 

Vikumatseðill

Eftir mestu letihelgi í langan tíma er tímabært að plana komandi viku. Sjálf mun ég borða saltkjöt og baunir á þriðjudaginn en þar sem ég bý ekki svo vel að eiga uppskrift af þeim veislumat þá er hann ekki með á vikumatseðlinum. Ég hef satt að segja aldrei eldað saltkjöt og baunir því mamma sér alltaf um það. Hún gerir heimsins besta saltkjöt og baunir og ég borða svakalega illa yfir mig í hvert einasta skipti. Ég þakka fyrir að sprengidagurinn er bara einu sinni á ári því hann endar alltaf með ósköpum.

Vikumatseðill

Mánudagur: Brasilískur fiskréttur

Þriðjudagur: Tacos með rauðum linsubaunum

Miðvikudagur: Asískar kjötbollur

Fimmtudagur: Pasta með kjúklingi, sólþurrkuðum tómötum og basiliku

Föstudagur: BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauki og hvítmygluosti

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

Mozzarellapizza

Mér finnst ég alltaf vera að skrifa fimmtudagsfærslur því vikurnar hreinlega þjóta frá mér. Ég er að fara í afmæli annað kvöld og á laugardaginn er planið að fara út að borða. Það er því lítið um matarplön hjá mér fyrir þessa helgi, nema þá fyrir sunnudaginn. Þá langar mig að elda eitthvað gott.

Um síðustu helgi prófaði ég að gera nýja pizzu. Það sem gerir þessa pizzu frábrugna þeim hefðbundnu er að sósan er úr sýrðum rjóma sem er mixaður með kúrbít og rauðlauk. Ég var líka með hefðbundna pepperoni pizzu sem ég bar fram með þessari og það fór jafnt af þeim. Ólíkar en báðar svo góðar!

Mozzarellapizza

  • pizzabotn (hér er uppskrift en það er líka hægt að nota búðarkeypt pizzadeig)
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 kúrbítur
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 200 g mozzarella
  • 3-4 tómatar
  • 1 dl kasjúhnetur
  • salat
  • salt og pipar

Afhýðið laukinn og skerið í sneiðar. Skerið kúrbítinn í sneiðar. Hitið olíu í potti og steikið rauðlaukinn og kúrbítinn þar til farið að mýkjast. Bætið sýrðum rjóma saman við og látið suðuna koma upp. Maukið blönduna slétta með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Smakkið til með salti og pipar.

Skerið mozzarella og tómata í sneiðar. Þurrristið kasjúhneturnar á pönnu.

Fletið deigið út og setjið kúrbítssósuna yfir botninn (geymið sósuna sem verður afgangs í kæli eða notið hana yfir pizzuna eftir að hún kemur úr ofninum). Setjið ost og tómata yfir sósuna. Bakið pizzuna við 230° í um 10 mínútur. Þegar pizzan kemur úr ofninum er salat og hnetur sett yfir hana. Berið fram með balsamik gljáa og/eða því sem eftir var af sósunni.

Kjötbollur með fetaosti í rjómasósu

Í síðustu viku var ég með kjötbollur í kvöldmatinn en þær eru alltaf vinsælar hér heima. Ég reyni að eiga alltaf kjötbollur í frystinum til að grípa til þegar ég hef ekki tíma til að elda og það hefur oft komið sér mjög vel. Krakkarnir elska kjötbollur með makkarónum og tómatsósu, sem er einn fljótlegasti kvöldmatur sem hægt er að elda. Það slær þó fátt heimagerðum kjötbollum við, með rjómasósu, kartöflum og sultu. Þessar eru svo góðar að þegar tengdasonurinn átti í skólaverkefni að nefna þrjá góða hluti sem gerðust í vikunni fóru kjötbollurnar beinustu leið á listann. Það verða að teljast nokkuð góð meðmæli!

Kjötbollur með fetaosti í rjómasósu – uppskrift fyrir 4-5

  • 500 g nautahakk
  • 5 msk rifið brauð
  • 1/2 dl mjólk
  • 1 tsk season salt
  • smá pipar
  • 150-200 g fetaostur
  • rjómi
  • kálfakraftur
  • sojasósa
  • rifsberjahlaup

Blandið nautahakki, brauðraspi, mjólk, kryddi og fetaosti saman og rúllið í bollur. Steikið bollurnar í smjöri. Takið bollurnar af pönnunni og látið suðuna koma upp. Smakkið til með kálfakrafti (kalvfond), sojasósu og rifsberjahlaupi. Setjið bollurnar í sósuna og látið sjóða í nokkrar mínútur.

Berið fram með kartöflum og salati.

 

Uppáhald í snyrtibuddunni

Í dag er síðasti dagurinn á tax free dögum Hagkaups. Ég nýti þá alltaf til að fylla á snyrtivörurnar mínar og eitt af því sem ég kaupi nánast alltaf er augnblýanturinn frá Chanel. Ég nota hann á hverjum degi og finnst ég varla vöknuð fyrr en hann er kominn á. Hann helst allan daginn og mér þykir þægilegt að þurfa ekki að ydda hann þar sem hann er skrúfaður upp. Uppáhald til margra ára og tips fyrir þær sem eru í leit að góðum augnblýanti.

Vikumatseðill

Það er spáný vika framundan og ekki seinna vænna að fara að plana vikumatseðil og gera vikuinnkaup. Þegar ég plana matarvikuna reyni ég alltaf að finna nýja rétti til að prófa, þó ekki sé nema fyrir eitt eða tvö kvöld í vikunni. Ég elska hversdagsmat og það er svo létt að festast í að elda það sama viku eftir viku. Það er hins vegar svo mikið til af góðum uppskriftum og gama að prófa nýja rétti. Ég vona að vikumatseðillinn gefi ykkur hugmyndir fyrir kvöldverði vikunnar en ef hann gerir það ekki þá eru yfir 70 aðrir matseðlar hér á síðunni. Skrifið vikumatseðill í leitina og þá dúkka þeir upp.

Vikumatseðill

Mánudagur: Mexíkófiskur

Þriðjudagur: Ragú með pasta

Miðvikudagur: Gulróta- og tómatsúpa með kókosmjólk

Fimmtudagur: Kasjúhnetukjúklingur

Föstudagur: Tacobaka

Með helgarkaffinu: Sítrónuformkaka

Fajitas

Ég las um daginn að mörgum þyki janúar laaaangur mánuður og því eru eflaust einhverjir sem gleðjast yfir að hann sé að baki og glænýr mánuður að hefjast. Ekki nóg með það heldur er helgin framundan og því taumlaus gleði!

Planið er að fara út að borða og á Mið-Ísland um helgina og mig langar að gera enn eina tilraunina til að fara í bíó. Ég er alltaf að plana bíóferðir en þær verða aldrei af. Líkurnar eru því ekki með mér en kannski að þetta verði helgin sem ég læt verða af því. Ég vona það! Helgarmaturinn er enn óákveðinn en um síðustu helgi vorum við með svo góðan kvöldverð að ég má til með að setja hann inn ef einhver er að leita að hugmyndum fyrir helgina.

Ég er yfirleitt með kvöldmatinn í fyrra fallinu en þetta kvöld fór allt úr skorðum. Ég var byrjuð á matnum þegar Gunnar minnti mig á að fótboltaleikur sem við ætluðum á færi að byrja. Ég hafði bitið í mig að hann væri seinna um kvöldið. Það var því ekkert annað í stöðunni en að hlaupa frá öllu og halda áfram með eldamennskuna þegar heim var komið…. kl. 21.30! Við sitjum alltaf lengi yfir kvöldmatnum og klukkan var að nálgast 23 þegar allir voru búnir að borða og búið var að ganga frá í eldhúsinu. Maturinn var sérlega góður (allir voru jú svo svangir og þá verður allt extra gott!) og leikurinn fór Blikum í hag, þannig að dagurinn hefði varla getað endað betur.

Ég bar kjúklinginn fram með mangósalsa, guacamole, sýrðum rjóma, salsa, heitri ostasósu, salati, tortillum og svörtu doritos. Það var einfaldlega öllu húrrað á borðið og síðan setti hver og einn matinn saman eftir smekk. Daginn eftir gerði ég mér salat úr afganginum. Svo gott!

Kjúklingafajitas

  • 1 kg kjúklingabringur
  • 1,5 msk oregano
  • 1,5 msk kúmin (ath. ekki kúmen)
  • 1 msk kóriander
  • 1/2 msk túrmerik
  • 3 hvítlauksrif
  • safi úr 1 lime
  • 1/3 dl rapsolía

Skerið kjúklinginn í bita og pressið hvítlauksrifin. Blandið öllu saman og látið marinerast í um klukkustund (ef tími gefst). Dreifið úr kjúklingnum yfir ofnskúffu og setjið í 175° heitan ofn í um 8 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það má líka steikja kjúklinginn á pönnu, þá er kjúklingurinn settur beint á heita pönnuna og hann steiktur upp úr olíunni í marineringunni.

Mangósalsa:

  • 1 ferskt mangó
  • 1 rauð paprika
  • safi úr 1/2 lime
  • ferskt kóriander

Skerið mangó og papriku í bita og blandið öllu saman.

Guacamole:

  • 1 avokadó
  • 1/2 rautt chili (fjarlægið fræin)
  • 1 hvítlauksrif
  • cayanne pipar
  • sítrónusafi

Stappið avokadó, fínhakkið chili og pressið hvítlauksrif. Blandið saman og smakkið til með cayanne pipar og sítrónusafa.