Hakk í pulsubrauði

Ég á fullan frysti af nautahakki og er að reyna að elda úr því. Það er síður en svo flókið verk, enda til heill hafsjór af góðum uppskriftum með nautahakki í. Ég fékk þó í vikunni alveg svakalega löngun í rétt sem mamma eldaði oft í gamla daga handa okkur og mér þykir alltaf jafn góður. Ég ætlaði að vera með hann á laugardagskvöldinu en plönin breyttust og úr varð að ég bauð mömmu í mat og Allir geta dansað áhorf á sunnudagskvöldinu og bauð þá upp á þennan gamla góða rétt.

Þetta er svo súpereinfalt og ég get varla ímyndað mér annað en að öll börn séu hrifin af þessu. Það er auðvitað hægt að setja salat og grænmeti með hakkinu í pulsubrauðið en við erum ekki svo heilsusamleg þegar við erum á annað borð í þessum gír heldur bætum hrásalati og kokteilsósu í brauðið. Síðan höfum við franskar með. Maður verður stundum að leyfa sér!

Hakk í pulsubrauði

  • 500 g nautahakk
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 1/2 bolli chilisósa
  • 1/2 bolli sweet relish
  • 5 pulsubrauð

Nautahakkið og laukurinn er steikt saman og kryddað með pipar og salti. Chilisósu og sweet relish bætt út í og látið blandast saman við hakkið.

Smyrjið pulsubrauðin með smjöri að innan og hitið þau við 200° í ofni þar til heit og stökk að utan. Setjið kjötfyllinguna inn í og berið fram með þeim sósum sem lokka.

Föstudagskvöld

Fyrir nokkrum vikum keypti ég stand fyrir síma og ipad í Ikea. Þessi einfaldi hlutur hefur nánast verið í stöðugri notkun síðan. Það er frábært að hafa hann í eldhúsinu þegar verið er að nota uppskriftir af netinu og eins er hann nánast ómissandi þegar verið er að Facetime-a. Malín og Oliver tóku standinn meira að segja með sér þegar þau fóru til New York um daginn og voru þá búin að hlaða niður bíómyndum á Netflix til að horfa á í fluginu. Ég gerði mér að lokum ferð í Ikea til að kaupa fleiri standa, þannig að núna er til einn á mann hér heima. Og ódýrir eru þeir, 245 kr. Tips, tips!

Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunu

Ég hef verið óvenju dugleg að elda grænmetisrétti upp á síðkastið, stráknum til mikillar mæðu. Þeir eru búnir að fá sig fullsadda af grænmetissælunni. Um daginn ætlaði ég að hafa þennan karrýrétt í kvöldmat en þeir mótmæltu svo harðlega að ég snarskipti um skoðun og hitaði kjötbollur sem ég átti í frystinum. Daginn eftir voru þeir ekki í mat og þá nýtti ég tækifærið og eldaði karrýréttinn. Þar sem uppskriftin er ágætlega stór og við vorum bara tvö í mat, varð góður afgangur af réttinum. Ég skipti því niður á nokkur nestisbox sem fóru í frysti og hafa komið sér vel sem nesti í vinnuna.

Ég bar réttinn fram með nanbrauði og ristuðum kasjúhnetum en þegar ég hef borðað hann í vinnunni hef ég bara tekið súrdeigsbrauðsneið með mér (ég á það oftast niðurskorið í frystinum). Ég kaupi súrdeigsbrauðið í Ikea (það er bæði gott og á góðu verði), sker niður í sneiðar þegar ég kem heim og set beint í frysti. Um helgar þykir mér gott að rista brauðið og setja stappað avokadó, sítrónusafa, maldonsalt og chili explosion yfir. Svo gott!

Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum (breytt uppskrift úr bókinni Nyfiken Grön)

  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla
  • 1/2 msk karrý
  • 2 dl rauðar linsubaunir
  • 2 dósir kókosmjólk (400 ml. hvor)
  • 2 grænmetisteningar
  • 3-5 dl vatn
  • 1 lítill blómkálshaus
  • steinselja eða kóriander (má sleppa)
  • salt og pipar
  • þurrristaðar kasjúhnetur til að setja yfir réttinn (má sleppa)

Afhýðið of hakkið lauk, hvítlauk og sætu kartöfluna. Mýkið í olíu ásamt karrý og linsubaunum í rúmgóðum potti. Hrærið vel í pottinum á meðan svo ekkert brennið við. Hellið kókosmjólk og vatni yfir og bætið grænmetisteningunum saman við. Látið sjóða undir loki í 10 mínútur. Skerið blómkálið í bita og bætið í pottinn. Látið sjóða áfram í um 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Stráið steinselju yfir áður en rétturinn er borinn fram.

 

Síðasti dagurinn í páskafríinu

 

Gleðilega páska! Ég vona að þið séuð búin að eiga gott páskafrí. Veðrið hefur jú leikið við okkur hér á höfuðborgarsvæðinu og undir lokin var ég næstum farin að óska eftir slagveðri svo ég gæti eytt deginum í sófanum án þess að fá samviskubit. Ég get nú ekki sagt að við höfum verið dugleg í útivistinni þrátt fyrir veðurblíðuna en ég dreif mig út og þreif gluggana hér heima og svo gengum við einn daginn hringinn í kringum Hvaleyrarvatn og enduðum ferðina á Brikk.

Við byrjuðum páskafríið á að grilla okkur hamborgara. Mér þykja hamborgarar svo góðir en elda þá sárasjaldan. Þessir voru eins einfaldir og hægt er að hafa þá en góðir engu að síður. Ostur, kál, laukur og margar sósur til að velja á milli. Gott!

Krakkarnir hafa verið að koma með páskaegg heim vikurnar fyrir páska  og síðan fékk ég eitt frá vinnunni. Ég ákvað því að kaupa ekki fleiri páskaegg (í fyrra voru þau svo mörg að við vorum borðandi þau langt fram á vor) heldur gaf krökkunum frekar páskagjafir. Malín fékk bkr brúsa og tilheyrandi klakabox sem ég vissi að hana langaði í (hún drekkur vatn með öllu og er alltaf í ræktinni, þannig að brúsinn nýtist vel) og strákarnir fengu Playstation heyrnatól sem hefðu varla getað vakið meiri lukku. Þeir eru með tvær tölvur hér heima og geta núna talað á milli.

Ég eyddi mörgum stundum í horninu á sófanum yfir páskana, ýmist með prjónana eða bók og kaffibolla. Fyrir páskafríið fyllti ég vel á kaffibyrgðirnar og taldi mig ekki þurfa að fara í Nespressobúðina næstu vikurnar. Þar hafði ég nú heldur betur rangt fyrir mér…

Ég bakaði pizzasnúða á skírdag og flýtti mér að setja helminginn í frysti áður en þeir kláruðust. Ég sé fyrir mér að krakkarnir geti fengið sér þá þegar þau koma heim úr skólanum.  Á myndinni sést kannski að það eru tvenns konar form á snúðunum, þ.e. sumir eru hærri en aðrir. Ég setti helminginn af snúðunum beint á bökunarpappír en hinn helminginn (þeir sem eru hærri) setti ég í bökunarform fyrir möffins (álform sem er fyrir nokkur möffins, ekki pappaform). Snúðarnir uðru háir og fínir við það.

Við fórum í mat til mömmu á föstudeginum langa. Mamma gerði súpu sem hún hefur gert áður og uppskriftin endaði þá hér á blogginu. Svo góð!! Í eftirrétt gerði hún Söru Bernharðs-köku sem hún bar fram með rjóma. Ég var gjörsamlega afvelta eftir þetta.

Ég bauð mömmu og bróður mínum í mat á páskadag í hefðbundið páskalæri. Lærið fór inn í ofn fyrir hádegi í lokuðum ofnpotti við 100° og fékk að dúsa þar yfir daginn. Gæti ekki verið þægilegra. Meðlætið var einfalt, brúnaðar kartöflur, sveppasósa, gular baunir og salat. Eftirréttinn mun ég setja hingað inn fljótlega, hann var æði!

Þessum síðasta frídegi verður eytt í afslöppun. Við hituðum okkur crossant í morgunmat (kaupi þau frosin) og í kvöld verður afgangur síðustu tveggja kvölda í kvöldmat. Nú tekur stutt vinnuvika við, bara fjórir dagar, áður en helgarfrí skellur á. Vorið er alltaf ljúft hvað frídaga varðar. Eftir veislumat síðustu daga langar mig mest til að taka grænmetisviku hér heima en veit að það fengi ekki góðar undirtektir hjá strákunum. Við sjáum hvað setur…

Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos

Mér þykir svo notalegt að eiga heimabakað með helgarkaffinu og myndi helst vilja að það stæði alltaf nýbakað á fallegum kökudiski á eldhúsbekknum yfir helgarnar. Það er auðvitað fjarstæðukenndur draumur, bæði vegna þess að hér er ekki bakað um hverja helgi og líka vegna þess að við klárum oftast það sem bakað er samdægurs. Ef það sem kæmi úr ofninum stæði svo dögum skipti óhreyft á borðinu væri það einfaldlega vegna þess að okkur þætti það ekki gott.

Það eru til óteljandi uppskriftir af góðum súkkulaðikökum og margir halda sér við sína uppáhalds. Ég baka sjálf oftast sömu skúffukökuuppskriftinar (þessa hér eða þessa hér) en stundum bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Það gerði ég núna og með frábærum árangri. Kakan var mjúk, bragðgóð og æðisleg með glasi af ískaldri mjólk eða góðum kaffibolla. Klárlega kaka sem klárast samdægurs!

Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos – uppskrift frá Lindas bakskola

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • ½ dl kakó
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 125 g smjör, brætt
  • 1 dl mjólk

Glassúr

  • 50 g smjör, brætt
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3½ dl flórsykur
  • 1 msk sterkt kaffi (meira eftir þörfum)

Skraut

  • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið kakói, hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið saman við eggjablönduna. Hræri bræddu smjöri og mjólk snögglega saman við deigið. Setjið deigið í smurt formkökuform (ég var með hringlaga). Bakið kökuna neðst í ofninum í um 35-40 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.

Glassúr: Hrærið öllum hráefnunum saman í skál. Þynnið með smá kaffi ef þörf er á. Setjið glassúrinn yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Pasta í parmesanrjómasósu með hráskinku, mozzarella og basiliku

Ég á enn vinnudag eftir þar til páskafríið hefst og ég get varla beðið. Ekki það að mér leiðist vinnan, síður en svo, heldur verður bara svo notalegt að geta vakað frameftir með krökkunum yfir bíómynd og sofið út á morgnanna.

Ég er búin að vera löt að prófa nýjar uppskriftir upp á síðkastið en gerði þó um daginn pastarétt sem okkur þótti mjög góður. Eins og með flesta pastarétti tók stutta stund að gera réttinn og á meðan einhverjir vildi hvítlauksbrauð með þá fannst öðrum það óþarfi. Sjálfri fannst mér rauðvínsglas fara afskaplega vel með matnum.

Pasta í parmesanrjómasósu með hráskinku, mozzarella og basiliku – uppskrift fyrir 4-5

  • ca 300 g pasta (ósoðið)
  • ca 1 dl rjómi
  • ca 2 dl rifinn parmesan
  • salt og pipar
  • ferskur mozzarella, rifinn sundur í smærri bita
  • hráskinka
  • fersk basilika
  • furuhnetur, þurrristaðar

Sjóðið pastaskrúfur í söltu vatni, eftir leiðbeiningum á pakkningu. Takið frá ca 1/2 dl af pastavatninu áður en því er hellt af pastanu. Setjið pastað aftur í pottinn og bætið rjóma og rifnum parmesan saman við. Kryddið með salti og pipar. Setjið mozzarella, hráskinku og ferska basiliku saman við. Stráið ristuðum furuhnetum yfir áður en rétturinn er borinn fram. Berið fram með pipar og auka parmesan osti.

Vikumatseðill

Það styttist í páskana og páskafríið kærkomna. Krakkarnir eru komnir í frí en ég á þrjá vinnudaga eftir áður en fríið brestur á. Ég er búin að panta mér þrjár bækur til að lesa yfir páskana og það eru nú þegar komin 5 páskaegg í hús. Við göngum alltaf of langt í páskaeggjakaupum en það er bara svo erfitt að standast þau, sérstaklega þar sem það eru svo margar tegundir í boði. Þetta verða rólegir páskar sem við ætlum að eyða hér heima, helst í náttfötunum með bók, súkkulaði og fullan ísskáp af góðgæti. Mig langar að útbúa snarl til að eiga yfir frídagana, eins og þetta fræhrökkbrauð með sítrónu- og fetamauki. Síðan langar mig að baka þetta brauð til að geta fengið mér á morgnana og pekanhjúpaða ostakúlu til að hafa yfir sjónvarpinu á kvöldin ásamt kryddaðri pretzel- og hnetublöndu.

Þar sem páskavikan bíður oftar en ekki upp á nóg af sætindum ákvað ég að stinga frekar upp á helgarmat en sætabrauði með helgarkaffinu þessa vikuna.

Vikumatseðill

Mánudagur: Lax með mango chutney

Þriðjudagur: Puy linsurósmarín- og hvítlaukssúpa

Miðvikudagur: Tortillakaka

Fimmtudagur: Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Föstudagur: Grískur ofnréttur 

Laugardagur: Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Sunnudagur: Lambafilé, kramdar kartöflur og dásamleg sósa

Kjúklingakúskús með miðaust­ur­lensk­um inn­blæstri

Ég er á smá spani þessa dagana þar sem þessi vika býður upp á hvert skemmtilega kvöldið á fætur öðru. Fyndið hvernig það vill stundum allt raðast á sömu vikuna. Í gærkvöldi var saumaklúbbur, í kvöld erum við stelpurnar í vinnunni að hittast og á morgun fer ég í boð sem ég er búin að lofa að mæta með smá veitingar í. Ég var að setja köku í ofninn til að taka með mér á morgun (er að prófa nýja uppskrift sem ég vona að verði góð) en langaði svo til að kíkja hingað inn fyrir helgina og benda á einfalda og æðislega góða uppskrift sem ég prófaði um daginn.

Ég átti nú ekkert endilega von á að strákarnir yrðu hrifnir af þessum rétti en þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér. Það tók enga stund að henda þessu saman og okkur þótti öllum rétturinn alveg æðislegur. Uppskriftin kemur frá Rikku og ég tók hana beint af matarvef mbl. Ég notaði döðlur í staðin fyrir rúsínur en hélt mér annars alveg við uppskriftina. Súpergott!!

Kúskús með miðaust­ur­lensk­um inn­blæstri

fyr­ir 4

  • 500 g kúskús, ég nota forkryddað til að spara tím­ann
  • 500 g pers­nesk­ur kjúk­ling­ur frá Holta (ég var með tvo bakka, minnir að það geri 800 g)
  • 2 hvít­lauksrif, pressuð
  • 100 g rús­ín­ur, saxaðar döðlur eða þurrkaðar fíkj­ur (ég var með döðlur)
  • 2 msk. avóka­dóol­ía, til steik­ing­ar
  • salt og pip­ar

Sósa

  • hand­fylli ferskt kórí­and­er, fínsaxað
  • 1 dós sýrður rjómi 10%
  • ¼ tsk. cayenne-pip­ar
  • 1 msk. sítr­ónusafi
  • ½ hvít­lauksrif, pressað
  • þurrristaðar kasjúhnet­ur
  • granatepla­kjarn­ar

Eldið kúskús sam­kvæmt leiðbein­ing­um á pakkn­ingu. Steikið kjúk­ling­inn upp úr ol­í­unni ásamt hvít­lauk og rús­ín­um. Bætið kúskús sam­an við, steikið áfram og kryddið með salti og pip­ar.

Hrærið hrá­efn­inu í sós­unni sam­an, má líka skella öllu sam­an í bland­ara.

Skellið í skál, stráið kasjúhnet­um og granatepla­kjörn­um yfir og berið fram með sós­unni. Ég bar réttinn einnig fram með nanbrauði.

Fölsk moussaka

Moussaka hefur aldrei heillað mig sérstaklega þar sem ég er ekki nógu hrifin af eggaldin, sem er eitt af grunnhráefnunum í hefðbundnu moussaka. Mér þykir það vera svo óspennandi grænmeti að ég kaupi það aldrei. Eflaust bara eitthvað rugl í mér. Hakkréttir eru þó vinsælir á þessu heimili og þegar ég rakst á þessa moussakauppskrift hjá Matplatsen sem er án eggaldins varð ég því spennt að prófa hana.

Rétturinn sló í gegn hér heima og ég var fegin að hafa gert hvítlauksbrauð með því það var borðað svo vel. Ég hafði hugsað mér að bera réttinn fram með salati en gleymdi að kaupa kál. Hvítlauksbrauðið fékk því að duga sem meðlæti og ég held að engin hafi saknað salatsins nema ég.

Fölsk moussaka (uppskrift fyrir ca 5)

Kjötsósa:

  • 500 g nautahakk
  • 400 g hakkaðir tómatar í dós
  • 2 dl vatn
  • 2 nautakraftsteningar
  • 1 msk sojasósa
  • 1 tsk oregano
  • 1/2 msk sykur
  • salt og pipar

Bechamel:

  • 25 g smjör
  • 3/4 dl hveiti
  • 4 dl rjómi
  • 1 dl mjólk
  • 2 dl fínrifinn parmesan
  • salt og pipar

Á milli:

  • 8 kartöflur

Steikið nautahakkið og bætið tómötum, krafti, sojasósu og kryddum saman við. Látið sjóða við vægan hita eins lengi og tími gefst (gjarnan 1-2 klst.).

Bræðið smjörið í bechamelsósuna og hrærið hveiti saman við. Hrærið rjóma og mjólk smátt og smátt saman við smjörbolluna og hrærið allan tímann í þannig að blandan verði mjúk og kekkjalaus. Látið sjóða í 2-3 mínútur og takið svo af hitanum. Hrærið rifnum parmesan út í og látið bráðna. Smakkið til með salti og vel af svörtum pipar.

Afhýðið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar.

Byrjið á að setja smá bechamel í botninn á eldföstu móti og setjið kjötsósu yfir. Leggið eitt lag af kartöflum yfir og haldið svo áfram að setja til skiptis bechamel, kjötsósu og kartöflur í formið. Endið með bechamelsósu efst. Bakið við 175° í um 1 klst. Ef rétturinn er farinn að dekkjast mikið er ágætt að setja álpappír yfir formið. Látið standa í smá stund (til að láta mesta hitann rjúka úr) áður en rétturinn er borinn fram.

Vikumatseðill

Ég hef varla farið á fætur alla helgina heldur höfum við bara haft það svo notalegt hér heima að það hálfa væri nóg. Borðuðum nammi og gerðum eðlu bæði föstudags- og laugardagskvöld og horfðum á tvær myndir sem voru báðar góðar, I Tonya og The Big Sick (báðar á leigunni/vodinu… eða hvað þetta nú heitir). Núna er ég hins vegar klædd og að bíða eftir að strákarnir verða tilbúnir því við þurfum að útrétta í dag. Gunnari vantar enskubók, mig vantar snyrtivörur og síðan þarf að versla inn fyrir vikuna. Í kvöld kemur mamma í mat til okkar og við ætlum að horfa á Allir geta dansað. Það verður góður endir á helginni.

Vikumatseðill

Mánudagur: Bessastaðaýsa

Þriðjudagur: Súpergott tacogratín

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Fimmtudagur: Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Föstudagur: Kjúklingagyros

Með helgarkaffinu: Mjúkir og loftkenndir snúðar