Ostar og annað gott

Á morgun förum við með vinum okkar til New York en ferðina keypti hópurinn eftir að hafa tekið skyndiákvörðun rétt fyrir miðnætti á þorláksmessukvöldi. Síðan þá höfum við haldið undirbúningsfundi sem hafa ekki skilað neinu öðru en tómum diskum, tómum vínflöskum og rækilegri inneign í gleðibankann. En nú er að koma að þessu og við stelpurnar ákváðum að hittast hér heima á föstudagskvöldinu og græja okkur fyrir ferðina. Við lituðum augnhár og augabrúnir, settum á okkur maska, lökkuðum fingur og tær og enduðum kvöldið á að bóka okkur tíma í hárdekur í New York. Það sem ég hlakka til!

Ég bauð upp á osta og plokk (það besta sem ég veit! … og einfaldasti maturinn til að bjóða upp á) og má bara til með að mæla með sælkeraborðinu í Hagkaup í Kringlunni (hafið þið farið í búðina eftir breytingarnar? Hún er svo flott!). Þar er frábært úrval af ostum og þjónustan engu lík. Ég talaði við mömmu þegar ég kom heim og sagði henni frá því hvað ég hefði fengið frábæra þjónustu í sælkeraborðinu og þá hafði hún sömu sögu að segja. Sá sem afgreiddi mig var svo áhugasamur um ostana, leyfði mér að smakka þá og bera þá saman, og var klár í að ráðleggja mér um hvaða ostar færu saman á ostabakkanum. Síðan benti hann mér á að kaupa ost úr kælinum hjá þeim til að bæta við þá sem ég var búin að velja úr borðinu hjá honum. Í sælkeraborðinu fæst líka besti ostur í heimi, svartur Primadonna. Ef þið hafið ekki smakkað hann þá skulið þið gera það prontó! Ég fæ ekki nóg af honum.

Ég er vön að bera osta fram með nýbökuðu snittubrauði (kaupi þau frosin og hita upp heima) en nýjasta æðið eru þó tengdamömmutungurnar. Ég smakkaði þær í fyrsta skipti í einum af undirbúningsfundunum og það var ekki aftur snúið. Mér þykja þær passa fullkomlega með ostum.

Og fyrst ég er komin í gír þá er eins gott að halda áfram að telja upp nýjustu æðin hér heima, en þessi snakkpoki frá Lay´s með þroskuðum cheddar lendir orðið ansi oft í innkaupakerrunni hjá okkur. Svo góður með köldu freyðivíns- eða hvítvínsglasi. Tips fyrir heitu sumarkvöldin sem bíða okkar (maður má alltaf vona!).

Að lokum vil ég gjarnan hafa smá súkkulaði með ostabakkanum, sérstaklega ef ég er ekki með eftirrétt. Hér leyndist dökkt súkkulaði með karamellu og sjávarsalti, lakkrís karameluperlur og Nóa piparkropp. Gott!

Vikumatseðill

Það er skemmtileg vika að baki með veisluhöldum kvöld eftir kvöld. Þetta er búið að vera fjör! Myndirnar eru frá fimmtudagskvöldinu en þá vorum við með það allra nánasta hér í kvöldkaffi þar sem boðið var upp á Oreo-ostaköku og Rice krispiesköku með bananarjóma og karamellu. Síðan keypti ég uppáhalds nammið hennar Malínar og setti í skálar. Einfalt og gott.

Í kvöld hlakka ég til að leggjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á lokaþáttinn af Allir geta dansað. Það sem mér hefur þótt gaman að fylgjast með þessum þáttum og hvað ég dáist að dugnaðinum í dönsurunum! Planið var að grilla eitthvað gott í kvöldmat en það er nú ekki beint grillveður þessa dagana. Eftir veisluhöld síðustu daga langar mig mest til að sækja take-away og gera sem minnst í kvöld. Í næstu viku bíða tveir vinnudagar og svo smá frí. Ég hlakka til!

Vikumatseðill

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Miðvikudagur: Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa

Fimmtudagur: Mozzarellapizza

Föstudagur: Kjúklingasalat með BBQ-dressingu

Með helgarkaffinu: Torta di Pernilla

Himnesk Baileyskaka

Malín mín er tvítug í dag, sem þýðir að ég hef verið mamma í 20 ár! Það er enginn sem fangar afmælisdögum eins og hún. Á mánudaginn fagnaði hún því að afmælisvikan væri runnin upp og daginn eftir, 1. maí,  fagnaði hún því að afmælismánuðurinn væri formlega hafinn. Við erum dugleg að nýta hvert tækifæri til að gera okkur glaðan dag en Malín toppar okkur þó öll í fagnaðarhöldunum…

Malín hefur verið sólargeilsinn mínn síðan ég fékk hana fyrst í fangið og ég hef alltaf verið svo súperstolt af henni. Það er leitun að jafn glaðlyndri manneskju og henni. Hún er drífandi, hjálpsöm, sanngjörn og með hjarta úr gulli. Það hefur aldrei verið hægt að tala hana inn á nokkurn skapaðan hlut (ekki einu sinni að prófa tívolítæki eða drekka gosdrykk) og ég hef aldrei þurft að hafa neinar áhyggjur af henni. Hún hefur alltaf verið svo svakalega varkár og ég gleymi því ekki þegar hún var á leikskóla og við gáfum henni nýtt hjól með engum hjálpardekkjum. Hún var svo hneyksluð á þessu kæruleysi og sagði að henni þætti passlegt að taka hjálpardekkin af þegar hún yrði 7 ára. Þar með var það ákveðið.

Hér verður að sjálfsögðu fagnað í kvöld og áfram út vikuna. Bleikt kampavín liggur í kæli og uppáhalds kökur hafa verið bakaðar. Líf og fjör! Ég ætla að enda færsluna á köku sem er með þeim bestu sem ég hef smakkað en uppskriftina fann ég á danskri síðu, Anne au chocolat.  Kakan er best ef hún er bökuð deginum áður en hún er borin fram. Ef þið hafið pláss í ísskápnum þá er gott að geyma hana þar en takið kökuna þó út í tíma svo hún hafi náð stofuhita þegar hún er borin fram. Síðan er hún dásamleg með léttþeyttum rjóma en hann var því miður búinn þegar ég tók myndirnar.

Súkkulaðikaka með Baileys ganache (fyrir 8-10)

  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g smjör
  • 250 g sykur
  • 5 egg, hrærð léttilega saman
  • 1 msk hveiti

Bræðið smjörið í potti og bætið svo hökkuðu súkkulaði í pottinn. Hrærið í pottinum þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Takið pottinn af hitanum og hrærið sykri í blönduna. Bætið eggjunum smátt og smátt út í og að lokum er hveitinu hrært saman við. Setjið deigið í ca 22 cm kökuform, sem hefur verið klætt með bökunarpappír, og bakið á blæstri i um 25 mínútur við 180°. Passið að baka kökuna ekki of lengi, hún á að vera blaut í sér.

Baileys ganache:
250 g rjómasúkkulaði
1 dl rjómi
1 dl Baileys
smá salt
10 g smjör

Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Setjið rjóma, Baileys og salt í pott og hitið að suðu. Hellið blöndunni strax yfir súkkulaðið og látið standa í 1 mínútur. Hrærið svo saman þar til blandan er slétt. Hrærið smjöri saman við. Það getur verið gott að nota töfrasprota til að fá mjúka áferð en það er ekki nauðsynlegt. Kælið blönduna, hún þykknar við það. Smyrjið yfir kökuna og skreytið að vild.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti

Þegar líða fer að helginni berst talið oft að helgarmatnum og hugmyndir fara að fljúga á milli í vinahópnum. Í slíkum pælingum um daginn minntist vinkona mín úr vinnunni á rétt sem maðurinn hennar gerir sem henni þykir svo góður. Ég varð auðvitað ekki róleg fyrr en hún var búin að fá hann til að senda sér uppskriftina. Hann átti eflaust ekki von á að hún myndi enda hér (ég fékk samt leyfi til að birta hana – takk Kalli!) en ég get ekki annað, bæði svo fleiri geta notið og svo ég geti fundið hana aftur.

Þessi kjúklingaréttur er í einu orði sagt æðislegur. Krakkarnir höfðu öll orð á því hvað hann væri svakalega góður og meira að segja Gunnar, sem borðar helst ekki kjúkling, sagðist furða sig á því hvað þetta væri æðislega gott því hann borði nánast ekkert af því sem er í réttinum.

Við vorum 5 í mat og það varð smá afgangur eftir sem Jakob borðaði í morgunmat daginn eftir. Ég bar réttinn fram með brauði, annars hefði hann eflaust klárast upp til agna.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti (uppskrift fyrir 5)

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 dósir sataysósa (mér þykir langbest frá Thai Choice)
  • 1 rauðlaukur
  • 1 dós fetaostur
  • 150-200 g spínat
  • 3 dl kús kús
  • 3 dl vatn

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í smjöri. Hellið sataysósunni yfir og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur.

Hitið vatn að suðu (mér þykir gott að setja 1 kjúklingatening í vatnið), hrærið kús kús út í, setjið lok á pottinn og takið af hitanum. Látið standa í 5 mínútur.

Setjið kús kús, niðurskorinn rauðlauk, fetaost og spínat út í kjúklinginn og berið fram.

Vikumatseðill

Þessi helgi hefur verið svo ljúf að það hálfa væri nóg. Gærdeginum var eytt með vinkonum í góða veðrinu og í dag hef ég eytt deginum afslöppun hér heima. Kjötsósa, sem á að fara í lasagna, hefur mallað á hellunni síðan fyrir hádegi og mamma er að koma í mat og Allir geta dansað áhorf, eins og hefð er orðin fyrir. Ég ætla að bjóða upp á heimabakað brauð, sem er að hefast þessa stundina, lasagna og salat. Í eftirrétt verður ís og rjómi. Ég elska sunnudagskvöld!

Vikumatseðill

Mánudagur: Tælenskur lax með núðlum

Þriðjudagur: Pastasósa með linsubaunum og gulrótum

Miðvikudagur: Kjúklingasalat með sweet chili og wasabihnetum

Fimmtudagur: Pulsupasta sem rífur í 

Föstudagur: Mexíkóskt kjúklingalasagna

Með helgarkaffinu: Gamaldags vínarbrauð með sultu og glassúr

Mjúk kanilsnúðakaka

Ég byrjaði á þessari færslu í byrjun apríl en af einhverjum ástæðum gleymdist hún hálfkláruð og það var ekki fyrr en í gærkvöldi, þegar Malín fór að segja mér að vinur hennar óskaði sér þessa köku í afmælisgjöf, að ég rankaði við mér. Ég sem er alltaf með lista yfir allt og þykist plana vikurnar svo vel að það á ekkert að geta út af brugðið…

Það er þó óhætt að segja að biðin var þess virði því kakan er æðisleg og núna langar mig mest til að baka hana aftur til að eiga með kaffinu. Ég veit að krakkarnir yrðu alsæl og sjálfri þykir mér svo óendanlega notalegt að eiga eitthvað gott með helgarkaffinu.

Mjúk kanilsnúðakaka

  • 150 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 1½ msk kanill
  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 ½ dl mjólk

Glassúr

  • 75 g smjör
  • 1 msk rjómi
  • 2-3 tsk kanill
  • 3 ½ dl flórsykur

Yfir kökuna:

  • kókosmjöl

Kakan: Bræðið smjör og látið kólna aðeins (það er gott að setja mjólkina saman við brædda smjörið, þá kólnar það). Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið hveiti, kanil og lyftidufti saman og hrærið ásamt smjörinu og mjólkinni saman við eggjablönduna í slétt deig. Setjið deigið í skúffukökuform í stærðinni 20 x 30 cm, sem hefur verið klætt með smjörpappír. Bakið við 175° í um 20-30 mínútur. Látið kökuna kólna áður en glassúrinn er sett á hana.

Glassúr: Bræðið smjörið og hrærið rjóma, kanil og flórsykur saman við það, þar til glassúrinn er sléttur. Hellið glassúrnum yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Gino

Einn af mínum uppáhalds veitingastöðum er Pa&Co í Stokkhólmi. Staðurinn er lítill, heimilislegur og alltaf þéttsetinn, handskrifaði matseðillinn sem hangir á veggnum er breytilegur og það virðist allt sem kemur úr eldhúsinu þeirra vera ólýsanlega gott. Ég hef tvisvar verið komin með matreiðslubókina sem þeir gáfu út í hendurnar en í bæði skiptin hætt við að kaupa hana, því mér þykja uppskriftirnar í henni ekki í takt við staðin (á staðnum er meiri heimilismatur en er í bókinni) og því hún er svo stór og plássfrek að ferðast með. Einhvern daginn fær hún kannski að fylgja með heim og reyna að standa undir vætningum. Nú veit ég ekki hvort sagan sé sönn en ég las einhvers staðar að einfaldi eftirrétturinn Gino komi upphaflega frá Pa&Co og það kæmi mér ekki á óvart ef satt reynist. Ótrólega einfaldur og brjálæðislega góður!

Gino (uppskrift fyrir 4-5)

  • 2 bananar
  • 4 kíví
  • 500 g jarðaber
  • 150 g hvítt súkkulaði

Meðlæti:

  • vanilluís eða rjómi

Hitið ofninn í 220°. Afhýðið banana og kíví og skerið í sneiðar. Skerið jarðaberin í sneiðar. Leggið ávextina í eldfast mót. Rífið súkkulaðið og stráið yfir. Gratínerið í ofninum í 4-5 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur fengið stökka húð.

Berið strax fram með vanilluís eða rjóma.

Vikumatseðill

Sunnudagskvöldin hér heima hafa verið heilög undanfarnar vikur þar sem við höfum komið okkur upp svo skemmtilegri hefð. Ég elda eitthvað gott, mamma kemur í mat og svo horfum við saman á Allir geta dansað. Svo gaman! Í kvöld ætlum við að grilla kjúklingabringur, gera þessar kartöflur, kalda sósu og gott salat. Svo verðum við líka með pizzu með skinku, rjómaosti, döðlum og fl. Síðan fáum við okkur alltaf eitthvað sætt yfir sjónvarpinu. Fullkominn endir á helginni!

Vikumatseðill

Mánudagur: Mexíkófiskur

Þriðjudagur: Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með chili og mozzarellafylltar brauðbollur

Fimmtudagur: Baka með sætum kartöflum, spínati, fetaosti og kasjúhnetum

Föstudagur: Chilihakkpizza

Með helgarkaffinu: Snickersbitar

Grænmetisbaka með piparosti

Ég er að reyna að fjölga kjötlausu dögunum hér heima, bæði vegna þess að mér þykja grænmetisréttir vera svo léttir og góðir í maga en líka vegna þess að það er til svo mikið af spennandi grænmetisuppskriftum sem mér þykir gaman að prófa. Þetta framtak mitt fellur síður en svo í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum en ég mun ekki gefa mig. Ég bara neita að trúa að það sé ekki hægt að verða saddur af grænmetisréttum eins og hörðustu mótmælendur reyna að halda fram.

Ég má samt til með að taka það fram að meirihlutinn við matarborðið dásamaði matinn og það varð sneið eftir sem ég tók með mér í nesti í dag. Ég bar bökuna fram með einföldu salati sem samanstóð af spínati, rauðlauki, kokteiltómötum, fetaosti og ristuðum kasjúhnetum. Síðan setti ég smá balsamikgljáa yfir. Súpergott!

Ég keypti tilbúið bökudeig úr heilhveiti sem var mjög þægilegt en ég linka hér fyrir neðan á uppskriftina sem ég er vön að nota þegar ég geri deigið sjálf.

Grænmetisbaka með piparosti (uppskrift fyrir 4-5)

  • bökubotn (hér er uppskrift en einnig er hægt að kaupa tilbúið deig)
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • 1/2 púrrulaukur
  • 1 lítill spergilkálshaus
  • krydd, t.d. ítalskt salatskrydd
  • 5 kokteiltómatar
  • 3 egg
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 box rifinn piparostur (100 g)
  • paprikukrydd
  • salt
  • pipar
  • rifinn ostur

Hitið ofn í 175°. Setjið bökudeigið í bökuform (eða smelluform), stingið aðeins yfir botninn með gaffli og forbakið í 10 mínútur.

Skerið paprikur, púrrulauk og spergilkál smátt og steikið á pönnu þar til hefur fengið fallegan lit og farið að mýkjast. Kryddið eftir smekk (ég notaði ítalskt salatskrydd). Setjið grænmetið yfir forbakaða bökuskelina. Skerið tómatana í tvennt og setjið yfir grænmetið.

Hrærið saman egg og rjóma. Bætið piparostinum saman við og kryddið með paprikukryddi, salti og pipar. Hellið blöndunni yfir grænmetið og setjið vel af rifnum osti yfir. Bakið við 175° í 35 mínútur.

Crunshwrap

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir á fimmtudögum sem gætu hentað að elda yfir helgina. Á virkum dögum elda ég yfirleitt mat sem tekur stuttan tíma að gera og er kannski meiri hversdagsmatur. Um helgar vil ég hafa meiri stemningu í þessu og reyni að finna rétti sem hitta í mark hjá krökkunum. Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og um síðustu helgi prófaði ég að gera crunchwrap í fyrsta sinn. Svo gott!

Ég reyndi að mynda hvernig tortillan er brotin saman en veit ekki hvort það hafi tekist nógu vel. Þetta segir sig kannski bara sjálft?

Crunchwrap – uppskrift fyrir 5-6

  • 4 kjúklingabringur (um 1 kg), skornar í strimla
  • 1 msk olía
  • safi af 1 lime
  • 1 bréf fajita krydd

Blandið saman og látið marinerast í 1 klst.

  • 1 laukur, sneiddur
  • 1 rauð paprika, sneidd
  • 1 græn paprika, sneidd
  • 1 tsk salt
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 dl bjór (pilsner gengur líka)
  • 10 tortillur
  • rifinn ostur

Grænmetið er steikt á pönnu, saltað og pressuðum hvítlauki bætt við, og steikt aðeins áfram. Kjúklingnum er bætt á pönnuna og steiktur þar til nánast fulleldaður.  Hellið bjór yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Rifinn ostur er settur á miðja tortillu, svo kjúklingablandan sett yfir, brotið saman og sett á ofnplötu með sárið niður. Rifinn ostur settur yfir og bakað við 180° í 15-20 mínútur.