Vikumatseðill

Þessi helgi hefur verið svo ljúf að það hálfa væri nóg. Gærdeginum var eytt með vinkonum í góða veðrinu og í dag hef ég eytt deginum afslöppun hér heima. Kjötsósa, sem á að fara í lasagna, hefur mallað á hellunni síðan fyrir hádegi og mamma er að koma í mat og Allir geta dansað áhorf, eins og hefð er orðin fyrir. Ég ætla að bjóða upp á heimabakað brauð, sem er að hefast þessa stundina, lasagna og salat. Í eftirrétt verður ís og rjómi. Ég elska sunnudagskvöld!

Vikumatseðill

Mánudagur: Tælenskur lax með núðlum

Þriðjudagur: Pastasósa með linsubaunum og gulrótum

Miðvikudagur: Kjúklingasalat með sweet chili og wasabihnetum

Fimmtudagur: Pulsupasta sem rífur í 

Föstudagur: Mexíkóskt kjúklingalasagna

Með helgarkaffinu: Gamaldags vínarbrauð með sultu og glassúr

Vikumatseðill

Sunnudagskvöldin hér heima hafa verið heilög undanfarnar vikur þar sem við höfum komið okkur upp svo skemmtilegri hefð. Ég elda eitthvað gott, mamma kemur í mat og svo horfum við saman á Allir geta dansað. Svo gaman! Í kvöld ætlum við að grilla kjúklingabringur, gera þessar kartöflur, kalda sósu og gott salat. Svo verðum við líka með pizzu með skinku, rjómaosti, döðlum og fl. Síðan fáum við okkur alltaf eitthvað sætt yfir sjónvarpinu. Fullkominn endir á helginni!

Vikumatseðill

Mánudagur: Mexíkófiskur

Þriðjudagur: Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með chili og mozzarellafylltar brauðbollur

Fimmtudagur: Baka með sætum kartöflum, spínati, fetaosti og kasjúhnetum

Föstudagur: Chilihakkpizza

Með helgarkaffinu: Snickersbitar

Vikumatseðill

Það styttist í páskana og páskafríið kærkomna. Krakkarnir eru komnir í frí en ég á þrjá vinnudaga eftir áður en fríið brestur á. Ég er búin að panta mér þrjár bækur til að lesa yfir páskana og það eru nú þegar komin 5 páskaegg í hús. Við göngum alltaf of langt í páskaeggjakaupum en það er bara svo erfitt að standast þau, sérstaklega þar sem það eru svo margar tegundir í boði. Þetta verða rólegir páskar sem við ætlum að eyða hér heima, helst í náttfötunum með bók, súkkulaði og fullan ísskáp af góðgæti. Mig langar að útbúa snarl til að eiga yfir frídagana, eins og þetta fræhrökkbrauð með sítrónu- og fetamauki. Síðan langar mig að baka þetta brauð til að geta fengið mér á morgnana og pekanhjúpaða ostakúlu til að hafa yfir sjónvarpinu á kvöldin ásamt kryddaðri pretzel- og hnetublöndu.

Þar sem páskavikan bíður oftar en ekki upp á nóg af sætindum ákvað ég að stinga frekar upp á helgarmat en sætabrauði með helgarkaffinu þessa vikuna.

Vikumatseðill

Mánudagur: Lax með mango chutney

Þriðjudagur: Puy linsurósmarín- og hvítlaukssúpa

Miðvikudagur: Tortillakaka

Fimmtudagur: Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Föstudagur: Grískur ofnréttur 

Laugardagur: Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Sunnudagur: Lambafilé, kramdar kartöflur og dásamleg sósa

Vikumatseðill

Ég hef varla farið á fætur alla helgina heldur höfum við bara haft það svo notalegt hér heima að það hálfa væri nóg. Borðuðum nammi og gerðum eðlu bæði föstudags- og laugardagskvöld og horfðum á tvær myndir sem voru báðar góðar, I Tonya og The Big Sick (báðar á leigunni/vodinu… eða hvað þetta nú heitir). Núna er ég hins vegar klædd og að bíða eftir að strákarnir verða tilbúnir því við þurfum að útrétta í dag. Gunnari vantar enskubók, mig vantar snyrtivörur og síðan þarf að versla inn fyrir vikuna. Í kvöld kemur mamma í mat til okkar og við ætlum að horfa á Allir geta dansað. Það verður góður endir á helginni.

Vikumatseðill

Mánudagur: Bessastaðaýsa

Þriðjudagur: Súpergott tacogratín

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Fimmtudagur: Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Föstudagur: Kjúklingagyros

Með helgarkaffinu: Mjúkir og loftkenndir snúðar

Vikumatseðill

Þvílík veðurblíða sem við höfum fengið hér á höfuðborgarsvæðinu yfir helgina. Svo fullkominn endir á góðri viku. Ég náði að fara fjórum sinnum í ræktina í vikunni (örugglega persónulegt met!), fara fjórum sinnum út að borða (lúxus!) og eiga rólegar stundir hér heima þess á milli (besta sem eg veit!). Í dag ætla ég að elda fullan pott af kjötsúpu til að eiga eftir ræktina á morgun og jafnvel að fara í góðan göngutúr á meðan súpan stendur á hellunni. Síðan er þvottakarfan víst full, þannig að ég þarf að gera eitthvað því. Það er alltaf eitthvað. Vikuinnkaupin voru gerð í gær en fyrir þá sem eru að plana matarvikuna þá kemur hér tillaga að vikumatseðli.

Vikumatseðill

Mánudagur: Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Þriðjudagur: Baka með sætum kartöflum, spínati, kasjúhnetum og fetaosti

Miðvikudagur:  Kjúklinga pad thai

Fimmtudagur: Quesadillas með nautahakksfyllingu

Föstudagur: Himneskar humarvefjur

Með helgarkaffinu: Bananakaka með súkkulaðibitum

Vikumatseðill

Konudagsblómin hafa staðið falleg alla vikuna og standa enn. Ég vil helst alltaf hafa afskorin blóm hér heima en það gengur ekki alveg upp. Ég kaupi þó oft vendi fyrir helgarnar og verð alltaf jafn glöð þegar þeir standa svona lengi og ná jafnvel tveimur helgum, eins og núna. En úr einu í annað, hér kemur tillaga að matseðli fyrir vikuna!

Vikumatseðill

Mánudagur: Fiskur í sweet chili

Þriðjudagur: BBQ-kjöthleifur

Miðvikudagur: Kjúklingasúpan hennar mömmu

Fimmtudagur: Satay-kjúklinganúðlur

Föstudagur: Tacopizzubaka

Með helgarkaffinu: Franskar brauðrúllur

Vikumatseðill

Krakkarnir eru í vetrarfríi næstu dagana og munu því hafa það notalegt hér heima á meðan ég verð í vinnunni. Þau eru enn sofandi en ég sit hér með kaffibollann minn og skipulegg vikuna. Það er skemmtileg vika framundan með vinkonuhittingi, bíóferð og deitkvöldi með Jakobi. Ég ákvað um áramótin að fá eitt kvöld í mánuði með hverju barni og núna er komið að Jakobi. Hann veit fátt betra en svínarif og við ætlum að prófa rifjakvöld á Mathúsi Garðabæjar. Ég hlakka til! Í síðustu viku var mikið útstáelsi á mér og bloggfærslurnar urðu færri fyrir vikið. Það mun ekki endurtaka sig í þessari viku. Nú verð ég betur skipulögð!

Vikumatseðill

Mánudagur: Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp

Þriðjudagur: Nautahakkschilli með cheddarskonsum

Miðvikudagur: Salamibaka með fetaosti

Fimmtudagur: Tælenskur kjúklingur með kókos

Föstudagur: Chilihakkpizza

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðibaka

Vikumatseðill

Eftir mestu letihelgi í langan tíma er tímabært að plana komandi viku. Sjálf mun ég borða saltkjöt og baunir á þriðjudaginn en þar sem ég bý ekki svo vel að eiga uppskrift af þeim veislumat þá er hann ekki með á vikumatseðlinum. Ég hef satt að segja aldrei eldað saltkjöt og baunir því mamma sér alltaf um það. Hún gerir heimsins besta saltkjöt og baunir og ég borða svakalega illa yfir mig í hvert einasta skipti. Ég þakka fyrir að sprengidagurinn er bara einu sinni á ári því hann endar alltaf með ósköpum.

Vikumatseðill

Mánudagur: Brasilískur fiskréttur

Þriðjudagur: Tacos með rauðum linsubaunum

Miðvikudagur: Asískar kjötbollur

Fimmtudagur: Pasta með kjúklingi, sólþurrkuðum tómötum og basiliku

Föstudagur: BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauki og hvítmygluosti

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

Vikumatseðill

Það er spáný vika framundan og ekki seinna vænna að fara að plana vikumatseðil og gera vikuinnkaup. Þegar ég plana matarvikuna reyni ég alltaf að finna nýja rétti til að prófa, þó ekki sé nema fyrir eitt eða tvö kvöld í vikunni. Ég elska hversdagsmat og það er svo létt að festast í að elda það sama viku eftir viku. Það er hins vegar svo mikið til af góðum uppskriftum og gama að prófa nýja rétti. Ég vona að vikumatseðillinn gefi ykkur hugmyndir fyrir kvöldverði vikunnar en ef hann gerir það ekki þá eru yfir 70 aðrir matseðlar hér á síðunni. Skrifið vikumatseðill í leitina og þá dúkka þeir upp.

Vikumatseðill

Mánudagur: Mexíkófiskur

Þriðjudagur: Ragú með pasta

Miðvikudagur: Gulróta- og tómatsúpa með kókosmjólk

Fimmtudagur: Kasjúhnetukjúklingur

Föstudagur: Tacobaka

Með helgarkaffinu: Sítrónuformkaka

Vikumatseðill

Ég ætlaði að vera fyrr á ferðinni með vikumatseðilinn en dagurinn hefur hlupið frá mér í alls konar stúss, þegar mig langaði mest af öllu bara að dóla heima á náttsloppnum eftir útikvöld í gær. Við vorum boðin í fordrykk til vinahjóna í gærkvöldi og þaðan héldum við svo á Kopar og enduðum á Slippbarnum. Svo brjálæðislega gaman! Dagurinn í dag hefur hins vegar verið aðeins seigari og ég hlakka mikið til að skríða snemma upp í rúm í kvöld. En nóg um það, hér kemur tillaga að vikumatseðli!

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Miðvikudagur: Ofnbökuð ostapylsa

Fimmtudagur: Caesarbaka

Föstudagur: Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk og gúrku og hvítlaukschilisósu

Með helgarkaffinu: Nutellaformkaka